hux

Sigurrós býðst að flýja undan VG til Vestfjarða

Grímur Atlason, bæjarstjóri í Bolungarvík, hefur skrifað hljómsveitinni Sigurrós bréf en hljómsveitin stendur nú í stappi við meirihluta VG og Sjálfstæðisflokks í Mosfellsbæ út af umdeildri vegargerð. Bæjarstjórinn bendir þeim félögum í Sigurrós á að kosti þess að flytja til Vestfjarða. Þar eru víst engir vinstrigrænir vegagerðarmenn að raska ró manna.

Á bloggi bæjarstjórans segir:

Ég sendi Sigur Rósar mönnum bréf þar sem ég benti þeim á möguleikana hér fyrir vestan. Ég minntist ekkert á neikvæðan hagvöxt í bréfinu og að enn þyrfti að keyra á einbreiðum vegi í Mjóafirði á leiðinni til Reykjavíkur. Ég benti hins vegar á náttúruna og mannlífið hér – það er einstakt.

Leyndarmál afhjúpað: 35.000 sjálfstæðismenn í október 2005

Í Blaðinu í dag neitar Andri Óttarsson, nýr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, að svara spurningu blaðamanns um fjölda skráðra félaga í flokkinn. Aðrir framkvæmdastjórar stjórnmálaflokka, sem Blaðið leitar til, svara spurningunni fúslega.

Af þessu tilefni birti ég eftirfarandi tilvitnun í frásögn Mbl af ræðu Kjartans Gunnarssonar, forvera Andra, á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, föstudaginn 14. október 2005:

Kjartan fór í skýrslu sinni yfir starfsemi flokksins og sagði m.a. að útlit væri fyrir að flokkurinn yrði skuldlaus um næstu áramót. Hann sagði að rúmlega 35 þúsund félagsmenn væru í flokknum og þar af væru rúmlega sautján þúsund í Reykjavík. 

Það er svo forvitnilegt að velta því fyrir sér af hverju Andri kýs að svara ekki spurningu blaðamanns um þetta (og auðvitað líka af hverju Blaðið lætur það stoppa sig í að afla upplýsinga um fjölda skráðra flokksmanna). Einar Mar er með þessa skýringu: 

Stundum hef ég á tilfinningunni að ÞAÐ ER LEYNDÓ séu ósjálfráð viðbrögð Valhallarfólks við svona fyrirspurn.


Eimskip á nú Pósthúsið - sameinast dreifing Mbl og Fbl?

Eimskipafélagið hefur tekið yfir starfsemi Pósthússins, sem m.a. annast dreifingu Fréttablaðsins og annars efnis sem flæðir inn á heimili landsmanna. Einar Þorsteinsson, sem sóttur var til fyrirtækisins frá Íslandspósti árið 2004, lét af störfum fyrir nokkru.

Pósthúsið hefur verið rekið með miklu tapi tvö undanfarin ár. 365 hefur átt tæpan helming í félaginu en meðal annarra eigenda var lengi FL Group. Nú er það breytt og Eimskip er komið með þessa starfsemi undir sinn hatt. Hverjir eiga aftur Eimskip? Jú það eru meðal annars sömu aðilar og eiga nú með beinum og óbeinum hætti 66% hlutafjár í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, þ.e.a.s. Björgólfur Guðmundsson og tengdir aðilar.

Sú staðreynd gefur tilefni til þess að spurt sé hvort framundan sé sameining á dreifikerfum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins? Vilji eigenda Fréttablaðsins hefur lengi staðið til þess að ná samningum við Morgunblaðið um sameiginlega dreifingu enda er almennt ekki talið mikið vit í því að blöðin tvö séu að láta blaðbera sína elta hverja aðra hér um götur að næturlagi. Augljós hagkvæmnisrök mæli með sameiningu dreifingar og þannig geti blöðin betur einbeitt sér að því að keppa í blaðamennsku. Fréttablaðsmenn hafa árum saman reynt að ná saman um nýtt fyrirkomulag við Morgunblaðsmenn en ávallt talað fyrir daufum eyrum. Nú gæti nýtt hljóð verið komið í strokkinn.


Gandhi og Steingrímur

steingrigandhi2VG er stjórnmálahreyfing í anda Gandhi ef marka má skrif Andreu Ólafsdóttur, sem skipar 5. sætið á lista VG í Kraganum og er ein okkar Velvakendanna hér á spjallþræði Moggans. Það eru sannarlega athyglisverðar upplýsingar, þykja mér, hingað til hef ég ekki tengt þá mikið saman í andanum Steingrím J. Sigfússon og Mohandas (Mahatma) Gandhi, en ég held að Andrea sé örugglega að vísa til hins heimsþekkta andlega og pólitíska leiðtoga. 

Að vísu veit ég að þeir eru með sömu andlegu klippinguna Steingrímur og Gandhi en lengra hef ég nú ekki komist í að sjá samlíkinguna með þeirra pólitík hingað til. En það er kannski ekki að marka það, það eru komin allmörg ár síðan ég las sjálfsævisögu Gandhis, The Story of My Experiments with the Truth og ég hef enn ekki komið því í verk að lesa bókina sem Steingrímur J. gaf út nú fyrir jólin. Kannski ég geri það, ég hef lengi verið mjög svag fyrir andlegum meisturum af austræna skólanum, þ.e. austræna í merkingunni Indland og bæirnir þar í grennd en ekki Austur-Evrópa.

En nóg um það, ég ber mikla virðingu fyrir leit fólks að andlegum meisturum og í tilefni af þessum upplýsingum, sem mér finnast í fullri hreinskilni einhverjar merkastu upplýsingar um pólitíska ímynd og  hugmyndafræði á Íslandi sem ég hef lengi fengið, hef ég ákveðið að gleðja sjálfan mig og vonandi aðra með lítilli getraun fyrir þá sem kunna að eiga í erfiðleikum með að átta sig á hvað greinir að hugmyndafræðingana Steingrím og Gandhi en Steingrímur er sá á myndinni hér að ofan og til vinstri.

1. Hver sagði: Anger and intolerance are the twin enemies of correct understanding?
a. Gandhi
b. Steingrímur

2. Hver sagði: Er þetta þá allt okkur að kenna? Það er ekki nóg með að við þurfum að þola þig eins og þú ert, helvítis fíflið þitt?
a. Gandhi
b. Steingrímur

3. Hver sagði: Adaptability is not imitation. It means power of resistance and assimilation?
a. Gandhi
b. Steingrímur

4. Hver sagði stundarhátt "djöfulsins!" áður en hann strunsaði á dyr undir ræðu Björns Bjarnasonar á Alþingi fyrir réttri viku?
a. Gandhi
b. Steingrímur

5. Hver sagði: If I had no sense of humor, I would long ago have committed suicide?
a. Gandhi
b. Steingrímur

Rétt svör verða birt síðar í dag. 

Uppfært kl. 21.30. Rétt svör eru vitaskuld þau að meistari Gandhi á það sem er ritað á ensku en meistari Steingrímur það sem er á kjarnyrtri íslensku. Þetta vissi fyrstur manna hér í athugasemdakerfinu Hlynur Hallsson, varaþingmaður Steingríms og er honum þökkuð þátttakan sem og öðrum. Einnig komu margar ábendingar um að hér hefði ekki verið rifjuð upp ummæli Steingríms um gungur og druslur, gjarnan voru það pólitískir andstæðingar Gríms sem ekki vildu kommentera en komu því með öðru móti á framfæri. Því er til að svara að versið um gungur og druslur er úr öðrum húslestri sem verður fluttur næst þegar tilefni gefst til, sem áreiðanlega verður innan skamms.


Frábær leikur - súr úrslit

Þetta var einhver magnaðasti handboltaleikur sem ég hef séð, ótrúleg skemmtun, en það var ótrúlega vont á bragðið að tapa svona fyrir Dönum.

Það er eitt að tapa með einu marki á síðustu sekúndu í framlengingu fyrir Frökkum, Rússum, Spánverjum, Pólverjum, Þjóðverjum, Svíum en gegn Dönum er það extra súrt og situr lengi í munni.

Samt, frábær sóknarleikur, Snorri Steinn var algjörlega magnaður. Liðið er búið að standa sig frábærlega á þessu móti en það er alltaf þessi herslumunur.


mbl.is Draumurinn úti í Hamborg - Danir sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur vill bankana burt

Hagnaður viðskiptabankanna þriggja og Straums-Burðaráss mundi nægja til þess að reka ríkissjóð í átta mánuði. Í tilefni af því langar mig að rifja upp nýleg ummæli Ögmundar Jónassonar í samtali við Fréttablaðið 4. nóvember.

Ég geri ekki ágreining við þá sem kvarta undan vaxtamun og þjónustugjöldum bankanna en höldum því líka til haga að gríðarlegur vöxtur þeirra og hagnaður undanfarin ár hefur skilað þessu samfélagi öllu gríðarlegum hagnaði og m.a. átt þátt í því að hér hefur verið hægt að auka framlög til ýmissa velferðarmála. En líklega er Ögmundur ekki alveg sáttur, hann er á móti, og mér skilst að hann vilji frekar að samfélagið komist af án þessa hagnaðar bankakerfisins. Eða er Ögmundur ekki enn þeirrar skoðunar að það sé til vinnandi að senda viðskiptabankana úr landi til að geta aukið jöfnuðinn í samfélaginu niður á við? Honum er velkomið að svara spurningunni í athugasemdakerfinu.


mbl.is 45,2 milljarða hagnaður Straums-Burðaráss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svanfríður kennir daðri við D um fylgistap

Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar, skrifaði í liðinni viku  athyglisverðan pistil á heimasíðu sína um ástæður lélegrar útkomu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum. Hún er sammála þeim sem telja að daður forystu flokksins við Sjálfstæðisflokkinn sé meginskýring á hruni flokkksins í skoðanakönnunum. Svanfríður segir:

Það er alveg ljóst að ef Samfylkingin er hugsuð i samstarf við Sjálfstæðisflokkinn hefur hún misst uppruna hlutverk sitt sem var að mynda mótvægi við þann flokk; að bjóða uppá annan valkost í íslenskri pólitík en þann að Sjálfstæðisflokkurinn stjórni með einhvern hinna sem hækju. Þetta hækjuhlutverk hefur jafnan reynst flokkum illa eins og menn sjá ef litið er yfir feril þeirra flokka sem hafa unnið með Sjálfstæðisflokknum í undangengnum ríkisstjórnum. [...] Skoðun mín er sú að bara umræðan um samstarf Samfylkingar við Sjálfstæðisflokkinn sé banvæn fyrir Samfylkinguna. Hún getur hinsvegar verið frjósöm fyrir Sjálfstæðisflokkinn...

Svanfríður fer líka háðulegum orðum um kaffibandalagið og segir m.a.:

Það er svo sér kapítuli hvort fólk sem vill taka ábyrga afstöðu í pólitík getur stutt flokk sem gerir sig líklegan til að fara í samstarf við Frjálslyndaflokkinn.


mbl.is Stefán Jón: Kaffibandalagið mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föðurbróðir Margrétar kveður frjálslynda

Halldór Hermannsson, landskunnur kjaftaskur af Vestfjörðum, bróður Sverris Hermannssonar og einn stofenda Frjálslynda flokksins gerði upp við Guðjón Arnar og félaga í viðtali við Jóhann Hauksson, morgunhana Útvarps Sögu í morgun og segist ekki ætla að kjósa flokkinn.

Ég reyni að kjósa aðra flokka sem gætu fellt ríkisstjórnina, vinstri græna eða Samfylkinguna, segir Halldór í viðtalinu. Hann lýsir efasemdum um að unnt verði að vinna með frjálslyndum í ríkisstjórn í ljósi þess hverjir þar hafa nú tögl og hagldir, þ.e. Jón Magnússon og félagar úr Nýju afli.  Nánar hér.


Mannvinurinn frá Íslandi

Nú stendur yfir í Davos í Sviss árleg samkoma áhrifamanna hvaðanæva úr heiminum eins og mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum undanfarna daga. Meðal þeirra sem sótt hafa þessa samkomu er Björgólfur Thor Björgólfsson. Það er athyglisvert að lesa kynninguna á hinum unga íslenska auðjöfri á heimasíðu samkomunnar. Þar stendur:

Degree in Finance, New York University. Entrepreneur and philanthropist with investments focus on financial services, telecommunications, pharmaceuticals; Founder: Bravo Brewery, St Petersburg, Russia; Novator, London; leading owner: Novator; Straumur-Burdaras Investment Bank, Iceland; Bulgarian Telecommunication Company; Czeske Radiokommunicace; Landsbanki Islands (National Bank of Iceland), Actavis. Chairman: Novator; Straumur-Burdaras Investment Bank; Samson Holdings; Actavis.

Ég stóðst ekki mátið að feitletra orðið philanthropist sem þýðir bókstaflega mannvinur eða sá sem elskar mannkynið, og er nafnbót gefin þeim sem leggja mikið af mörkum til mannúðarmála og starfa í þágu mannkyns og að því að bæta hag náunga síns. Nú dreg ég í sjálfu sér ekki í efa að BTB standi undir þessari nafnbót en varð samt huxi þegar ég sá þetta enda hafa mannúðarstörf hans ekki verið áberandi í umræðunni hér á landi. Fyrst kemur í hugann stuðningur hans við leiklistarhópinn Vesturport og það ágæta framtak að skila Háskólasjóði Eimskipafélagsins aftur til Háskóla Íslands.  Kannski er eitthvað stórt í vændum frá BTB sem varpar skugga á nýjan sjóð þeirra Samskipshjóna. Og kannski starfar BTB bara að mannúðarmálum utan kastljóss fjölmiðla, ólíkt öðrum íslenskum ólígörkum? Amk þori ég að fullyrða að hann sé hér með orðinn fyrstur Íslendinga til þess að fá nafnbótina mannvinur á alþjóðlegum vettvangi og það í hópi manna á borð við Bill Gates og aðra slíka.

Gates er raunar ekki kynntur sem mannvinur á Davos-síðunni, þótt hann sé nú orðinn víðfrægur fyrir umfangsmestu mannúðarstörf sem sögur kunna frá að greina með stofnun sjóðsins sem kennd er hið hann sjálfan og eiginkonu hans, Melindu. Um Bill Gates segir þetta á Davos-síðunni: 

Began career in personal computer software at age of 13 and started programming. 1973, while undergraduate at Harvard University developed BASIC for first microcomputer; 1975, formed Microsoft with Paul Allen to develop software for personal computers. Chairman and Chief Software Architect, Microsoft Corporation; Co-Founder, Bill and Melinda Gates Foundation. Author of: The Road Ahead (1995); Business @ the Speed of Thought (1999).

Kannski vantar Bill Gates bara íslenskan PR-mann til að skrifa CV-ið sitt.


Stjörnuleikur Björgvins

Björgvin G. Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og ráðherraefni, hefur undanfarnar vikur átt hvern stjörnuleikinn á fætur öðrum í pólitíkinni. Meðan Össur Skarphéðinsson stýrir þingflokknum inn í málþóf á þingi og felur Merði Árnasyni forystu um það, meðan vaxandi örvænting vegna lítils fylgis í skoðanakönnunum er sýnileg í öllum yfirlýsingum Ingibjargar Sólrúnar á opinberum vettvangi andar Björgvin með nefinu og heldur uppi trúverðugum málflutningi sem vekur athygli út fyrir raðir flokksins. M.a. vakti á dögunum athygli þegar Björgvin brást markvisst  við gegn umræðunni um ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og talaði um mögulega sameiningu framsóknarmanna og krata í Samfylkingunni. 

Í dag birtist á Vefritinu viðtal við Björgvin í tilefni af afmælishátíð Grósku og er þar komið víða við, m.a. heldur Björgvin áfram að kveða þetta stef. Hann segir: 

Við eigum aldrei að hætta að samfylkja fólki vinstra megin við miðju, eða frá miðju til vinstri. Það er ekki fullreynt með það og langt í frá. Ég tel að stór hluti VG og þorri kjósenda Framsóknar séu frjálslyndir jafnaðarmenn í grunninn. Þeir eiga heima hjá okkur í stórri hreyfingu jafnaðarmanna. Hreyfingu á borð við breska Verkamannaflokkinn. Sundrungin tryggir hægri mönnum og Sjálfstæðisflokki endalaus völd. [...]Glæstustu sigrar okkar jafnaðarmanna eru tengdir sameiningu á borð við þessa; Reykjavíkurlistinn og Röskva. Ég ætla áfram að vinna að því. Verkefninu er ekki lokið.

Ég tel ljóst að ef niðurstöður kosninganna í vor gefa tilefni til samræðna Samfylkingar og Framsóknarflokks um ríkisstjórnarmyndun muni Björgvin G. Sigurðsson leika þar lykilhlutverk.


Þungur dómur

Jón Baldvin sparkaði milli fóta félaga sinna í Samfylkingunni í Silfri Egils í dag og felldi þungan dóm yfir flokknum í upphafi kosningabaráttunnar. Samfylkingin mun heyja þá baráttu með þau orð hins gamla yfir höfðum sér að við uppstillingu flokksins hafi mistekist að finna frambjóðendur sem njóta trausts. Hann er búinn að afskrifa Samfylkinguna sem valkost við Sjálfstæðisflokkinn og farinn að tala um nauðsyn þess að stofna nýjan flokk.


Óstjórntækur

Ég hef hvergi séð stjórnmálaályktun landsfundar frjálslyndra og hef þó leitað að henni á heimasíðu flokksins og helstu fréttasíðum. Ég hef hvergi heldur heldur heyrt í fréttatímum sagt frá málefnalegum samþykktum þingsins, allur fréttaflutningur hefur einblínt á hjaðningarvígin.

En kannski skiptir það ekki öllu máli. Það er augljóslega rétt sem einn nýjasti bloggarinn hér á blog.is, Eiríkur Bergmann, segir:


Magnús 369 - Margrét 314

Magnús Þór Hafsteinsson vann Margréti Sverrisdóttur í varaformannskosningum á landsfundi Frjálslyndra rétt í þessu með 369 atkvæðum gegn 314.

Lítill munur og lítil þátttaka, finnst mér, miðað við opinn fund þar sem allir gátu komið og kosið sem vildu.

Nú er Mogginn búinn að setja inn rangt tímasetta frétt um úrslitin, sem er tímasett 17.30 en kom inn meira en 10 mínútum síðar,

Athyglisvert í yfirlýsingum Margrétar þar að hún talar ekkert um málefnin. Hún boðar fund með stuðningsmönnum kl. 18 á mánudag en ræðir ekkert um afstöðu sína til þess stórpólitíska málefnis sem er í gangi á fundinum, sem er afgreiðsla á ályktun um málefni útlendinga. Í raun veit maður ekki enn afstöðu Margrétar til þeirrar ótrúlegu stefnumörkunar sem fram kom í setningarræðu formannsins, er hún sammála eða ekki?  Það er augljóst að Magnús og Guðjón Arnar ganga í takt í málinu en hver er afstaða Margrétar?


Addi Kitta Hagen?

Um fjórðungur af setningarræðu Guðjóns A. Kristjánssonar á landsfundi Frjálslynda flokksins fjallaði um málefni útlendinga. Þar kvað við hvassari tón en ég hef áður heyrt hjá Guðjóni og raunar hvassari en ég minnist þess að hafa heyrt hjá Magnúsi Þór Hafsteinssyni.

Ég fór á netið í leit að greinum um sögu norska Framfaraflokksins, sem Carl I. Hagen stýrði lengstum en nú Siv Jensen, og danska Þjóðarflokksins hennar Piu Kjærsgaard, og sýnist að sögulegar hliðstæður við það sem er að gerast hjá Frjálslyndum séu sláandi. Við erum að eignast okkar eigin hægrisinnaða pópúlistaflokk.

Björn Ingi er búinn að lista upp þau atriði sem Guðjón kom inn á í sambandi við málflutning sinn um útlendinga. Ég ætla ekki að rekja þau í smáatriðum en bendi á að þar er ýtt undir ótta með því að tala um sakarferil útlendinga, gert út á ótta við berkla og smitsjúkdóma og rætt um nauðsyn þess að hygla menntuðu vinnuafli umfram ófaglært. Það er talað um að ástæða sé til að beita  neyðarréttarákvæðum EES-samningsins hér og nú í landi þar sem er þensla og full atvinna. Það vakti athygli mína hve litla athygli þessi efnisatriði vöktu í fréttatímum.

En ég fann t.d. þessa ágætu grein á netinu þar sem fjallað er um norska Framfaraflokkinn og danska Þjóðarflokkinn. Mér finnst hún stuðla að því að eftir ræðu Guðjóns verði Frjálslyndi flokkurinn að þola það að um hann sé fjallað í sömu andrá og þessa systurflokka hans á Norðurlöndum. Til dæmis virðist þetta (bls. 6) eiga vel við:

The first manifestos did not even mention immigration and in the second manifesto of the Norwegian party (1977-1987), it was mentioned only in connection with unemployment. To secure employment, restrictions on immigration should be strictly enforced. [...] Both Hagen (Norway) and Kjærsgaard (Denmark) have been keen to underline that their criticism is directed against policies, not against individual refugees. Strictly speaking, the parties cannot be accused of racism, perhaps not even of xenophobia. They also dissociate themselves from other xenophobic parties in Western Europe.

Það er einnig fróðlegt að lesa sér til um það að þegar norski framfaraflokkurinn fór að auka áherslu á málefni útlendinga kom til mikils uppgjörs innan hans sem lauk með klofningi. Kannski sú norska saga muni  endurtaka sig þessa helgina hér í Reykjavík.


Kotungskróna II

"Ég tel að við búum ekki við nægilega festu í stjórnarfari og hagkerfi okkar er svo lítið ogkotungskrónan óvarið að það borgi sig ekki fyrir okkur að halda uppi sjálfstæðum gjaldmiðli. Það er í sjálfu sér ekki órökréttara að nota erlendan gjaldmiðil eins og til dæmis bandaríkjadal en að nota erlendar mælieiningar eins og metra og lítra í stað álna og feta. Peningar eiga að vera fastur mælikvarði á verðmæti."

Hannes H. Gissurarson hefur orðið í viðtali í Morgunblaðinu 17. nóvember 1988. Ungur og mjög efnilegur blaðamaður, sem tók viðtalið, spyr Hannes í framhaldi af þessu hvort það sé ekki spurning um stolt fyrir þjóðina að hafa eigin gjaldmiðil. Hannesi varð ekki orða vant þennan daginn frekar en flesta aðra:

"Íslenska krónan er ekkert til að vera stoltur af. Hún er kotungskróna, sem hefur verið að hríðfalla í verði. Meðan hún var á gullfæti voru peningamál í bestum skorðum og einkabanki gaf hér út krónur, sem voru innleysanlegar í gulli. Mínar hugmyndir eru að vissu leyti afturhvarf til þess tíma, í stað gullfótar mætti koma dollarafótur."

Nú væri gaman að heyra Hannes útskýra hvaða afstöðu hann hefur til krónunnar í dag og líka muninn á hugmyndum hans um dollarafót fyrir gjaldmiðilinn og hugmyndum t.d. Valgerðar Sverrisdóttur og Friðriks Baldurssonar um upptöku Evru án inngöngu í ESB.


Samfylkingin bíður með uppstillingu vegna Margrétar

Margrét Sverrisdóttir var að staðfesta í Sjónvarpsfréttum að fólk úr öðrum flokkum hefði komið að máli við hana og boðið henni sæti á framboðslistum.

Samfylkingin í Reykjavík er enn ekki búin að kynna sína framboðslista þótt prófkjör hafi þar verið haldið snemma í nóvember.  Ein helsta ástæða þess er sú að menn vilji bíða og sjá hvernig mál þróast í Frjálslynda flokknum.

Fari svo að Margrét og hennar fólk verði undir gefist gott færi á að bjóða henni sæti á lista í Reykjavík og er þá talað um 5. sætið í öðru hvoru kjördæminu.  Margrét hefur átt gott samstarf við ýmsa úr Samfylkingunni, þar á meðal formanninn, Ingibjörgu Sólrúnu.

Nú er líka komið í ljós að allar helstu konur innan Frjálslynda flokksins eru á bandi Margrétar, þar á meðal Sigurlín Margrét, sem karlarnir í flokknum ætla að láta víkja úr leiðtogasæti í Kraganum til að skapa pláss fyrir Valdimar Leó Friðriksson.  Það væri mikið kúpp fyrir Samfylkinguna að landa Margréti, Sigurlín, Guðrúnu Ásmundsdóttur og helstu konum Frjálslynda flokksins í sínar raðir fyrir kosningabaráttuna í vor. Sú gæti orðið niðurstaðan ef Margrét tapar fyrir Magnúsi Þór um helgina.


Kotungskrónan

"Þegar litið er yfir sögu peningamála á Íslandi, frá stofnun Seðlabankans blasir við ófögur mynd: Bankanum hvar (svo) ætlað að halda verðgildi peninga stöðugu en krónan hefur síðasta aldarfjórðunginn minnkað og er orðin sannkölluð "kotungskróna" eins og Jón Þorláksson hefði orðað það."

kronaÞessi ummæli lét Hannes H. Gissurarson falla í grein sem hann birti um Jóhannes Norðdal, fyrrverandi Seðlabankastjóra, í Morgunblaðinu sunnudaginn 11. maí árið 1986.  Á þeim tíma var þetta orð, kotungskróna, á vörum margra framámanna í Sjálfstæðisflokknum. Þetta var í þá tíð sem ný kynslóð var að taka við völdum í flokknum. Einkum var þó Hannes duglegur að ræða þessi mál og gagnrýna Seðlabankann og íslensku krónuna.

Eitthvað hefur breyst síðan, kannski  það að réttu mennirnir náðu völdum í kotinu? Líklega. Hvað sem því líður er langt síðan þessi frasi hefur heyrst, kotungskróna. Hann virðist eiga vel við í dag þegar krónan er ekki gjaldmiðill annarra en íslenskra kotbænda en stórbændur og aðrir höfðingjar hafa sinn eigin lögeyri.


40 tonn af ísjökum til Stokkseyrar

Ég veit ekki hvort einhverjir muna eftir því þegar ísjaki úr Jökulsárlóni var fluttur suður til Frakklands og látinn bráðna þar í þágu framboðs Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ég veit ekki hvort Stokkseyri stefnir að því að láta að sér kveða á vettvangi SÞ í framtíðinni en alla vegana eru þeir farnir að sanka að sér ísjökum úr Jökulsárlóni og fluttu um helgina 40 tonn af klaka í bæinn. Klakinn verður víst varðveittur þar um ókomna tíð í nýja álfa-, trolla og norðurljósasafninu. 

Það að varðveita eigi klakann um ókomna tíð á Stokkseyri bendir til þess að það verði býsna kalt í nýja safninu. Kannski er best að geyma álfa og tröll í frysti.


mbl.is Framkvæmdir við nýtt safn á Stokkseyri án leyfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fast skot

Sme skýtur fast á Fréttablaðið: 

Ég þekki líka dæmi sem bendir til þess að Fbl þyki minna en áður til um að vaðið sé yfir fólk á síðum blaðsins og sem gamall aðstandandi og velunnari blaðsins hef ég áhyggjur af því að yfirmenn ritstjórnarinnar sjái nú ekki  ástæðu til að svara eða bregðast með neinum hætti við þegar kvartað er  undan tilhæfulausum ásökunum og ærumeiðingum í blaði sem fleygt er óumbeðið inn á gólf heimilanna í landinu.


Doh!

Leiðari Fréttablaðsins:

Hver hefði til að mynda trúað því að óreyndu að fleiri stuðningsmenn Vinstri grænna vildu sjá Ríkisútvarpið hverfa af auglýsingamarkaði en stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks, eins og kemur fram í könnun Fréttablaðsins?

Ég held að margir sem fylgst hafa með íslenskri pólitík hafi fyrir nokkru síðan tekið eftir því að VG er oftar en ekki andvígt markaðsviðskiptum og hlynnt opinberum rekstri og áætlanabúskap. Ég gæti best trúað því að stór hluti stuðningsmanna VG sé almennt á móti auglýsingum í fjölmiðlum. Ég held að meirihluti stuðningsmanna VG sé ekki á móti þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði af umhyggju fyrir einkamiðlum heldur af andstöðu við viðskiptalífið og jafnvel nútímann almennt. Andstaðan við RÚV lögin var tvenns konar, VG var einróma í sinni vinstri gagnrýni en innan annarra flokka mátti finna talsmenn þess að með lögunum væri þrengt um of af samkeppnisstöðu einkamiðla. Það kann að vera að slík sjónarmið sé að finna innan VG en hvar komu þau fram í umræðunni þessar 170 klukkustundir?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband