hux

Orkuöflun lokið vegna Helguvíkur: D og S ósammála í OR

Þá er endanlega búið að tryggja væntanlegu álveri í Helguvík þá orku sem þarf til að reka 1. áfanga þess. Á síðasta stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur undir stjórn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, var orkusölusamningur vegna Helguvíkur samþykktur. Áður hafði Hitaveita Suðurnesja gengið frá samningi fyrir sitt leyti þannig að orkuöflun er nú að fullu lokið.

Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, studdi að sjálfsögðu samninginn líkt og aðrir fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans en Dagur B. Eggertsson greiddi atkvæði á móti og Svandís gekk af fundi til að mótmæla leynd um verðið. Spurning hvort Dagur hafi ráðfært sig við iðnaðarráðherra síns flokks í ríkisstjórninnin nú eða umhverfisráðherrann. Hvað sem því líður og hvað sem loðin og teygjanleg ákvæði ríkisstjórnarsáttmálans um stóriðjumál eiga að þýða sýnir afgreiðsla málsins í stjórn Orkuveitunnar að Sjálfstæðisflokkurinn fylgir einfaldri stefnu í stóriðjumálum:  Árangur áfram - ekkert stopp!

Ég vil hins vegar taka undir afstöðu Svandísar og andmæla leynd á orkuverði, það er fáránlegt og almenningi er bara ekki ætlandi að taka afstöðu til þessara mála á grundvelli getsagna um orkuverðið. Því hlýtur maður að beina því til iðnaðarráðherra að hann mæli þegar í stað fyrir um að leynd verði aflétt af orkusölusamningum sem íslenska ríkið á aðild að. Það sama gerði Þorsteinn Pálsson reyndar nýlega í ansi mögnuðum leiðara en ráðherrann hefur ekki svarað enn.


Stjórnarandstaðan ósammála um þingsköp

Ný stjórnarandstaða á Alþingi náði ekki saman um afstöðu til fyrsta málsins sem kom til meðferðar í þingnefnd eftir kosningar. Við meðferð allsherjarnefndar á frumvarpi til laga um breytingu á þingsköpum Alþingis "klofnaði" stjórnarandstaðan og skilaði tveimur nendarálitum.

Að áliti 1. minnihluta standa Atli Gíslason, fyrir hönd VG, og Siv Friðleifsdóttir, fyrir hönd Framsóknarflokksins. Þau vilja að málinu hafi verið vísað frá enda hafi stjórnarmeirihlutinn rofið áratuga hefð sem sé fyrir því að leita þverpólitískrar samstöðu um breytingar á þingsköpum. Siv og Kolbrún Halldórsdóttir gagnrýndu það svo á þingfundi í dag að stjórnarmeirihlutinn hefði aðeins gefið allsherjarnefnd eina klukkustund á kvöldfundi til að fjalla um málið.

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, skilar hins vegar sérstöku minnihlutaáliti  og vill samþykkja frumvarpið enda sé nauðsynlegt að kjósa í þingnefndir sem fyrst. Vegna áforma um að sameina landbúnaðar- og sjárvarútvegsnefnd í eina en tvístra efnahags- og viðskiptanefnd í tvær er nefndarkjöri alþingis enn ekki lokið og segir Jón í áliti sínu að hvað sem líður gagnrýnisverðum vinnubrögðum stjórnarmeirihlutans í málinu séu þau staðreynd og mestu skipti að kosið verði í nefndirnar og að þær taki til starfa sem fyrst.


Hvar er byggðamálaráðherra?

Það er mikið rætt um vanda sjávarbyggðanna og þá staðreynd að allt stefnir í að næsta ár verði þorskafli við landið minni en verið hefur frá árinu 1937. Um þetta eru fluttar fréttir, haldnar ræður, bloggaðar færslur, skrifuð komment, sagðar sögur og hvaðeina. Ég fæ ekki betur séð en nánast hver einasti maður sé búinn að láta í ljós skoðun sína og viðhorf til málsins. Nema einn. Össur Skarphéðinsson, ráðherra byggðamála, er þögull sem gröfin. Er hann þó maður sem sjaldnast fer oft með veggjum. Vonandi er þögn Össurar aðeins til marks um að hann sé nú önnum kafinn við að leita lausnar á vandanum og muni kynna þá lausn í tímamótaræðu, sem lengi verður í minnum höfð, loksins þegar hann tekur til máls.

Ekki eru allar ferðir til fjár

Mér sýnist að hann verði tæplega til fjár þessi leiðangur sem lögmaður 365 er lagður upp í til þess að halda Agli Helgasyni nauðugum viljugum við störf á Stöð 2. Líklega hefur þetta átt að vera einhver PR-aðgerð af hálfu fyrirtækisins en samúð fólks með Agli virðist bara aukast eftir að þessi æfing hófst. Þetta virðist svona álíka misheppnaður leiðangur og dæmalausar tilraunir Kaupáss til þess að koma í veg fyrir sölu á Ísafold fyrir helgi. Af hverju marka ég það? Því sem ég hef lesið á bloggi núna í hádeginu.

Hér er t.d. formaður Blaðamannafélags Íslands að tjá sig um málið. Arna Schram segir: Hvers vegna í ósköpunum sér fyrirtækið sér hag í því að reyna að halda fólki í vinnu sem ekki vill vinna þar lengur? Það græðir enginn á því, allra síst sjálft fyrirtækið. [...] Og vel á minnst: Var ekki hið illræmda vistarband afnumið fyrir langa, langa löngu? [...] Annars er ég að lesa bókina Fólk í fjötrum, baráttusögu íslenskrar alþýðu. Áhugaverð lesning. Kannski Ari og aðrir forkólfar atvinnulífsins ættu að kíkja í hana.

Anna Ólafsdóttir segir á sínu bloggi: Samúðin er og verður öll Egils megin í þessu máli. Ég á bágt með að trúa að það finnist nokkur áhorfandi að þættinum sem þykir það boðleg framganga hjá fyrirtæki að þvinga starfsmann í vinnu hjá sér. Ef þetta er gert til að koma í veg fyrir að Egill geti unnið hjá öðrum miðli þá er það ekki betra því að slík hernaðarplön eru bara til þess fallin að fá áskrifendur upp á móti sér. Ég held að 365 muni skjóta sig illilega í fótinn ef haldið verður áfram með málið á sömu nótum og gert hefur verið undanfarna daga.

Björn Ingi segir: Þjóðin heldur með Agli í þessu máli. Fólk kann ekki við vistarbönd, til þess eru of margar ljótar sögur til úr fortíðinni. Þess vegna er vandséð hvaða hlutverki lögbann á vinsælan sjónvarpsmann á að þjóna.

Eiríkur Bergmann segir: Allir vita hins vegar að það er Egill sjálfur sem á þennan þátt, með húð og hári. Hann verður að fá að ráða því sjálfur hvar best er fyrir hann að hafa þáttinn. Vistarbönd virka illa í nútíma samfélagi, líka í sjónvarpi.

Loks Pétur Tyrfingsson: Ef Egill getur sagt upp samningnum með þriggja mánaða fyrirvara verða í mesta lagi fjórir þættir sendir út í haust. Varla getur brambolt forráðamanna 365 miðað að því að bjarga fjórum sunnudögum í september og október! [...] Segjum sem svo að hægt verði með júridískum bolabrögðum að þvinga Egil til að sitja einu sinni í viku í myndveri 365 næstu tvo veturna. Eru forráðamenn fyrirtækisins svo illa áttaðir að þeir ímynda sér að maður í nauðungarvinnu geti skilað áhugaverðum sjónvarpsþætti? Tæplega. [...] Hver svo sem tilgangur þess er að atast í Agli Helgasyni má það vera hverjum vitibornum manni ljóst að ósvinna þessi gerir ekki annað en skemma ímynd 365. [...] Stjórnendum Stöðvar 2 er hollast að draga allar hótanir sínar til baka, biðja forláts og bera fyrir sig misskilning. För þeirra verður hvort sem er aldrei til neinnar sæmdar og líklega til háborinnar skammar.

Uppfært kl. 13.44. Orðið á Götunni er með sams konar samantekt frá í gærkvöldi þar sem fleiri tjá sig, m.a. áskrifendur sem hóta að segja upp áskrift haldi 365 áfram með málið. 


Þegar stórt er spurt...

Hvað á þessi ágæti hópur sameiginlegt?

Þór Jónsson, Brynja Þorgeirsdóttir, Ingólfur Bjarni Sigfússon, Helgi Seljan,  Svavar Halldórsson,  Þorsteinn J. Vilhjálmsson, Þóra Arnórsdóttir, Sveinn Guðmarsson, Hjördís Rut Sigurjónsdóttir. Egill Helgason,  Þórhallur Gunnarsson, Jóhanna Vilhjálmsdóttir og Jóhann Hlíðar Harðarson.

Jú, þau hafa öll hætt að vinna á fréttastofu Stöðvar 2 á undanförnum misserum, flest síðastliðið hálfa árið eða svo.  Er það virkilega svo að það þarf að beita fógetavaldi til að fá menn til að mæta í vinnuna á Stöð 2 núorðið? Hvers vegna skyldi það vera?


Spurning dagsins

Egill Helgason gerir athugasemd við bréf lögfræðings 365 og spyr: Þykir einhverjum fýslilegt að láta fólk vinna fyrir sig með fógetavaldi?

Djúpavík

Í leiðara Fréttablaðsins á laugardaginn var ástandinu á Flateyri líkt við Haganesvík og Djúpuvík á Ströndum. Þar sagði Hafliði Helgason: "Það var efalítið eftirsjá að byggðinni í Haganesvík og örlög Djúpuvíkur á Ströndum hafa eflaust valdið margri hugarvíl. Staðreyndin varð ekki umflúin."

Nú hefur margfróður lesandi sent þessari bloggsíðu bréf þar sem hann hrekur allan samanburð á sjávarplássum við Djúpuvík og segir:

Þetta er ljóta bullið! Alliance reisti síldarverksmiðjuna á Djúpuvík og annað sem þar reis, á 4. áratug síðustu aldar. Þessu plássi var aldrei ætlað að vera. Það var reist sem "Klondike" síldveiðanna, bráðabirgðastöð, sem síðan skyldi afskrifuð þegar síldin gæfi sig ekki lengur. Þar var aldrei föst búseta, nema kannski örfárra húsvarða. Þar átti heldur aldrei að vera föst búseta. Þessar áætlanir gengu eftir, þegar síldin fór, þá var einfaldlega starfseminni hætt, enginn þurfti að flytja heimili sitt eða missa húseign sína af þeim sökum. Þetta var einfaldlega tjald til einnar nætur, vinnubúðir. Ekki heppilegur samanburður í nútímavíli yfir kvótabraski.

Uppfærsla kl. 11.58: Annar lesandi þekkir til sögu Haganesvíkur og sendir þetta bréf:

Datt í hug í sambandi við það sem einhver sendi þér um tilvísanir ágæts forystugreinarhöfundar á Fbl. sem tiltók Haganesvík sem fyrrverandi síldarstað. Ekki tel ég mig neina alfræðibók í síldarstöðum, en mér vitanlega hefur Haganesvík aldrei verið síldarþorp, enda mjög vafasamt að segja að þar hafi yfirleitt nokkurntíma verið þorp, þótt þar hafi um tíma verið rekin verslun og sláturhús. Með þessu er ég ekki að kasta neinni rýrð á innihald greinarinnar, sem vitnað er til. Margt af því sem höfundurinn segir það er ágætis innlegg í umræðuna.
Uppfært 5.6. kl. 10.23. Vek athygli á því að í kommentum við þessa færslu koma fram upplýsingar sem benda til að deila megi um sannleiksgildi þess sem sagt er í bréfunum hér að ofan.

Bömmer dagsins á Mbl: Rétt frétt - rangur ræðumaður

Það er greinilegt hvað mbl.is telur stærstu frétt sjómannadagsins, það sem fram kemur í þessari ræðu. Ég er sammála því en hins vegar er Mogginn óheppinn að reyna að eigna Einari K Guðfinnssyni þessi orð. Þetta er því miður alls ekki ræðan hans Einars, heldur ræða Björns Inga Hrafnssonar, sem birtir þessa sömu ræðu í heild á heimasíðunni sinni og segist hafa flutt hana á sjómannadegi í Reykjavík í dag.

Ég skil vel að Mogginn vildi að þetta hefði komið úr munni sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins en þar hljóp óskhyggjan með þá í gönur enda er það Sjálfstæðsiflokkurinn sem hefur farið með sjávarútvegsmál í 16 ár og ber alla mesta ábyrgð á að þróa kerfið þannig að framsal aflahlutdeildar er nú hömlulaust og allar byggðaáherslur hafa verið sniðnar af kvótakerfinu. 

Ótrúlegur bömmer hjá Mogganum en samt er ég sammála þeim um að þetta er mál sem á heima efst á fréttavefnum þeirra, spurning hvort þeir láta hana halda þeirri stöðu þegar þeir uppgötva að það var ekki Einar K. heldur Björn Ingi sem flutti ræðuna. 

uppfært kl. 16.56. Nú er fréttin sem varð tilefni þessarar færslu horfin og með slóðin sem vísar á hana en ég tók snapshot af henni á skjánum og hér er það, smellið tvisvar til að lesa:mblsjomenna

uppfært kl. 17.06. Nú er  Mogginn búinn að birta frétti úr ræðunni sem ráðherrann flutti raunverulega, hann segir að við stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum en annars er þetta hálfgert húmmílíhúmm en þó, hann boðar að það þurfi að efna til víðtæks samráðs, það samráð getur aðeins falist í róttækri endurskoðun. Það er engin ástæða til að draga í efa góðan hug Einars, sem er í nánum tengslum við vestfirskar sjávarbyggðir og þekkir málin úr miklu návígi, en það er hvergi við jafnramman reip að draga um breytingar á kerfinu og innan Sjálfstæðisflokksins þar sem LÍÚ lobbíið er gríðarsterkt.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabært uppgjör

Það er engin leið að horfa upp á það lengur að framsals aflahlutdeildar leiði til þess að fótum sé kippt í einu vetfangi undan sjávarbyggðum. Leiðari Fréttablaðsins í gær talar um þróunina sem óhjákvæmilega hagræðingu en það gengur ekki upp. Það að einstaklingar eigi útgönguleið með milljarða í vasanum meðan fólkið sem er sameigendur í auðlindinni stendur eftir slyppt og snautt er óréttlæti sem vekur réttláta reiði. Það mun aldrei nást sátt um fiskveiðistjórnunina við þessar aðstæður.

Í ræðu á sjómannadeginum í Reykjavík gerði Björn Ingi þetta að umtalsefni og sagði:  

Nú þegar blasir við að verulegur samdráttur verði í aflaheimildum við þorskveiðar á næsta fiskveiðiári virðist mér tímabært að stjórnvöld velti upp þeim möguleika, að þegar aðstæður leyfa að hámarksafli verði aukinn á ný, muni þeirri viðbót sem þá kemur til úthlutunar ekki verða sjálfvirkt skipt upp milli eigenda aflahlutdeildar heldur verði einnig skoðað að beita henni með markvissum hætti til að efla og styrkja með svæðisbundinni fiskveiðistjórnun stöðu þeirra byggða sem eiga allt sitt undir fiskveiðum og sjávarútvegi. [...] Fleiri hugmyndir mætti skoða í þessu samhengi. Vafalaust mætti ná góðum árangri með því að auka byggðakvóta og breyta reglum um hann þannig að byggðirnar geti jafnvel sjálfar stofnað eignarhaldsfélög, aflað sér kvóta og nýtt til úthlutunar í sinni heimabyggð. Aðalatriðið er að nú staldri menn við, velti upp þeirri stöðu sem upp er komin og ræði mögulegar breytingar með opinskáum og fordómalausum hætti. [...] Ég spyr mig þannig hvort ekki sé rétt að taka þá pólitísku ákvörðun að íslenskt samfélag vilji fyrst og fremst nýta þá sameign sína, sem eru fiskistofnarnir í sjónum, til þess að skjóta styrkari stoðum undir þær byggðir í landinu sem standa höllum fæti og hafa ekki að öðru að hverfa. Að við tökum þá pólitísku ákvörðun að fiskveiðiauðlindin sé undirstaða og forsenda nýrrar byggðastefnu?

Það eru tímamót að þessi rödd heyrist svo djúpt innan úr Framsóknarflokknum Kvótakerfið náði ákveðnum markmiði á sínum tíma en það var sniðið að þörfum annars samfélags, framsal aflahlutdeildar, þ.e. varanlega kvótans, er hið raunverulega mein, og á því þarf að taka. Líka taka upp staðbundnar áherslur í fiskveiðistjórnun, enda er þorskstofninn ekki einn heldur margir, það þarf að virða það og hvetja líka til þess með svæðisbundnum ívilnunum að afla sé landað í jaðarbyggðum. Gott hjá Birni Inga að hreyfa þessu máli, þessa umræðu þarf að taka, það er ekki hægt að horfa upp á það sem er að gerast á Flateyri og í Vestmannaeyjum án þess að draga nauðsynlegan lærdóm af.


Eyjólfur verður ekki hressari en þetta

Eyjólfur, landsliðsþjálfari virðist hinn hressasti með að hafa gert 1:1 jafntefli á heimavelli við Lichtenstein. Var í viðtali í beinni útsendingu hjá RÚV rétt í þessu og bara þokkalega sáttur, heyrðist mér, ánægður með nýju strákana og svona. Fyrir leikinn var Eyjólfur búinn að halda væntingum niðri með tali um að Lichtenstein væru rosalega sterkir núna. Ég trúi varla eigin eyrum, þegar ég hlustaði á Eyjólf Sverrisson eftir þennan lélega leik. Þetta verður varla  slappara. Verst er að Lichtenstein verðskuldaði jafnteflið fyllilega. 

Bróðir formanns fjárlaganefndar felldur í stjórnarkjöri hjá SÁÁ

Á aðalfundi SÁÁ í vikunni var kosin aðalstjórn eins og lög gera ráð fyrir. 48 manns skipa stjórnina og er þriðjungur kosinn á hverju ári. Þetta árið bar það til tíðinda að ekki var sjálfkjörið. Eftir að tillaga formanns um sextán einstaklinga í stjórnina hafði verið borin upp kvaddi sér hljóðs Hörður Svavarsson, sem starfar við rannsóknir hjá SÁÁ, og gaf kost á sér í stjórnina.

Þetta var óvænt uppákoma. Venjan er að fundarmenn klappi þegar tillaga formanns hefur verið lesin upp. Er löng hefð fyrir því. Nú þurfti hins vegar að kjósa. Það var gert og varð niðurstaðan sú að umbuna Herði ekki fyrir framhleypnina og fékk hann fæst atkvæði.

Daginn eftir að fundi lauk kom svo nýkjörið alþingi saman til fyrsta fundar og var kosið í fastanefndir  þess, eins og lög gera ráð fyrir. Þar var Gunnar Svavarsson kjörinn formaður fjárlaganefndar. Þeir eru bræður, Gunnar og nefndur Hörður Svavarsson. Ekki hefði það nú verið verra fyrir SÁÁ, sem jafnan þarf að ganga með betlistaf fyrir fjárveitingarvaldið,  að hafa bróður fjárlaganefndarformannsins í stjórn hjá sér. En það fór svona.


Uppselt

Ég fór í Vídeóhöllina í Lágmúla í kvöld, tók spólu, keypti tímaritið Ísafold og fékk síðasta eintakið í búðinni. "Þetta er í fyrsta skipti sem ég man eftir að þetta tímarit hafi selst upp," sagði afgreiðslustúlkan, "það vilja allir lesa um Goldfinger og bæjarstjórann." Einmitt, sagði ég og hafði engu við að bæta, hún hitti naglann á höfuðið.


Samningur Egils rann út í dag og nýr var ekki gerður

Það er ekki auðvelt að sjá hvernig Ari Edwald ætlar sér að halda Agli Helgasyni. Samningurinn sem Egill Helgason, gerði fyrir tveimur árum við 365 um Silfur Egils, rann út í dag, 1. júní.Enginn samningur hefur verið gerður í staðinn og þess vegna virðist blasa við að hann sé laus allra mála. Það er ekki flóknara en það. 

En á Vísi er Ari Edwald að halda því fram að Egill sé samningsbundinn til tveggja ára í viðbót. Ég hef upplýsingar um að þeir hafi að vísu átt í viðræðum fyrir nokkrum vikum, Egill og Ari, án þess að samningur hafi verið gerður. Sá samningur sem í gildi var fékk að renna út án þess að nýr væri gerður og í honum eru að því er ég heyri engar klásúlur sem takmarka atvinnufrelsi Egils að loknum samningstímanum. Einfalt mál, hefði maður haldið. Eða hverju getur krafa vinnuveitenda byggst þegar tímabundinn samningur rennur sitt skeið á enda án þess að nýr samningur sé gerður í staðinn? þegar stórt er spurt...


Egill hættur á Stöð 2 - Silfrið verður á RÚV í vetur

Egill Helgason er hættur á Stöð 2, frá því var endanlega gengið í dag. Hann flyst yfir til RÚV, þaðan  verður Silfur Egils sent út næsta vetur, auk þess sem Egill mun hafa umsjón með þætti um bækur í vetrardagskrá RÚV.

Nú er að hefjast þriðja kjörtímabilið frá því að Egill fór að stjórna Silfrinu. Fyrsta kjörtímabilið var hann á Skjá einum, það næsta á Stöð 2 og nú er framundan þriðja kjörtímabilið á þriðju sjónvarpsstöðinni. Ég samgleðst Agli með það að vera kominn yfir til RÚV, sem ég er viss um að býr þættinum umgjörð við hæfi, en á því þótti mér stundum misbrestur á Stöð 2 og spáði því í febrúar að hann mundi ekki una sér lengur hjá 365.


Árni á Grænlandi

Við kosningu í nefndir Alþingis í gær var Árni Johnsen kjörinn til setu í Íslandsdeild Vestnorrænaráðsins. Árni hefur áður átt þar sæti, var formaður þess þar til hann sagði af sér þingmennsku árið 2001. Einn ákæruliðurinn í refsimálinu, sem höfðað var gegn Árna, snerist einmitt um formennsku hans í byggingarnefnd Vestnorræna ráðsins, Brattahlíðarnefnd.

Honum var gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína er hann greiddi af bankareikningi ráðsins Torf- og grjóthleðslunni ehf. á Hellu, reikning  að fjárhæð 645.000 krónur vegna hleðslu í Brattahlíð og tækjaleigu, þótt félagið, sem verið hafði undirverktaki Ístaks hf. við framkvæmd verks á Grænlandi árið 2000 og fengið fullnaðargreiðslu frá Ístaki hf. og hafi að mati ákæruvaldsins ekki átt lögvarða kröfu á hendur Brattahlíðarnefnd. 

Þetta var hins vegar einn þeirra ákæruliða þar sem Árni var sýknaður af með dómi Hæstaréttar þegar hann var dæmdur í 2ja ára fangelsi fyrir önnur brot í opinberu starfi. Í dómi Hæstaréttar segir um þetta atriði: "Ákærði var formaður þessarar byggingarnefndar. Hann innti umrædda greiðslu af hendi úr sjóðum Vestnorræna ráðsins nær ári eftir að verkefninu í Brattahlíð lauk í júlí 2000 án nokkurs samráðs við forsætisnefnd ráðsins eða Íslandsdeild þess. Þetta gerði hann þó sem formaður Brattahlíðarnefndar og er ósannað að hann hafi ekki haft til þess umboð. Því verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða af sakargiftum í þessum tölulið staðfest."

Og nú er Árni kominn aftur til starfa í Vestnorrænaráðinu, kosinn þangað af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.
 


Fleygjárn á lofti

"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna réttkjörna ríkisstjórn á heimastjórnarsvæði Palestínu og taka upp við hana eðlileg samskipti. Jafnframt beiti hún sér á alþjóðavettvangi fyrir því að önnur ríki geri slíkt hið sama." Þannig hljóðar þingsályktunartillaga sem Vinstri græn hafa lagt fram í upphafi sumarþings. Athyglisvert verður að fylgjast með viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við málinu. Hér er á ferð fyrsta almennilega tilraun stjórnarandstöðunnar til að reka fleyg í raðir nýju ríkisstjórnarinnar.

Það er röskur mánuður síðan samskipti Íslands við þjóðstjórnina í Palestínu komu til umræðu. Valgerður Sverrisdóttir, þá utanríkisráðherra, lýsti áhuga á að viðurkenna þjóðstjórnina en gaf til kynna að ágreiningur væri við Sjálfstæðisflokkinn sem væri því andvígur. Fjölmiðlum gekk erfiðlega að ná í Geir H. Haarde vegna málsins en þegar til hans náðist sagðist hann vilja fara varlega í málið. Og á landsfundi sínum um miðjan apríl samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn ályktun þess efnis að hafnað væri  "hvers kyns stuðningi við ríkisstjórnir sem hryðjuverkahópar eiga aðild að, eða sem fjármagna hryðjuverkasamtök" Var sú ályktun óskiljanleg öðru vísi en sem innlegg í umræðuna um viðurkenningu á þjóðstjórn Palestínumanna.

Ekki þarf að velkjast í vafa um hug Samfylkingarinnar og nýs utanríkisráðherra til málsins. Fyrir mánuði röskum lýsti Ingibjörg Sólrún því yfir að  full ástæðu væri til að viðurkenna þjóðstjórnina. Í þá átt hafa stofnanir Samfylkingarinnar líka ályktað árum saman. Ákvæði stjórnarsáttmálans um málefnið rímar betur við sögulegar ályktanir sjálfstæðismanna en Samfylkingar. Þar segir: "Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak og vill leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi."

En nú er ný ríkisstjórn mynduð og fyrir þinginu liggur, góðu heilli, þessi tillaga frá VG. Ekki er vafi á að stjórnarandstaðan vill einhuga styðja þá tillögu og væntanlega líka Samfylkingin og nú er það hennar að tala Sjálfstæðisflokkinn til í málinu. Fara nú í hönd athyglisverðar umræður.


Þrjú dagblöð - þrír ritstjórar - einn flokkur

Eftir að Ólafur Þ. Stephensen er orðinn ritstjóri Blaðsins er staðan á íslenskum blaðamarkaði sú að ritstjórar þriggja útbreiddustu dagblaða á Íslandi hafa allir gegnt trúnaðarstörfum fyrir  Sjálfstæðisflokkinn. 

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, er sem kunnugt er fyrrverandi formaður flokksins og sá eini þremenninganna sem verið hefur í opinberri forystusveit flokksins Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Moggans, og Ólafur hafa lengi verið meðal áhrifamanna í flokknum, einkum þó í ungliðasveitinni. Ólafur var formaður Heimdallar um tveggja ára skeið í kringum 1990, en Styrmir, sem bjó til hugtakið innvígður og innmúraður, var heimdallarformaður á sjöunda áratugnum. Ólafur hefur verið meðal mestu áhugamanna innan Sjálfstæðisflokksins um nánara samband Íslands og ESB og er mikill sérfræðingur um Evrópumál.

Þrátt fyrir hinn flokkslega bakgrunn er hins vegar engum blöðum um það að fletta að Ólafur Þ. Stephensen er fagmaður fram í fingurgóma í blaðamennsku, var innan við tvítugt þegar hann fór að vinna á Mogganum með skóla og varð samstarfsmönnum hans hafi snemma orðið ljóst að þar fór mikill afburðamaður sem líklegur var til að gera stóra hluti hvar sem hann haslaði sér völl. Það verður spennandi að fylgjast með þróun Blaðsins undir hans stjórn og í tilkynningu Árvakurs kemur fram að markið er sett hátt, Ólafi er ætlað að gera Blaðið að útbreiddasta blaði landsins og skjóta Fréttablaðinu ref fyrir rass.

Jón Kaldal, meðritstjóri Þorsteins á Fréttablaðinu, og Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri DV, eru nú einu ritstjórar íslenskra dagblaða sem ekki hafa komist til metorða hjá Flokknum. Sigurjón hefur líklega aldrei komist nær Sjálfstæðisflokknum en það að vinna í sama húsi og Jón heitinn Sólnes á Akureyri fyrir mörgum árum, ef ég man söguna rétt.


Gunnar fær fjárlaganefnd, Ágúst Ólafur viðskiptanefnd

Gunnar Svavarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Kraganum, verður formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Fjárlaganefndarformennska er allmikið starf, formaður nefndarinnar hefur einn þingmanna sérstaka skrifstofu á nefndasviði þingsins og sinnir varla nokkru öðru starfi en fjárlagagerðinni allt haustþingið. Það er talið að Einar Oddur Kristjánsson verði áfram varaformaður fjárlaganefndar en hann hefur látið svo að sér kveða í því hlutverki á síðasta kjörtímabili að bæði fjölmiðlar og ýmsir aðrir hafa umgengist hann sem væri hann formaður nefndarinnar. Haldi Einar Oddur áfram varaformennskunni verður að fyrsta áskorun Gunnars Svavarssonar sem alþingismanns að koma hinum óstýriláta Flateyrarjarli í skilning um það hver er foringinn í fjárlaganefnd.

uppfærsla kl. 19.16. Einar Oddur verður ekki varaformaður fjárlaganefndar heldur Kristján Þór Júlíusson. 


Ritstjóraskipti á Blaðinu

Trausti Hafliðason er að hætta sem ritstjóri á Blaðinu, Ólafur Þ. Stephensen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, tekur við starfinu. Hann verður fimmti ritstjórinn í tveggja ára sögu Blaðsins.

Fréttir af þessu bárust út í gær en  Trausti sagði starfsfólki Blaðsins fyrst af því í morgun hvað til stendur.  Það er Árvakur, útgefandi Moggans og Blaðsins, sem knýr á um breytingarnar. Trausti tók við ritstjórn Blaðsins og yfirgaf starf fréttastjóra á Fréttablaðinu um áramót þegar Sigurjón M. Egilsson yfirgaf ritstjórastólinn til að taka við DV.

Ólafur Þ. Stephensen hefur starfað í uppundir 20 ár hjá Mogganum og hefur verið aðstoðarritstjóri frá því í upphafi ársins 2001. Það verður athyglisvert að fylgjast með þróun Blaðsins undir hans stjórn en væntanlega verður ritstjóraferill Ólafs þar nokkurs konar prófsteinn á hvort hann verður maðurinn sem Árvakur lítur á sem arftaka Styrmis Gunnarssonar á ritstjórastóli Moggans. Talið er að Styrmir hætti á Mogganum á næsta ári.

Ekki er ljóst hvaða Trausti Hafliðason tekur sér fyrir hendur en honum stendur m.a. til boða annað starf á vegum Árvakurs. 

Eins og fyrr sagði verður Ólafur Þ. Stephensen fimmti ritsstjóri Blaðsins. Fyrstur var Karl Garðarsson, þá Ásgeir Sverrisson, síðan Sigurjón M. Egilsson og þá Trausti Hafliðason. 


Ráðuneyti textíliðnaðarins

Iðnaðarráðuneytið hefur verið aðskilið frá viðskiptaráðuneytinu og tveir ráðherrar í nýrri ríkisstjórn sinna verkefnum sem einn sinnti áður. Nýr iðnaðarráðherra hefur ráðið til sín öflugan aðstoðarmann, Einar Karl Haraldsson, margreyndan ref úr stjórnmálabaráttunni, líklega eina manninn sem kemst með tærnar þar sem ráðherrann sjálfur hefur hælana í þeim merku fræðum að að stýra og móta pólitíska umræðu. 

Undanfarin ár hafa helstu verkefni iðnaðarráðuneytisins verið á sviði þungaiðnaðar, starfsemin hverfðist lengi um tilraunir ráðuneytisins til þess að fá erlend stórfyrirtæki til að reisa hér álver og undirbúa virkjanaframkvæmdir tengdar þeim rekstri. Þetta þekkja allir, málefni iðnaðrráðuneytisins hafa verið hin stórpólitísku deilumál í íslensku samfélagi undanfarin ár. Nú er ný ríkisstjórn tekin við og þótt orðalag stjórnarsáttmálans sé loðið og teygjanlegt um það hvaða fyrirætlanir ríkisstjórnin hefur á sviði virkjana og stóriðju er svo að heyra á ráðherrum Samfylkingarinnar að lítið verði að gera á því sviði hjá iðnaðarráðherra. Þess vegna er vert að velta því fyrir sér hver verði helstu verkefni þessa ráðuneytis á næstu árum, sem Össur Skarphéðinsson stýrir því með fulltingi Einars Karls Haraldssonar.

Og þá staldrar maður við það að víst eru fleiri iðngreinar stundaðar í landinu en álvinnsla og orkuvinnsla. Það er til dæmis textíliðnaður, það er að segja sú grein sem spinnur band og vefur vef í klæði. Því meir sem ég hugsa um þetta því frekar hallast ég að því að nokkurs konar textíliðnaður verði í hávegum hafður í iðnaðarráðuneytinu næstu árin, þar verði spunarokkarnir þandir frá morgni til kvölds. Í iðnaðarráðuneytinu verður rekið spunaverkstæði Samfylkingarinnar undir stjórn spunameistara sem eru svo snjallir að þeir eiga fáa sína líka. Það er helst að maður geti lesið um aðra eins spunasnillinga í ævintýri H.C. Andersen um Nýju fötin keisarans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband