hux

Bömmer dagsins á Mbl: Rétt frétt - rangur ræðumaður

Það er greinilegt hvað mbl.is telur stærstu frétt sjómannadagsins, það sem fram kemur í þessari ræðu. Ég er sammála því en hins vegar er Mogginn óheppinn að reyna að eigna Einari K Guðfinnssyni þessi orð. Þetta er því miður alls ekki ræðan hans Einars, heldur ræða Björns Inga Hrafnssonar, sem birtir þessa sömu ræðu í heild á heimasíðunni sinni og segist hafa flutt hana á sjómannadegi í Reykjavík í dag.

Ég skil vel að Mogginn vildi að þetta hefði komið úr munni sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins en þar hljóp óskhyggjan með þá í gönur enda er það Sjálfstæðsiflokkurinn sem hefur farið með sjávarútvegsmál í 16 ár og ber alla mesta ábyrgð á að þróa kerfið þannig að framsal aflahlutdeildar er nú hömlulaust og allar byggðaáherslur hafa verið sniðnar af kvótakerfinu. 

Ótrúlegur bömmer hjá Mogganum en samt er ég sammála þeim um að þetta er mál sem á heima efst á fréttavefnum þeirra, spurning hvort þeir láta hana halda þeirri stöðu þegar þeir uppgötva að það var ekki Einar K. heldur Björn Ingi sem flutti ræðuna. 

uppfært kl. 16.56. Nú er fréttin sem varð tilefni þessarar færslu horfin og með slóðin sem vísar á hana en ég tók snapshot af henni á skjánum og hér er það, smellið tvisvar til að lesa:mblsjomenna

uppfært kl. 17.06. Nú er  Mogginn búinn að birta frétti úr ræðunni sem ráðherrann flutti raunverulega, hann segir að við stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum en annars er þetta hálfgert húmmílíhúmm en þó, hann boðar að það þurfi að efna til víðtæks samráðs, það samráð getur aðeins falist í róttækri endurskoðun. Það er engin ástæða til að draga í efa góðan hug Einars, sem er í nánum tengslum við vestfirskar sjávarbyggðir og þekkir málin úr miklu návígi, en það er hvergi við jafnramman reip að draga um breytingar á kerfinu og innan Sjálfstæðisflokksins þar sem LÍÚ lobbíið er gríðarsterkt.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Pétur mér finnst þú stundum gleyma að það var þinn mentor Halldór Ásgrímsson sem á mestan heiður af kvótakerfinu. Framsóknarflokkurinn er búinn að vera í ríkisstjórn mest allan þann tíma sem kerfið hefur verið við líði. Þið Framsóknarmenn getið nú ekki talað eins og málið komi ykkur ekki við.

Ingólfur H Þorleifsson, 3.6.2007 kl. 17:14

2 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Alveg rétt Ingólfur, Halldór var sjávarútvegsráðherra þegar kerfið var sett á og framsókn hefur verið í ríkisstjórn mestallan tímann, og það er þannig. En sú staðreynd kemur ekki í veg fyrir að framsóknarmenn geti rætt sjávarútvegsmál eða hvað? Ég mun aldrei hvika frá því að kvótakerfið hefur skilað góðum og nauðsynlegum árangri á mörgum sviðum og kom hér í veg fyrir hrun. En hins vegar hefur þetta samfélag breyst svo gríðarlega og þeir atburðir sem eru að gerast á Flateyri og í Vestmannaeyjum hljóta að kalla á umræður og aðgerðir. En um leið og við göngumst við því að framsókn á stóran hlut af ábyrgðinni á kerfinu, með þeim kostum og göllum sem þeirri ábyrgð fylgir, skulum við viðurkenna að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í sjávarútvegsráðuneytinu í 16 ár og að afdrifaríkar ákvarðanir um framkvæmdina á framsali aflahlutdeildar voru líka teknar frá 1991-1995 þegar kratar sátu í stjórn, með fulltingi Jóhönnu og Össurar.

Pétur Gunnarsson, 3.6.2007 kl. 17:29

3 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Og Ingólfur, einmitt vegna ábyrgðar Sjálfstæðisflokks og framsóknar á kerfinu umfram aðra flokka, Ingólfur, er mikilvægast af öllu að þessir flokkar hafi forgöngu um að leiða umræður um breytingar frekar en að neita að horfast í augu við staðreyndir, þeir menn sem komu á þessu kerfi geta alveg borið höfuðið hátt að mínu mati, það var aldrei gallalaust frekar en önnur mannanna verk, en það þjónaði ákveðnum tilgangi sem neyðaraðgerð við aðstæður þegar stefndi í hrun. Vitlausast af öllu væri að halda því fram að þetta kerfi sé eða hafi átt að vera einhver eilífðarvél, óumbreytanlegt um allan tíma, þvert á móti fiskimiðin eru sameign þjóðarinnar og hún getur ákveðið þær breytingar á auðlindastjórnuninni sem hún telur nauðsynlegar þegar það þjónar hagsmunum þjóðarinnar. 

Pétur Gunnarsson, 3.6.2007 kl. 17:33

4 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Sammála þér.

Ingólfur H Þorleifsson, 3.6.2007 kl. 17:45

5 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Framsóknarmenn stukku alltaf í mikla vörn fyrir þetta kerfi á þingi á síðasta kjörtímabili - með sjálfstæðismönnum auðvitað. Ég man vel eftir Halldóri, Valgerði, Birki, Hjálmari Árnasyni og fleirum í þeim efnum.

Það er fyrst nú þegar þeir eru komnir í stjórnarandstöðu og þjóðinni orðið endanlega ljóst að kvótakerfið er gersamlega á felgunum bæði siðferðislega, félagslega, líffræðilega og efnahagslega að annað hljóð kemur í strokkinn.

Ætla svo sem ekki að gráta það. Vona bara að þeir meini eitthvað með þessu, en minni nú á að það var allavega til staðar að ég best veit gríðarsterk lobbí innan Framsóknar sem stóð vörð um kvótakerfið, útfærslur á því og frekari þróun til hins verra fyrir byggðir þessa lands. Þingmenn flokksins stóðu sem klettur í því að vinna óhæfuverk og greiða því atkvæði sín að setja kvóta á krókaaflamarksbáta og afnema dagakerfið hjá trillunum sem var hreint og klárt voðaverk gegn sjávarbyggðunum.

Aldrei nokkurn tímann tóku þeir undir varnaðarorð okkar í Frjálslynda flokknum né sýndu áhuga í þá átt, hvorki á oipnberum vettvangi eins og þingsal eða á nefndafundum, eða í spjalli manna á milli.

Vera má að eitthvað hafi kvarnast úr sveit kvótakerfissina innan Framsóknar og vægi hennar sé minna innan flokksins en áður.

Pétur veit eflaust meir um það.  

Magnús Þór Hafsteinsson, 3.6.2007 kl. 18:17

6 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Sæll Magnús, það er rétt hjá þér að framsókn ber mikla ábyrgð á fiskveiðistjórnunarkerfinu og stóð m.a. kvótasetningu smábáta snemma á síðasta kjörtímabili en eins og ég sá í pistli hjá þér er það samt sjálfstæðisflokkurinn sem ber höfuðábyrgð á málinu undanfarin 16 ár. Ég tel líka að þeir sem komu þessu kerfi á til þess að takast á við neyðarástand fyrir meira en aldarfjórðungi geti borið höfuðið hátt, en þær aðstæður sem réttlættu það á sínum tíma eru ekki lengur til staðar, kerfið hefur þjónað tilgangi sínum og gallar þess eru meiri en svo að menn geti búið við marga þeirra lengur. Ég er viss um að það er mikill hljomgrunnur fyrir því innan framsóknar að taka kerfið upp og reyna að byggja á því nýja og raunhæfa byggðastefnu. Það sem Björn er að segja og ég tek undir er hins vegar ekki stefna flokksins, eins og ég veit að þú gerir þér grein fyrir, en ég geri mér vonir um að það geti orðið það.

Pétur Gunnarsson, 3.6.2007 kl. 20:40

7 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Styð hvert orð hjá þér Pétur í þessu, bæði pistli og athugasemdum.

Ragnar Bjarnason, 3.6.2007 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband