hux

Óvenjulegur stjórnmálamaður

Tímasetningin kemur kannski á óvart en ekki hitt að Jón kjósi að segja af sér formennsku fyrst hann náði ekki kjöri á þing. Ég taldi að hann mundi bíða miðstjórnarfundar í fyrrihluta júní en hann hefur kosið að hætta strax eftir að fyrirætlanir hans fóru að kvisast út og ekki talið eftir neinu að bíða þegar ný ríkisstjórn hafði verið mynduð. Gott að fá þetta á hreint.

Jón varð formaður með óvenjulegum og umdeilanlegum hætti. Þann skamma tíma sem hann var formaður ávann hann sér traust og væntumþykju flokksmanna. Hann var reyndur stjórnmálastarfi frá fyrri árum og það sást á stundum að hann naut sín ekki í sviðsljósi fjölmiðlanna. Hann sagðist vilja gera skyldu sína þegar hann svaraði kalli forvera síns og enginn getur sagt annað en að hann hafi gefið allt sem hann átti. Í persónulegri viðkynningu er maðurinn afskaplega eftirminnilegur, hlýr, glettinn og ótrúlega skarpur og vel að sér um flesta hluti. Á skömmum tíma innleiddi hann nýja stjórnunarhætti í Framsóknarflokknum og var það tímabær og nauðsynleg aðgerð. Ég hygg að hann hafi verið mesti samráðsstjórnmálamaðurinn á íslensku stjórnmálasviði á sínum formannsferli. Í öllum málum hafði hann hagsmuni þeirrar 12.000 manna hreyfingar sem hann stýrði í huga og var þess ávallt minnugur til hverra hann sótti umboð sitt. Ég hef sjaldan kynnst manni sem er jafn laus við hégómleika og sjálfhverfu. Ég vona að Jóni vegni vel í framtíðinni og veit að það verður fengur að honum hvar sem hann kýs að hasla sér völl.


mbl.is Jón Sigurðsson segir af sér formennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég þekki ekki til innanhússmála Framsóknarflokksins eða hvernig Jóni vegnaði þar, en dreg þó af reynslu ekki í efa að hann hafi hrist þar upp í hlutunum á skömmum tíma. Svipað og hann gerði t.d. sem stjórnarformaður Byggðastofnunar. En sem fyrrum samstarfsmaður Jóns hjá Samtökum atvinnulífsins vil ég kvitta undir allt það sem þú segir hérna Pétur um Jón sem persónu, og gera að mínum þessi orð þín: "Ég hef sjaldan kynnst manni sem er jafn laus við hégómleika og sjálfhverfu." Jón hefur ótal sinnum látið sína eigin þrengri hagsmuni mæta afgangi heldur látið sín verk og sínar áherslur á þeim sviðum sitja í fyrirrúmi. Það verður, eins og þú segir Pétur, fengur að Jóni hvar sem hann kýs að hasla sér völl, þvílíkur reynslubanki, þekkingarbanki, sjónarmiðasættir, frumkvöðull, skipulagsgúrú og vinnuþjarkur sem maðurinn er.

Gústaf Adolf Skúlason (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 10:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband