hux

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Í tunnuna með það

Meiri stormurinn sem þetta nafnlausa bréf hefur valdið í Baugsmálinu. Ég hef fengið og séð nafnlaus bréf um hinar aðskiljanlegustu samsæriskenningar, oftast í tölvupósti. Lendingin á tunglinu hafi verið sviðsett, árásin 11. september hafi verið plönuð af Bandaríkjastjórn og eitthvað fleira sem fólk þorir jafnvel ekki að skrifa undir af ótta við CIA, páfann, Bilderberg-hópinn eða einhverja slíka. Nú er það Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, sem á að vera handbendi andskotans.

Nú segja menn í kvöldfréttum RÚV að bréfið valdi ómældum skaða! Hvernig má það vera? Er skaðinn nokkur annar en sá að menn sýndu tilburði til þess að taka það alvarlega með því að halda sérstakan fund? Voru það ekki þá viðtakendur bréfsins sem ollu skaða með viðbrögðum sínum - með því að gefa bréfinu vikt sem það rís ekki undir?

Ég  hef alltaf húmor fyrir góðum samsæriskenningum og hef jafnvel átt góðar (úff!!!) stundir við að sjóða þær saman mér til skemmtunar þótt ég hafi aldrei komist svo langt að skrifa þær niður. Yfirleitt hendi ég bara svona nafnlausum bréfum. Ég veit ekki til þess að menn geri mikið með þetta.

En það sem er venjulegt á ekki við í Baugsmálinu. Þar fer allt á hvolf þegar menn fá nafnlaus bréf, bara af því að þau bera með sér að bréfritarinn sé lögfræðingur eins og það sé eitthvað merkilegra fyrir það.  Þeir ættu bara að prófa að blogga, þá fengju þeir að lesa nafnlaus komment og bréf og yrðu fljótir að átta sig á þeim. Hafa mennirnir einhverja ástæðu til þess að ætla að það þurfi að taka nafnlausa lögfræðinginn alvarlega? Ef honum er alvara og getur staðið á því sem hann segir sendir hann þetta bara aftur og skrifar undir. Eins og er á bara að líta á þetta sem hvern annan markpóst eða fjölpóst eða hvað þetta heitir auglýsingadótið sem er borið heim til manns óumbeðið. Í tunnuna með það.


Bæjarstjórn Kópavogs einhuga að baki Gunnari Birgissyni?

Var það ekki 9. febrúar sem framkvæmdir voru stöðvaðar í Heiðmörk, eftir að Gunnar bæjarstjóri og starfsmenn Klæðningar, voru búnir að ryðja niður trjánum sem ég og fleiri góðir menn gróðursettum sem unglingar? Ég held það, ég finn amk fréttir frá 11. febrúar um málið.

Þann 13. febrúar hélt svo bæjarstjórn Kópavogs bæjarstjórnarfund. Ég fór á netið áðan að leita að fundargerðinni til þess að lesa bókanirnar sem minnihlutinn hefði gert til þess að hrauna yfir ýtustjórann í bæjarstjórastólnum og skamma hann þótt ekki væri nema fyrir dæmalausa framgöngu hans í fjölmiðlum vegna málsins.

En viti menn - ekki orð! Bæjarstjórnin kom fullskipuð saman til fundar meðan málið stóð sem hæst og eftir að það komst í hámæli en minnihlutinn hafði ekkert um það að segja! Engin bókun, ekki orð.


DV - aftur til fortíðar

DV fannst mér ágætt í gær, fyrsta tölublað endurreists dagsblaðs. Það var eiginlega eins og að fara aftur í tímann að skoða forsíðuna og baksíðuna. Það er greinileg yfirlýsing þarna um að ferðinni sé heitið aftur fyrir aldamót þegar DV var og hét. Það var formúla sem neytendur höfðu smekk fyrir, á þeim tíma amk. Loki er á sínum stað á baksíðunni og þarna var líka athyglisvert graf um hlutdeild ritstjórna dagblaðanna í efni þeirra. Hið besta mál.

Svo er ég í þeim kannski 50 manna hópi sem glotti út í annað þegar Jói Hauks blasti við á sömu opnu og leiðari Sigurjóns M. Egilssonar en gott hjá þeim. Þarna er Jói loksins kominn með hreinræktaðan skoðanavettvang.

Og svo var Hreinn Loftsson mættur í prentsmiðjuna samkvæmt Mogganum í dag til þess að skoða fyrsta tölublaðið... athyglisvert.


Capacent mælir fylgi við Margréti, Ómar og Jón Baldvin

Mundir þú kjósa umhverfisverndarframboð leitt af Ómari Ragnarssyni, Margréti Sverrisdóttur og Jóni Baldvin Hannibalssyni? Þessa spurningu fékk fólk sem hringt var í frá Capacent í kvöld.

Af hverju var ekki spurt um Jakob Frímann, hann er á kafi í undirbúningi með þeim félögum? Ég hefði svarað nei, ég mundi ekki kjósa slíkt framboð en það þarf svo sem ekki að koma á óvart.

Ég hefði hins vegar svarað játandi þessari spurningu: Mundirðu fara á sveitaball með Ómari Ragnarssyni, Jóni Baldvin, Margréti Sverrisdóttur og Jakobi Frímann? Ekki spurning.

En í ljósi þessara upplýsinga um könnunina finnst mér merkilegt að lesa nýjustu færsluna á bloggi Ómars Ragnarssonar. Ómar var ofboðslega hrifinn af ræðunni sem Jón Baldvin flutti í Hafnarfirði í gærkvöldi.


Komment á komment

Frá því að ég flutti mitt blogg hingað yfir hafa komið upp í hugann ýmsar spurningar um hvernig eigi að umgangast kommentakerfið hér. Ég ákvað í upphafi að hafa aðgang öllum opinn en einsetti mér um leið að líða ekki einhvern málefna- eða barnalandsbrag á því sem hér færi fram.

Hingað til hef ég reynt að fylgja þeirri stefnu að eyða kommentum, sem fela í sér dylgjur og dólgshátt, og líka öllum kommentum frá óskráðum nafnleysingjum sem gefa upp ógagnsæ netföng, - nema um sé að ræða fólk sem 1. ég veit hverjir eru og 2. heldur sig innan marka. Ég hef aldrei séð eftir því að eyða kommenti, hins vegar hanga hér enn inni nokkur komment sem ég hefði - eftir á að hyggja - átt að eyða strax.

Síðan hef ég tekið eftir því að hér á moggablogginu hafa einhverjir aðilar skráð sig fyrir bloggum sem þeir nota ekki til neins nema til þess að kommentera hjá öðrum bloggunum og hafa sumir þeirra aldrei neitt fram að færa nema skít og dylgjur. Framvegis mun ég án undantekninga eyða kommentum frá þeim og líka hinum sem ekki gefa upp fullt nafn og sæmilega gagnsæ netföng. Eins mun ég blokkera aðra notendur sem fara yfir þá línu sem ég dreg.

Ég geri enga kröfu til þess að þessi lína sé öðrum sýnileg en, sem sagt, ég vil ekki láta kommentakerfi þessa bloggs verða að ruslatunnu fyrir andlegan og tilfinningalegan úrgang. Það geta ekki aðrir en ég borið ábyrgð á því.


Samræmdur spuni

Samfylkingin er komin langt á undan öðrum flokkum í kosningabaráttunni vegna þingkosninganna. Hún auglýsir nú grimmt í blöðum, nánast daglega. Hún hefur skipulagt og miðstýrir fjölmörgum bloggsíðum hér á moggablogginu. Loks stendur nú yfir skipulögð greinaherferð í blöðum þar sem hver Samfylkingarmaðurinn og - konan á eftir öðrum úrfærir spunann um það að Ingibjörg Sólrún sæti einhverju sérstöku einelti í pólitískri umræðu. Það er ein svona grein í Fréttablaðinu í dag og í Mogganum skrifar Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, um þetta sama. Um daginn var svo Hallgrímur Helgason með makalausa grein í þessum anda. Bloggfærslurnar eru fleiri en ég kem tölu á en nærtækast er að nefna að truno.blog.is var að því er mér sýnist stofnað til þess að halda þessari umræðu á lofti.

Nú ætla ég ekkert að þræta fyrir það að Ingibjörg Sólrún hefur víða verið gagnrýnd undanfarið og stundum sjálfsagt ómaklega. Harðast hafa gengið fram hennar eigin flokksmenn. Tilefni gagnrýninnar hefur verið það að skoðanakannanir hafa sýnt hver á fætur annarri að frá því að Ingibjörg Sólrún tok við formennsku hefur fylgi flokksins í skoðanakönnunum hrapað úr 34% í um 20%. Samfylkingarfólk hefur verið frústrerað yfir þessu sem vonlegt er, leitar sökudólga og staðnæmist við konuna í brúnni. Og eins var greinilegt að ummæli Ingibjargar Sólrúnar um að þingflokkurinn nyti ekki trausts, sem mér fundust til marks um hugrekki og heiðarleika af hennar hálfu, hleyptu mjög illu blóði í marga þingmenn flokksins.

Ég var stuðningsmaður Halldórs Ásgrímssonar og mér finnst vægast sagt að það andstreymi sem Ingibjörg hefur mætt í umræðu undanfarið vera hjóm miðað við þau spjót sem stóðu á Halldóri, mér finnst það líka hjóm miðað við þá gagnrýni sem t.d. Valgerður Sverrisdóttir sat undir í viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu. Og mér finnst hún hjóm miðað við margt af því sem beindist gegn Davíð Oddssyni á sínum tíma og rann meðal annars úr penna sama Hallgríms Helgasonar sem skrifaði greinina í Fréttablaðið á dögunum. En það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem það kemur í ljós að það er eitt að gera kröfur á aðra og annað að rísa undir þeim sjálfur. Og þess vegna get ég ekki annað en hlegið þegar Samfylkingarfólk er að kvarta undan skorti á málefnalegri umræðu um pólitík í landinu. Það má þó hann Össur eiga að hann hefur ekki gerst söngmaður í þessum kór, enn sem komið er. Kannski á hann grein um þetta einelti gegn Ingibjörgu í blöðunum á morgun.


DV án áskriftar

DV hefur göngu sína sem dagblað á ný á morgun en samkvæmt þessari frétt verður ekki hægt að gerast áskrifandi að blaðinu, nema þá helgaráskrifandi, eins og verið hefur frá því að útgáfu þess sem dagblaðs var hætt.

Undarleg staða fyrir dagblað á Íslandi að geta ekki sóst eftir áskrifendum en þetta er vitaskuld vegna þess að ekki er til dreifingarkerfi til þess að annast dreifingu síðdegisblaðs. Væntanlega mun þetta hafa áhrif á efnistökin og auka enn frekar mikilvægi sölulegrar forsíðu á hverjum degi fyrir afkomu blaðsins.


Ég er sammála Kolbrúnu Halldórsdóttur

Það gerist ekki oft, en þegar ég hlustaði á utandagskrárumræðu í þinginu um meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga var ég sammála Kolbrúnu Halldórsdóttur þegar hún hvatti til þess að sá lærdómur yrði dreginn af Byrgismálinu að sameina eigi heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti. Þá þyrftu menn ekki lengur að hártogast um heilbrigðisstofnanir og búsetuúrræði og þau gráu svæði sem geta myndast við slíkar hártoganir.

Ég var reyndar ekki sammála Kolbrúnu um hennar fílósóferingar um orsakir alkóhólisma og fíknar sem mér þóttu bera með að enn geti hún bætt við sig upplýsingum á grunnþætti málsins, eins og glöggt kom fram í bestu ræðu umræðunnar, þeirri sem Katrín Fjeldsted hélt. En þarna hitti hún svo sannarlega naglann á höfuðið, þótti mér. Það er svo auðvitað rétt sem Siv sagði að jafnvel þótt ráðuneytin yrðu sameinuð stæði eftir að munurinn á heilbrigðisstofnunum og félagslegum búsetuúrræðum.

Það er reyndar í gangi í stjórnarsamstarfinu vinna við að endurskoða lögin um stjórnarráðið, hún hófst sem verkefni Björns Bjarnasonar og Árna Magnússonar og var komin nokkuð á veg þegar Árni lét af störfum. Hvað er orðið af þessu? Væri það ekki tilvalið hjá þessari ríkisstjórn að sameina atvinnuvegaráðuneytin þrjú (landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðar-) í eitt ráðuneyti, sameina heilbrigðis- og félagsmáalráðuneyti í eitt ráðuneyti, þó þannig að jafnréttismál fari undir forsætisráðuneyti og e.t.v. sveitarstjórnarmál í innanríkisráðuneyti þar sem dómsmálaráðuneytið væri og  samgönguráðuneytið.

Að lokum minni ég á hugmyndir bæjarstjórans um greiningarstöð til að samhæfa nýtingu meðferðarúrræða en bæði Hjálmar Árnason og Ögmundur Jónasson hafa flutt þingmál í þá veru. 


Engin dramatík, en maður má nú vona

Búinn að kanna stóra fjárlaganefndarmálið nánar og það reyndist ekki jafndramatískt og ég var að vona. Skýringin er einfaldlega sú að það voru ekki fleiri stjórnarliðar mættir á nefndarfundinn en þessir fjórir sjálfstæðismenn og þess vegna voru þeir minnihluti í nefndinni þegar málið var afgreitt.  Framsóknarmennirnir sem mættu ekki á nefndarfundinn studdu álitið í gegnum atkvæðagreiðslu, svo þetta var stormur í vatnsglasi. En maður má nú vona!

Í raun er kominn tími til að Framsóknarflokkurinn launi Sjálfstæðisflokknum fyrir þau svik sem hann hefur framið undanfarnar vikur í stjórnarsamstarfinu. Hæst ber vitaskuld niðurstöðu - eða skort á niðurstöðu í stjórnarskrárnefnd - þrátt fyrir ákvæði stjórnarsáttmála um að í stjórnarskrá verði sett ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar. Ég vil eggja þingmenn Framsóknarflokksins til þess að beygja Sjálfstæðisflokkinn rækilega í því máli.

Svo má halda því til haga að Sjálfstæðisflokkurinn heldur nýsköpunarfrumvarpi iðnaðarráðherra enn í gíslingu í nefndum þrátt fyrir að allir viti að samið var um það við afgreiðslu RÚV-frumvarpsins að það frumvarp yrði að lögum samhliða.  


Stjórnarmeirihlutinn klofnar í fjárlaganefnd

Við atkvæðagreiðslu um frumvarp til lokafjárlaga ársins 2005, á Alþingi rétt í þessu, kom fram að stjórnarmeirihlutinn klofnaði í fjárlaganefnd um afgreiðslu málsins. Efnislega er málið lítið en engu að síður er þetta afar fátítt. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Einar Oddur, Arnbjörg, Gunnar Örlygsson og Drífa Hjartardóttir)  í nefndinni mynduðu 1. minnihluta og lögðu fram tvær breytingartillögur við frumvarp Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, þar sem hnikað er til tillögum Árna og embættsmanna hans.

Fulltrúar Framsóknarflokksins í nefndinni (Birkir J. Jónsson, formaður nefndarinnar, og Guðjón Ólafur Jónsson) standa ekki að þessari breytingartillögu.  Nú á ég eftir að lesa fylgskjölin (hér, hér og hér) sem þarf að glugga í til að átta sig á þýðingu þessa (við atkvæðagreiðslu var málinu vísað áfram til 3ju umræðu) en allir sem fylgjast vel með stjórnmálum vita að það sætir talsverðum tíðindum í þessu senn 16 ára stjórnarsamstarfi að stjórnarflokkarnir standi ekki saman að nefndaráliti við afgreiðslu ríkisstjórnarfrumvarps úr nefnd. Jafnvel Kristinn H. Gunnarsson stóð nær undantekningalaust að meirihlutaálitum sameinaðs stjórnarliðsins.  Í þessu máli er um smáfjárhæðir að ræða á mælikvarða þingsins, hundraðþúsundkalla og fáeinar milljónir til eða frá.

Það er greinilegt að kosningar eru að nálgast. Hvernig væri nú að framsóknarmenn svöruðu fyrir sig með því að knýja fram samþykkt frumvarps um að auðlindir sjávar skuli teljast almenningseign, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum, það er komið fordæmi fyrir smá sólói í aðdraganda kosninganna. Það vita allir að það er samstaða um slíka breytingu meðal allra nema sjálfstæðismanna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband