hux

Tímabært uppgjör

Það er engin leið að horfa upp á það lengur að framsals aflahlutdeildar leiði til þess að fótum sé kippt í einu vetfangi undan sjávarbyggðum. Leiðari Fréttablaðsins í gær talar um þróunina sem óhjákvæmilega hagræðingu en það gengur ekki upp. Það að einstaklingar eigi útgönguleið með milljarða í vasanum meðan fólkið sem er sameigendur í auðlindinni stendur eftir slyppt og snautt er óréttlæti sem vekur réttláta reiði. Það mun aldrei nást sátt um fiskveiðistjórnunina við þessar aðstæður.

Í ræðu á sjómannadeginum í Reykjavík gerði Björn Ingi þetta að umtalsefni og sagði:  

Nú þegar blasir við að verulegur samdráttur verði í aflaheimildum við þorskveiðar á næsta fiskveiðiári virðist mér tímabært að stjórnvöld velti upp þeim möguleika, að þegar aðstæður leyfa að hámarksafli verði aukinn á ný, muni þeirri viðbót sem þá kemur til úthlutunar ekki verða sjálfvirkt skipt upp milli eigenda aflahlutdeildar heldur verði einnig skoðað að beita henni með markvissum hætti til að efla og styrkja með svæðisbundinni fiskveiðistjórnun stöðu þeirra byggða sem eiga allt sitt undir fiskveiðum og sjávarútvegi. [...] Fleiri hugmyndir mætti skoða í þessu samhengi. Vafalaust mætti ná góðum árangri með því að auka byggðakvóta og breyta reglum um hann þannig að byggðirnar geti jafnvel sjálfar stofnað eignarhaldsfélög, aflað sér kvóta og nýtt til úthlutunar í sinni heimabyggð. Aðalatriðið er að nú staldri menn við, velti upp þeirri stöðu sem upp er komin og ræði mögulegar breytingar með opinskáum og fordómalausum hætti. [...] Ég spyr mig þannig hvort ekki sé rétt að taka þá pólitísku ákvörðun að íslenskt samfélag vilji fyrst og fremst nýta þá sameign sína, sem eru fiskistofnarnir í sjónum, til þess að skjóta styrkari stoðum undir þær byggðir í landinu sem standa höllum fæti og hafa ekki að öðru að hverfa. Að við tökum þá pólitísku ákvörðun að fiskveiðiauðlindin sé undirstaða og forsenda nýrrar byggðastefnu?

Það eru tímamót að þessi rödd heyrist svo djúpt innan úr Framsóknarflokknum Kvótakerfið náði ákveðnum markmiði á sínum tíma en það var sniðið að þörfum annars samfélags, framsal aflahlutdeildar, þ.e. varanlega kvótans, er hið raunverulega mein, og á því þarf að taka. Líka taka upp staðbundnar áherslur í fiskveiðistjórnun, enda er þorskstofninn ekki einn heldur margir, það þarf að virða það og hvetja líka til þess með svæðisbundnum ívilnunum að afla sé landað í jaðarbyggðum. Gott hjá Birni Inga að hreyfa þessu máli, þessa umræðu þarf að taka, það er ekki hægt að horfa upp á það sem er að gerast á Flateyri og í Vestmannaeyjum án þess að draga nauðsynlegan lærdóm af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er nú skemmtilegt að heyra til framsóknar í ríkisstjórnarandstöðu - að heyra til hennar héðan úr byggðarlagi sem rænt var kvóta og lífsbjörg skv. lögum settum af Framsóknarflokknum.   Ég vona að Björn Ingi hafi fengið af þessu brjóstsviða því ekki hefur hann fengið samviskubit.

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 3.6.2007 kl. 16:46

2 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Það er líklega erfitt að standa í málefnalegum umræðum um þetta við þig, Björgvin, heldurðu að Össur og J'ohanna séu með brjóstsviða eða samviskubit vegna aðgerða viðeyjarstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum, þau bera amk persónulega ábyrgð á því með atkvæði sínu, hvaða ábyrgð ber Björn Ingi á þessu máli? Berð þú sem félagi í samfylkingunni t.d. ábyrgð á aðför Össurar að veiðistjóra, eða fjármálaráðherraferli Ragnars Arnalds, svo eitthvað sé nefnt? 

Pétur Gunnarsson, 3.6.2007 kl. 17:39

3 identicon

Allir sem einhverntíma hafa greitt atkvæði með þessu kerfi, hvort sem var við upphaf þess eða á seinni tíma breytingum, bera á því ábyrgð.  Framsóknarflokkurinn hafði tólf ár til að taka í taumana en ég man að þegar Samherji fór með kvótann úr mínu þorpi, sagði  Valgerður þv. byggðamálaráðherra að þetta væri leitt en lítið hægt að gera.   Þess vegna er það helvíti biturt ofan í kokið á okkur þegar Framsóknarflokkurinn er allt í einu orðinn fylgjandi róttækum breytingum á kerfinu.   Fyrirgefðu Pétur, en það er ekki trúverðugt.

Nú bíð ég hinsvegar eftir því hvort eða hvað Samfylkingin gerir í málunum en ég hef fyrir löngu sannfærst um að það er of seint að "bjarga" sjávarbyggðum við Ísland og það eigi einfaldlega að kaupa fólk þaðan út og láta þær róa.

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 3.6.2007 kl. 18:10

4 identicon

Soldið klaufalegt hjá mér að nota þetta orðtak þarna í restina.  

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 3.6.2007 kl. 18:13

5 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Höfum í huga að Björn Ingi er að lýsa eigin viðhorfum, hann er ekki í forystu framsóknar og því er erfitt að leggja orð hans að jöfnu við það að framsóknarflokkurinn sé að lýsa einhverju yfir, ég vona hins vegar að þessi viðhorf verði ofan á innan framsóknar. En ég held að ef það næst ekki lending um það að nota fiskveiðistjórnunina sem undirstöðu byggðastefnu sé nánast tímaspursmál hvenær það kemur að því að grípa til þeirra aðgerða sem þú nefnir.

Pétur Gunnarsson, 3.6.2007 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband