hux

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Afleiðing skoðanakönnunar Fbl.

Það er ekki að efa að vonbrigði Samfylkingarinnar vegna skoðanakönnunar Fbl hafa valdið miklu um að ákveðið var að horfast í augu við að málþóf þeirra undir stjórn Marðar Árnasonar um RÚV hefði skaðað flokkinn en ekki unnið honum gagn. 

Hin meginskýringin á falli Samfylkingarinnar í könnun Fbl er sennilega þau mistök sem Ingibjörg Sólrún gerði í viðtali við Moggann að gefa undir fótinn hugmyndum um tveggja flokka stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að loknum kosningum. 

Raunar hlýtur það að vera Samfylkingunni mikið umhugsunarefni hvílíkt skipbrot sú herfræði sem flokkurinn hefur fylgt allt þetta kjörtímabil er að bíða. Höfundar þeirrar herfræði er dr. Birgir Hermannsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar, og að baki bjó hugmyndin um það að meginverkefni Samfylkingarinnar ætti að vera að einbeita sér að árásum og gagnrýni á Framsóknarflokkinn.

Þetta hefur Samfylkingin gert svikalaust á öllum vígstöðvum allt þetta kjörtímabil og ekki uppskorið annað en það að skaða málefnalega umræðu um pólitík í landinu og svo að efla Vinstri græna annars vegar og Sjálfstæðisflokkana tvo hins vegar. Ein athyglisverðasta niðurstaða könnunar Fbl er vitaskuld sú að nú virðist það raunhæfur möguleiki að hér verði hreinn meirihluti sjálfstæðismanna að loknum kosningum með tveggja flokka stjórn Sjálfstæðiflokksins og Frjálslyndra


mbl.is Umfjöllun um RÚV-frumvarp lauk skyndilega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn H í fyrsta sæti frjálslyndra í NV - Guðjón Arnar til Reykjavíkur, Valdimar Leó í þingflokk frjálslyndra

Ég var að heyra þá kenningu frá fólki sem ég veit að þekkir betur til en ég að samningur liggi fyrir milli Kristins H. Gunnarssonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar um að Kristinn skipi 1. sæti á lista Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi en Guðjón Arnar flytji sig um set og verði í fyrsta sæti á lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.

Auðvitað er svo óljóst hvað verður um málefni Frjálslynda flokksins, þar er mikill óvinafagnaður í uppsiglingu um næstu helgi og ef marka má skrif hér á blogginu gæti farið svo að Guðjón og Kristinn yrðu að finna sér annað nafn á flokkinn sinn, þegar þau feðgin Margrét og Sverrir taka kennitöluna og róa á önnur mið. En ég verð að segja að það eykur samúð mína með Guðjóni Arnari og þeim að hafa haft framkvæmdastjóra sem tók þátt í því að gera kennitölu og nafn flokksins sem hún stýrði að einkaeign og flokkinn þar með að fjölskyldufyrirtæki.

Að lokum: Valdimar Leó var að lýsa því yfir í Silfrinu að hann ætli sér að ganga til liðs við Þingflokk frjálslyndra. Þar með er væntlega fundinn oddviti þess flokks í Kraganum eða kannski verður hann að láta sér nægja 2. sætið. Prófkjör Samfylkingarinnar í því kjördæmi bendir ekki til þess að hann hafi mikinn kjörþokka. 


mbl.is Fylgi VG og Frjálslyndra eykst samkvæmt skoðanakönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðbúin spá: Öruggur sigur Guðna

Það kusu 3.590 í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og þar með hefur flokksskráin í kjördæminu meira en tvöfaldast því um 1.600 voru skráðir í flokkinn þegar ákvörðun um prófkjörið var tekin og enginn fékk að kjósa nema ganga í flokkinn, stuðningsyfirlýsing var ekki nægileg eins og í opnum prófkjörum.

Ég hef ekki bloggað mikið um þetta prófkjör og ástæðan var sú að ég hef verið innanbúðar hjá stuðningsmönnum Guðna undanfarnar vikur. En nú þegar fyrir liggja upplýsingar um hvernig kosið var á einstökum svæðum innan kjördæmisins held ég að það sé alveg ljóst að það stefnir í mjög öruggan sigur Guðna.

Ég tel að Hjálmar megi vel við una, hann er áreiðanlega öruggur með 2. sætið, - sem ég á reyndar von á að hann þiggi ekki - og hann fékk um 1.000 Suðurnesjamenn til þess að kjósa sig og er það vel af sér vikið. Ég gef mér að hann eigi yfirgnæfandi hluta atkvæðanna á Suðurnesjum en Guðni að sama skapi yfirgnæfandi meirihluta atkvæða utan Suðurnesja. Það er magnað að um 1.000 íbúar í Árborg brugðust við kalli Guðna og kusu í prófjörinu til að verja hann fyrir atlögu Hjálmars. Sú mikla þátttaka gæti líka nýst öðrum frambjóðendum úr Árborg, sem voru alls fimm af tólf, ef ég man rétt.

Því spái ég því að Guðni sé með amk 60% atkvæða í 1. sætið, Hjálmar er öruggur í 2. sætið held og líklega er Bjarni Harðar í 3. sæti. Ein meginlexían af þessari prófkjörsvertíð er sú að það skilar sér þegar talið er upp úr kössunum að frambjóðandi sé þekktur úr sjonvarpi. Það hefur Bjarni fram yfir keppinauta sína. Björn Bjarndal hefur hins vegar komið á óvart í baráttunni en lítil þátttaka í Eyjum hlýtur að valda vonbrigðum þeim sem vonuðust eftir góðu gengi Eyglóar.


Glasnost Valgerðar og Staksteinar

Ég hef alltaf haldið að Staksteinar væri vel upplýstur um allan gang mála í stjórnsýslunni og stjórnmálunum. Þess vegna er ég hissa á því að pistillinn í sunnudagsblaðinu ber með sér að ritstjórinn viti ekki af því að undanfarin 16 ár amk hefur það tíðkast að forsætisráðherra fari með samningsumboð Íslands í viðræðum við Bandaríkjastjórn um allt það sem að varnarsamningnum snýr.

Getur verið að Staksteinar viti þetta ekki? Kólnaði samband Moggans við formann Sjálfstæðisflokksins svo í upphafi formennskutíðar Davíðs að hann veit ekki að strax við myndun Viðeyjarstjórnarinnar var frá því gengið að það væri forsætisráðherrann Davíð en ekki utanríkisráðherrann Jón Baldvin sem annaðist fyrir Íslands hönd samskipti á ráðherra-level við Bandaríkjamenn vegna varnarsamningsins? Þannig hefur það líka verið í samstarfi núverandi ríkisstjórnarflokka.

Sú spurning á líka rétt á sér hvort þetta fyrirkomulag eigi sér eldri sögu en aftur til 1991?  Mér finnst ekki ólíklegt að utanríkisráðuneytið muni svara spurningum um það nú á þessum löngu tímabæru glasnost-tímum sem Valgerður Sverrisdóttir hefur innleitt í íslensk utanríkismál. Óforvarendis á miðri síldarvertíðinni.

Líklega hefur Staksteinar bara ekki vitað af þessu, hann hefði örugglega sagt frá því í blaðinu,  er það ekki annars? Og ef hann hefði vitað af þessu hefði hann líklega rakið hvenær hver hefur setið í forsætisráðuneytinu þegar hann fjallar um leyndina sem hvílt hefur yfir viðaukum við varnarsamninginn og reykfylltu bakherbergin.

uppfærsla 21.01,kl. 16.40: Það er ofsagt hér að ofan að formleg samskipti hafi verið á höndum forsætisráðuneytisins - vitaskuld ber utanríkisráðherra stjórnskipulega ábyrgð á þessum málum en ekki forsætisráðherra. Hitt er ekki ofsagt að forsætisráðuneytið hafði í tíð Davíðs ávallt yfirfrakka sinn í viðræðunefndum íslenskra stjórnvalda við Bandaríkjamenn og hafði sá yfirfrakki í umboði forsætisráðherra í raun neitunarvald um hvaðeina í viðræðunum.  Sú staðreynd hafði mikil áhrif á framgang viðræðnanna. Þetta neitunarvald hefur byggst á pólitísku samkomulagi við ríkisstjórnarmyndun og um leið á þeirri trú að vegna hins sérstaka (og persónulega) sambands Sjálfstæðisflokksins við Bandaríkjamenn yrðu þeir ávallt að gegna lykilhlutverki í viðræðum um varnarsamninginn. 


Fréttablaðið spyr um evru, ESB og RÚV

Fréttablaðið er að gera skoðanakönnun í dag. Auk þess að spyrja eins og venjulega um fylgi flokkanna og hvaða flokka menn vilji sjá í ríkisstjórn er spurt um mál sem ofarlega eru í umræðunni.

Fréttablaðið spyr vitaskuld um RÚV-málið en kannar ekki afstöðu til frumvarps menntamálaráðherra sem slíks heldur er eingöngu spurt hvort fólk sé fylgjandi eða andvígt því að RÚV keppi við aðra miðla á auglýsingamarkaði. Væntanlega fáum við að vita niðurstöðuna úr því á morgun eða í síðasta lagi á mánudag.

Einnig er spurt hvort fólk vilji skipta á evrunni fyrir krónu og eins kannar blaðið viðhorf landsmanna til aðildar Íslands að ESB. Þetta verður svo væntanlega mjatlað ofan í okkur lesendurna næstu daga í smáskömmtum. 


Valgerður og nýja íhaldið

Menn hafa keppst við að hrósa Valgerði fyrir ræðuna sem hún hélt á fimmtudag og þá ákvörðun hennar að aflétta leynd af varnarsamningsviðaukum. Leiðarahöfundar Moggans og Fréttablaðsins tóku málið upp og fleiri, m.a. Davíð Logi hér á blog.is.

En það kveður við annan tón hjá helstu íhaldsbloggurunum hér á svæðinu.

Andrés, Friðjón, Krummarnir, virðast með böggum hildar yfir orðum Valgerðar um konur, karla, leynd og pukur og eru viðkvæmir fyrir því að farið sé viðurkenningarorðum um hana fyrir þetta. Stefán Friðrik er líka að finna að þessu með öðrum formerkjum þó. Ætli það sé síldarvertíðin, sem nú stendur sem hæst, sem gerir þá ný-íhaldsmennina svona ofurnæma í þessari umræðu um leynd og varnir og öryggismál? Stefán hefur auðvitað  áhyggjur af því hvernig Kristjáni Þór á eftir að ganga að eiga við Valgerði í kosningunum nyrðra í vor og hefur fyllstu ástæðu til. Hún er á mikilli siglingu og er að sýna að gagnsæi og utanríkismál fara ágætlega saman í stjórnsýslunni. Vonandi afléttir hún leynd af fleiri skjölum sem fyrst, um að gera að láta lofta um stjórnsýsluna.


mbl.is Utanríkisráðuneytið vill veita fullan aðgang að skjölum um öryggis- og varnarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ertu ekki enn búinn að lesa Blogdog?

Blogdog er einhverra hluta vegna best varðveitta leyndarmálið á blog.is. Hann lætur ekki deigan síga í umfjöllun um meðferðarmálin. Segir m.a. þetta:

Hrafn Jökulsson leggur líka orð í belg en kemur úr annarri átt.


Athyglisvert

Þessi grein sem Grímur endurbirtir á heimasíðu sinni finnst mér athyglisvert innlegg í umræður þessara daga um Byrgið og meðferðarmál, skrifuð í Moggann fyrir þremur árum en á vel við nú. Held að fátt hafi breyst. Setur málin í athyglisvert ljós. Hann ræðir um hin gráu svæði og skort á samstarfi og gerir tillögu um að sett verði á fót greiningarstöð til að tryggja heildaryfirsýn. Segir:

Aðgangur að vímuefnameðferð á Íslandi verður að teljast mjög góður, hvort sem tekið er mið af samanburðarlöndum eða biðlistum í heilbrigðiskerfinu almennt. Lítið eða ekkert eftirlit er með því hvert einstaklingar fara í meðferð, hversu oft þeir fara og hversu stutt líður á milli meðferða. Þannig getur einstaklingur farið á Vog í meðferð á morgun, dvalið þar í 10 daga og lokið 28 daga meðferð á Staðarfelli í framhaldi af því. Viku eftir þá meðferð getur sami einstaklingur leitað sér meðferðar í Byrginu, Krýsuvík eða Hlaðgerðarkot. 

Meira hér.


Stjörnustríði lokið

Stjörnurnar eru á bak og burt og farið hefur fé betra. Reyndar skilst mér á starfsmönnum blog.is að þeir hafi gert einhver mistök og þetta hafi ekki verið ætlunin. Hins vegar hafi verið ætlunin að láta menn hafna stjörnumöguleikanum fremur en að leyfa þeim að velja hvort þeir vildu nota hann eða ekki. Það ber vott um viðhorf til bloggara sem ég er ekki sáttur við. Sýnist á kommentum við síðustu færslu að margir bloggarar hér séu mér sammála um þetta.

Ég hef vanist því í þeim bloggkerfum sem ég þekki að forræði bloggarans á eigin svæði og útliti þess sé algjörlega virt. Mér finnst ástæða til að blog.is skýri betur hugmyndir sínar um samskipti bloggara og rekstraraðila og einnig greini þeir frá í hvaða áttir þeir ætla að þróa svæðið sem mér sýnist að sé að verða afar óvenjulegt ef ekki einstakt meðal bloggsvæða, amk kann ég ekki að nefna annað svæði þessu líkt.

Ég er sem sagt á því að með stjörnunum hafi starfsmenn blog.is hlaupið á sig og gert vitleysu. Hins vegar tók ég of djúpt í árinni þegar ég talaði um vitleysing og þrjót af þessu tilefni, og er ljúft og skylt að biðja viðkomandi og lesendur velvirðingar á því. Mér leiðist að lesa skæting annarra og vil gjarnan  hlífa umhverfinu við slíku af mínum völdum.


Tilkynning um innbrot

Meðan ég svaf braust einhver vitleysingur inn á bloggið mitt, setti upp hér einhverja stjörnugjöf sem ég veit ekki hvað á að þýða og hver bað um. Þetta er blogg en ekki fegurðarsamkeppni. Það sem meira er þetta er mitt blogg og það gerir enginn svona breytingu hér án míns leyfis. Ég er búinn að aftengja fídusinn en það er ekki nóg, þetta sést enn og ég vil losna við þetta algjörlega.

Þetta er svona eins og ef maður hefði íbúð á leigu og meðan maður væri að heiman færi leigusalinn inn og hengdi upp  mynd af fjölskyldunni sinni á veggina. Ef einhver sér þennan innbrotsþjóf, eða fulltrúa leigusalans hérna eða hver sem þetta var þá er hann vinsamlegast beðinn um að skipa honum að fjarlægja þetta stjörnudrasl.  Þegar hann er búinn að því má láta svipuna hans Stefáns Pálssonar ríða á hryggjarsúlu þrjótsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband