hux

Stefnubreyting dagsins

Steingrímur J. Sigfússon tætir í sig ákvæði stjórnarsáttmálans í grein í Mogganum í dag og segir m.a.: 

Digurbarkaleg ummæli forystumanna Samfylkingarinnar, þ. ám. formanns þess flokks, á landsfundi skömmu fyrir kosningar og loforð um að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar með aðild Samfylkingarinnar yrði að taka nafn Íslands af lista yfir hinar vígfúsu þjóðir hafa gufað upp og orðið að engu. Hin nýja ríkisstjórn hefur ekkert aðhafst eða gert sem formgerir stefnubreytingu. [...] Afstaða núverandi ríkisstjórnar og framganga gagnvart Bandaríkjamönnum í þessu sambandi er sú sama og hinnar síðustu. Engin formleg orðsending, tilkynning, ekkert bréf hefur farið til Bandaríkjamanna eftir stjórnarskiptin. Harmurinn sem kveðinn er að ríkisstjórn samkvæmt stjórnarsáttmálanum vegna stríðsrekstursins í Írak hefur ekkert stjórnskipulegt gildi. Í honum felst að sjálfsögðu engin stefnubreyting eða hvað? Liggur stefnubreytingin í því að fyrri ríkisstjórn hafi fagnað stríðsrekstrinum en þessi harmi hann? Ísland er enn á lista hinna staðföstu þjóða. Bandaríkjamenn geta litið svo á að þeir hafi áfram heimildir til afnota af íslensku landi, ef þeim svo sýnist, vegna aðgerðanna í Írak. Þeir hafa engar tilkynningar fengið um annað. Undir þessu situr Samfylkingin, þ.m.t. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Her er smá gáta. Hver skyldi hafa sagt þessi orð í þinginu og hvenær? 

"Við vitum það öll sem hér höfum setið á hinu háa Alþingi síðustu árin að það hafa ekki skapast jafnheitar og tilfinningaríkar umræður í nokkru máli eins og varðandi stuðning Íslands við innrásina í Írak. Ég hef sagt það og ég held að flestir leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafi lýst því yfir að þar sé um að ræða einhvern svartasta blettinn á utanríkisstefnu íslenska lýðveldisins og án efa er það sá gerningur sem mun lifa í minningu þjóðarinnar og verða að neðanmálsgrein í mannkynssögunni um þessa ríkisstjórn.

Því miður er það þannig, herra forseti, að þetta verður bautasteinninn sem mun standa yfir höfuðsvörðum þessarar ríkisstjórnar þegar hún er öll innan nokkurra mánaða. Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur hins vegar margoft óskað eftir því að menn gerðu þessi mál upp með vasklegum og drengilegum hætti."

"Það er langt síðan ég hef heyrt annan eins kattarþvott og þann sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafði uppi í svari sínu. Nú heldur hann því fram að þetta hafi allt saman verið að frumkvæði Bandaríkjamanna, að Ísland komst á þennan lista, og þetta hafi verið fréttatilkynning. Hvers vegna stóð þá fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, hérna dögum og vikum saman við að verja það að Ísland væri á þessum lista? Af hverju sagði hann aldrei að þetta væri fréttatilkynning? Af því að þetta er tóm vitleysa, uppspuni og helber tilbúningur. Auðvitað var það þannig að Ísland var sett á þennan lista með fullkomnu samþykki tveggja manna, Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, og Framsóknarflokkurinn hleypur ekki frá þeirri ábyrgð sinni. Hann ber jafnmikla ábyrgð og Sjálfstæðisflokkurinn í þessu máli og honum væri sæmst að koma hingað og biðjast afsökunar á því. Mér er sæmst að halda því fram að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætti að biðjast afsökunar á því að bera þessa vitleysu fram. Þetta er allt annað en það sem þeir hafa áður haldið fram og þetta er aumlegt yfirklór."

"Ég finn til nokkurrar hluttekningar með hv. þingmanni að hafa setið í ríkisstjórn þar sem þessi ákvörðun var kynnt eftir að búið var að taka hana. Það var gert eftir að forustumenn ríkisstjórnarinnar höfðu samþykkt að Ísland yrði sett á lista þeirra þjóða sem studdu innrásina. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst sem það hefði verið mannsbragur af hálfu hans að standa þar upp og setja hnefann í borðið og segja: Ég mótmæli. Mér finnst ákaflega merkilegt að heyra það hér hjá hv. þingmanni að enginn hafi mótmælt þessu í ríkisstjórninni. Er hv. þingmaður að koma því á framfæri að varaformaður Framsóknarflokksins, sem á þeim tíma og síðar og aftur hér í dag lýsti því yfir að hann hefði með engu móti komið að þeirri ákvörðun, hefði á þeim tíma getað sett hnefann í borðið og mótmælt því? En það gerði hæstv. landbúnaðarráðherra ekki. Það má þá kannski segja að hv. þingmaður hafi verið að gefa það til kynna að í þessu máli hefur hæstv. landbúnaðarráðherra verið að sigla undir fölsku flaggi, því hann hefur mánuðum saman, ef ekki missirum saman látið að því liggja að hann hafi frá upphafi vega verið á móti þessari ákvörðun en hann hafi á engu stigi máls áður en ákvörðunarferli sleppti átt kost á því að koma því viðhorfi sínu á framfæri. Ég hef staðið í þeirri trú að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi ekki lagt í að kynna þetta mál í þingflokkum ríkisstjórnarinnar og ekki heldur í ríkisstjórninni vegna þess að þeir töldu sig ekki hafa fulltingi sinna flokka og ekki vald á málinu. Nú kemur í ljós að það var rangt hjá mér. Framsóknarflokkurinn stóð heill og óskiptur að þessari ákvörðun. Þess þá heldur ætti hann að gangast við mistökum sínum og biðjast afsökunar á þeim eins og forustumenn í stjórnmálum erlendis hafa síðar gert."

Af hverju heimta þessi maður sem sagði þessi orð ekki að Sjálfstæðisflokkurinn biðji þjóðina afsökunar?

 ?????????????????!!!

Magnús Þór Hafsteinsson, 16.6.2007 kl. 13:23

2 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Sá sem mælti þessi orð var Össur Skarphéðinsson þáverandi þingflokksformaður Samfylkingar og núverandi iðnaðarráðherra. Dagurinn var 1. mars 2007. Þetta var þegar mælt var fyrir þessari þingsályktunartillögu:

Tillaga til þingsályktunar um yfirlýsingu gegn stuðningi við innrásina í Írak.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Ögmundur Jónasson, Magnús Þór Hafsteinsson.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka Ísland með formlegum hætti út af lista þeirra 30 þjóða, sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og lýsir því yfir að stuðningurinn við innrásina hafi verið misráðinn.

Það var lögð mikil áhersla á stjornarandstaðan flytti þessa tillögu áður en þingi yrði slitið fyrir kosningar í vor og helsti barátumaður fyrir því var Össur sjálfur.

Össur sagði í lok flutningsræðu sinnar:

"Er það rangt munað hjá mér að Íslendingar hafi tekið að sér að flytja vopn til Íraks? Er það rangt munað hjá mér að íslenska ríkisstjórnin hafi greitt fyrir flutning á mörgum flugvélaförmum af vopnum frá Slóveníu til Íraks? Er það líka rangt hjá mér, herra forseti, að íslenska ríkisstjórnin hafi greitt fyrir þjálfun írakskra öryggissveita? Hvað er það annað en bein þátttaka í þeim átökum sem þarna voru? Ég fæ ekki annað séð. En ég vil vísa, herra forseti, til stikla um alþjóðamál sem hægt er að finna eða var a.m.k. á heimasíðu utanríkisráðuneytisins og eru dagsettar 18. febrúar 2005 en þar kemur þetta fram. Mig langar þess vegna að spyrja þessa ágætu menn þegar þeir halda því fram að Íslendingar hafi bara tekið þátt í uppbyggingarstarfseminni í Írak: Er það rétt fullyrðing, með tilliti til þess að íslensk stjórnvöld greiddu fyrir flutning á vopnum til Íraks? Er það rétt fullyrðing með tilliti til þess að íslensk stjórnvöld greiddu líka fyrir þjálfun írakskra öryggissveita? Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram, herra forseti."

Nú væri við hæfi að Össur fengi svilkonu sína til að svara þessum spurningum, eða hann gerði það hreinlega sjálfur. Þau eru með lyklana að utanríkisráðuneytinu.

Magnús Þór Hafsteinsson, 17.6.2007 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband