hux

Frekar rýr hlutur Samfylkingar

Ekkert kemur á óvart við ráðherralista Samfylkingarinnar, þarna eru þeir einstaklingar að fá framgang sem ég spáði hér að yrðu fyrir valinu.

Björgvin G. Sigurðsson er nýr ráðherra og fylgja honum hinar bestu hamingjuóskir frá þessari bloggsíðu í viðskiptaráðuneytið. Áreiðanlega framtíðarmaður. En ríki hans er lítið, og meira að segja óvíst hvar ráðherraskrifstofuna er að finna. Það verður fyrsta verkefni Björgvins að láta búa til handa sér skrifstofu því iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur verið óskipt árum saman og þar er aðeins ein ráðherraskrifstofa. Þangað sest áreiðanlega Össur Skarphéðinsson, ráðherra iðnaðar- og byggðarmála, en á þeim sviðum starfa um það bil 2/3 hlutar af sérfræðingum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Össur tekur að auki ferðamál með sér undan samgönguráðuneytinu.

Kannski verða svo flutt verkefni yfir til viðskiptaráðuneytis Björgvins, e.t.v. utanríkisviðskipti frá utanríkisráðuneyti, e.t.v. húsnæðismál frá félagsmálaráðuneytinu, e.t.v. fær hann líka Hagstofuna.

Kristján L. Möller verður samgönguráðherra, það er frekar gamaldags ráðstöfun, þykir mér, að setja fyrirgreiðslupólitíkus af landsbyggðinni í samgönguráðuneytið þegar brýnustu verkefnin bíða hér á höfuðborgarsvæðinu. En Kristján er þungaviktarmaður innan þingflokksins og hann fær sem sagt að verða maðurinn sem vígir Héðinsfjarðargöngin sem tengja heimabyggð hans við Eyjafjarðarsvæðið. Kannski kemur hann svo Vaðlaheiðargöngum á dagskrá innan tíðar.

Jóhanna Sigurðardóttir er heimavön í félagsmálaráðuneytinu, sem nú verður eflt og við það bætt tryggingamálum, þ.e. elli- og örorkulífeyrismálum og málefnum aldraðra, þar á meðal hjúkrunarheimilum, ef ég skil rétt. Jóhanna gjörþekkir þennan málaflokk og þessi endurskipulagning held ég að sé að flestu leyti skynsamleg. En þessi breyting hlýtur að kalla á lagabreytingar og bandorm strax á sumarþingi. Kannski þarf að gera meiri breytingar á stjórnarráðslögunum og er það hið besta mál.

Þórunn Sveinbjarnadóttir er líka vel komin að ráðherrastól, hún hefur setið á þingi síðan 1999 og m.a. setið í umhverfinefnd og sýnt þeim málum mikinn áhuga.

En það er talað um tveggja ára stóriðjuhlé, hvað þýðir það í raun? Tefur það framkvæmdir sem hafist hefðu innan tveggja ára? Ég held að engar framkvæmdir hefðu hafist innan tveggja ára. Talað er um rammaáætlunin sem ljúka á innan tveggja ára? Samkvæmt áætlun Jóns Sigurðssonar átti vinnu við hana að ljúka árið 2010. Þetta þýðir kannski að áætlunargerðinni lýkur ári fyrr en ráðgert hafði verið, þannig að mér sýnist þetta vera hálfgerður spuni.

Ég held það verði ekki horft fram hjá því að í raun er hlutur Samfylkingarinnar talsvert rýrari en Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir þessa endurskipulagningu einstakra skrifstofa innan ráðuneytanna. Vissulega er endurskipulagning félagsmálaráðuneytisins nokkuð veigamikil en það er engu að síður svo að auk forsætis- og fjármálaráðuneytis hefur Sjálfstæðisflokkurinn langstærstu útgjaldaráðuneytin, - helbrigðis- og menntamálaráðuneytin.

En nýrri ríkisstjórn og öllum ráðherrum beggja flokka fylgja bestu óskir, megi störf þeirra verða landi og þjóð að sem mestu gagni. Á morgun lítur málefnasamningur dagsins ljós og þá verður hægt að ræða hvaða verkefni þessi ríkisstjórn hyggst vinna. Einhverjir voru að tala um að þetta yrði frjálshyggjustjórn, það held ég varla, stjórnin mun væntanlega bera mikið svipmót af miðjupólitík. Bæði eru mestu frjálshyggjumennirnir í vörn í Sjálfstæðisflokknum og eins hefur Samfylkingin sótt mikið inn á miðjuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varðandi KLM - margir telja að hann muni m.a. koma heilsársvegi yfir Kjöl á dagskrá. Vaðlaheiðargöngin eru eiginlega komin í farveg og varla tefur hann þau.

forvitinn (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 06:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband