hux

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Hástökk án atrennu

Það kemur ekki á óvart að Hjálmar Árnason hafi ákveðið að bjóða sig fram gegn Guðna Ágústssyni í 1. sæti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Það hefur lengi mátt skynja á Hjálmari að hann var orðinn leiður á að eiga ekki möguleika í ráðherrastóli. Ég vann um tíma náið með Hjálmari (sem er afskaplega góður vinnufélagi) og hef búist við því að hann veldi annan tveggja kosta: 1. að bjóða sig fram gegn Guðna. 2. að draga sig í hlé og hætta afskiptum af stjórnmálum. Ég lagði aldrei trúnað á þær frásagnir að hann ætlaði sér áfram að sitja í 2. sætinu.

Það verður fróðlegt að fylgjast með baráttu þessara gömlu vopnabræðra,  Hjálmars og Guðna. Ég hef ekki trú á að Hjálmar geti lagt Guðna að velli.

Ég er sannfærður um að staða Guðna er mjög sterk í kjördæminu og innan flokksins en það er greinilegt að Hjálmar gerir út á þá umræðu að enginn Suðurnesjamaður sé í fremstu víglínu hjá flokkunum. Þannig að hann ætlar að láta póstnúmerið, sem hann býr í, og liðsinni utanflokksfólks tryggja sér forystusætið. Eina von hans er að smala miklu liði utanflokksfólks til þátttöku í prófkjörinu. Spurning hvort það gangi jafnvel hjá Hjálmari og það gekk hjá Árna Johnsen.

Ég held hins vegar að allt eins líklegt sé að þetta verði til að 2. sætið gangi Hjálmari líka úr greipum. Hann er engan veginn óumdeildur innan flokksins í kjördæminu, hvorki á Suðurnesjum né annars staðar. Tel mig reyndar vita að það sé honum nokk sama um, hann vilji berjast fyrir sínu, leggja allt undir og annað hvort veita forystu eða draga sig í hlé og berjast til síðasta blóðdropa.


mbl.is Hjálmar Árnason gefur kost á sér í efsta sætið í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brynjólfur hættir á Blaðinu

Þá liggur það fyrir að Brynjólfur Guðmundsson, fréttastjóri á Blaðinu, hættir störfum um áramótin og hyggst ekki starfa á Blaðinu eftir að Trausti Hafliðason verður þar ritstjóri. Hinn fréttastjórinn Gunnhildur Arna verður hins vegar um kyrrt.

Þeir Trausti og Brynjólfur störfuðu lengi saman á Fréttablaðinu og voru m.a. samtímis vaktstjórar undir stjórn -sme.


Sme hent á dyr í morgun

Sme var hent út af ritstjórn Blaðsins þegar hann mætti til vinnu í morgun. Hann var kallaður á fund Sigurðar G. Guðjónssonar, Karls Garðarssonar og Steins Kára Reynissonar, auglýsingastjóra, afhent bréf og beðinn að koma sér út. Í bréfinu kemur fram að Blaðið muni leita þeirra leiða sem færar eru til þess að koma í veg fyrir starf sme á öðrum fjölmiðlum. Sjálfur spyr sme á síðunni sinni hvort honum hafi verið hent út af leiðara sem hann skrifaði í blaðið í morgun og var hans síðasta verk og greinir frá því að Kristinn Björnsson hafi gert athugasemdir við ráðningu hans á sínum tíma.

Trausti Hafliðason nýráðinn ritstjóri Blaðsins er hins vegar enn á fréttastjóravöktum á Fréttablaðinu og er ekki að losna næstu daga. Hvað varðar framtíð fréttastjóra Blaðsins undir stjórn Trausta hefur Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir ákveðið að halda áfram starfi en Brynjólfur Guðmundsson er enn að hugsa sinn gang. Hann hafði boðist til að taka að sér ritstjórastarfið.


Legið á hleri

Síðdegisútvarp RÚV birti í dag umfjöllun um frásögn sem sögð var höfð eftir fyrrverandi lögreglumanni í Reykjavík þar sem hann lýsti þátttöku sinni í hlerunum á símum fjölda fólks í Reykjavík á árunum 1970 til 1980. Þetta er stórfrétt og hið fyrsta markverða sem fram kemur um hleranamálin vikum saman.

Ég skildi umfjöllunina þannig að þetta hljóti að hafa verið hleranir án dómsúrskurða því að lögreglumaðurinn lýsti þessu - í óbeinni endursögn starfsmanna Rásar 2 - nánast sem daglegum þætti í sínu starfi. Það var sama hvort um var að ræða grun um refsivert athæfi, eða fólk sem aðhylltist einhverjar stjórnmálaskoðanir og jafnvel lögreglumenn sem taldir voru hafa vafasamar skoðanir. Samkvæmt viðmælanda Rásar 2 voru allir þessar hópar hleraðir án þess að nokkurrar heimildar dómstóla væri aflað.

Ég beið spenntur eftir framhaldi málsins í kvöldfréttum RÚV en þar var ekki orð um málið. Hvernig getur staðið á því? Felur það í sér efasemdir fréttastofunnar um vinnslu þessa efnis í síðdegisútvarpinu eða er einfaldlega verið að geyma málið? Það er afar óvenjulegt að birta ekki svona bombur í aðalfréttatíma.

Þessi frásögn er enn ein vísbendingin um að rannsóknir fræðimanna á hleranamálum hér á landi munu ekki leiða til þess að sannleikurinn allur komi í ljós. Til þess að menn fái að vita hvernig þessum málum var háttað og hvað hér er á seiði þarf einfaldlega að gera eins og krafist hefur verið: setja þarf lög þar sem þeim löggæslumönnum og starfsmönnum Landsímans er heitið sakaruppgjöf gegn því að þeir segi allt af létta.  Fræðimenn rannsaka gögn, hér þarf að tala við fólk sem var að störfum á þessum tíma, ekki til að leita að sökudólgum í þeirra hópi, heldur til að leiða hið sanna í ljós.


Setið undir

"Háskólinn í Reykjavík ætlar ekki að sitja undir ummælum formanns borgarráðs..." Svo sagði í inngangi fréttar RÚV í kvöld vegna þess sem Björn Ingi sagði í Kastljósi í gærkvöldi eftir að Dagur B. Eggertsson gerði þar sjálfur ráðningu sína að Háskólanum í Reykjavík að umtalsefni. Að sitja ekki undir einhverju þýðir í mínum eyrum að nú eigi að grípa til aðgerða og ég beið þess að heyra hvaða aðgerðir væru í vændum. Svo kom fréttin en í henni var ekkert að finna um að sitja undir einhverju, þótt vissulega væru Inga Dóra og Guðfinna ekki ánægðar með ummælin. Þannig að það vantaði að mínu mati samræmi í það sem sagt var í innganginum og hitt sem fram kom í fréttinni. 

En aðeins meira um að sitja undir. Í umfjöllun Helga Seljan í Kastljósi í gær var sagt að ég væri eða hefði verið "ritstjóri kosningavefs" Framsóknarflokksins. Nú veit ég ekki til hvers Helgi er að vísa en því var hvíslað að mér að með þessu væri verið að vega að og dylgja um þetta blogg mitt. Ekki held ég að það sé rétt en hitt veit ég að varla er Helgi þarna að vísa til þess að ég var um mánaðarskeið (mars 2005) ritstjóri hriflu.is, vefrits framsóknarfélganna í Reykjavík, og ekki held ég heldur að hann hafi verið að vísa til þess að ég ritstýrði tímanum.is þegar ég var framkvæmdastjóri þingflokks framsóknarmanna. Þannig að ég óska eftir að Helgi skýri nánar hvað hann var að fara, en einhverjir labbakútar í áróðursdeild Samfylkingarinnar hafa þegar hent þetta á lofti í framhaldi af krísufundum dagsins á þeim bæ.


Ullarpeysur íslenska ríkisins

Íslenska ríkið - við öll - hefur eignast 983 ullarpeysur, 128 prjónahatta, átta trefla, 27 húfur og tíu pör af vettlingum. 

Við eignuðumst þetta með dómi héraðsdóms Austurlands, sem gerði varninginn upptækan til ríkissjóðs ásamt 1.300 geisladiskum. Allt fannst þetta í bíl sem tveir menn frá Perú komu með til landsins um borð í Norrænu. Þeir voru dæmdir fyrir að ætla að selja góssið en sjálfir sögðust þeir bara ekki hafa haft neinn stað til þess að geyma allan þennan lopa á meðan þeir skruppu til Íslands. Þess vegna hefðu þeir tekið prjónalesið með sér. Mér skilst að mennirnir hafi verið kyrrsettir hér á landi frá því 19. september meðan þeir biðu dómsins.

Nú þekki ég málsháttinn að fara með kaffi til Brasilíu, líka að fara með sand til Sahara en nú er komið nýr málsháttur: Þetta er nú eins og "að flytja lopapeysur til Íslands" og skal hann hafður um það að bera í bakkafullan lækinn, eða eitthvað í þá veru.

En nú stendur eftir vandinn: hvað á íslenska ríkið að gera við allar lopapeysurnar? Á að selja þær á uppboði tollstjóra næsta vor þannig að einhver útsjónasamur smákaupmaður geti keypt þær þar fyrir slikk og selt í Kolaportinu? Á að láta Stefán Jón Hafstein hafa þær með sér til Namibíu og nota þær þar sem hluta af þróunaraðstoð Íslendinga?  Það er líklega ekki góð hugmynd af veðurfarslegum ástæðum.

En hvað með að setja í gang sérstakt þróunarverkefni sem snýst um það að koma lopapeysum íslenska ríkisins til fólks sem þarf á þeim að halda. Hvað með að skila þeim til Perú? Ég sting upp á því að Þróunarsamvinnustofnun gefi peysurnar fátækum í Perú. Aðrar hugmyndir eru vel þegnar í kommentakerfið.


Takk en nei takk

Þakka Mogganum fyrir að birta í heild ákærurnar í olíusamráðsmálinu. Veit að þetta er afskaplega vel meint og gert af níðþungri samfélagslegri ábyrgð.

Verst að ég hef ekki tíma til að lesa þessar átta pökkuðu blaðsíður af texta. Ég hefði haft hins vegar gjarnan viljað lesa þétta samantekt á ákæruefnunum á svona eins og einni síðu. Þess vegna hefði ég verið enn þakklátari ef  ef blaðið hefði fengið einhvern af sínum frábæru blaðamönnum til þess að leggjast í virðisaukandi starfsemi með það hráefni, sem ákæran er, og draga út helstu atriði. Þeim er vel treystandi til þess. Forsíðufréttin bætir hins vegar litlu við það sem kom í ljósvakanum í gærkvöldi.

Skannaði ákæruna og sé að þótt talað sé um 27 ákæruliði er um að ræða í mörgum þeirra nokkra verknaði sem vísað er til. Líklega voru flestir sem vildu lesa ákæruna búnir að lesa hana á vef RÚV þar sem hún birtist í gær.

Sá sem les þetta og las líka ákæruna í heild í prentaða Mogganum má gjarnan gefa sig fram í kommentum.


10 kíló og 3 mánuðir

Helgi Seljan var rétt þessu að birta mynd af mér sem var tekin fyrir svona liðlega 10 kílóum síðan og nota sem myndskreytingu í umfjöllun um ráðningar til fyrirtækja og stofnana borgarinnar.

Það er rétt að ég hef um þriggja mánaða skeið unnið að verkefni á vegum Faxaflóahafna sem tengist nýjum vef fyrirtækisins. Markaðsstjóri fyrirtækisins stýrir því verkefni en vonir standa til að því ljúki um áramót. Ekki mun ég halda því fram að þetta verkefni mitt hafi ekkert með það að gera að ég er vinur Björns Inga Hrafnssonar, stjórnarformanns fyrirtækisins, og pólitískur samherji hans.  En mér finnst líka rétt að koma því á framfæri að hér er ekki um fast starf að ræða og ekki auglýsinga- eða útboðsskylt verkefni. Sjálfur ætla ég ekki að dæma um getu mína til að sinna verkfninu.

Og mér finnst ágætt að Kastljósið fjalli um  ráðningar í opinber fyrirtæki og stofnanir og vonandi verður framhald á. Kannski stæði þeim næst að fara yfir það hvort farið hafi verið að lögum, reglum og kjarasamningum um ráðningar umsjónarmanna í Kastljósið undanfarna mánuði.


Tveir Traustar og annar ritstjóri

Gott hjá Trausta Hafliðasyni að vera orðinn ritstjóri Blaðsins. Bestu hamingjuóskir. Trausti hefur verið  fréttastjóri á Fréttablaðinu og hefur starfað þar nánast frá upphafi, kom þá af Mogganum, þar sem hann hóf störf eftir að hafa lokið mastersnámi í blaðamennsku (ekki fjölmiðlafræði) frá háskóla í Arizona.  Eftir að -sme hætti á Fréttablaðinu og fór á Blaðið hefur Trausti stigið upp og orðið fremstur meðal jafningja á fréttadeild Fréttablaðsins. Brottför hans er blóðtaka fyrir Fréttablaðið. Ég hlakka til að fylgjast með hvernig hann tekst á við ritstjórastarfið. Nú starfa tveir Traustar á ritstjórn Blaðsins. Annar er ritstjóri, hinn er Hafsteinsson.

Tæknileg mistök, vegamál og annað hvalræði

Staksteinar eru í dag að senda Árna Johnsen einhvers konar skilaboð um að það væri nú bara best fyrir hann að draga sig til baka af framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og líta svo á að hann hafi fengið nægilega mikla uppreisn æru með þeim árangri sem hann náði í prófkjörinu. Athyglisvert verður að sjá hvort  Árni gerir eitthvað með þetta álit sinna gömlu samstarfsmanna og vina á Mogganum, sem stóðu við bakið á honum lengur en stætt var í tjarnardúksmálinu á sínum tíma. Mogginn treysti Árna og hann lét blaðið villa um fyrir lesendum sínum og prenta einhverja steypu um dúkinn sem hann var að flytja milli lands og Eyja meðan fjölmiðlar voru að fletta ofan af hans "tæknilegu mistökum".

En aftur að Staksteinum, þeir tala um áhyggjur áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum af stöðu ýmissa mála og nefna þar helst til sein viðbrögð Sturlu Böðvarssonar og Árna Mathiesen við kröfunni um úrbætur á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Allt rétt, þau viðbrögð voru ekki til fyrirmyndar. En hins vegar vakti það furðu mína í þessu sambandi að Staksteinar nefni ekki embættisferil Einars K. Guðfinnssonar, en þar hefur hvert óhappið rekið annað eins og Mogginn sjálfur hefur verið allra miðla  duglegastur að halda til haga.

Þannig hjólaði blaðið af mikilli hörku í Einar vegna þess hvalræðis sem ákvörðun um veiðar á 30 hrefnum og níu langreyðum hefur leitt yfir íslenska hagsmuni. Sú ákvörðun hefur þegar eyðilagt markaðsstarf fyrir íslenskar matvörur í Bandaríkjunum og gert að verkum að málsmetandi menn og stofnanir neituðu Einari K. Guðfinnssyni um fund þegar hann kom vestur um haf í síðustu viku til þess að reyna að bæta fyrir skaðann. Þær skammir sem Íslendingar hafa fengið fyrir andstöðuna við bann við botnvörpuveiðum á úthafinu standa áreiðanlega í beinu sambandi við hvalræðisákvörðunina nokkrum vikum fyrr. Þegar þessi tvö mál eru tekin saman komast menn í Bandaríkjunum að þeirri niðurstöðu að Íslendingar séu siðferðislegir einfarar í málefnum hafsins eins og það var orðað í Washington Post.

Á nokkurra mánaða ráðherraferli hefur alþjóðlegri ímynd Íslendinga sem þjóðar sem er til fyrirmyndar í umgengni um auðlindir hafsins verið rústað og er óvíst hvort það tekst að endurreisa þá ímynd. Mogginn hefur ekki dregið af sér í gagnrýni á málið og beint henni allri að sjávarútvegsráðherranum. En þegar Staksteinar tala nú um þau mál sem helst séu flokksmönnum áhyggjuefni eru mál sjávarútvegsráðherra, sem þó hafa verið fyrirferðarmikil í umræðu blaðsins, ekki talin upp þar á meðal. Skyldi það vera vegna þess að Staksteinar vita sem er að raunverulega ábyrgð á hvalræðinu og eftirleik þess ber ber ekki síst formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Geir H. Haarde stóð ekki í lappirnar þegar á reyndi að berja niður kröfuna um hvalveiðar líkt og forverar hans Davíð og Halldór höfðu gert. Kannski eru Staksteinar að hlífa Geir fremur en Einari K. með því að halda þessum málum ekki til haga þegar rætt er um þau mál sem eru Sjálfstæðisflokknum erfið um þessar mundir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband