hux

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Hjólbarðar og blóm

Mér skilst að ef maður kaupir dekk undir bílinn sinn séu uppundir 75% líkur á að maður sé að versla við Bjarna Benediktsson, alþingismann og verðandi formann Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni á Essó og Bílanaust en hann og viðskiptafélagar hans hafa líka verið að kaupa ýmis smá og stór fyrirtæki í bransanum. 

Og þegar ég er búinn að kaupa dekk og ætla að fá mér blómvönd eru víst u.þ.b. 60% líkur á að ég kaupi þau af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Hann á Blómaval, sem er langstærsti innflytjandi blóma, og svo er hann búinn að vera að kaupa Blómaverkstæði Binna, Kringlublóm, Smárablóm og fleiri blómabúðir. Það sem búðirnar hans Jóns Ásgeirs kaupa ekki af Jóni Ásgeiri í heildsölu kaupa Hagkaup og Bónus og selja á síðasta söludegi á niðursettu verði.

Maður getur alltaf á sig blómum bætt.


Takk fyrir komuna

Morgunblaðið hefur sagt upp tveimur af sínum elstu blaðamönnum, öðrum tæplega sextugum, hinum hálfsjötugum. Þetta spurðist út á ritstjórninni í morgun.

Líklega hafa þeir samtals unnið hjá blaðinu í 60-70 ár og áttu fáein ár í eftirlaun. Flestir blaðamenn Moggans hafa áratugareynslu og hafa sýnt blaðinu japanskt trygglyndi í fullvissu þess að það sé svo voðalega gott að hafa trausta vinnu hjá stóru fyrirtæki út starfsævina. Svo hætti maður um sjötugt, fái gullúr og fari að spila golf. Þeir sem hætta og fara að vinna við aðra miðla eru jafnvel álitnir hálfgerðir svikarar, það eru nokkrar vikur síðan maður sem er nýhættur sjálfviljugur eftir tæp 20 ár fékk svoleiðis kveðjur frá gömlum samstarfsmanni.  En á "peppfundi" á ritstjórninni nýlega lýsti ritstjórinn því yfir að blaðamenn skyldu vera á tánum, það væri verið að fylgjast með þeim. Peppið fólst í því að halda mönnum hræddum. Og í morgun spurðust þessar uppsagnir út.


Næsta ríkisstjórn?

Í framhaldi af þessu með ráðherrann í maganum fór ég að velta fyrir mér líklegri ríkisstjórn næstu ár, t.d. ef Samfylkingin og Vinstri grænir næðu hér hreinum meirihluta, sem virðist mjög líklegt. Ég reyni að vera sanngjarn og miða við 12 ráðherra eins og nú, 6 úr hvorum flokki, sú aðferð hefur þá kosti að þá er hægt að myndar íkisstjórn með efstu frambjóðendur beggja flokka í öllum kjördæmum. Sjá, hér er næsta ríkisstjórn:

 ISG sjs ossur ogm

klm kolbrun  BGS  KatrJak

gunnarsv atlig gudha holajon

Ég kem ekki fleiri en þremur konum í þessari ríkisstjórn og auðvitað er kannski líklegt að Ingibjörg Sólrún geri tillögu til þingflokksins um Jóhönnu Sigurðardóttur, sem 3ja ráðherra flokksins úr Reykavík og þá á líklega á kostnað Guðbjarts Hannessonar, oddvita í Norðvestur, sem er sá á síðari litmyndinni. Vilji hún velja konu úr Kraganum er henni vandi á höndum þótt hún geti sjálfsagt sniðgengið hinn líttþekkta Gunnar Svavarsson, sem er á hinni litmyndinni hér að ofan.  En hún getur illa sniðgengið bæði hann og Katrínu Júlíusdóttur sem er í 2. sæti til að koma í ríkisstjórn Þórunni Sveinbjarnardóttur sem hefur þingreynslu og aðra burði til að setjast í ríkisstjórn en var hafnað í prófkjöri flokksmanna sem völdu frekar Gunnar og Katrínu. Og ef VG vill fylgja flokksþingsályktunum munu þau sjálfsagt gera tillögu um Þuríði Backman, sem ráðherra, enda er þar reynd þingkona á ferð, sem ýtti þá e.t.v. til hliðar Atla Gíslasyni.

En verkaskiptingin í þessari stjórn gæti verið svona, miðað við að ekki verði gerðar breytingar á stjórnarráðslögunum, sem hefur auðvitað dregist allt of lengi:

Ingibjörg Sólrún, forsætis, Steingrímur J. utanríkis, Össur fjármála, Ögmundur félagsmála, Kristján L. Möller samgöngu, Kolbrún Halldórsdóttir, heilbrigðis, Björgvin G. Sigurðsson, menntamála, Katrín Jakobsdóttir, umhverfis, Gunnar Svavarsson, sjávarútvegs, Atli Gíslason, iðnaðar- og viðskipta, Guðbjartur Hannesson, dómsmála, Jón Bjarnason, lanbbúnaðar.


Með ráðherrann í maganum

Guð hjálpi bönkunum ef ég eða Jóhanna verðum fjármálaráðherrar, sagði Össur Skarphéðinsson, og væntanlega hafa bankamenn hvítnað enda muna flestir hvernig mál fóru að þróast hjá Baugi eftir að Össur skrifaði Jóhannesi í Bónus reiðilegt bréf eftir að Baugur sagði bróður hans upp vinnu við ræstingar og sagði: You ain't seen nothing yet. Skömmu síðar var Ríkislögreglustjóri mættur á staðinn.

Vissulega eru flestir búnir að fá nóg af miklum vaxtamun og háum þjónustugjöldum og spyrja sig hvort forstjóri Kaupþings á Íslandi sé með öllum mjalla þegar hann heldur því fram að íslenskir neytendur fái hagstæðari kjör í bankaviðskiptum en sænskir. En samt hugsa margir með hryllingi til þess að Össur verði fjármálaráðherra. Einn þeirra er greinilega Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, sem heldur úti athyglisverðri bloggsíðu hér á moggablogginu. Amk bregst Ágúst Ólafur þannig við þessum hótunum Össurar að hann skrifar færslu þar sem hann ber mikið lof á bankana og fyrirsögnin er líklega ætluð Össuri til skilningsauka en hún er þessi: "Allir vilja vinna í banka." Ágúst Ólafur segir:  

Bankarnir eru með vel launuð störf sem fela í sér ótal tækifæri fyrir fólk af öllum aldri. Þessi störf eru ekki lengur einskorðuð við Ísland heldur er starfvettvangurinn heimurinn allur. Hin öfluga útrás er meira og minna leidd af ungu fólki sem hefur gríðarlegan metnað. [...] Áður fyrr voru möguleikarnir miklu takmarkaðri fyrir fjölmargar stéttir í þessu landi. En bankarnir hafa m.a. gjörbreytt þessu ásamt mörgum öðrum fyrirtækjum, sem eru ekki síst á sviði þekkingariðnaðarins og hátækninnar.

Sem er náttúrlega alveg laukrétt hjá Ágústi. Og kannski er hann að skrifa til þess að minna á sjálfan sig sem fjármálaráðherraefni í næstu ríkisstjórn. Varaformaður Samfylkingarinnar hlýtur jú að ganga með ráðherra í maganum.


Hleranir, skjöl og byggðastefna

Áhugamönnum um kaldastríðsskjöl er ekki skemmt yfir þeim yfirlýsingum menntamálaráðherrans á þingi í gær ef það er rétt að skilja þær þannig að enginn aðgangur verði veittur að skjölunum næstu fjögur ár. Það er sá tími sem talið er að það telji að flokka skjölin og áætlaður kostnaður við það er 150 milljónir, að því er fram kemur í fylgiskjali með frumvarpi ráðherrans.

Og ráðherrann gaf undir fótinn þeirri hugmynd að láta flytja skjölin út á land og flokka þau þar. Kannski vill hún geyma þau úti í landi til langframa? Það væri vissulega ákveðin leið til þess að gera aðgengi að þeim erfitt og tímafrekt en vandséð hverju öðru það mundi skila.


VG - ennþá í villta vinstrinu

VG talar tæpitungulaust um róttæka andstöðu við allar virkjanir, talar tæpitungulaust um lögfestingu kynjakvóta, tæpitungulaust um netlögreglu, en í óútfærðu og óútskýranlegu máli um skatta- og efnahagsmál. Ég spyr eins og Staksteinar mundi gera: hvers vegna skyldi það vera?

Áherslur VG eftir flokksþingið finnast mér ekki benda til þess að flokkurinn ætli að sækja langt inn á miðjuna eftir nýjum kjósendum. Hversu mikil stemmning er í þjóðfélaginu fyrir lögfestingu jafns kynjahlutfalls í stjórnum fyrirtækja, netlögreglu til að stöðva klámdreifingu og óljósum og óútfærðum hugmyndum í skattamálum, sem eru annað hvort ávísun á skattahækkanir eða snakk sem ekki er ætlunin að framkvæma? Ég held að VG sé ennþá langt vinstra megin við Jóhönnu og Mörð, að ekki sé talað um obbann af þeim rúmu 30% sem enn eru óákveðin í skoðanakönnunum.

Steingrímur talaði í Silfri Egils í dag um að hann vildi ekki skattahækkanir heldur tilfærslur, talaði um það í gamalkunnum frösum án nánari útfærslu. Hann talaði um að 4-5% hækkun fjármagnstekjuskatts á móti 120.000 frítekjumarki. Nú skilar fjármagnstekjuskattur um 20 milljörðum í ríkissjóð, ef ég veit rétt, sem þýðir að 5% hækkun mundi skila 10 milljörðum til viðbótar, að þeirri hæpnu forsendu gefinni að enginn flótti brysti á fjármagnið við þessa breytingu.

En hvað kostar það, Steingrímur, að veita 120.000 frítekjumark af fjármagnstekjum, þ.e. hver stór hluti þessara 20 milljarða sem ríkið fær af fjármagnstekjum í dag er af fjármagnstekjum undir þessu frítekjumarki? Það er bara ekki hægt að taka svona skattaumræðu, eins og Steingrímur býður upp á alvarlega, það þarf að reikna þetta út og sem betur fer dettur engum stjórnmálaforingja nema honum í hug að leggja fram svona hugmyndir án útreikninga.

Meira að segja Guðjón Arnar kastaði tölu á hugmyndir sínar fyrir síðustu kosningar þótt þær væru ómarktækar af því að hann þekkti ekki muninn á persónuafslætti og skattleysismörkum.

Steingrímur ræddi um hátekjuskatt sem miða ætti við milljón til tólfhundruð þúsund króna mánaðartekjur  hjá fjölskyldu, án þess að geta nokkuð um hvað ríkið hefði mikið í dag í tekjuskatt af hjónum með yfir milljón á mánuði, hann nefndi ekki heldur hvað hann ætlaði hátt með prósentuna og hvað það ætti að gefa í ríkissjóð. Ég held að þetta séu óverulegar fjárhæðir í dag og að hann gæti þurft að fara um eða yfir 50% til þess að geta talið það sem þessi hátekjuskattur gefur af sér í einhverjum fjárhæðum.

Meðan Steingrímur er svona ónákvæmur er ekki hægt að taka hann alvarlega þegar hann segir að hann telji heildartekjuöflunarstig ríkis og sveitarfélaga duga til þess að standa undir þeirri samneyslu sem hann vill stefna að, sérstaklega ekki þegar hann boðaði að auki að hann væri tilbúinn að taka á ríkissjóð bótaskyldu gagnvart stóriðjufyrirtækjum og orkufyrirtækjum í því formi að kaupa af þeim undirbúningsvinnu sem þau hefðu lagt í vegna stóriðjuframkvæmda. Að ógleymdum öllum öðrum útgjaldatillögum þessa landsfundar.


Reynslusögur úr skoðanakönnunum

Alveg er þetta stórkostleg saga frá Strandamanninum sem tók tvisvar þátt í skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag. Hann segir:

Rétt áðan hringdi í mig ung kona frá Fréttablaðinu og vildi að ég tæki þátt í skoðanakönnun. Ég gerði það. Hef líklega verið súperskemmtilegur af því fimm mínútum seinna hringdi hún aftur og vildi að ég tæki aftur þátt í sömu skoðanakönnuninni. Ég gerði það auðvitað, mér finnst gaman að vera í úrtaki í skoðanakönnunum.

Ég er mikill áhugamaður um skoðanakannanir og ég finn það að áhuginn bara vex og vex. Ég hef sjálfur svona svipaðar sögur, man t.d. eftir manninum sem sagði mér hissa að þegar hann var búinn að svara Fbl. spurði félagsvísindamaðurinn: Er konan þín nokkuð heima? fékk að tala við konuna og gerði hana samstundis að þátttakanda í úrtakinu, þannig fékk hann tvö svör út úr einu símtali og var helmingi fljótari að klára listann sinn.

Ég er að velta því fyrir mér að fara að safna svona sögum úr skoðanakönnunum. Reynslusögur og allt  sem tengist skoðanakönnunum vel þegið í komment.


Merkileg tilraun

Friðrik Þór Guðmundsson, rannsóknarblaðamaður Kastljóssins, er að gera merkilega tilraun á blogginu sínu, sem ég held að marki tímamót í bæði bloggi og blaðamennsku á Íslandi. Hann telur sig kominn á slóð þess sem sendi nafnlausa bréfið í Baugsmálinu og leitar til lesenda bloggsins síns um aðstoð við frekari vísbendingar.  Þetta er algengt í Bandaríkjunum, þar sem blaðamenn sem blogga vinna úr gögnum og vísbendingum með því að leita til sérfróðra aðila í hópi lesenda sinna og almennings og komast þannig hraðar áfram með mál. 

Mér er nokk sama hver skrifaði þetta bréf en mér finnst þetta fín tilraun hjá Friðriki Þór - athugið hvort þið getið hjálpað honum, hér.


Fréttablaðið kannar skoðanir

Þjóð veit þá 800 vita. Fréttablaðið er aftur að gera skoðanakönnun í dag. Það er spurt um fylgi við flokkana, hver menn vilji að verði næsti forsætisráðherra, afstöðu til klámráðstefnunnar, sem ekki verður á Hótel Sögu, og eitthvað fleira. Fréttablaðið gerði síðast skoðanakönnun fyrir hálfum mánuði og vék hún að nokkru leyti frá niðurstöðum annarra kannana, og einnig frá þeirri mælingu sem Capacent fékk fyrri hluta febrúarmánaðar. Fréttablaðið gaf Samfylkingunni meira en Framsóknarflokknum minna en aðrar kannanir, það verður athyglisvert að fylgjast með hvað kemur út úr þessari.

Capacent-staðan um miðjan febrúar

Framsókn með 11-12%, Sjálfstæðisflokkur með 35-36%, Frjálslyndir með 7-8%, VG með 21-22%, Samfylking með 22-23%, aðrir með 2%. Óákveðnir enn um 30%. Þetta var staðan í könnun Capacent um miðjan febrúarmánuð, segir Einar Mar, kosningasérfræðingur, sem hefur lesið þetta út úr könnuninni sem Capacent gerði fyrir Náttúruverndarsamtökin og birt var í dag. Meira hér og hér.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband