Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
23.5.2007 | 10:02
Óvenjulegur stjórnmálamaður
Tímasetningin kemur kannski á óvart en ekki hitt að Jón kjósi að segja af sér formennsku fyrst hann náði ekki kjöri á þing. Ég taldi að hann mundi bíða miðstjórnarfundar í fyrrihluta júní en hann hefur kosið að hætta strax eftir að fyrirætlanir hans fóru að kvisast út og ekki talið eftir neinu að bíða þegar ný ríkisstjórn hafði verið mynduð. Gott að fá þetta á hreint.
Jón varð formaður með óvenjulegum og umdeilanlegum hætti. Þann skamma tíma sem hann var formaður ávann hann sér traust og væntumþykju flokksmanna. Hann var reyndur stjórnmálastarfi frá fyrri árum og það sást á stundum að hann naut sín ekki í sviðsljósi fjölmiðlanna. Hann sagðist vilja gera skyldu sína þegar hann svaraði kalli forvera síns og enginn getur sagt annað en að hann hafi gefið allt sem hann átti. Í persónulegri viðkynningu er maðurinn afskaplega eftirminnilegur, hlýr, glettinn og ótrúlega skarpur og vel að sér um flesta hluti. Á skömmum tíma innleiddi hann nýja stjórnunarhætti í Framsóknarflokknum og var það tímabær og nauðsynleg aðgerð. Ég hygg að hann hafi verið mesti samráðsstjórnmálamaðurinn á íslensku stjórnmálasviði á sínum formannsferli. Í öllum málum hafði hann hagsmuni þeirrar 12.000 manna hreyfingar sem hann stýrði í huga og var þess ávallt minnugur til hverra hann sótti umboð sitt. Ég hef sjaldan kynnst manni sem er jafn laus við hégómleika og sjálfhverfu. Ég vona að Jóni vegni vel í framtíðinni og veit að það verður fengur að honum hvar sem hann kýs að hasla sér völl.
Jón Sigurðsson segir af sér formennsku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.5.2007 | 09:24
Nýr auglýsingamiðill !
23.5.2007 | 09:12
Sannar sögur úr sveitum
Heyrði í gær tvær ágætar sögur úr kosningabaráttunni sem ég ætla að miðla hér áfram.
Fyrst þessi: Maður af höfuðborgarsvæðinu, sem nú er orðinn landsbyggðarþingmaður, kom á bóndabæ þar sem verið var að rýja fé. Hann horfði á atganginn og spurði bóndann: Eru menn hættir að taka gæruna um leið og ullina?
Svo þessi: Einn duglegasti landsbyggðarþingmaðurinn er sagður keyra um 100.000 km á ári. Varla fer svo fram útför í kjördæminu að hann sé ekki á meðal syrgjenda. Nýlega var hann einn þriggja gesta í kirkju þar sem öldruð kona var jarðsungin. Hinir tveir kirkjugestirnir litu á manninn og annar spurði: Hver er þetta? Þetta er útfararstjórinn, sagði hinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.5.2007 | 21:53
Frekar rýr hlutur Samfylkingar
Björgvin G. Sigurðsson er nýr ráðherra og fylgja honum hinar bestu hamingjuóskir frá þessari bloggsíðu í viðskiptaráðuneytið. Áreiðanlega framtíðarmaður. En ríki hans er lítið, og meira að segja óvíst hvar ráðherraskrifstofuna er að finna. Það verður fyrsta verkefni Björgvins að láta búa til handa sér skrifstofu því iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur verið óskipt árum saman og þar er aðeins ein ráðherraskrifstofa. Þangað sest áreiðanlega Össur Skarphéðinsson, ráðherra iðnaðar- og byggðarmála, en á þeim sviðum starfa um það bil 2/3 hlutar af sérfræðingum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Össur tekur að auki ferðamál með sér undan samgönguráðuneytinu.
Kannski verða svo flutt verkefni yfir til viðskiptaráðuneytis Björgvins, e.t.v. utanríkisviðskipti frá utanríkisráðuneyti, e.t.v. húsnæðismál frá félagsmálaráðuneytinu, e.t.v. fær hann líka Hagstofuna.
Kristján L. Möller verður samgönguráðherra, það er frekar gamaldags ráðstöfun, þykir mér, að setja fyrirgreiðslupólitíkus af landsbyggðinni í samgönguráðuneytið þegar brýnustu verkefnin bíða hér á höfuðborgarsvæðinu. En Kristján er þungaviktarmaður innan þingflokksins og hann fær sem sagt að verða maðurinn sem vígir Héðinsfjarðargöngin sem tengja heimabyggð hans við Eyjafjarðarsvæðið. Kannski kemur hann svo Vaðlaheiðargöngum á dagskrá innan tíðar.
Jóhanna Sigurðardóttir er heimavön í félagsmálaráðuneytinu, sem nú verður eflt og við það bætt tryggingamálum, þ.e. elli- og örorkulífeyrismálum og málefnum aldraðra, þar á meðal hjúkrunarheimilum, ef ég skil rétt. Jóhanna gjörþekkir þennan málaflokk og þessi endurskipulagning held ég að sé að flestu leyti skynsamleg. En þessi breyting hlýtur að kalla á lagabreytingar og bandorm strax á sumarþingi. Kannski þarf að gera meiri breytingar á stjórnarráðslögunum og er það hið besta mál.
Þórunn Sveinbjarnadóttir er líka vel komin að ráðherrastól, hún hefur setið á þingi síðan 1999 og m.a. setið í umhverfinefnd og sýnt þeim málum mikinn áhuga.
En það er talað um tveggja ára stóriðjuhlé, hvað þýðir það í raun? Tefur það framkvæmdir sem hafist hefðu innan tveggja ára? Ég held að engar framkvæmdir hefðu hafist innan tveggja ára. Talað er um rammaáætlunin sem ljúka á innan tveggja ára? Samkvæmt áætlun Jóns Sigurðssonar átti vinnu við hana að ljúka árið 2010. Þetta þýðir kannski að áætlunargerðinni lýkur ári fyrr en ráðgert hafði verið, þannig að mér sýnist þetta vera hálfgerður spuni.
Ég held það verði ekki horft fram hjá því að í raun er hlutur Samfylkingarinnar talsvert rýrari en Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir þessa endurskipulagningu einstakra skrifstofa innan ráðuneytanna. Vissulega er endurskipulagning félagsmálaráðuneytisins nokkuð veigamikil en það er engu að síður svo að auk forsætis- og fjármálaráðuneytis hefur Sjálfstæðisflokkurinn langstærstu útgjaldaráðuneytin, - helbrigðis- og menntamálaráðuneytin.
En nýrri ríkisstjórn og öllum ráðherrum beggja flokka fylgja bestu óskir, megi störf þeirra verða landi og þjóð að sem mestu gagni. Á morgun lítur málefnasamningur dagsins ljós og þá verður hægt að ræða hvaða verkefni þessi ríkisstjórn hyggst vinna. Einhverjir voru að tala um að þetta yrði frjálshyggjustjórn, það held ég varla, stjórnin mun væntanlega bera mikið svipmót af miðjupólitík. Bæði eru mestu frjálshyggjumennirnir í vörn í Sjálfstæðisflokknum og eins hefur Samfylkingin sótt mikið inn á miðjuna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.5.2007 | 20:34
Guðlaugur Þór inn - hvar verður skrifstofa viðskiptaráðherrans?
Sjálfstæðismenn halda sínu striki óháð fréttum af því að kynjahlutfall í ráðherraliði Samfylkingarinnar verði jafnt. Þorgerður Katrín er eina konan í ráðherraliði flokksins, nú eins og áður. Stærsti flokkur landsins blæs eins og jafnan á umræður um kynjakvóta.
Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra, mér fannst blasa við að hann yrði ráðherra, oddviti flokksins í Reykjavík norður og mikill áhrifamaður um gæfu og gengi manna í prófkjörum víða um land á liðnum vetri. Heilbrigðisráðuneytið er mikil áskorun fyrir hann. Guðlaugur Þór mun jafnframt hætta sem formaður Orkuveitu Reykjavíkur, eins og um var samið og tilkynnt þegar meirihlutinn í borgarstjórn var myndaður fyrir ári síðan.
Nú verða almannatryggingar teknar undan heilbrigðisráðuneytinu og fluttar undir félagsmálaráðuneyti. Ætli eitthvað verði tekið undan félagsmálaráðuneytinu í staðinn? T.d. málefni sveitarfélaga flutt til dómsmálaráðuneytis eða jafnvel húsnæðismálin færð undir viðskiptaráðuneytið eða fjármálaráðuneyti? Seinni kosturinn gæti verið valinn ef ætlunin er að einkavæða Íbúðalánasjóð.
Þá var augljóst orðið að Björn Bjarnason héldi sínu ráðherraembætti, atlaga Jóhannesar í Bónus setti Geir í þá stöðu að við Birni varð ekki hróflað og líklega ekki ástæða til, Björn hefur átt farsælan feril þótt hann þurfi að una því eins og aðrir menn að verk hans geta orkað tvímælis. Sturla rýmir til, hann hefur verið ráðherra líklega í ein sjö ár og verið óvinsælasti ráðherra landsins skv. Gallup lengst af þeim tíma.
Annars er greinilegt að Samfylkingin er hér að fá mjög rýran hlut, hún hefur minni áhrif með sína 18 þingmenn en framsókn hafði með 12 þingmenn. Samfylkingin þarf að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti upp milli tveggja ráðherra, það verður ekki einu sinni til skrifstofa fyrir annan þeirra án þess að gripið verði til æfinga, eða hvað? Þannig að einn ráðherra Samfylkingarinnar verður ráðherra án skrifstofu. Ætli sá skrifstofulausi fái Hagstofuna í sárabót?
Það er varla hægt að tala um helmingaskipti í stjórnarsamstarfinu þótt þau séu í fjölda ráðherrastóla. Vigtin er miklu meiri sjálfstæðismannamegin. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjármálaráðuneyti og tvö langstærstu útgjaldaráðuneytin, menntamála- og heilbrigðisráðuneyti. Samgönguráðuneytið fer til Samfylkingar, ætli hún láti það landbyggðarþingmanni eftir eða verða mörkuð ákveðin tímamót og þingmanni af höfuðborgarsvæðinu falið forræði samgöngumála í fyrsta skipti? Það yrði nú fagnaðarefni.
Ps. Það var athyglisvert að hlusta á Jóhönnu Vigdísi, sem hefur sinnt þingfréttum árum saman, tala um það úr Valhöll áðan að Geir H. Haarde væri að tilkynna þingmönnum sjálfstæðismanna hverjir yrðu ráðherrar. Spurði svo Geir hvernig þingmenn hefðu tekið tíðindunum. Geir svaraði sem von var að tillaga hans hefði verið samþykkt samhljóða. Þannig að þingkonur sjálfstæðismanna hafa samþykkt samhljóða tillögu um að ráðherraembættum yrði skipt milli fimm karla og einnar konu. Formaðurinn gerir tillögu um skipun ráðherra en þingflokkurinn kýs um þá tillögu. Umboð ráðherranna byggist á stuðningi þingmannanna, en ekki tillögu formannsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.5.2007 | 18:46
Spá um ráðherralista Samfylkingar
Ingibjörg Sólrún verður utanríkisráðherra segir RÚV og það stemmir við það sem ég hef heyrt.
Aðrir ráðherrar Samfylkingar spái ég að séu: Össur, Jóhanna, Þórunn, Kristján L. Möller og Björgvin G. Sigurðsson. Gunnar Svavarsson gæti steypt Björgvin af þessum lista.
Heyri að Sjálfstæðisflokkurinn fái heilbrigðisráðuneytið og það er rætt um að dýralækinirinn Árni M. Mathiesen setjist þangað. Hver verður þá fjármálaráðherra? Einar Kristinn, ef til vill.
Það er líka sagt að iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti verði skipt upp og að sami maður verði gerður atvinnuvegaráðherra Samfylkingarmegin, eða amk landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Kemur í ljós í kvöld.
Það er djarfur leikur hjá Ingibjörgu Sólrúnu að fara í utanríkisráðuneytið, lítið bara á reynslu Halldórs Ásgrímssonar, Jóns Baldvins og Steingríms Hermannssonar, það var formennsku þeirra ekki til framdráttar að vera í utanríkisráðuneytinu. Hins vegar gæti þetta verið til marks um mikla áherslu á utanríkismál af hálfu nýju stjórnarinnar og þá kemur sambandið við ESB fyrst upp í hugann.
Mogginn segir hér að Geir hafi kynnt þingmönnum málefnasamninginn en meginefni fundarins hefur sjálfsagt verið að kanna hug þingflokksins til þess hvernig eigi að skipa ráðherrastóla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.5.2007 | 13:29
Engin uppstokkun stjórnarráðs?
Ég var að leyfa mér að vona að nýja ríkisstjórnin byrjaði á því að endurskipuleggja stjórnarráðið og fækka ráðuneytum. Kannski er ég að lesa of mikið í þessa yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar en mér finnst eins og hún bendi til þess að menn ætli að halda sama stólafjölda, 12 ráðherrar, þar á meðal sérstakur landbúnaðarráðherra og sérstakur sjávarútvegsráðherra.
uppfært kl. 16.13. Heyri að þótt stólafjöldinn verði sá sami kunni e.t.v. að verða einhver breyting, t.d. eru iðnðaar- og viðskiptaráðuneyti tvö ráðuneyti þótt sami ráðherrann hafi verið yfir þeim í síðustu ríkisstjórnum.
Ingibjörg Sólrún: Skipting kynja í ráðherraembættum jöfn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.5.2007 | 10:46
Báðir flokkar undirbúa fundi í kvöld
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2007 | 23:38
Nú og þá
"Nú er tækifæri til að binda endi á einokun hægri manna á lyklavöldunum að stjórnarráði Íslands og ljúka því tímabili að allar kosningar snúist um það hvern Sjálfstæðisflokknum þóknist að taka með sér inn í hlýju valdins," skrifaði Björgvin G. Sigurðsson, ráðherraefni í væntanlegri ríkisstjórn, í vetur er leið. Björgvin hefur verið manna áhugasamastur um að Samfylkingin verði mótvægi í íslenskum stjórnmálum við Sjálfstæðisflokkinn. Björgvin sagði:
Án sterkar Samfylkingar er ekkert mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn í póltíkinni. Þá deilir þessi hægri sinnaðasti íhaldsflokkur í Evrópu áfram og drottnar einsog hann hefur gert síðastliðin sextíu ár. Þá hófst stórverldistími hans með síendurteknum klofningi jafnaðar- og vinstri manna. Nú er mál að linni.
Síðan þetta:
Fái Samfylkingin góða kosningu verður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður flokksins, fyrst kvenna til að gegna embætti forsætisráðherra á Íslandi. Það verður merkur áfangi í baráttu kvenfrelsissinna og jafnaðarmanna fyrir raunverulegu jafnrétti karla og kvenna.[,,,] Það verður að grípa til róttækari aðgerða en gert hefur verið til að ná árangri og raunverulegu jafnrétti kynjanna. Ingibjörg Sólrún í embætti forsætisráðherra myndi skipta þar gífurlegu máli. Því verða konur og jafnréttissinnar af báðum kynjum að standa þétt að baki framboðum Samfylkingarinnar um land allt.
Lesist í heild hér.
21.5.2007 | 20:19
Þættinum hefur borist bréf
Kæri Hinrik, útgerðarmaður á Flateyri,
Það er erfitt að hlusta á þær fréttir sem berast nú af Flateyri. 120 manns sem missa vinnuna og byggðarlagið í áfalli og gríðarlegir erfiðleikar framundan. Fasteignir nánast verðlausar og litla sem enga atvinnu að fá þarna.
Nú kann þessi tillaga mín að virðast algerlega óviðeigandi , en í ljósi þess að skv. fréttum er verðmæti gjafakvótans sem Kambur á - og er að selja þessa dagana, um 7 Þúsund milljóna króna virði þá er spurning hvort Kambur gæti kannskti styrkt hvern starfsmann hjá sér um segjum 10 milljónir ?
Eftir stæðu 5.800 milljónir sem ætti að duga vel til elliáranna - og ef þú vilt vera virkilega höfðingjalegur þá myndu t.d. 20 milljónir gera kraftaverk fyrir flesta starfsmennina en þá ættir þú ekki nema um 4.600 millljónir eftir.
Eins og ég segi að ofan, þá biðst ég afsökunar ef þessi tillaga er dónaleg eða óviðeigandi í þínum augum - en einhvern veginn finnst manni að hluti af þessum 7 þúsund milljóna gjafakvóta ætti að renna til starfsmanna sem nú sjá ekkert framundan nema hrun og erfiðleika.
En kannski er það algerlega óviðeigandi og fáranleg tilhugsun og gjafakvótinn sé séreign útgerðarmanna - hvað veit ég, borgarbarnið sem aldrei hefur migið í saltan sjó?
Þú kannski lætur mig vita?Bestu kveðjur,
Jón Sigurðsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 28
- Frá upphafi: 536847
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar