hux

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Vísvitandi rangfærslur, segir Eiríkur

Sigurjón M. Egilsson greindi frá því á bloggi sínu í gær að Eiríkur Hjálmarsson upplýsinafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur hefði kært blaðið fyrir siðanefnd Blaðamannafélagsins vegna umfjöllunar um samning fyrirtækisins við Orkuveituna. "Þessu verður vinnandi fólk að una og taka til varna," sagði -sme.

Eiríkur bregst við skrifum -sme á bloggi hans með því að birta kæru sína í heild athugasemd á bloggi ritstjórans. Þar kemur fram að m.a. er kært fyrir það sem kallað er vísvitandi rangfærslur í leiðara.


Háskóli Samfylkingarinnar?

Einu sinni var Bifröst talin andleg miðstöð framsóknarmennskunnar í landinu. Að minnsta kosti þriðjungur þess þingflokks framsóknar sem kosinn var vorið 2003 var útskrifaður frá því sem einu sinni hét Samvinnuskólinn á Bifröst. Nú virðist það liðin tíð að kenna megi Bifröst við framsókn því nýr stjórnmálaflokkur hefur greinilega tekið Bifröst upp á arma sína. Það er valinn Samfylkingarmaður í hverju rúmi.

Ágúst Einarsson, fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar var í dag ráðinn rektor á Bifröst, Ágúst er líka fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Aðstoðarrektor er Bryndís Hlöðversdóttir, annar fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar. Fyrrverandi rektor, Runólfur Ágústsson, var frambjóðandi Þjóðvaka, sem þá var stjórnmálahreyfing en er nú Samfylkingarfélag. Fyrrverandi aðstoðarrektor var Magnús Árni Magnússon, sem um skamma hríð sat sem þingmaður frá 1998 til 1999. Fyrir hvern? Jú, Samfylkinguna. Svo er amk einn varaþingmaður sama flokks í kennaraliðinu, það er Eiríkur Bergmann Einarsson, sem er dósent, líka Birgir Hermannsson, sem var aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar, þegar hann var umhverfisráðherra. Birgir er nú aðjúnkt við Háskólann á Bifröst.


mbl.is Ágúst Einarsson ráðinn rektor Háskólans á Bifröst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlustar Bush á prestinn?

George W. Bush fór í kirkju síðasta sunnudag sem er ekki í frásögur færandi. Eins og venjulega fór hann með Lauru sinni yfir götuna frá Hvíta húsinu og í St. John's Episcopal Church. Þar er prestur séra Luis Leon,sem  þjónaði einmitt í innsetningarmessu forsetans. En boðskapurinn á sunnudaginn var líklega ekki sá sem forsetinn vonaðist eftir. 

Fjölmiðlar vestanhafs hafa mikið fjallað um þá augljósu persónulegu erfiðleika sem forsetinn á í með að viðurkenna mistök sín og snúa af villu síns vegar í Írak.  Séra Luis tók á þessu máli í predikuninni og boðaði ekki eld, brennistein og krossfarir heldur guðfræði iðrunarinnar.  Honum mæltist meðal annars svo:

Repentance is changing your way, changing your mind, changing your direction,' the Rev. Leon said. It requires the will to change,' he said. 'It requires the courage to acknowledge that you want to change, to change your direction
 


Jón Valur ver Einar K. í Washington Post

Ég hef ekki orðið var við að Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hafi tekið til varna í Washington Post í framhaldi af leiðara blaðsins Blame Iceland þar sem hraunað var yfir íslensk stjórnvöld fyrir hvalveiðar en sérstaklega fyrir að hafa komið í veg fyrir alþjóðlegt samkomulag um bann við botnvörpuveiðum á úthafssvæðum. Ekki orð frá ráðherranum en í dag er hins vegar íslenskt lesendabréf í blaðinu frá manni sem tekur upp hanskann fyrir Einar og aðra áhugamenn um botnsfiskveiðar á alþjóðlegu hafsvæði.

Það er Jón Valur Jensson - ég held hinn sami og er kunnur baráttumaður gegn fóstureyðingum og gegn auknum réttindum samkynhneigðra - sem lætur málið til sín taka á síðum heimsblaðsins í dag. Má nú með sanni segja að hann sé orðinn heimskunnur baráttumaður fyrir botnvörpuveiðum. Jón Valur segir meðal annars í sínu ágætlega stílaða lesendabréfi:

There is no reason to outlaw trawlers from Atlantic waters, causing our most valuable ships to be scrapped.


Milljarðar og prósentur

1% tekjuskattslækkun, 7% lækkun vsk á mat og veitingaþjónustu var samþykkt á Alþingi í gær. Líka hækkun barnabóta og persónuafsláttar. 22 milljarðar sem fara frá ríkinu til almennings. Milljarðar og prósentur segja mér ekki neitt. Hvað gerir þetta í vasann?

Hvers vegna er enginn að veita upplýsingar um hvað þetta þýðir í krónum og aurum fyrir mig og mína?   Ég er enginn sérfræðingur í útreikningum en mér finnst ekki fráleitt að giska á að þetta sé svona 30-40 þúsund kall á mánuði í vasann fyrir millitekjuhjón með tvö börn. En af hverju er ég að reyna að giska á þetta? Af hverju er Árni Mathiesen ekki búinn að láta embættismenn sína reikna þetta út og kynna með málinu? Er hann ekki ánægður með málið? Telur hann sér það ekki til framdráttar? 

 


mbl.is Þingfundum á Alþingi frestað til 15. janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingur handtekinn í Palestínu

Ég hef hvergi séð fjallað um þetta í fjölmiðlum:

Ég var handtekinn af Ísraelskum hermönnum og látinn dúsa í gærsluvarðhaldi í rúmar fimm klukkustundir eftir að hafa ,,óhlýðnast" skipun hermanns á Huwwara-herhliðinu við borgina Nablus síðastliðinn laugardag. [...] Þegar ég kom á staðinn tók ég eftir palestínskri konu sem bað örvæntingarfull um að fá að vera hleypt í gegn án þess að bíða í röð þar sem barnið hennar væri fárveikt. Ég reyndi að bakka upp málstað konunnar með því ræða við hermennina um það sem amaði að barninu.


Grein um greiningardeild

Guðmundur og Davíð Logi hafa rætt um greiningardeildina sem Davíð Oddsson stofnaði hjá sýslumanninum í Keflavíkurflugvelli til þess að annast hættumat fyrir friðargæsluna. Guðmundur spyr spurninga um leyndina sem hvílt hefur yfir þessari starfsemi og þær spurningar eru allar réttmætar, það er lykilatriði að svona starfsemi sé innan vel skilgreinds lagaramma og lúti þverpólitísku eftirliti. 

Mig langar hins vegar að koma að málinu úr annarri átt og hrósa Davíð Oddssyni fyrir þetta framtak hans, því mér finnst það bæði merkilegt og til marks um að hann hafi stigið mikilvægt skref til þess að leggja drög að því að íslensk stjórnvöld verði loks fær um að framfylgja hér sjálfstæðri utanríkisstefnu.

Til þess að svo megi verða þarf stofnanir sem afla upplýsinga um ástand mála erlendis, greina þær og meta frá sjónarhóli Íslands og íslenskra hagsmuna. Ég held að aðeins með slíkri markvissri starfsemi geta stjórnvöld tekið ábyrgar og sjálfstæðar ákvarðanir í utanríkismálum.

Annars eiga stjórnvöld kannski bara tveggja kosta völ: 1. Fara eftir fréttum fjölmiðla hverju sinni og leggja þær til grundvallar ákvörðunum. 2. hringja í sambærilegar stofnanir hjá erlendum "vinaþjóðum" og spyrja: hvað ætlið þið að gera, strákar? og gera svo slíkt hið sama. Hvorugt er boðlegt út frá eðlilegri stjórnsýslu og enn síður út frá því hvað það er að vera sjálfstæð, ábyrg þjóð meðal þjóða en ekki ábyrgðarlaust viðhengi annarra þjóða. Greiningardeild eins og þessi er ill nauðsyn en hún þarf að hvíla á góðri lagastoð og lúta þverpólitísku eftirliti. Hún er eftirlitsstofnun og eins og aðrar slíkar á hún ekki að vera sett beint undir framkvæmdavaldið.

Og athugið að ég er ekki að tala um greiningardeild ríkislögreglustjóra (sem heyrir undir dómsmálaráðherra), sem hefur væntanlega hlutverk innanlands, eftirlit með fólki innan landamæra ríkisins, það er önnur ella og líklega annarrar messu virði, heldur greiningardeild utanríkisráðuneytisins (sem heyrir undir lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli sem heyrir undir utanríkisráðuneyti) sem fylgist með málefnum erlendis og leggur grunn að ákvörðun íslenskra stjórnvalda um erlend málefni.

Slík deild hefði t.d. getað gert íslenskt hættumat í aðdraganda innrásarinnar í Írak, eða hvað? Hún var ekki til og þá var tvennt hægt að gera. Davíð og Halldór völdu kost 2 hér að ofan eins og oftast áður. Þannig að ég ætla að minnsta kosti fyrir mína parta að líta á þessa greiningardeild utanríkisráðuneytisins sem óbeina viðurkenningu Davíðs á því að innrásin í Írak hafi verið röng eða mistök. Amk raunverulega viðurkenningu á því að hann treysti ekki bandarískum stjórnvöldum jafn vel og áður. Hann mótmælir því bara í kommentakerfinu ef þetta er vitleysa hjá mér.Cool

Eitt enn, auðvitað má deila um það að hýsa þessi starfsemi hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli, sérstaklega þar sem ég held að ég muni það rétt að senn verði breyting á högum þess embættis við þá uppstökkun sem framundan er í lögreglumálum. Það er engin ástæða til þess að við slíka breytingu færist þessi greiningardeild viðstöðulaust undir dómsmálaráðherra.


Brynjólfur vill ritstýra Blaðinu

Það bíður mikil áskorun þeirra Sigurðar G. Guðjónssonar útgáfustjóra og Karls Garðarssonar framkvæmdastjóra að halda Blaðinu gangandi við þær aðstæður sem nú blasa við í útgáfunni.

Ritstjórinn -sme hefur sagt upp störfum, líka þrír aðrir lykilstjórnendur á ritstjórninni, Janus sonur sme, og fréttastjórarnir  Brynjólfur Guðmundsson og Gunnhildur Arna. Enginn blaðamaður hefur sagt upp, t.a.m. ekki Trausti Hafsteinsson, bróðursonur sme, en sögur gengu um það í dag. Andrés Magnússon blaðamaður er á uppsagnarfresti sem rennur út um áramót og í byrjun vikunnar hætti Örn Arnarson, umsjónarmaður erlendra frétta, en hann hefur ráðið sig til starfa á nýju og endurbættu Viðskiptablaði. Eini stjórandinn á ritstjórninni, sem enn hefur ekki sagt upp er Elín Albertsdóttir, hún er nýkomin til starfa, og sagði samstarfsmönnum sínum í dag að hún teldi að hún hefði nánast verið fengin um borð í fleyið á röngum forsendum.

Það er ekki auðvelt að sjá hvers vegna Sigurður G. og Karl báðu -sme ekki að taka föggur sínar og fara út um leið og hann tilkynnti þeim fyrirætlanir sínar, það hlýtur að vera erfitt fyrir bæði ritstjórann og eigendurna að hafa kallinn vappandi á ritstjórninni við þessar aðstæður. Kannski telja þeir að þeir standi þannig betur í dómsmáli eða lögbannsmáli sem þeir munu væntanlega höfða gegn honum þegar hann gengur á dyr.

Í fljótu bragði er kannski fyrsti kostur Sigurðar og Karls sá að taka tilboði  Brynjólfs Guðmundssonar en uppsögn hans var skilyrt. Hann sagðist hafa ráðið sig til blaðsins til að vinna með sme og vildi ekki vinna með öðrum ritstjóra. Hins vegar væri hann sjálfur tilbúinn til að verða ritstjóri. Gunnhildur Arna sagðist líka segja upp því hún væri ekki tilbúin til að ákveða með framtíð sína á blaðinu fyrr en hún vissi hver yrði ritstjóri og hvort hún treysti sér til að vinna með honum. Enginn fyrirvari fylgdi hins vegar uppsögn Janusar, um leið og sme sagði honum af uppsögn sinni, stóð hann upp frá vinnu, gekk inn til Karls Garðarssonar og sagði upp. Janusar beið starf við umbrot Nyhedsavisen í Danmörku þegar hann ákvað að fylgja karli föður sínum upp í Hádegismóa í sumar.


Mörgu að venjast á nýju heimili

Mættur hingað á blog.is eftir að hafa verið á blogspot. Þótt útlitið sé nánast eins (þökk sé sérfræðingum mbl.is) er margt breytt í umhverfinu og stjórnarendanum. Ég verð einhvern tíma að venjast þessum breytingum að fullu.

Það er t.d. þetta með bloggvinina, ég er strax búinn að fá tilboð um að gerast bloggvinur þessa og hins. Veit ekkert hvað það er, hef bara vanist því að gera tengla á þá sem vilja. Útlitið mitt gerir ekki ráð fyrir þessum möguleika í dag en sjáum hvað setur.

Svo er það þetta með tenglana af forsíðu, ég hef vanist því að skrifa stutt, setja litla vinnu í færslur, uppfæra ört og gera út á að þetta sé nokkurs konar straumur þar sem fólk kemur alltaf inn í gegnum forsíðuna. Nú er traffíkin sjálfsagt mikið til í gegnum tengla annars staðar af mbl.is og blog.is, kallar kannski á breytt vinnubrögð í framtíðinni, veit það ekki, sjáum hvað setur

Og gamla kommentakerfið, það var skilið eftir, færslurnar fluttar en kommentin urðu eftir.


Nýtt blað - sme og Jónas funduðu í dag - Smári á hliðarlínunni?

Hvað sem króginn verður kallaður hef ég fengið staðfest að í kringum -sme er hópur að vinna að undirbúningi að útgáfu á síðdegisblaði, lausasölublaði, sem sækir í DV-hefðina. Það er óvíst hvort þessi framhjáldskrógi Sigurjóns M. Egilssonar, sem hann átti framhjá Sigurði G. Guðjónssyni og Blaðinu, verður látinn heita DV eða eitthvað annað. Kannski DB eða NT, - nú eða eitthvað allt annað.

Upphaflega var stefnt að DV nafninu en í undirbúningsvinnunni hafa menn horfst í augu við þá staðreynd að vörumerkið DV er dautt, það dó undir ritstjórn Jónasar Kristjánssonar og Mikaels Torfasonar sl. vetur, og á því verður ekki byggt á dagblaðamarkaði um fyrirsjáanlega framtíð.

Ég hef ekki fengið staðfestingu á því að Gunnar Smári, bróðir -sme, sé þátttakandi í þessum ráðagerðum en sennilega eru hann og fleiri, sem verið hafa tengdir 365, þarna að tjaldabaki.

En þótt Jónas Kristjánsson hafi á endanum ritstýrt DV út af dagblaðamarkaðnum hefur verið leitað til hans um þátttöku í undirbúningi þessarar nýju útgáfu. Hann er og verður gúrú -sme og DV-skólans í íslenskri blaðamennsku. Í dag sást til þeirra -sme og Jónasar sitja saman á kaffihúsinu í Iðu við Lækjargötu. Það þarf ekki mikið hugmyndarflug til að vita um hvað þeir voru að ræða.Og sjálfsagt hefur dómurinn sem féll í dag yfir Jónasi og Mikael Torfasyni líka borist í tal.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband