Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
6.2.2007 | 10:43
Óákveðnir - stærsti flokkur landsins
Hin óákveðnu eru stærsta stjórnmálaaflið í landinu, hver könnunin á fætur annarri sýnir þau í um 40%, nú síðast Blaðið. Kosningabaráttan snýst um þau óákveðnu. Auðvitað hafa þeir og þær aldrei haft meiri ástæðu til að vera óákveðin en einmitt nú, það veit ekki nokkur maður hvað margir flokkar verða í framboði.
Ég held að það sé alveg ljóst að óákveðin skiptast ekki í flokka í sömu hlutföllum og hin 60%-in. Sjálfstæðisflokkurinn er örugglega ekki með 40% hjá óákveðnum, hann er á góðum degi svona 25% flokkur hjá þeim og VG svona 10%.
Það verða þau óákveðnu sem ráða því hvort Sjálfstæðisflokkurinn verður í ríkisstjórn á Íslandi í 20 ár samfellt. Sumir eiga erfitt með að gera upp við sig hvort sú tilhugsun er draumur eða martröð. Gæsahúð eða sæluhrollur?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2007 | 10:16
Hryllingur í Breiðuvík
Kastljósið hefur gert vel með því að halda áfram þeirri umfjöllun um Breiðuvík sem hófst í DV á föstudaginn. Ég hef engan annan fjölmiðil séð hreyfa málinu en eftir Kastljósið í gær finnst mér eins og menn geti ekki lengur setið hjá, þetta er hryllingur.
Enn er langt í land með að börnum sem eiga við andlega og tilfinningalega erfiðleika og fatlanir að etja og búa við erfiðar aðstæður sé sinnt nægilega vel, það má t.d. ráða af biðlistanum langa á BUGL en sem betur fer hefur margt færst til betri vegar og það er fyrir öllu að viðhorfið er breytt. Það er ekki lengur ráðandi stefna að það besta sem hægt sé að gera fyrir börnin "á mölinni" sé að senda þau í sveit og meðhöndla þau sem þræla og láta varga berja úr þeim "óþekktina".
Þegar þetta mál bætist ofan á það sem nýlega kom fram um aðstæður heyrnarlausra barna er eiginlega óhjákvæmilegt að það fari fram einhvers konar uppgjör á þeirri uppeldisstefnu sem hið opinbera rak hér á árum áður, stefnu sem hefur augljóslega hrint mörgum, sem þörfnuðust hjálpar og aðhlynningar, fram af bjargbrúninni.
Og mér finnst að Páll Elísson eigi rétt á þeirri afsökunarbeiðni sem hann bað samfélagið um í Kastljósinu í gær.
5.2.2007 | 22:25
Stjórn Framtíðarlandsins gerir tillögu um framboð - forvitnilegt viðtal við Óskar Magnússon
Félagar í Framtíðarlandinu hafa verið boðaðir til fundar á Hótel Loftleiðum á miðvikudagskvöld og nú er loks búið að kynna dagskrá fundarins, fundarefnið er að taka afstöðu til þeirrar tillögu stjórnar samtakanna að boðið verði fram til alþingis undir merkjum Framtíðarlandsins. Fundarmönnum verða kynnt þau drög að stefnu sem fyrir liggja. Á vefsíðu Framtíðarlandsins segir:
Tilgangur fundarins er meðal annars sá að fá úr því skorið með lýðræðislegum hætti hvort félagar í Framtíðarlandinu samþykki að boðið verði fram í nafni félagsins. Á fundinum verður framboðið kynnt og rætt ítarlega áður en gengið verður til atkvæða. Krafist er aukins meirihluta fyrir samþykkt tillögunnar (2/3 hlutar greiddra atkvæða).
Fram kemur einnig að verði tillagan samþykkt muni stjórn framtíðarlandsins ábyrgjast framkvæmdina og skipa uppstillingarnefnd.
Á heimasíðunni er nú einnig nýtt viðtal við Óskar Magnússon hinn kunna athafnamann, forstjóra Tryggingamiðstöðvarinnar og rithöfund. Er það mjög forvitnileg og athyglisverð lesning. Nokkrar tilvitnanir:
Það er fullt af fólki sem aðhyllist umhverfisvernd en vill ekki að taka þátt í ómálefnalegu skítkasti. Nú virðast áhugamenn um stóriðju hins vegar vera að missa sjónar af afleiðingunum. Það sem hræðir mann er þessi mikli fjöldi álvera sem er í pípunum þótt því sé lýst yfir að stóriðjustefnunni sé lokið. Afstaða einstakra héraða kann að vera skiljanleg en fyrir þjóðina alla er nauðsynlegt að hafa heildarsýn yfir það sem framundan er. Það hefur mikið gengið á undanfarin ár, það er margt í bígerð, ég held að nú sé rétti tíminn til að halda í hestinn og staldra við.[...]Hefurðu komið inn í álver? Maður verður hálf miður sín. Það er fjarlæg hugsun að maður vilji búa afkomendum sínum að vinna í því umhverfi. [...]Það er miklu breiðari andstaða við stóriðjuframkvæmdir en áður hefur verið. Menn sem hafa umborið þetta, mínir líkar, eru að snúast. Ef stjórnmálaflokkar laga sig ekki að því þá munu þeir finna til þess í fylgi fyrr eða síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.2.2007 | 22:13
Frjálslynd pólitík
Spurði hvort forsætisráðherra ætti ekki að segja af sér vegna Byrgismáls | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.2.2007 | 17:22
Blaðið kannar skoðanir
Blaðið fetaði sig inn á nýjar brautir um helgina og gerði skoðanakönnun meðal almennings sem væntanlega verður birt í blaðinu næstu daga. Eins og jafnan í skoðanakönnunum var spurt um hvaða stjórnmálaflokk fólk mundi kjósa ef gengið yrði til kosninga nú og líka um afstöðu til stækkunar álversins í Straumsvík og svo var það blessuð evran, hún fékk að fljóta með.
Blaðið hefur hingað til ekki gert skoðanakannanir en nú hefur Trausti Hafliðason, ritstjóri þess, ákveðið að ekkert sé dagblað með dagblöðum nema gera skoðanakönnun. Könnunin var gerð með Fréttablaðsaðferðinni, úrtakið var 750 manns úr símaskrá af öllu landinu, þannig að afstaðan sem þar kemur fram til álversins endurspeglar skoðanir á landinu öllu en ekki bara í Hafnarfirði. Hins vegar eru það Hafnfirðingar einir sem munu hafa ákvörðunarvald um hvort stækkunin verður samþykkt, það ræðst í kosningu þar í bæ 31. mars næstkomandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2007 | 18:25
Steve Forbes: Greatest hits
Fréttablaðið er að flytja Steve Forbes til landsins. Forbes reyndi tvívegis að verða forsetaframbjóðandi repúblíkana í Bandaríknunum og er enn af og til í fréttum þar í landi vegna skoðana sinna. Sl. sumar var Forbes t.d. að ræða í sjónvarpi um olíuverðið, og hann hafði einfalda lausn á reiðum höndum. Hugmynd hans var þessi: Einfalda leiðin til að lækka olíuverðið er að efna til átaka við Íran. Því lengur sem Bandaríkin leyfi Íran að leika lausum hala því hærra verði olíuverðið.
Forbes orðaði þessa hugsun sína svo eftir að hafa sagt að 15 dollara af verði hverrar olíutunnu greiddi markaðurinn vegna þeirra áhyggna sem menn hefðu af Íran. Spyrill Fox News spyr þá hvort hann skilji hann rétt að olíiuverðið væri 15 dollurum lægra á hverja tunnu ef ekki væri vegna Íran. Þá segir Forbes:
Yes, it would. There is real uncertainty, huge producer. But the bottom line with Iran is, when we have the confrontation, which we will have, we can really deal with that crisis. Then the price of oil will come down. The longer we let it fester, the higher the price of oil will stay.
Nánar hér.
Forbes hefur líka verið í hópi þeirra leiðtoga í Bandaríkjunum sem hafa átt erfitt með að horfast í augu við hlýnun andrúmsloftsins af völdum manna. Hann ræddi þessi mál í sjónvarpi í maí í vor, skömmu eftir að mynd Al Gore The Inconvenient Truth kom á markað og var þá spurður hvað það mundi þýða ef hugmyndir Gore um aðgerðir vegna hlýnunar andrúmsloftsins yrðu hluti af stefnu bandarískra stjórnvalda:
It will ice the economy. And after all, some people do believe the DiVinci Code, so some will believe the DiGore Code. [Laughter] But the fact of the matter is, the policies that result from it would hurt the economy, would create unemployment. Its a real recipe for more socialist regulation.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.2.2007 | 17:29
Glasnostið ekki hafið við Rauðavatn
Ég lét víst óskhyggjuna hlaupa með mig í gönur í síðustu færslu þegar ég taldi hina óvæntu myndbirtingu hæstaréttardómara á forsíðu Morgunblaðsins til marks um að glasnostið væri loksins hafið og að byltingarstjórnin á blaðinu hefði sleppt fram af sér beislinu eins og kálfar á vori, og misst sig aðeins of langt út í gula litinn, frelsinu fegnir. Það er víst ekki svo gott, þetta voru bara einhver heilaköst eða enn eitt powerplay-ið í þeim gamla.
Ýmsir félagar mínir fullvissað mig um að Styrmir sjálfur hafi lagt línurnar í umfjölluninni, ekkert bendi til annars en þess að það séu tæp tvö ár enn í glasnostið. Þetta var svona roka, eins og allir kannast við sem unnið hafa einhver ár á Mogganum, orðin til í samskiptum ritstjórans við fólk utan hússins. Hver sem skýringin er er ósamkvæmnin himinhrópandi. En þótt lógíkina vanti stendur ekki á réttlætingunum í leiðurum og R-bréfum og Staksteinum, kannski þekkir ritstjórinn einhvern aðila málsins, lögmann, eða eitthvað, amk hefur þetta þann blæ að þetta sé bara þess háttar roka. Ekki ferskt, bara fúlt.
Sigurður G. Tómasson hefur þetta að segja:
Þá vekur það sérstaka athygli að þessir fimm dómarar sem Morgunblaðið birtir mynd af á forsíðu eru hinir sömu og höfnuðu lögbanni á Fréttablaðið í tölvupóstsmáli Jónínu Benediktsdóttur og hafa sömuleiðis allir átt þátt í dómum réttarins í Baugsmálinu. [...] Ósamkvæmni Morgunblaðsins í afstöðu blaðsins til kynferðisbrotadóma Hæstaréttar og tengsl ritsjórans við Baugsmálið hljóta að vekja grunsemdir um að þessi fréttaflutningur byggist á öðru en málefnalegri afstöðu.
Það var og. Ég hefði betur hringt í mína menn áður en ég bloggaði en þetta er ekki fjölmiðill heldur blogg og þetta er partur af geiminu. Allt um það, þetta var fín helgi utan þjónustusvæðis í sveitinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2007 | 13:17
Mogginn gulnar og fleira athyglisvert
Forsíða Mogggans í dag sætir miklum tíðindum og staðfestir klárlega breytingu á ritstjórnarstefnu blaðsins. Það er nánast óhugsandi fyrir gamlan innanhússmann að ímynda sér að Styrmir Gunnarsson, ritstjóri, hafi svo mikið sem verið spurður álits á þessari framsetningu forsíðufréttarinnar, það er handan ímyndunaraflsins að hann hafi verið þátttakandi í því að stilla fimm hæstaréttardómurum upp með þeim hætti sem gert er í blaðinu í dag. Það hafa reyndar verið fleiri merki þess undanfarna daga að Styrmir hafi minna en áður að segja um forsíðuna. Mér hafa líkað vel flestar breytingar, sem gerðar hafa verið á blaðinu undanfarið, þær eru meira en tímabærar og áreiðanlega öðru fremur verk Árna Jörgensen, hins snjalla útlitshönnuðar blaðsins, og Björns Vignis, fréttaritstjóra. Fréttaskýringar á forsíðu hafa yfirleitt verið vel heppnaðar og líka þessi aukna áhersla á þröngt skornar andlitsmyndir. En þetta eru sannarlega róttækar breytingar, það er víðar glasnost en í utanríkisráðuneytinu.
Sjálfsagt er drifkrafturinn á bak við breytingarnar það hrun sem blaðið þarf að horfast í augu við í útbreiðslu sinni, en seldum eintökum hefur fækkað um ein 10% síðasta ár samkvæmt upplagseftirlitinu, sem reyndar þurfti að leiðrétta síðustu upplýsingar sem það gaf út. Bjöggarnir hafa nú öll tök á eignarhaldi blaðsins og nýr framkvæmdastjóri, sem starfar í þeirra umboði, hefur sjálfsagt litla þolinmæði til þess að fylgjast með samdrættinum lengur án þess að grípa til róttækra aðgerða. Og þetta eru - svo ég segi það einu sinni enn - róttækar aðgerðir á mælikvarða þessarar gömlu stofnunar í samfélaginu.
Önnur tíðindi í fjölmiðlaheiminum í dag eru þau að Jón Kaldal er orðinn ritstjóri Fréttablaðsins við hlið Þorsteins Pálssonar og eru honum sendar héðan bestu hamingjuóskir með það. Jón hefur látið mikið til sín taka á Fréttablaðinu undanfarin misseri og er augljóslega algjör lykilmaður þar eftir brotthvarf sme.
Af sme er það að frétta að hann vinnur að undirbúningi þess að gera DV að dagblaði og mér skilst að sú breyting verði formlega 15. febrúar. Sama dag er ráðgert að Króníkan, nýtt vikublað Sigríðar Daggar og Valdimars Birgissonar líti dagsins ljós. Þá verður Viðskiptablaðið væntanlega þegar orðið að dagblaði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.2.2007 | 23:16
Villiendur, hvalir og forseti Íslands
Þessa dásamlegu portrettmynd tók Golli ljósmyndari af Halldóri Blöndal, formanni utanríkismálanefndar, með veiðikortið í vasanum og kesjuna í kjöltunni. Halldór er kunnur áhugamaður um friðun villianda við Mývatn en jafnframt mjög áhugasamur um veiðar á hvalfiski hvers konar. Eins sætir hann jafnan færis að koma lagi á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Nú hefur hann ákveðið upp á sitt einsdæmi að hefja réttarhöld yfir forsetanum í utanríkismálanefnd Alþingis. Það mætti skrifa mikla sögu af viðskiptum þeirra félaga í gegnum árin og væri þá Halldór Blöndal Ahab en Ólafur Ragnar Moby Dick.
Ég heyrði mér til mikillar ánægju í kvöldfréttum útvarps að Jón Kristjánsson, varaformaður utanríkismálanefndar, hefur sett Blöndal stólinn fyrir dyrnar og vill ekki sigla með honum í næstu veiðiferð til Bessastaða. Jón Kristjánsson telur eðlilegt að fá útskýringar frá utanríkisráðuneytinu á setu Ólafs Ragnars í Þróunarráði Indlands (sem er auðvitað hið besta mál) en hefur ekki áhuga á að horfa upp á Halldór Blöndal eltast við forsetann enn eina ferðina. Ólafur Ragnar hefur sem kunnugt er unnið sér það til óhelgi í augum Sjálfstæðisflokksins að ná hér tvívegis kjöri til embættis í almennri kosningu þrátt fyrir - eða öllu heldur vegna þess - að hann er "andstæðingur" Sjálfstæðisflokksins.
Hún er merkileg þráhyggja þeirra íhaldsmanna gagnvart Ólafi Ragnari og birtingamyndir hennar eru legíó, allt frá stafsetningaræfingunni góðu (Heill forseta vorum og fósturjörð komma Ísland lifi punktur Húrra húrra húrra) þegar fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins var að reyna að telja sjálfum sér trú um að hann gæti hyllt nýjan forseta Íslands þann 1. ágúst árið 1996 án þess að hylla í leiðinni Ólaf Ragnar Grímsson. Mætti líklega beita þeirri rökfræði til að sanna að Ólafur Ragnar geti setið í þróunarráði Indlands án þess að forseti Íslands sé með í för.
Þessi vitleysa hefur svo haldið áfram út í hið nánast óendanlega. Æfingar Sjálfstæðisflokksins í absúrd textatúlkunum náðu vitaskuld hámarki í stagli þeirra út af 26. grein stjórnarskrárinnar þar sem forsetanum er berum orðum veittur réttur til að synja lögum staðfestingar. Allar þær æfingar sýndu á endanum fram á það að sjálfstæðismenn eru áreiðanlega miklir þingræðissinnar en sennilega litlir lýðræðissinnar. Stagl þetta hefur nú síðast eyðilagt starf stjórnarskrárnefndar sem hér hafði tækifæri til að gera merkar og tímabærar breytingar á stjórnskipan landsins, þar á meðal breytingar sem kveðið er á um í samstarfssáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Af því verður ekki vegna forsetaþráhyggju stærsta stjórnmálaflokks landsins.
Nú eru aðeins um sex vikur uns sjálfstæðismenn og framsóknarmann hafa saman myndað meirihluta á alþingi Íslendinga í tólf ár. Megi þeir dagar sem eftir eru af því tímabili koma hver af öðrum, hratt og örugglega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.2.2007 kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.2.2007 | 17:35
Leyndarmál Andra: Sjálfstæðismönnum fjölgar um 10.000
Í færslu hér að neðan rifjaði ég upp að í landsfundarræðu sinni í október 2005 hefði Kjartan Gunnarsson greint frá því að flokksbundnir sjálfstæðismenn væru 35.000 talsins. Nú hefur hinn afbragðgóði blaðamaður Fréttablaðsins, Magnús Halldórsson, gert athugasemd við þá færslu og bent mér á að í viðtali, sem hann átti við Kjartan þegar hann lét af störfum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins í byrjun október á sl. ári, hafi Kjartan sagt að flokksbundnir sjálfstæðismenn væru þá 45.000 talsins.
Það er ljóst af þessu að mikill kraftur hefur einkennt flokksstarfið síðasta ár Kjartans í embætti og flokksbundnum sjálfstæðismönnum fjölgað um hvorki meira né minna en 10.000 frá október 2005 til október 2006. Geri aðrir betur, þetta er sannarlega glæsilegur árangur hjá Kjartani, síðasta ár hans í embætti, sem jafnframt var fyrsta árið eftir að Davíð Oddsson lét af formennsku í flokknum. Menn geta svo ímyndað sér að enn meira hafi fjölgað á flokksskránni í prófkjörunum sem fram fóru í október og nóvember í haust um land allt.
Í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2006 voru 216.191 á kjörskrá og þegar 45.000 manns eru flokksbundnir í Sjálfstæðisflokknum jafngildir það því að 20,8% kjósenda í landinu séu flokksbundnir sjálfstæðismenn. Þessar upplýsingar hljóta að setja væntingar manna til niðurstaðna alþingiskosninganna í nýtt ljós. Á þennan mælikvarða mætti segja að það væri hreint afhroð ef fylgi Sjálfstæðisflokksins í þingkosningunum yrði minna en svona 41,6%, þ.e.a.s. tvö atkvæði fyrir hvern skráðan flokksmann, þetta tel ég varfærnar kröfur því þá er ekki tekið til þeirrar fjölgunar sem varð í prófkjörunum í haust. Um leið hef ég amk meiri skilning en áður á því að nýr framkvæmdastjóri, Andri Óttarsson, vilji ekki að fjöldi skráðra flokksmanna spyrjist út.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 26
- Frá upphafi: 536849
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar