hux

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stjörnustríði lokið

Stjörnurnar eru á bak og burt og farið hefur fé betra. Reyndar skilst mér á starfsmönnum blog.is að þeir hafi gert einhver mistök og þetta hafi ekki verið ætlunin. Hins vegar hafi verið ætlunin að láta menn hafna stjörnumöguleikanum fremur en að leyfa þeim að velja hvort þeir vildu nota hann eða ekki. Það ber vott um viðhorf til bloggara sem ég er ekki sáttur við. Sýnist á kommentum við síðustu færslu að margir bloggarar hér séu mér sammála um þetta.

Ég hef vanist því í þeim bloggkerfum sem ég þekki að forræði bloggarans á eigin svæði og útliti þess sé algjörlega virt. Mér finnst ástæða til að blog.is skýri betur hugmyndir sínar um samskipti bloggara og rekstraraðila og einnig greini þeir frá í hvaða áttir þeir ætla að þróa svæðið sem mér sýnist að sé að verða afar óvenjulegt ef ekki einstakt meðal bloggsvæða, amk kann ég ekki að nefna annað svæði þessu líkt.

Ég er sem sagt á því að með stjörnunum hafi starfsmenn blog.is hlaupið á sig og gert vitleysu. Hins vegar tók ég of djúpt í árinni þegar ég talaði um vitleysing og þrjót af þessu tilefni, og er ljúft og skylt að biðja viðkomandi og lesendur velvirðingar á því. Mér leiðist að lesa skæting annarra og vil gjarnan  hlífa umhverfinu við slíku af mínum völdum.


Tilkynning um innbrot

Meðan ég svaf braust einhver vitleysingur inn á bloggið mitt, setti upp hér einhverja stjörnugjöf sem ég veit ekki hvað á að þýða og hver bað um. Þetta er blogg en ekki fegurðarsamkeppni. Það sem meira er þetta er mitt blogg og það gerir enginn svona breytingu hér án míns leyfis. Ég er búinn að aftengja fídusinn en það er ekki nóg, þetta sést enn og ég vil losna við þetta algjörlega.

Þetta er svona eins og ef maður hefði íbúð á leigu og meðan maður væri að heiman færi leigusalinn inn og hengdi upp  mynd af fjölskyldunni sinni á veggina. Ef einhver sér þennan innbrotsþjóf, eða fulltrúa leigusalans hérna eða hver sem þetta var þá er hann vinsamlegast beðinn um að skipa honum að fjarlægja þetta stjörnudrasl.  Þegar hann er búinn að því má láta svipuna hans Stefáns Pálssonar ríða á hryggjarsúlu þrjótsins.


Er Framtíðarlandið við Austurvöll?

Það er mikið um fundarhöld hjá aðstandendum Framtíðarlandsins þessa dagana. Fundarefnið er  alltaf hið sama: eiga samtökin að bjóða fram til alþingis í vor. Skiptar skoðanir eru í hópnum, sumir eru  harðir á móti, sumir á báðum áttum, aðrir alveg áfjáðir.

Tveir forkólfa Framtíðarlandsins berjast harðast fyrir því að samtökin láti slag standa og bjóði fram til þings í vor. Þetta eru þau María Ellingsen, leikkona, og Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður og MBA. Sólveig Arnarsdóttir leikkona er einnig sögð nokkuð áhugasöm um að feta í fótspor móður sinnar, Þórhildar Þorleifsdóttur, fyrrum þingkonu.

Jakob Frímann er varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík og hefur tekið sæti á þingi á þessu kjörtímabili. Fyrr í vetur spreytti hann sig í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum en hlaut ekki brautargengi. En það er kannski ekki öll von úti enn fyrir Jakob því hann rær að því öllum árum að Framtíðarlandið setji stefnuna á þingframboð.

Ljóst þykir að ekki verði af framboði nema góð sátt takist um það í hópi helstu aðstandenda Framtíðarlandsins.  Ef sú sátt næst munu þekktir menn eins og Andri Snær Magnason og Reynir Harðarson, stofnandi CCP, líta svo á að þeir verði skuldbundnir til þess að taka sæti á listanum. Þeir hafa sig þó lítið í frammi í umræðum um málið.


Lesið Blogdog

Eins og oft áður hittir Blogdog naglann á höfuðið.


Herlög á þingi og í Sómalíu?

Gengi krónunnar fer ýmist hækkandi eða lækkandi en gengi orðanna fellur stöðugt. Nýjustu fréttir af gengisfalli orðanna eru þær að nú ríki herlög á Alþingi.

Þetta orð notuðu dramadrottningar í umræðum á Alþingi í gær og áttu við það að fundum var fram haldið samkvæmt dagskrá.  Össur Skarphéðinsson var þeirra á meðal og  bloggar líka um herlögin á þingi. Þetta er svo sem hvorki í fyrsta né annað skipti sem Össur ýkir svona rétt aðeins í sínum málflutningi og jafnvel rúmlega það. Hann er ekki alltaf jafnnákvæmur og þegar hann fjallar um kynlíf laxfiska en ég held að honum hafi sjaldan vafist tunga eins illilega um höfuð og nú þegar hann líkir deilum um fundarsköp við það ástand sem nú er á götum Sómalíu.  


mbl.is Umræður um Ríkisútvarpið hafa tekið 100 klukkustundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð fyrirmynd

nydedsavisen independent

Það er nákvæmlega sama mynd á forsíðu Nyhedsavisen í dag og var á Independent í gær og fréttin sú sama, um ástandið í öryggismálum heimsins. Það horfir víst ekki vel í þeim efnum, blöðin eru sammála um að það styttist í dómsdag.

En hvað um það, Independent er uppáhaldsblaðið mitt í Bretlandi og gott hjá Nyhedsavisen að leita þangað eftir fyrirmyndum. 


Meira um veisluna

Rekið hefur á fjörur mínar úrklippu úr DV frá 3. mars 1989 þar sem fjallað er um veisluna sem Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi formaður Alþýðubandalagsins hélt nokkrum dögum áður fyrir samflokksmenn sína. Veisluna sátu 24 Alþýðubandalagsmenn en heiðursgestu var Lúðvík Jósepsson, löngu hættur ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins.

Um veisluna segir Ólafur Ragnar í viðtali við DV: "Þessi veisla var haldin til heiðurs Lúðvík Jósepssyni og vegna 30 ára afmælis úrfæslu landhelginnar, en hann átti sem kunnugt er mikinn þátt í þeim málum. Ég hef ætlað að gera þetta dálítið lengi en vegna ýmissa ástæðna hefur þetta dregist. Það var að vísu óvenjulegt að ég kaus að halda þessa veislu í ráðherrabústaðnum en mér þótti það nú bara vera við hæfi því fáir menn hafa gert jafnmikið fyrir efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar."

Ólafur Ragnar hafði Svanfríði Jónasdóttur fyrir aðstoðarmann í sinni ráðherratíð, hann hafði Má Guðmundsson sem efnahagsráðgjafa og svo bættist Mörður Árnason í starfsliðið sem upplýsingafulltrúi fljótlega eftir veisluna og var eitt hans fyrsta verk að svara opinberlega gagnrýni á hana. Ég er enn að vonast eftir að úrklippur með svörum Marðar reki á þær fjörur þar sem þessi úrklippa fannst.


Hvar ber Sleggjan niður næst?

Fréttavefirnir Skessuhorn á Vesturlandi og Bæjarins Besta á Vestfjörðum birtu fyrstir fjölmiðla þá frétt, sem kemur svo sem ekki á óvart, að Kristinn H. Gunnarsson hyggst ekki taka 3ja sætið sem hann hreppti í prófkjöri framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi og mun ekki sækja kjördæmisþing flokksins sem haldið verður um helgina. Kristinn gefur ekkert upp um hvernig stjórnmálaþátttöku hans verði háttað í framtíðinni en segir það munu skýrast fljótlega.

Frétt Skessuhorns er svohljóðandi:

Væntanlega lætur Kristinn ekki bíða lengi eftir því að hann tilkynni sín næstu skref.  Það hafa verið ýmsar kenningar um fyrirætlanir Kristins, sú útbreiddasta er sú að hann muni setjast í 2. sæti á framboðslista frjálslyndra í NV-kjördæmi á eftir Guðjóni Arnari. Önnur kenning er sú að honum bjóðist 2. sæti VG í kjördæminu á eftir Jóni Bjarnasyni. Einnig liggur fyrir að Kristinn hefur m.a. fundað með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til þess að kanna hvort eftirspurn sé eftir kröftum hans innan Samfylkingarinnar. Minnir þessi aðdragandi allur mjög á aðdraganda þess að Kristinn gekk til liðs við Framsóknarflokkinn frá Alþýðubandalaginu fyrir um það bil 7 árum. 


mbl.is Kristinn H. ekki í framboð fyrir Framsóknarflokkinn í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagra Ísland vill álver á Bakka

Ingibjörg Sólrún var á almennum fundi á Húsavík á á dögunum. Í tilefni af komu formannsins í bæinn hélt stjórn Samfylkingarfélagsins á staðnum fund og samþykkti ályktun þar sem lýst er eindregnum stuðningi við áform um álver á Bakka, sem semja á um við Alcoa. Þessi ályktun var kynnt og lesin upp á fundi formannsins

Vefritið Skarpur, sem er fréttavefur á Húsavík, greinir frá þessu. Í ályktuninni segir:

Stjórnin lýsir fullum stuðningi við fyrirhugaðar álversframkvæmdir á Bakka við Húsavík enda verði orka til versins sótt í háhitasvæði í Þingeyjarsýslum. Framkvæmdir við álver á Bakka munu hafa jákvæð áhrif á búsetuþróun á Norðurlandi og styrkja verulega fjárhag sveitarfélaga á svæðinu. Slíkar framkvæmdir eru nauðsynlegt mótvægi við þá þenslu sem verið hefur á höfuðborgarsvæðinu en hún hefur raskað verulega jafnvægi í búsetu landsins. Stjórnin leggur til að inn í viðræður við Alcoa um byggingu álvers verði teknar hugmyndir um samvinnuverkefni í uppgræðslu og skógrækt sem miði að því að binda að minnsta kosti jafnmikið magn af koltvísýringi og rekstur fyrirhugaðs álvers losar.


mbl.is Beðið um skýr svör um hugsanlega tilfærslu Reykjanesbrautar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörður og veislan árið 1989

Fyrir mörgum árum síðan, líklega var það 1989, hélt Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra samkvæmi í ráðherrabústaðnum til heiðurs Lúðvík Jósepssyni, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra í tilefni af því að þá var verið að minnast einhvers áfanga í landhelgismálum Íslendinga. Þá voru liðin afskaplega mörg ár síðan Lúðvík hætti í ríkisstjórn eftir langan og merkilegan feril.

Það sem gerir þessa veislu svo eftirminnilega er að þetta varð að fjölmiðlamáli í framhaldinu og veisluhaldið sætti gagnrýni. Það var talað um, líkt og nú, að verið væri að nota ráðherrabústaðinn undir óþarfa veisluhöld í þágu flokksbræðra.

Ólafur Ragnar, sem ekki sat á þingi þegar þetta var, og hans menn vörðu veisluna af krafti, þar gekk harðast fram af málsnilld og rökfimi upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, Mörður Árnason, sem þá eins og nú var ungur og efnilegur stjórnmálamaður og kom líklega til starfa í ráðuneytinu skömmu eftir að veislan var haldin. 

Verst að hafa ekki í höndum blaðaúrklippurnar þar sem Mörður  talaði um nauðsyn þess að halda þessa veislu fyrir hann Lúðvík. Kannski leggst eitthvað til í því efni, þetta er ekki stórmál en fyrst ég er farinn að nefna þetta er vel þess virði að reyna að klára málið, svona sögunnar vegna. Kannski Mörður sjálfur vilji bara rifja þetta upp.


mbl.is Spyr um veisluhöld í Ráðherrabústaðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband