hux

Djúpavík

Í leiðara Fréttablaðsins á laugardaginn var ástandinu á Flateyri líkt við Haganesvík og Djúpuvík á Ströndum. Þar sagði Hafliði Helgason: "Það var efalítið eftirsjá að byggðinni í Haganesvík og örlög Djúpuvíkur á Ströndum hafa eflaust valdið margri hugarvíl. Staðreyndin varð ekki umflúin."

Nú hefur margfróður lesandi sent þessari bloggsíðu bréf þar sem hann hrekur allan samanburð á sjávarplássum við Djúpuvík og segir:

Þetta er ljóta bullið! Alliance reisti síldarverksmiðjuna á Djúpuvík og annað sem þar reis, á 4. áratug síðustu aldar. Þessu plássi var aldrei ætlað að vera. Það var reist sem "Klondike" síldveiðanna, bráðabirgðastöð, sem síðan skyldi afskrifuð þegar síldin gæfi sig ekki lengur. Þar var aldrei föst búseta, nema kannski örfárra húsvarða. Þar átti heldur aldrei að vera föst búseta. Þessar áætlanir gengu eftir, þegar síldin fór, þá var einfaldlega starfseminni hætt, enginn þurfti að flytja heimili sitt eða missa húseign sína af þeim sökum. Þetta var einfaldlega tjald til einnar nætur, vinnubúðir. Ekki heppilegur samanburður í nútímavíli yfir kvótabraski.

Uppfærsla kl. 11.58: Annar lesandi þekkir til sögu Haganesvíkur og sendir þetta bréf:

Datt í hug í sambandi við það sem einhver sendi þér um tilvísanir ágæts forystugreinarhöfundar á Fbl. sem tiltók Haganesvík sem fyrrverandi síldarstað. Ekki tel ég mig neina alfræðibók í síldarstöðum, en mér vitanlega hefur Haganesvík aldrei verið síldarþorp, enda mjög vafasamt að segja að þar hafi yfirleitt nokkurntíma verið þorp, þótt þar hafi um tíma verið rekin verslun og sláturhús. Með þessu er ég ekki að kasta neinni rýrð á innihald greinarinnar, sem vitnað er til. Margt af því sem höfundurinn segir það er ágætis innlegg í umræðuna.
Uppfært 5.6. kl. 10.23. Vek athygli á því að í kommentum við þessa færslu koma fram upplýsingar sem benda til að deila megi um sannleiksgildi þess sem sagt er í bréfunum hér að ofan.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Sæll Pétur

Ég er fæddur og uppalinn í 30 km. fjarlægð frá Djúpuvík og kannast illa við þessa frásögn. Ef Djúpuvík átti að verða "bráðabirgðastöð" var ansi vel vandað til framkvæmdanna þar sem húsin standa enn í dag. Í kringum stöðina myndaðist allstórt þorp á mælikvarða Strandamanna eða um nokkur hundruð manna byggð ásamt verslun ofl. Fjölmargir byggðu hús og settust að á staðnum þrátt fyrir að stór hluti af fólkinu hafi verið farandverkamenn eða fólk annarstaðar frá úr Árneshrepp. Það er því með fullum rétti sem Djúpavík og þær hamfarir sem þar gengu yfir í kjölfar síldarbrestsins séu bornar saman við Flateyri nútímans. Flateyri er vissulega stærri en útrýming sjávarþorps verður ekki minni eða stærri við að leika sér að tölum. Það er verið að tala um fólk.

Kv.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 4.6.2007 kl. 14:47

2 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Takk fyrir upplýsingarnar Guðmundur. En ég skil ekki síðustu tvær setningarnar hjá þér og að hverjum þeim er beint.

Pétur Gunnarsson, 4.6.2007 kl. 21:35

3 Smámynd: Árni Matthíasson

Sæll vertu Pétur.

Það er nokkuð ljóst að þú þarft að velja þér betri ráðgjafa (eða betri Googlara). Eins og fram kemur í athugasemd Guðmundar Ragnars var Djúpavík nokkuð meira en "bráðabirgðastöð", eins og hinn "margfróði lesandi" nefnir það. Svo er það Haganesvík.

Sá bréfritari, sem "þekkir til sögu Haganesvíkur" eins og þú orðar það segir vafasamt að í Haganesvík hafi verið þorp, en þar var kauptún á síðustu öld; þingstaður Fljótamanna, verzlunarhús, sláturhús, frystihús, verstöð, póstafgreiðsla, landsímastöð, félagsheimili og gistihús. Dugir þetta ekki til að kalla það þorp?

Árni Matthíasson , 5.6.2007 kl. 09:11

4 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Sæll Pétur

Ég er að benda á í síðustu tveim að Djúpavík sé alveg sambærileg við Flateyri dagsins í dag og líka að það er alveg jafn slæmt að byggð leggist í eyði hvort sem að þar búa 500 eða 50 manns.  

Guðmundur Ragnar Björnsson, 5.6.2007 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband