hux

Grein um greiningardeild

Guðmundur og Davíð Logi hafa rætt um greiningardeildina sem Davíð Oddsson stofnaði hjá sýslumanninum í Keflavíkurflugvelli til þess að annast hættumat fyrir friðargæsluna. Guðmundur spyr spurninga um leyndina sem hvílt hefur yfir þessari starfsemi og þær spurningar eru allar réttmætar, það er lykilatriði að svona starfsemi sé innan vel skilgreinds lagaramma og lúti þverpólitísku eftirliti. 

Mig langar hins vegar að koma að málinu úr annarri átt og hrósa Davíð Oddssyni fyrir þetta framtak hans, því mér finnst það bæði merkilegt og til marks um að hann hafi stigið mikilvægt skref til þess að leggja drög að því að íslensk stjórnvöld verði loks fær um að framfylgja hér sjálfstæðri utanríkisstefnu.

Til þess að svo megi verða þarf stofnanir sem afla upplýsinga um ástand mála erlendis, greina þær og meta frá sjónarhóli Íslands og íslenskra hagsmuna. Ég held að aðeins með slíkri markvissri starfsemi geta stjórnvöld tekið ábyrgar og sjálfstæðar ákvarðanir í utanríkismálum.

Annars eiga stjórnvöld kannski bara tveggja kosta völ: 1. Fara eftir fréttum fjölmiðla hverju sinni og leggja þær til grundvallar ákvörðunum. 2. hringja í sambærilegar stofnanir hjá erlendum "vinaþjóðum" og spyrja: hvað ætlið þið að gera, strákar? og gera svo slíkt hið sama. Hvorugt er boðlegt út frá eðlilegri stjórnsýslu og enn síður út frá því hvað það er að vera sjálfstæð, ábyrg þjóð meðal þjóða en ekki ábyrgðarlaust viðhengi annarra þjóða. Greiningardeild eins og þessi er ill nauðsyn en hún þarf að hvíla á góðri lagastoð og lúta þverpólitísku eftirliti. Hún er eftirlitsstofnun og eins og aðrar slíkar á hún ekki að vera sett beint undir framkvæmdavaldið.

Og athugið að ég er ekki að tala um greiningardeild ríkislögreglustjóra (sem heyrir undir dómsmálaráðherra), sem hefur væntanlega hlutverk innanlands, eftirlit með fólki innan landamæra ríkisins, það er önnur ella og líklega annarrar messu virði, heldur greiningardeild utanríkisráðuneytisins (sem heyrir undir lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli sem heyrir undir utanríkisráðuneyti) sem fylgist með málefnum erlendis og leggur grunn að ákvörðun íslenskra stjórnvalda um erlend málefni.

Slík deild hefði t.d. getað gert íslenskt hættumat í aðdraganda innrásarinnar í Írak, eða hvað? Hún var ekki til og þá var tvennt hægt að gera. Davíð og Halldór völdu kost 2 hér að ofan eins og oftast áður. Þannig að ég ætla að minnsta kosti fyrir mína parta að líta á þessa greiningardeild utanríkisráðuneytisins sem óbeina viðurkenningu Davíðs á því að innrásin í Írak hafi verið röng eða mistök. Amk raunverulega viðurkenningu á því að hann treysti ekki bandarískum stjórnvöldum jafn vel og áður. Hann mótmælir því bara í kommentakerfinu ef þetta er vitleysa hjá mér.Cool

Eitt enn, auðvitað má deila um það að hýsa þessi starfsemi hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli, sérstaklega þar sem ég held að ég muni það rétt að senn verði breyting á högum þess embættis við þá uppstökkun sem framundan er í lögreglumálum. Það er engin ástæða til þess að við slíka breytingu færist þessi greiningardeild viðstöðulaust undir dómsmálaráðherra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband