hux

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bróðir formanns fjárlaganefndar felldur í stjórnarkjöri hjá SÁÁ

Á aðalfundi SÁÁ í vikunni var kosin aðalstjórn eins og lög gera ráð fyrir. 48 manns skipa stjórnina og er þriðjungur kosinn á hverju ári. Þetta árið bar það til tíðinda að ekki var sjálfkjörið. Eftir að tillaga formanns um sextán einstaklinga í stjórnina hafði verið borin upp kvaddi sér hljóðs Hörður Svavarsson, sem starfar við rannsóknir hjá SÁÁ, og gaf kost á sér í stjórnina.

Þetta var óvænt uppákoma. Venjan er að fundarmenn klappi þegar tillaga formanns hefur verið lesin upp. Er löng hefð fyrir því. Nú þurfti hins vegar að kjósa. Það var gert og varð niðurstaðan sú að umbuna Herði ekki fyrir framhleypnina og fékk hann fæst atkvæði.

Daginn eftir að fundi lauk kom svo nýkjörið alþingi saman til fyrsta fundar og var kosið í fastanefndir  þess, eins og lög gera ráð fyrir. Þar var Gunnar Svavarsson kjörinn formaður fjárlaganefndar. Þeir eru bræður, Gunnar og nefndur Hörður Svavarsson. Ekki hefði það nú verið verra fyrir SÁÁ, sem jafnan þarf að ganga með betlistaf fyrir fjárveitingarvaldið,  að hafa bróður fjárlaganefndarformannsins í stjórn hjá sér. En það fór svona.


Uppselt

Ég fór í Vídeóhöllina í Lágmúla í kvöld, tók spólu, keypti tímaritið Ísafold og fékk síðasta eintakið í búðinni. "Þetta er í fyrsta skipti sem ég man eftir að þetta tímarit hafi selst upp," sagði afgreiðslustúlkan, "það vilja allir lesa um Goldfinger og bæjarstjórann." Einmitt, sagði ég og hafði engu við að bæta, hún hitti naglann á höfuðið.


Samningur Egils rann út í dag og nýr var ekki gerður

Það er ekki auðvelt að sjá hvernig Ari Edwald ætlar sér að halda Agli Helgasyni. Samningurinn sem Egill Helgason, gerði fyrir tveimur árum við 365 um Silfur Egils, rann út í dag, 1. júní.Enginn samningur hefur verið gerður í staðinn og þess vegna virðist blasa við að hann sé laus allra mála. Það er ekki flóknara en það. 

En á Vísi er Ari Edwald að halda því fram að Egill sé samningsbundinn til tveggja ára í viðbót. Ég hef upplýsingar um að þeir hafi að vísu átt í viðræðum fyrir nokkrum vikum, Egill og Ari, án þess að samningur hafi verið gerður. Sá samningur sem í gildi var fékk að renna út án þess að nýr væri gerður og í honum eru að því er ég heyri engar klásúlur sem takmarka atvinnufrelsi Egils að loknum samningstímanum. Einfalt mál, hefði maður haldið. Eða hverju getur krafa vinnuveitenda byggst þegar tímabundinn samningur rennur sitt skeið á enda án þess að nýr samningur sé gerður í staðinn? þegar stórt er spurt...


Egill hættur á Stöð 2 - Silfrið verður á RÚV í vetur

Egill Helgason er hættur á Stöð 2, frá því var endanlega gengið í dag. Hann flyst yfir til RÚV, þaðan  verður Silfur Egils sent út næsta vetur, auk þess sem Egill mun hafa umsjón með þætti um bækur í vetrardagskrá RÚV.

Nú er að hefjast þriðja kjörtímabilið frá því að Egill fór að stjórna Silfrinu. Fyrsta kjörtímabilið var hann á Skjá einum, það næsta á Stöð 2 og nú er framundan þriðja kjörtímabilið á þriðju sjónvarpsstöðinni. Ég samgleðst Agli með það að vera kominn yfir til RÚV, sem ég er viss um að býr þættinum umgjörð við hæfi, en á því þótti mér stundum misbrestur á Stöð 2 og spáði því í febrúar að hann mundi ekki una sér lengur hjá 365.


Árni á Grænlandi

Við kosningu í nefndir Alþingis í gær var Árni Johnsen kjörinn til setu í Íslandsdeild Vestnorrænaráðsins. Árni hefur áður átt þar sæti, var formaður þess þar til hann sagði af sér þingmennsku árið 2001. Einn ákæruliðurinn í refsimálinu, sem höfðað var gegn Árna, snerist einmitt um formennsku hans í byggingarnefnd Vestnorræna ráðsins, Brattahlíðarnefnd.

Honum var gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína er hann greiddi af bankareikningi ráðsins Torf- og grjóthleðslunni ehf. á Hellu, reikning  að fjárhæð 645.000 krónur vegna hleðslu í Brattahlíð og tækjaleigu, þótt félagið, sem verið hafði undirverktaki Ístaks hf. við framkvæmd verks á Grænlandi árið 2000 og fengið fullnaðargreiðslu frá Ístaki hf. og hafi að mati ákæruvaldsins ekki átt lögvarða kröfu á hendur Brattahlíðarnefnd. 

Þetta var hins vegar einn þeirra ákæruliða þar sem Árni var sýknaður af með dómi Hæstaréttar þegar hann var dæmdur í 2ja ára fangelsi fyrir önnur brot í opinberu starfi. Í dómi Hæstaréttar segir um þetta atriði: "Ákærði var formaður þessarar byggingarnefndar. Hann innti umrædda greiðslu af hendi úr sjóðum Vestnorræna ráðsins nær ári eftir að verkefninu í Brattahlíð lauk í júlí 2000 án nokkurs samráðs við forsætisnefnd ráðsins eða Íslandsdeild þess. Þetta gerði hann þó sem formaður Brattahlíðarnefndar og er ósannað að hann hafi ekki haft til þess umboð. Því verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða af sakargiftum í þessum tölulið staðfest."

Og nú er Árni kominn aftur til starfa í Vestnorrænaráðinu, kosinn þangað af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.
 


Fleygjárn á lofti

"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna réttkjörna ríkisstjórn á heimastjórnarsvæði Palestínu og taka upp við hana eðlileg samskipti. Jafnframt beiti hún sér á alþjóðavettvangi fyrir því að önnur ríki geri slíkt hið sama." Þannig hljóðar þingsályktunartillaga sem Vinstri græn hafa lagt fram í upphafi sumarþings. Athyglisvert verður að fylgjast með viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við málinu. Hér er á ferð fyrsta almennilega tilraun stjórnarandstöðunnar til að reka fleyg í raðir nýju ríkisstjórnarinnar.

Það er röskur mánuður síðan samskipti Íslands við þjóðstjórnina í Palestínu komu til umræðu. Valgerður Sverrisdóttir, þá utanríkisráðherra, lýsti áhuga á að viðurkenna þjóðstjórnina en gaf til kynna að ágreiningur væri við Sjálfstæðisflokkinn sem væri því andvígur. Fjölmiðlum gekk erfiðlega að ná í Geir H. Haarde vegna málsins en þegar til hans náðist sagðist hann vilja fara varlega í málið. Og á landsfundi sínum um miðjan apríl samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn ályktun þess efnis að hafnað væri  "hvers kyns stuðningi við ríkisstjórnir sem hryðjuverkahópar eiga aðild að, eða sem fjármagna hryðjuverkasamtök" Var sú ályktun óskiljanleg öðru vísi en sem innlegg í umræðuna um viðurkenningu á þjóðstjórn Palestínumanna.

Ekki þarf að velkjast í vafa um hug Samfylkingarinnar og nýs utanríkisráðherra til málsins. Fyrir mánuði röskum lýsti Ingibjörg Sólrún því yfir að  full ástæðu væri til að viðurkenna þjóðstjórnina. Í þá átt hafa stofnanir Samfylkingarinnar líka ályktað árum saman. Ákvæði stjórnarsáttmálans um málefnið rímar betur við sögulegar ályktanir sjálfstæðismanna en Samfylkingar. Þar segir: "Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak og vill leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi."

En nú er ný ríkisstjórn mynduð og fyrir þinginu liggur, góðu heilli, þessi tillaga frá VG. Ekki er vafi á að stjórnarandstaðan vill einhuga styðja þá tillögu og væntanlega líka Samfylkingin og nú er það hennar að tala Sjálfstæðisflokkinn til í málinu. Fara nú í hönd athyglisverðar umræður.


Þrjú dagblöð - þrír ritstjórar - einn flokkur

Eftir að Ólafur Þ. Stephensen er orðinn ritstjóri Blaðsins er staðan á íslenskum blaðamarkaði sú að ritstjórar þriggja útbreiddustu dagblaða á Íslandi hafa allir gegnt trúnaðarstörfum fyrir  Sjálfstæðisflokkinn. 

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, er sem kunnugt er fyrrverandi formaður flokksins og sá eini þremenninganna sem verið hefur í opinberri forystusveit flokksins Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Moggans, og Ólafur hafa lengi verið meðal áhrifamanna í flokknum, einkum þó í ungliðasveitinni. Ólafur var formaður Heimdallar um tveggja ára skeið í kringum 1990, en Styrmir, sem bjó til hugtakið innvígður og innmúraður, var heimdallarformaður á sjöunda áratugnum. Ólafur hefur verið meðal mestu áhugamanna innan Sjálfstæðisflokksins um nánara samband Íslands og ESB og er mikill sérfræðingur um Evrópumál.

Þrátt fyrir hinn flokkslega bakgrunn er hins vegar engum blöðum um það að fletta að Ólafur Þ. Stephensen er fagmaður fram í fingurgóma í blaðamennsku, var innan við tvítugt þegar hann fór að vinna á Mogganum með skóla og varð samstarfsmönnum hans hafi snemma orðið ljóst að þar fór mikill afburðamaður sem líklegur var til að gera stóra hluti hvar sem hann haslaði sér völl. Það verður spennandi að fylgjast með þróun Blaðsins undir hans stjórn og í tilkynningu Árvakurs kemur fram að markið er sett hátt, Ólafi er ætlað að gera Blaðið að útbreiddasta blaði landsins og skjóta Fréttablaðinu ref fyrir rass.

Jón Kaldal, meðritstjóri Þorsteins á Fréttablaðinu, og Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri DV, eru nú einu ritstjórar íslenskra dagblaða sem ekki hafa komist til metorða hjá Flokknum. Sigurjón hefur líklega aldrei komist nær Sjálfstæðisflokknum en það að vinna í sama húsi og Jón heitinn Sólnes á Akureyri fyrir mörgum árum, ef ég man söguna rétt.


Gunnar fær fjárlaganefnd, Ágúst Ólafur viðskiptanefnd

Gunnar Svavarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Kraganum, verður formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Fjárlaganefndarformennska er allmikið starf, formaður nefndarinnar hefur einn þingmanna sérstaka skrifstofu á nefndasviði þingsins og sinnir varla nokkru öðru starfi en fjárlagagerðinni allt haustþingið. Það er talið að Einar Oddur Kristjánsson verði áfram varaformaður fjárlaganefndar en hann hefur látið svo að sér kveða í því hlutverki á síðasta kjörtímabili að bæði fjölmiðlar og ýmsir aðrir hafa umgengist hann sem væri hann formaður nefndarinnar. Haldi Einar Oddur áfram varaformennskunni verður að fyrsta áskorun Gunnars Svavarssonar sem alþingismanns að koma hinum óstýriláta Flateyrarjarli í skilning um það hver er foringinn í fjárlaganefnd.

uppfærsla kl. 19.16. Einar Oddur verður ekki varaformaður fjárlaganefndar heldur Kristján Þór Júlíusson. 


Ritstjóraskipti á Blaðinu

Trausti Hafliðason er að hætta sem ritstjóri á Blaðinu, Ólafur Þ. Stephensen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, tekur við starfinu. Hann verður fimmti ritstjórinn í tveggja ára sögu Blaðsins.

Fréttir af þessu bárust út í gær en  Trausti sagði starfsfólki Blaðsins fyrst af því í morgun hvað til stendur.  Það er Árvakur, útgefandi Moggans og Blaðsins, sem knýr á um breytingarnar. Trausti tók við ritstjórn Blaðsins og yfirgaf starf fréttastjóra á Fréttablaðinu um áramót þegar Sigurjón M. Egilsson yfirgaf ritstjórastólinn til að taka við DV.

Ólafur Þ. Stephensen hefur starfað í uppundir 20 ár hjá Mogganum og hefur verið aðstoðarritstjóri frá því í upphafi ársins 2001. Það verður athyglisvert að fylgjast með þróun Blaðsins undir hans stjórn en væntanlega verður ritstjóraferill Ólafs þar nokkurs konar prófsteinn á hvort hann verður maðurinn sem Árvakur lítur á sem arftaka Styrmis Gunnarssonar á ritstjórastóli Moggans. Talið er að Styrmir hætti á Mogganum á næsta ári.

Ekki er ljóst hvaða Trausti Hafliðason tekur sér fyrir hendur en honum stendur m.a. til boða annað starf á vegum Árvakurs. 

Eins og fyrr sagði verður Ólafur Þ. Stephensen fimmti ritsstjóri Blaðsins. Fyrstur var Karl Garðarsson, þá Ásgeir Sverrisson, síðan Sigurjón M. Egilsson og þá Trausti Hafliðason. 


Ráðuneyti textíliðnaðarins

Iðnaðarráðuneytið hefur verið aðskilið frá viðskiptaráðuneytinu og tveir ráðherrar í nýrri ríkisstjórn sinna verkefnum sem einn sinnti áður. Nýr iðnaðarráðherra hefur ráðið til sín öflugan aðstoðarmann, Einar Karl Haraldsson, margreyndan ref úr stjórnmálabaráttunni, líklega eina manninn sem kemst með tærnar þar sem ráðherrann sjálfur hefur hælana í þeim merku fræðum að að stýra og móta pólitíska umræðu. 

Undanfarin ár hafa helstu verkefni iðnaðarráðuneytisins verið á sviði þungaiðnaðar, starfsemin hverfðist lengi um tilraunir ráðuneytisins til þess að fá erlend stórfyrirtæki til að reisa hér álver og undirbúa virkjanaframkvæmdir tengdar þeim rekstri. Þetta þekkja allir, málefni iðnaðrráðuneytisins hafa verið hin stórpólitísku deilumál í íslensku samfélagi undanfarin ár. Nú er ný ríkisstjórn tekin við og þótt orðalag stjórnarsáttmálans sé loðið og teygjanlegt um það hvaða fyrirætlanir ríkisstjórnin hefur á sviði virkjana og stóriðju er svo að heyra á ráðherrum Samfylkingarinnar að lítið verði að gera á því sviði hjá iðnaðarráðherra. Þess vegna er vert að velta því fyrir sér hver verði helstu verkefni þessa ráðuneytis á næstu árum, sem Össur Skarphéðinsson stýrir því með fulltingi Einars Karls Haraldssonar.

Og þá staldrar maður við það að víst eru fleiri iðngreinar stundaðar í landinu en álvinnsla og orkuvinnsla. Það er til dæmis textíliðnaður, það er að segja sú grein sem spinnur band og vefur vef í klæði. Því meir sem ég hugsa um þetta því frekar hallast ég að því að nokkurs konar textíliðnaður verði í hávegum hafður í iðnaðarráðuneytinu næstu árin, þar verði spunarokkarnir þandir frá morgni til kvölds. Í iðnaðarráðuneytinu verður rekið spunaverkstæði Samfylkingarinnar undir stjórn spunameistara sem eru svo snjallir að þeir eiga fáa sína líka. Það er helst að maður geti lesið um aðra eins spunasnillinga í ævintýri H.C. Andersen um Nýju fötin keisarans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband