hux

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Magnús 369 - Margrét 314

Magnús Þór Hafsteinsson vann Margréti Sverrisdóttur í varaformannskosningum á landsfundi Frjálslyndra rétt í þessu með 369 atkvæðum gegn 314.

Lítill munur og lítil þátttaka, finnst mér, miðað við opinn fund þar sem allir gátu komið og kosið sem vildu.

Nú er Mogginn búinn að setja inn rangt tímasetta frétt um úrslitin, sem er tímasett 17.30 en kom inn meira en 10 mínútum síðar,

Athyglisvert í yfirlýsingum Margrétar þar að hún talar ekkert um málefnin. Hún boðar fund með stuðningsmönnum kl. 18 á mánudag en ræðir ekkert um afstöðu sína til þess stórpólitíska málefnis sem er í gangi á fundinum, sem er afgreiðsla á ályktun um málefni útlendinga. Í raun veit maður ekki enn afstöðu Margrétar til þeirrar ótrúlegu stefnumörkunar sem fram kom í setningarræðu formannsins, er hún sammála eða ekki?  Það er augljóst að Magnús og Guðjón Arnar ganga í takt í málinu en hver er afstaða Margrétar?


Addi Kitta Hagen?

Um fjórðungur af setningarræðu Guðjóns A. Kristjánssonar á landsfundi Frjálslynda flokksins fjallaði um málefni útlendinga. Þar kvað við hvassari tón en ég hef áður heyrt hjá Guðjóni og raunar hvassari en ég minnist þess að hafa heyrt hjá Magnúsi Þór Hafsteinssyni.

Ég fór á netið í leit að greinum um sögu norska Framfaraflokksins, sem Carl I. Hagen stýrði lengstum en nú Siv Jensen, og danska Þjóðarflokksins hennar Piu Kjærsgaard, og sýnist að sögulegar hliðstæður við það sem er að gerast hjá Frjálslyndum séu sláandi. Við erum að eignast okkar eigin hægrisinnaða pópúlistaflokk.

Björn Ingi er búinn að lista upp þau atriði sem Guðjón kom inn á í sambandi við málflutning sinn um útlendinga. Ég ætla ekki að rekja þau í smáatriðum en bendi á að þar er ýtt undir ótta með því að tala um sakarferil útlendinga, gert út á ótta við berkla og smitsjúkdóma og rætt um nauðsyn þess að hygla menntuðu vinnuafli umfram ófaglært. Það er talað um að ástæða sé til að beita  neyðarréttarákvæðum EES-samningsins hér og nú í landi þar sem er þensla og full atvinna. Það vakti athygli mína hve litla athygli þessi efnisatriði vöktu í fréttatímum.

En ég fann t.d. þessa ágætu grein á netinu þar sem fjallað er um norska Framfaraflokkinn og danska Þjóðarflokkinn. Mér finnst hún stuðla að því að eftir ræðu Guðjóns verði Frjálslyndi flokkurinn að þola það að um hann sé fjallað í sömu andrá og þessa systurflokka hans á Norðurlöndum. Til dæmis virðist þetta (bls. 6) eiga vel við:

The first manifestos did not even mention immigration and in the second manifesto of the Norwegian party (1977-1987), it was mentioned only in connection with unemployment. To secure employment, restrictions on immigration should be strictly enforced. [...] Both Hagen (Norway) and Kjærsgaard (Denmark) have been keen to underline that their criticism is directed against policies, not against individual refugees. Strictly speaking, the parties cannot be accused of racism, perhaps not even of xenophobia. They also dissociate themselves from other xenophobic parties in Western Europe.

Það er einnig fróðlegt að lesa sér til um það að þegar norski framfaraflokkurinn fór að auka áherslu á málefni útlendinga kom til mikils uppgjörs innan hans sem lauk með klofningi. Kannski sú norska saga muni  endurtaka sig þessa helgina hér í Reykjavík.


Kotungskróna II

"Ég tel að við búum ekki við nægilega festu í stjórnarfari og hagkerfi okkar er svo lítið ogkotungskrónan óvarið að það borgi sig ekki fyrir okkur að halda uppi sjálfstæðum gjaldmiðli. Það er í sjálfu sér ekki órökréttara að nota erlendan gjaldmiðil eins og til dæmis bandaríkjadal en að nota erlendar mælieiningar eins og metra og lítra í stað álna og feta. Peningar eiga að vera fastur mælikvarði á verðmæti."

Hannes H. Gissurarson hefur orðið í viðtali í Morgunblaðinu 17. nóvember 1988. Ungur og mjög efnilegur blaðamaður, sem tók viðtalið, spyr Hannes í framhaldi af þessu hvort það sé ekki spurning um stolt fyrir þjóðina að hafa eigin gjaldmiðil. Hannesi varð ekki orða vant þennan daginn frekar en flesta aðra:

"Íslenska krónan er ekkert til að vera stoltur af. Hún er kotungskróna, sem hefur verið að hríðfalla í verði. Meðan hún var á gullfæti voru peningamál í bestum skorðum og einkabanki gaf hér út krónur, sem voru innleysanlegar í gulli. Mínar hugmyndir eru að vissu leyti afturhvarf til þess tíma, í stað gullfótar mætti koma dollarafótur."

Nú væri gaman að heyra Hannes útskýra hvaða afstöðu hann hefur til krónunnar í dag og líka muninn á hugmyndum hans um dollarafót fyrir gjaldmiðilinn og hugmyndum t.d. Valgerðar Sverrisdóttur og Friðriks Baldurssonar um upptöku Evru án inngöngu í ESB.


Samfylkingin bíður með uppstillingu vegna Margrétar

Margrét Sverrisdóttir var að staðfesta í Sjónvarpsfréttum að fólk úr öðrum flokkum hefði komið að máli við hana og boðið henni sæti á framboðslistum.

Samfylkingin í Reykjavík er enn ekki búin að kynna sína framboðslista þótt prófkjör hafi þar verið haldið snemma í nóvember.  Ein helsta ástæða þess er sú að menn vilji bíða og sjá hvernig mál þróast í Frjálslynda flokknum.

Fari svo að Margrét og hennar fólk verði undir gefist gott færi á að bjóða henni sæti á lista í Reykjavík og er þá talað um 5. sætið í öðru hvoru kjördæminu.  Margrét hefur átt gott samstarf við ýmsa úr Samfylkingunni, þar á meðal formanninn, Ingibjörgu Sólrúnu.

Nú er líka komið í ljós að allar helstu konur innan Frjálslynda flokksins eru á bandi Margrétar, þar á meðal Sigurlín Margrét, sem karlarnir í flokknum ætla að láta víkja úr leiðtogasæti í Kraganum til að skapa pláss fyrir Valdimar Leó Friðriksson.  Það væri mikið kúpp fyrir Samfylkinguna að landa Margréti, Sigurlín, Guðrúnu Ásmundsdóttur og helstu konum Frjálslynda flokksins í sínar raðir fyrir kosningabaráttuna í vor. Sú gæti orðið niðurstaðan ef Margrét tapar fyrir Magnúsi Þór um helgina.


Kotungskrónan

"Þegar litið er yfir sögu peningamála á Íslandi, frá stofnun Seðlabankans blasir við ófögur mynd: Bankanum hvar (svo) ætlað að halda verðgildi peninga stöðugu en krónan hefur síðasta aldarfjórðunginn minnkað og er orðin sannkölluð "kotungskróna" eins og Jón Þorláksson hefði orðað það."

kronaÞessi ummæli lét Hannes H. Gissurarson falla í grein sem hann birti um Jóhannes Norðdal, fyrrverandi Seðlabankastjóra, í Morgunblaðinu sunnudaginn 11. maí árið 1986.  Á þeim tíma var þetta orð, kotungskróna, á vörum margra framámanna í Sjálfstæðisflokknum. Þetta var í þá tíð sem ný kynslóð var að taka við völdum í flokknum. Einkum var þó Hannes duglegur að ræða þessi mál og gagnrýna Seðlabankann og íslensku krónuna.

Eitthvað hefur breyst síðan, kannski  það að réttu mennirnir náðu völdum í kotinu? Líklega. Hvað sem því líður er langt síðan þessi frasi hefur heyrst, kotungskróna. Hann virðist eiga vel við í dag þegar krónan er ekki gjaldmiðill annarra en íslenskra kotbænda en stórbændur og aðrir höfðingjar hafa sinn eigin lögeyri.


40 tonn af ísjökum til Stokkseyrar

Ég veit ekki hvort einhverjir muna eftir því þegar ísjaki úr Jökulsárlóni var fluttur suður til Frakklands og látinn bráðna þar í þágu framboðs Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ég veit ekki hvort Stokkseyri stefnir að því að láta að sér kveða á vettvangi SÞ í framtíðinni en alla vegana eru þeir farnir að sanka að sér ísjökum úr Jökulsárlóni og fluttu um helgina 40 tonn af klaka í bæinn. Klakinn verður víst varðveittur þar um ókomna tíð í nýja álfa-, trolla og norðurljósasafninu. 

Það að varðveita eigi klakann um ókomna tíð á Stokkseyri bendir til þess að það verði býsna kalt í nýja safninu. Kannski er best að geyma álfa og tröll í frysti.


mbl.is Framkvæmdir við nýtt safn á Stokkseyri án leyfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fast skot

Sme skýtur fast á Fréttablaðið: 

Ég þekki líka dæmi sem bendir til þess að Fbl þyki minna en áður til um að vaðið sé yfir fólk á síðum blaðsins og sem gamall aðstandandi og velunnari blaðsins hef ég áhyggjur af því að yfirmenn ritstjórnarinnar sjái nú ekki  ástæðu til að svara eða bregðast með neinum hætti við þegar kvartað er  undan tilhæfulausum ásökunum og ærumeiðingum í blaði sem fleygt er óumbeðið inn á gólf heimilanna í landinu.


Doh!

Leiðari Fréttablaðsins:

Hver hefði til að mynda trúað því að óreyndu að fleiri stuðningsmenn Vinstri grænna vildu sjá Ríkisútvarpið hverfa af auglýsingamarkaði en stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks, eins og kemur fram í könnun Fréttablaðsins?

Ég held að margir sem fylgst hafa með íslenskri pólitík hafi fyrir nokkru síðan tekið eftir því að VG er oftar en ekki andvígt markaðsviðskiptum og hlynnt opinberum rekstri og áætlanabúskap. Ég gæti best trúað því að stór hluti stuðningsmanna VG sé almennt á móti auglýsingum í fjölmiðlum. Ég held að meirihluti stuðningsmanna VG sé ekki á móti þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði af umhyggju fyrir einkamiðlum heldur af andstöðu við viðskiptalífið og jafnvel nútímann almennt. Andstaðan við RÚV lögin var tvenns konar, VG var einróma í sinni vinstri gagnrýni en innan annarra flokka mátti finna talsmenn þess að með lögunum væri þrengt um of af samkeppnisstöðu einkamiðla. Það kann að vera að slík sjónarmið sé að finna innan VG en hvar komu þau fram í umræðunni þessar 170 klukkustundir?


Petterson eða Petersson?

Hvernig er það með örvhenta hornamanninn Alexander Petterson. Af hverju er hann allt í einu farið að skrifa nafnið hans eins og hann heiti Petersson? 

Það stendur Petersson á landsliðstreyjunni hans og á heimasíðunni Í blíðu og stríðu sem mér skilst að HSÍ haldi úti og Fréttablaðið segir líka Petersson. En á "subbinu" í sjónvarpinu stendur alltaf Petterson og ég er alveg viss um að fram að þessu hefur nafn þessa öfluga handknattleiksmanns, sem fæddur er í Lettlandi ef ég man rétt, alltaf verið skrifað með þeim hætti.

Hver er skýringin á þessu misræmi, hefur Alexander gert þessa breytingu sjálfur eða er þetta bara kæruleysi og virðingarleysi við nafn leikmannsins.

Ps. Ívar Benediktsson, íþróttafréttamaður Mbl, er búinn að upplýsa hvernig í málinu liggur í athugasemd


Getraun dagsins

Hvaða einkavinur George W. Bush bandaríkjaforseta sagði þessi eftirminnilegu orð:

[Hann] sagði m.a. að af 800 byggðarlögum í Írak væri friður í 795 byggðarlögum. "Það er óróleiki mikill í fjórum til fimm byggðarlögum," sagði hann. "Óttanum hefur verið bægt burtu úr þessum 795 byggðarlögum." Í þeim byggðarlögum, sagði hann, ætti fólk von, vegna þess að einum versta harðstjóra aldarinnar, Saddam Hussein, hefði nú verið bægt í burtu. "Þess vegna er þar áfram von. Þess vegna hljótum við að vera stolt yfir því að hafa haft atbeina að því að þessi þróun yrði."

Hver var hann sem fór svona huggulega með súrrealíska talpunkta Hvíta hússins um ástandið í Írak, hvar lét hann þessi ummæli falla og hvenær? Svör berist í athugasemdakerfið. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband