hux

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Suðurnesjamenn vildu fleiri frambjóðendur

Hjálmar Árnason tók áskorun Suðurnesjamanna sem söfnuðu undirskriftum um að bjóða sig fram gegn Guðna Ágústssyni í prófkjöri framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. En framboð Hjálmars virðist umdeilt meðal flokkssystkina hans á Suðurnesjum. Stjórn fulltrúaráðs framsóknarmanna í Reyjanesbæ samþykkti einróma á laugardag að skora á kjörstjórn að framlengja framboðsfrest svo að fleiri Suðurnesjamenn geti boðið sig fram í prófkjörinu.

Formaður stjórnarinnar sendi kjörstjórninni bréf þessa efnis og var það tekið fyrir á fundi kjörstjórnarinnar í fyrrakvöld. Kjörstjórnin hafnaði óskum Suðurnesjamanna og því er staðan í prófkjöri framsóknar í kjördæminu sú að af tólf frambjóðendum eru aðeins 2 frá Suðurnesjum.

Suðurnesjamenn óttast að ef Hjálmar tapi  bardaganum við Guðna, sem flestir telja líklegt, muni hann afþakka sæti á listanum og því muni Suðurnesjamenn engan fulltrúa eiga í líklegu sæti á listanum. Hjálmar hefur ekki talað hreint út um hvort hann muni taka 2. sætinu ef hann hreppir það í prófkjörinu.

Framboð Hjálmars í 1. sætið kom flatt upp á marga framsóknarmenn á Suðurnesjum, sem höfðu ekki orðið varir við undirskriftarsöfnunina og tóku yfirlýsingar Hjálmars á kjördæmisþingi 5. nóvember alvarlega. Þar sagðist hann styðja Guðna í 1. sætið og stefna áfram að 2. sætinu. Sú yfirlýsing varð til þess margir Suðurnesjamenn, sem hugleitt höfðu framboð, ákváðu að sitja hjá og tryggja Hjálmari góða kosningu í 2. sætið, en þrír aðrir frambjóðendur sækjast eftir því. En eftir að Hjálmar sneri við blaðinu og skoraði Guðna á hólm er þungt í stuðningsmönnum varaformannsins á Suðurnesjum og þeir eru margir, eins og sést af því að tillagan um lengri framboðsfrest var samþykkt án mótatkvæða í stjórn fulltrúaráðsins.


Batman og Robin í Bítið

Jóhannes í Bónus var í drottningarviðtali í Ísland í Bítið en að mati umsjónarmannanna þekkir hann betur en flestir til þess hvort og í hvaða mæli velferðarkerfið og aðstoð við tekjulágt fólk er misnotuð hér á landi.

Tilefnið var meðal annars málefni Byrgisins en fram kom að Jóhannes hefur styrkt starfsemi Byrgisins með matargjöfum og öðrum framlögum. Jóhannes sagðist mundu halda þeirri styrkveitingu áfram en komi í ljós að ásakanir eigi við rök að styðjast muni nýir menn taka við rekstri Byrgisins.

Framan af í viðtalinu var rætt um örlæti Jóhannesar við ýmis líknarsamtök og fátækt fólk og í miðju viðtalinu fór ég að velta því fyrir mér hvort  hér væri hungursneyð ef ekki nyti þjóðin örlætis Jóhannesar og gjafa hans til fátækra. Sá náttúrlega að það var tóm vitleysa en svona er ég nú hrifnæmur á góðri stund. Svipað augnablik átti ég þegar fram kom að hlutfall ráðstöfunartekna fólksins í landinu, sem fer til matvörukaupa, hefur frá 1988 lækkað úr um 25% - þegar Bónus opnaði - í um 16% í dag. Mér fannst eitt andartak eins og allt þetta hefði hann Jóhannes nú gert fyrir þjóð sína og líklega hefur spyrlunum liðið eins því ekkert sögðu þeir sem gefið gat annað til kynna en að þetta væri einmitt þannig vaxið.

Að loknu spjalli um fátæktina og styrkveitingar Jóhannesar var svo farið að tala um Baugsmálið og vanhæfi Haralds Johannessen og Jóns H. B. Snorrasonar og þann harmleik sem Baugsmálið vissulega er öllum Íslendingum, einkum þeim sem eldurinn brennur á og fjölskyldum þeirra. 

En er það rétt tilfinning, sem ég hef, að ávallt þegar nýr úrskurður dómstóla hefur fallið þeim Baugsmönnum í vil birtist Jóhannes í Bónus í drottningarviðtali í Íslandi í bítið? Hvers vegna skyldi það vera? Á hann kannski fjölmiðilinn og mætir bara þegar hann vill? Í þessum viðtölum - líkt og í morgun -  er annars vegar fjallað um öll hans góðu verk í þágu lítilmagnans og hins vegar illsku mannanna sem að honum sækja.  Ég hef örugglega séð ein 10 svona viðtöl. Þegar ég horfi á þessi viðtöl verður mér stundum hugsað til sögunnar sem ritstjóri Morgunblaðsins hefur sagt af sínu fyrsta blaðamannsverki, sem var viðtal við ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem þá hélt um alla þræði á Morgunblaðinu. Viðtalið fór þannig fram að viðmælandi ritstjórans sagði. "Nú spyrð þú og þá svara ég..."  Hann bjó bæði til spurningarnar og svörin. Þá er spyrillinn í hlutverki Robins og viðmælandinn í hlutverki Batmans, eða hvað?


Sturla öryggismálaráðherra

Að óbreyttu virðist stefna í að flugsamgöngur til og frá landinu verði í ólestri frá áramótum. Verið er að stofna félag sem heitir Flugstoðir utan um rekstur flugumferðarstjórnarkerfisins og í stað þess að vera opinberir starfsmenn verða flugumferðarstjórnar starfsmenn þess félags. Meinið er að flugumferðarstjórnarnir vilja ekki vinna hjá þessu félagi af því að þeir telja sig ekki hafa tryggingu fyrir að þeir haldi sömu kjörum og réttindum og þeir gerðu sem opinberir starfsmenn. Það þarf eitthvað að gerast næstu vikuna ef ekki eiga að verða vandræði með flug til og frá landinu.

Svo sé ég á forsíðu Moggans í dag að ekkert má út af bregða í fjarskiptamálum landsins vegna þess í hve ótryggu og lélegu ljósleiðarasambandi landið er við umheiminn. Fyrir okkur menn ársins er þetta náttúrlega mjög slæmt mál en líka fyrir allt þjóðfélagið sem meira og minna er orðið háð ljósleiðarasambandi. Það er helst að hvalveiðiflotinn geti komist af án ljósleiðarans.

Það er mikið í tísku að tala um varnar- og öryggismál þessa dagana og nú er íslensk sendinefnd í Danmörku að leita samstarfs við Dani um varnir landsins. Mér finnst það hið besta mál, en hervarnir eru samt hálfóraunverulegt viðfangsefni í öryggismálum í samanburði við það að halda hér uppi óbrjáluðum flugsamgöngum og ljósleiðarasambandi við umheiminn.

Af þessu tilefni fór ég að rifja upp ráðherraferil samgönguráðherrans, Sturlu Böðvarssonar, í leit að máli sem hefði tekist vel til með undir hans stjórn. Ég verð að segja eins og er að ég er alveg blankur. Hins vegar kemur hvert klúðrið af öðru upp í hugann. Ég veit að það hljóta að vera einhver mál sem vel hafa tekist hjá Sturlu öll þessi ár. Bið um aðstoð frá lesendum í komment. Það má ekki telja með malbikunarframkvæmdir, hafnarbætur og flugvallargerð á Norðvesturlandi.


Öryggisráðið sem tekjulind

Bandaríkjastjórn er sögð múta þeim ríkjum sem eiga sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, og veitir til hvers þeirra 59% hærri fjárhæðum þau ár þegar þau eiga sæti í ráðinu en hin árin þegar þau eru utan þess. Þetta kemur fram í rannsókn hagfræðinga, sem greint er frá í Observer í gær. Þar segir:

When there is a controversial vote in prospect, the premium for countries with a security council seat is even higher. US aid surges by as much as 170 per cent, bringing in a £23m windfall, while the UN spends an extra £4m.

Some countries serve on the security council during relatively calm years, whereas others, by chance, are fortunate enough to serve during a year in which a key resolution is debated and their vote becomes more valuable,' the authors say.

 Rannsókn hagfræðinganna í heild má lesa hér.

Milljarðamæringar berjast í stuttbuxum

Milljarðamæringar á stuttbuxum slógust upp á líf og dauða í Madison Square Garden í gærkvöldi. Leik NY Knicks og Denver Nuggets í NBA deildinni var að ljúka með öruggum sigri Denver þegar fjandinn varð laus og leikmenn beggja liða létu hendur skipta. Sjá upptöku frá YouTube hér að neðan.

 


Íslenskur þrýstingur á Washington Post?

Tilburðir íslenskra stjórnvalda til þess að vinda ofan af þeim skaða sem hvalveiðar og andstaða við botnvörpuveiðar á úthöfunum hafa valdið íslenskum hagsmunum virðast hafa borið einhvern pínulítinn árangur. Það merki ég af því að breytingar hafa verið gerðar á leiðaranum sem Washington Post birti um málið og kallaði Blame Iceland.

Harðasta skotið á Ísland - mest móðgandi orðalagið - hefur verið tekið út úr textanum fyrir birtingu í öðrum blöðum. Eins og algengt er um leiðara stórblaðanna hefur þessi leiðari verið seldur til birtingar í fjölmörgum smærri dagblöðum vítt og breitt um Bandaríkin. Eitt þeirra blaða sem birtir hann er St. Petersburg Times í Florida, sem birtir hann í dag og velur honum fyrirsögnina: Iceland leads maulers of the seas, eða Ísland í fararbroddi níðinga hafsins. Svo sem engin ástæða til þess að fagna þessari nýju fyrirsögn, hún er svakaleg. 

En breytingin er þarna samt og hún er þessi. Í upphaflegu útgáfunni voru Íslendingar kallaðir "genuine moral outliers in world attitudes toward oceans" (lauslega: raunverulegir siðferðislegir einfarar hvað varðar viðhorf heimsins til málefna hafsins). Þessi setning hefur verið tekin út úr leiðaranum fyrir endurbirtingu. Slíkar breytingar gera ritstjórnir ekki að tilefnislausu, þetta hlýtur að þýða að íslensk stjórnvöld hafi sett sig í samband við ritstjórnina og gert henni grein fyrir íslenskri fiskveiðistjórnun og fleiru sem borið hefur þann árangur að þessari móðgandi staðhæfingu hefur verið kippt út. Breytir litlu en er án efa stærsti sigur Einars K. Guðfinnssonar í þessu vonlausa stríði.


Leyndarvirkjun

Leiðari Moggans í dag hittir naglann á höfuðið. Þar er fjallað um þá leynd sem Landsvirkjun hjúpar orkusamninga sína við álbræðslufyrirtæki. Greinilegt er að ritstjórinn sjálfur skrifar. Tek undir þegar hann segir: 

En ef svo skyldi vera að eigendur Landsvirkjunar, íslenzka þjóðin, séu þeir einu sem vita ekki um raforkuverð til álvera hér á landi er ástæða til að endurskoða þá afstöðu sem Landsvirkjun hefur haft. Það hefur mikla þýðingu að þjóðfélag okkar sé opið og að allar upplýsingar sem varða hagsmuni þjóðarinnar liggi á borðinu fyrir hvern sem er að skoða. Þetta er grundvallaratriði í því lýðræðislega þjóðfélagi sem við viljum byggja upp á nýrri öld. 
Þessi leynd um orkuverðssamningana er ósmekklegt grín. Iðnaðarráðherra hlýtur að hafa vit fyrir Friðrik Sophussyni og meirihluta stjórnar Landsvirkjunar og gera þessar upplýsingar opinberar.

Á hægri leið inn úr kuldanum

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í dag sætir tíðindum. Guðmundur hefur þegar gert það að umtalsefni og vísa ég á skrif hans. En þegar ég las þetta Reykjavíkurbréf datt mér fyrst í hug að nú væri ritstjórinn að stíga skref í þá átt sem hann hefur nokkrum sinnum gert atrennu að, fyrst í minningargrein sem sem Styrmir Gunnarsson skrifaði um Eyjólf Konráð Jónsson, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins og alþingismann, og birtist þann 14. mars 1997.

Í minningargreininni sagði Styrmir:

Eyjólf Konráð Jónsson þekkti ég lítið þar til dag einn fyrir tæpum fjórum áratugum að æskuvinur minn, Hörður Einarsson hrl., sem leiddi mig til starfa á vettvangi Sjálfstæðisflokksins,  bað mig að fara á fund Eykons, eins og hann var jafnan kallaður, hann ætti við mig erindi. [...] Þetta var á þeim árum, þegar gríðarleg harka var í kalda stríðinu á milli hins frjálsa heims, undir forystu Bandaríkjanna, og Sovétríkjanna, sem höfðu raðað í kringum sig leppríkjum í Austur-Evrópu og víðar. Þeir sem ekki upplifðu kalda stríðið eins og það var harðast munu aldrei skilja þau viðhorf, sem réðu gerðum manna á þeim árum.

Í þessu samtali fékk ég örlitla innsýn í veröld, sem ég vissi ekki að væri til á Íslandi en tengdist þessum alheimsátökum. Eykon bað mig um að taka að mér verkefni, sem ég gerði, en ekki fyrr en að lokinni alvarlegri umhugsun. Því sinnti ég á hans vegum fram eftir Viðreisnaráratugnum. Það starf hafði margvísleg áhrif á pólitíska vígstöðu flokkanna en eins og margt af því, sem gerðist á tímum kalda stríðsins, bíður frásögn af því síðari tíma. [...] Upp úr þessu hitti ég hann a.m.k. vikulega en oft daglega. Við skiptumst á upplýsingum.

Feitletrunin í tilvitnuninni er mín. Í Reykjavíkurbréfinu stígur Styrmir svo raunverulegt skref, þótt það sé sannarlega aðeins hænufet, að segja allt af létta um þennan leynilega erindrekstur sinn. 

Meira hlýtur að vera á leiðinni, því eins og Guðmundur bendir á vekur frásögn Reykjavíkurbréfsins fleiri spurningar en svarað er og það eina sem við vitum nú er að forysta Sjálfstæðisflokksins vildi koma hér á leynilegu varaliði - væntanlega undir eigin stjórn- undir því yfirskyni að verjast átökum á vinnumarkaði þótt hitt eiginlega tilefni væri ótti við átök vegna samnings í landhelgisdeilunni. 

Þeir æskuvinir Styrmir og Hörður Einarsson hafa svo báðir tengst náið blaðaútgáfu á Íslandi, Styrmir sem ritstjóri Morgunblaðsins, Hörður sem útgefandi Vísis og síðar DV.


Brynjólfur verður áfram á Blaðinu

Brynjólfur Guðmundsson hættir ekki sem fréttastjóri á Blaðinu, hann er búinn að ákveða að halda áfram og ganga að nýju tilboði um launakjör sem stjórnendur Blaðsins gerðu honum í dag.

Já, það er rétt að þettta stangast á við það sem ég hélt hér fram kl. rúmlega 13.30 í dag. Á þeim tíma gaf  Brynjólfur félögum sínum til kynna með ótvíræðum hætti að hann ætlaði að hætta. En honum snerist hugur og ákvað að hætta við að elta -sme í hans nýju heimkynni. Þess í stað ætlar hann að vinna áfram að því með Trausta Hafliðasyni og Gunnhildi Örnu að styrkja stöðu Blaðsins á fríblaðamarkaði.

 


Þættinum hefur borist bréf

Helgi Seljan hefur svarað fyrirspurn minni, sem ég beindi til hans hér og sent mér bréf sem er svohljóðandi:

"Sæll Pétur.
Sá að þú beindir þeirri spurningu til mín hvers vegna ég hefði kosið að taka það fram að þú hefðir verið “ritstjóri kosningavefs Framsóknarflokksins” í umfjöllun Kastjóss um verkefnaráðningar hjá borginni og fyrirtækjum í hennar eigu. Þetta gerði ég einfaldlega vegna þess að í síðustu kosningabaráttu Framsóknarmanna í borginni  gegndir þú ritsjórastöðu Hrifluvefsins, sem þá var “kosningavefur” Framsóknarmanna í Reykjavík. Þarna var ekki – og ég endurtek svo það sé alveg á hreinu – alls ekki verið að tala um vefsíðu þína hux.blog.is."

Helgi lætur fylgja bréfi sínu afrit af frétt NFS frá 19. mars sl. þar sem fjallað var um tilburði fyrrverandi borgarfulltrúa sem taldi sig ritskoðaðan af því að pistill hennar fékkst ekki birtur á Hriflunni og henni vísað með umkvörtunarefni sitt á póstlista flokksfélaga. Fjölmiðlar stukku á málið, sem í mínum huga snerist ekki um ritskoðun heldur ritstjórnarlegt sjálfstæði. En ég ítreka það sem ég sagði hér um daginn að ég var ritstjóri Hriflunnar um nokkurra vikna skeið en hætti því starfi að eigin frumkvæði þegar ég réði mig til Fréttablaðsins ca. 20. mars. Þá voru tæpir tveir mánuðir í kjördag og kosningabaráttan varla hafin. En ég þakka Helga bréfið og hvet hann að lokum til að taka Sigmar sér til fyrirmyndar og fara að blogga sjálfur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband