hux

Fyrsta ráðningin

Á morgun rennur út umsóknarfrestur um starf skrifstofustjóra nýrrar skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu. Magnús Stefánsson auglýsti stöðuna fyrir nokkru og eins og hans var von og vísa lét hann umsóknarfrestinn renna út eftir kosningar þannig að það kæmi í hlut næsta ráðherra að veita embættið. Um það leyti sem auglýsingin birtist kom í Mogganum grein eftir Jóhönnu Sigurðardóttur - þá hina sömu og nú er orðin félagsmálaráðherra - þar sem hún gaf til kynna að Magnús ætlaði sér að koma einhverjum gæðingi í djobbið. Það var náttúrlega eins og hvert annað pólitískt kjaftæði í Jóhönnu. Nú er það hins vegar hún sjálf sem fær lista með nöfnum umsækjenda inn á sitt borð annað kvöld og getur tekið ákvörðun um hver fær djobbið. Væntanlega þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Jóhanna mun eingöngu láta málefnaleg sjónarmið þegar hún velur milli umsækjenda.


Athyglisvert

Athyglisverðar fréttir berast úr Skagafirði í gegnum svæðisútvarp Norðurlands. Þar segir: "Endurnýjunar er þörf í yfirstjórn Framsóknarflokksins. Þetta segir oddviti flokksins í  Sveitarstjórn Skagafjaðrar Hann íhugar að bjóða sig fram í embætti varaformanns flokksins." Ekki á ég von á að Gunnar Bragi Sveinsson ógni framboði Valgerðar Sverrisdóttur, sem nýtur mikils fylgis í öflugasta kjördæmi flokksins, á almennan stuðning á höfuðborgarsvæðinu og hefur væntanlega Landssamband framsóknarkvenna einhuga á sínu bandi. En það verður athyglisvert að fylgjast með þessu, ef af verður.


Non-denial denial

Ég heyrði nokkra menn hneyklast á því í gær að Össur iðnaðarráðherra hefði sagt ósatt um það að hann ætlaði sér að ráða Einar Karl fyrir aðstoðarmann sinn en eftir að ég greindi frá þeirri fyrirætlan hér skrifaði hann pistil á heimasíðu sína þar sem hann virtist vera að þræta fyrir að þetta væri í pípunum.

Ég hef beðið menn að skamma ekki Össur fyrir lygar heldur dást að snilli hans. Það sést þegar pistill hans er lesinn að hann neitar því hvergi að ætla að ráða Einar Karl, þrætir aðeins fyrir að þeir hafi hist í iðnaðarráðuneytinu.   Þarna sýnir Össur einu sinni sem oftar hvílíkur yfirburðarmaður hann er í íslenskum stjórnmálum á sviði spunafræða og að í þeim efnum er enginn hérlendur maður þess verður að hnýta skóþveng hans, það er helst að Einar Karl komist með tærnar þar sem hann er með hælana. Þarna nýtti Össur bragð sem kallað er "non-denial denial", þar sem hann nýtir sér ónákvæma frásögn af aukaatriði máls til þess að ýta óþægilegri frétt út af borðinu. Það tókst honum svo vel að flestir töldu að hann væri alls ekkert með Einar Karl í sigti en auðvitað var þetta í pípunum allan tímann.


Össur ræður aðstoðarmann

Í morgun fékk ég símtal frá manni sem veit allra manna best hvað gerist í iðnaðarráðuneytinu. Hann var að segja mér að búið væri að ganga frá ráðningu aðstöðarmanns Össurar Skarphéðinssonar. Eins og ég vissi og hafði sagt frá hér er það Einar Karl Haraldsson. Þá var ráðningin til umræðu, nú er hún frágengin.

Einar Karl og Össur eru gamlir vopnabræður úr pólitíkinni, líklega voru þeir báðir einhvern tímann ritstjórnar Þjóðviljans. Síðar var Össur ritstjóri á Alþýðublaðinu og DV ef ég man rétt en Einar Karl fyrsti ritstjóri Fréttablaðsins. Líklega eiga þeir eftir að líta saman í blöðin á morgnana félagarnir.

Einar Karl hefur starfað sem almannatengslaráðgjafi árum saman og hefur sem slíkur unnið mikið fyrir stjórnendur Kaupþings. Nú tekur hann að sér að vera Össuri til halds og traust um vanda Vestfirðinga, rammaáætlun um vernd og nýtingu vatnsafls og jarðhita og önnur þau stórmál sem blasa við iðnaðarráðuneytinu næstu misserin.


Hvalræði

Ríkisstjórn Íslands á enn eftir að ákveða hvaða stefnu verður fylgt í hvalveiðimálum og hvort haldið verður áfram að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því að eltast við langreyðar eða ekki. Samt stendur nú yfir fundur Alþjóðahvalveiðiráðsins í Alaska. Baráttumenn gegn veiðunum beina nú helst spjótum að Japan. Alþjóðleg blöð fjalla nú meira en áður um hvalveiðikvóta Bandaríkjamanna, sem frumbyggjar við Alaska nýta.  Ætli nýja ríkisstjórnin ákveði stefnuna áður en fundinum lýkur?

Gleðibankinn

Björn Bjarnason kemur á framfæri þeirri tillögu að ríkisstjórnin verði kölluð Gleðibankinn í þessum nýja pistli á heimasíðu sinni. Hann hefur sett saman annan pistil sem útskýrir af hverju hann situr við hlið Ingibjargar Sólrúnar á ríkisstjórnarfundum. Það er ekki af því að þau hafi svo margt að spjalla.

Hér er tilvitnun í Björn þar sem hann ræðir nafngift á ríkisstjórnina:


Eitt og annað, héðan og þaðan

Það er fátt í fréttum á morgni hvítasunnudags en þá sækir maður sér bara fréttir út fyrir landsteinana. Til dæmis þessar hér:                      

Þýskur læknir sem hvarf sporlaust að heiman frá konu og barni fyrir 22 árum er kominn í leitirnar. Lík hans fannst í bílskúr heimilisins. Meira hér.

Það er oft kvartað yfir íslenska heilbrigðiskerfinu. En þessi kona, sem bjó í Los Angeles væri örugglega enn á lífi ef hún hefði snúið sér til bráðamóttöku Landspítalans. Sagan af síðustu 90 mínútunum ílífi  Edith Isabel Rodriguez hér.

Allt að 100.000 dalítar, indverskir stéttleysingjar, hafa tekið sig saman um að kasta hindrúasið og taka búddatrú. Þannig vilja þeir losna undan áþján og öðlast lagaleg réttindi. Meira hér

Lögreglan í Köln hefur lagt hald á verðmæti milljarðs króna í fölsuðum dollaraseðlum sem glæpamenn á sextugs- og sjötugsaldri ætluðu að setja á markað. Meira hér.


Endar Króníkan fyrir dómi?

Nýr þingmaður Vinstri grænna og nýr varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins eru sitt hvoru megin borðsins sem lögmenn í athyglisverðri deilu um réttindi og skyldur launafólks, sem gæti komið til kasta dómstóla innan tíðar. Það er réttarstaða blaðamanna Króníkunnar sálugu sem deilt er um og hótanir um málshöfðun ganga á víxl milli aðila.

Útgáfu tímaritsins Króníkunnar var hætt í vetur eftir að sjö tölublöð höfðu verið gefin út. Reyndir blaðamenn, með margra ára reynslu, höfðu ráðið sig á Króníkuna og yfirgefið góð störf á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu til þess að taka þátt í útgáfu nýs fréttatímarits. Blaðamennirnir höfðu veriði fullvissaðir um að fjármögnun til sex mánaða útgáfu hefði verið tryggð áður en lagt var af stað í þennan leiðangur.

En fyrirtækið reyndist byggt á sandi. Eftir útgáfu sjöunda tölublaðsins kom skyndilega í ljós að  útgáfufélag Króníkunnar hafði gert samning við útgefendur DV. Sá samningur virtist ganga út á það að leggja niður Króníkuna og bjóða starfsmönnunum að ráða sig til starfa á DV. Útefendur Króníkunnar, hjónin Sigríður Dögg og Valdimar Birgisson, réðu sig sjálf til DV en enginn blaðamannanna sá sér fært að fylgja þeim eftir.  Þetta horfir þannig við starfsmönnunum að það eina sem útgefendur Króníkunnar hafi haft að selja hafi verið vinnusamningar við blaðamenn.

Blaðamennirnirr töldu sig eiga rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti frá Króníkunni og hafa reynt að innheimta þær kröfur  á hendur hjónunum Sigríði Dögg og Valdimar Birgissyni með fulltingi lögmannsstofu Atla Gíslasonar. Atli hefur árum saman verið lögmaður Blaðamannafélags Íslands en er nú orðinn þingmaður Vinstri grænna.  

Lögmaður Sigríðar Daggar og Valdimars er hins vegar Dögg Pálsdóttir, nýr varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Nýlega barst blaðamönnunum bréf frá henni þar sem kröfum þeirra er vísað á bug og því hótað að blaðamennirnir verði sjálfir dregnir fyrir dóm fyrir að hafa rift með ólögmætum hætti samningi sínum við Króníkuna.

Þetta kemur blaðamönnunum mjög í opna skjöldu. Þeir töldu Króníkuna hafa rift samningum með því að lýsa því yfir að útgáfunni væri hætt fyrirvaralaust. Þeir telja að blaðamönnum beri engin skylda til þess að láta selja sig á milli óskyldra miðla án þess að hafa nokkuð um það að segja við hvers konar blað þeir vinna; mikill munur sé á því að starfa fyrir dagblað og vikublað. Allt stefnir því í að þessi deila fari í hart og gæti það komið í hlut dómstóla að ákveða hvort það sé hægt að ráða blaðamann í dag til þess að skrifa í t.d. Fréttablaðið og skipa honum svo að mæta til vinnu á Bleikt og blátt á morgun.


Gleðifrétt dagsins

Athylgisverðar fréttir, sem haldið er fram í einni af forsíðufréttaskýringum Moggans í dag. Sagt er að  S-hópurinn svokallaði hætti með öllu að skipta sér af flokksstarfi Framsóknarflokksins þar sem þeir  hafi þar engin vígi að verja lengur.

Þetta eru sannarlega gleðitíðindi ef rétt reynist. Nú veit ég ekki hvort þessi S-hópur hefur grætt  eitthvað á þeim tengslum sem haldið hefur verið á lofti að séu svo mikil milli hans og  Framsóknarflokksins en hitt þykist ég vita að Framsóknarflokkurinn hefur ekki hagnast á því samlífi, - öðru  nær. Líklega er það lífsspursmál fyrir flokkinn að losna undan þeim ennisstimpli sem hann hefur  borið með réttu eða röngu vegna þessa sambands. 

Og þarna er því líka haldið fram að téður S-hópur líti ekki lengur á Björn Inga sem framtíðarformann  í flokknum. Það er ánægjulegt fyrir vini Björns Inga að fá þarna staðfest að hann hefur ekki reynst þeim leiðitamur sem vilja blanda saman pólitík og viðskiptum. Svo veit ég að það er vitleysa sem S-hópurinn  lætur hafa þarna eftir sér að Björn Ingi hafi lýst áhuga á formennsku í Framsóknarflokknum eða  öðru forystusæti nú þegar Jón Sigurðsson hefur stigið af sviðinu. Þarna er e.t.v. komin skýring á  þeim rógburði, sem farið hefur í gang undanfarið innan flokksins gagnvart Birni, og hefur m.a. ratað  inn á einstaka síður hér á blog.is. 

Svo fagna ég því sérstaklega að Valgerður vilji verða varaformaður með Guðna, það er ekki vanþörf á að þau Guðni, tveir reyndustu leiðtogar flokksins, taki nú höndum saman og leiði hann á því skeiði sem framundan er.


mbl.is Valgerður gefur kost á sér í embætti varaformanns Framsóknarflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blað dagsins

Viðskiptablað dagsins er fullt af athyglisverðu efni. Þar skrifar Andrés Magnússon úttekt á fréttum vikunnar og segir fréttir sem ekki hafa komið fram áður um það að Geir H. Haarde hafi falið Árna M. Mathiesen að sjá svo um að Sjálfstæðisflokkurinn ætti möguleika á viðræðum við alla flokka nema Frjálslynda að loknum kosningum.

Svo er þarna viðtal Örnu Schram við Ingibjörgu Sólrúnu þar sem nýja utanríkisráðherranum gefst færi á að svara flestu því sem fram kemur komið í fjölmiðlum undanfarna daga um myndun stjórnarinnar. Eins og jafnan er Viðskiptablaðið besta helgarlesningin á markaðnum að mínu mati. 


Skörin og bekkurinn

Alþingi er kosið af almenningi til þess að fara með vald í umboði almennings. Þannig að þingmennirnir og ráðherrarnir eru fulltrúar almennings. Á hinn bóginn eru til ýmis sérhagsmunahópar sem gæta sérhagsmuna ákveðinna hópa í þjóðfélaginu. Mikið af þessu eru ágætis samtök en það er ekki málið heldur hitt að þetta eru sérhagsmunasamtök, sem gæta hagsmuna einstakra hópa og vinna í þágu þeirra fremur en heildarinnar, það eru þjóðkjörnir þingmenn og ráðherrar sem sitja í umboði þjóðkjörins þings og formlegs umboðs þjóðkjörins forseta sem gæta eiga hagsmuna heildarinnar.

Tvær fréttir sem ég sá í sjónvarpinu í kvöld urðu mér tilefni þess að þylja hér upp þessi almæltu tíðindi.

Fyrst var það viðtal við Sigurstein Másson, formann Öryrkjabandalagsins, í Kastljósi í kvöld. Sigursteinn sagði:

Ég vil taka undir orð Grétars Þorsteinsonar forseta ASÍ að eitt það mikilvægasta sem er að finna í þessum stjórnarsáttmála og það mikilvægasta sem þessi ríkisstjórn getur gert til góðs það er að efla samráð og samvinnu við þau hagsmunasamtök sem lýðræðislega hafa verið valin til þess að gæta hagsmuna fólksins í þessu landi.

Athyglisvert. Það eru einmitt stjórnvöld, sem hafa verið lýðræðislega valin til þess að gæta hagsmuna fólksins í þessu landi í umboði þess. ÖBÍ og ASÍ eru ágæt samtök en þau sækja á stjórnvöld í þágu sérhagsmuna hversu ágætir og réttlátir þeir sérhagsmunir kunna að vera á stundum.

Hin fréttin var viðtal við nýja viðskiptaráðherrann, Björgvin G. Sigurðsson, í fréttum Stöðvar 2. Þar sagði Björgvin:

Ég er búinn að hafa samband við ýmsa þekkta aðila úr viðskiptalífinu sem ég mun hitta á næstu vikum og setja mig mjög vel inn í málin.

Ætlar viðskiptaráðherran að fá ýmsa þekkta aðila úr viðskiptalífinu til að setja sig inn í málin? Varla eru það þeir sem eiga að aðstoða hann við að ná þessum ágætu markmiðum nýja stjórnarsáttmálans:

Mikilvægt er að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni. Efla skal samkeppniseftirlit í því skyni.


Bestu vinir aðal

Mér heyrist að flestir reikni með því að Kristrún Heimisdóttir verði aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar  í utanríkisráðuneytinu. Rétt eftir að Össur mætti í iðnaðarráðuneytið í dag kom á fund hans þangað Einar Karl Haraldsson og lásu ýmsir í þá heimsókn þannig að hann verði Össuri til aðstoðar þetta kjörtímabil.

Annars er eftirfarandi nöfn oftast nefnd í mín eyru sem væntanlegir aðstoðarmenn í ráðuneytum Samfylkingarinnar: Róbert Marshall, Guðmundur Steingrímsson, Dofri Hermannsson, Helga Vala Helgadóttir, Guðný Hrund Karlsdóttir. Er þetta bara ekki sennilegur hópur, jafnt kynjahlutfall amk, þannig að þetta er hæfilega PC, sýnist mér, en ef sagan með Einar Karl er rétt, gengur eitt nafn af. Svo er spurning með Mörð Árnason, sem nú er á lausu, eftir að hafa fallið af þingi.

Í aðstoðarmannaliði Sjálfstæðisflokksins verða líka breytingar því að Ragnheiður Elín, aðstoðarmaður Geirs, sest á þing og Sturla hættir. Þórlindur Kjartansson er nefndur sem aðstoðarmaður  forsætisráðherra en hann er sem kunnugt er þriðja hjólið undir vagni Borgars Þórs og Andra Óttarssonar. Spurning hvern Guðlaugur Þór tekur með sér, nöfn Þóris Kjartanssonar og Björns Ársæls Péturssonar heyrast nefnd í því sambandi.

uppfærsla kl. 1950. Þórir Kjartansson verður ekki aðstoðarmaður Gulla heilbrigðisráðherra.


Samlegð

Ég les það í Mogganum í dag að ekki fáist staðfest það sem haldið var fram í gær að Íbúðalánasjóður eigi að færast frá félagsmálaráðuneytinu undir fjármálaráðuneytið með nýrri ríkisstjórn. Það er ágætt og Samfylkingin hefur samkvæmt því enn á valdi sínu að koma í veg fyrir að Íbúðalánasjóður verði einhvers konar deild í Fjársýslu ríkisins.

Mogginn segir líka að ekki fáist staðfest undarlegasta frétt gærdagsins en samkvæmt henni átti Þróunarsamvinnustofnun að færast frá utanríkisráðuneytinu og undir viðskiptaráðuneytið. Það var vandséð hvaða tilgangi sú breyting hefði getað þjónað, öðrum en þeim að bjarga í Sighvati Björgvinssyni, forstjóra stofnunarinnar, sem lagðist í hernað gegn utanríkisráðuneytinu fyrir nokkrum vikum, eftir að skýrsla kom fram sem lagði til breytingar á skipulagi stofnunarinnar.

Eða hvar eru samlegðaráhrifin af íslenskum neytendamálum, samkeppnismálum og eftirliti á fjármálamarkaði annars vegar og þróunarsamvinnu á Malavi, í Úganda og á Sri Lanka hins vegar? Ætli það sé ekki hagstæðara fyrir þróunarsamvinnuna að halda nánum tengslum við sendiráðin fremur en að heyra undir sama ráðherra og Talsmaður neytenda og Samkeppniseftirlitið.

Þá er látið eins og yfirlýsingin um Þjórsárver sæti einhverjum tíðindum en pólitískt var Norlingaölduveita auðvitað steindauð hugmynd fyrir mörgum mánuðum, líklega frá því um áramót 2006. En Mogginn spyr réttilega vegna hvers Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki fallist á það fyrr en eftir kosningar að þyrma Þjórsárverum? Þegar stórt er spurt.


Orð dagsins

Leiðari Moggans: Það er ljóst af stefnuyfirlýsingu hinnar nýju ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, að þar er ekki um að ræða meiriháttar stefnubreytingu frá stefnumörkun fráfarandi ríkisstjórnar. Í megindráttum er hin nýja ríkisstjórn að fylgja stefnu fráfarandi ríkisstjórnar, þótt áherzlur í vissum tilvikum séu aðrar eins og eðlilegt er með aðild nýs flokks að rkisstjórn. Í stefnuyfirlýsingunni er
hins vegar ekki að finna meiri háttar frávik frá stefnu fráfarandi stjórnar.

Nýja stóriðjustefnan: Árangur áfram - ekkert stopp!

Gárungarnir hafa sagt undanfarin ár að það skipti engu máli hvern mann kjósi maður sé alltaf að kjósa Framsóknarflokkinn. Mér datt þetta í hug þegar ég horfði á blaðamannafund Ingibjargar Sólrúnar og Geirs Haarde sem stendur yfir í þessum orðum skrifuðum. Þau voru að útskýra stóriðjustefnuna og þegar ég hlustaði heyrði ég ekki betur en að stefnunni mætti lýsa með þessum orðum: Árangur áfram - ekkert stopp. Þannig að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ætlar sér að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í virkjana- og stóriðjumálum. Gárungarnir virðast hafa eitthvað til síns máls, það þarf ekki að kjósa framsókn til þess að tryggja stefnu framsóknar framgang.

Á mbl.is segir: "Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að í þessu fælist ekki formlegt stóriðjustopp. „Við erum ekki að beita stjórnvaldsaðgerðum til að stöðva orkufyrirtæki," sagði Geir."


mbl.is Stefnt að lækkun skatta á kjörtímabilinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúðalánasjóður á útleið?

Fréttablaðið greinir frá því hvaða breytingar verða á stjórnarráðinu með nýrri ríkisstjórn. Hæst ber  flutning húsnæðismála og Íbúðalánasjóðs frá félagsmálaráðuneyti til fjármálaráðuneytis. Líklega vita flestir að á síðasta kjörtímabili var togstreita milli framsóknar og sjálfstæðismanna mest um húsnæðismálin og Íbúðalánasjóð. Deilur voru oft harðar og þá deildu annars vegar félagsmálaráðherra og hins vegar fjármálaráðherra. Fjármálaráðuneytið gekk hart fram og virtist vilja Íbúðalánasjóð feigan. Það að fjármálaráðuneyti fái forræði á málum Íbúðalánasjóðs hlýtur að boða verulegar breytingar á málefnum sjóðsins.

Fleira er athyglisvert, málefni sveitarfélaga fara til samgönguráðuneytis, og almannatryggingum er aukið við verkefni félagsmálaráðuneytis, eins og fram er komið. Hagstofan verður ekki lengur ráðuneyti heldur sjálfstæð stofnun, í hvaða ráðuneyti verður hún vistuð? Ferðamál færast í iðnaðar- og byggðaráðuneytið frá samgönguráðuneyti en sú atvinnugrein vex hröðum skrefum ár frá ári. Það verður spennandi að sjá hvernig Björgvin heldur á viðskiptaráðuneyti, verkefnin þar verða eingöngu verða á sviði neytenda- og samkeppnismála og eftirlit á fjármálamarkaði. Samkeppniseftirlit og fjármálaeftirlit eru óháðar eftirlitsstofnanir og ráðherra er bannað að skipta sér af þeim nema á aðalfundi en kannski er ný löggjöf á döfinni í stjórnarsáttmálanum. Það er verðugt verkefni fyrir að halda áfram baráttu Valgerðar við samstarfsflokkinn um aukið fé til Samkeppniseftirlitsins.


Óvenjulegur stjórnmálamaður

Tímasetningin kemur kannski á óvart en ekki hitt að Jón kjósi að segja af sér formennsku fyrst hann náði ekki kjöri á þing. Ég taldi að hann mundi bíða miðstjórnarfundar í fyrrihluta júní en hann hefur kosið að hætta strax eftir að fyrirætlanir hans fóru að kvisast út og ekki talið eftir neinu að bíða þegar ný ríkisstjórn hafði verið mynduð. Gott að fá þetta á hreint.

Jón varð formaður með óvenjulegum og umdeilanlegum hætti. Þann skamma tíma sem hann var formaður ávann hann sér traust og væntumþykju flokksmanna. Hann var reyndur stjórnmálastarfi frá fyrri árum og það sást á stundum að hann naut sín ekki í sviðsljósi fjölmiðlanna. Hann sagðist vilja gera skyldu sína þegar hann svaraði kalli forvera síns og enginn getur sagt annað en að hann hafi gefið allt sem hann átti. Í persónulegri viðkynningu er maðurinn afskaplega eftirminnilegur, hlýr, glettinn og ótrúlega skarpur og vel að sér um flesta hluti. Á skömmum tíma innleiddi hann nýja stjórnunarhætti í Framsóknarflokknum og var það tímabær og nauðsynleg aðgerð. Ég hygg að hann hafi verið mesti samráðsstjórnmálamaðurinn á íslensku stjórnmálasviði á sínum formannsferli. Í öllum málum hafði hann hagsmuni þeirrar 12.000 manna hreyfingar sem hann stýrði í huga og var þess ávallt minnugur til hverra hann sótti umboð sitt. Ég hef sjaldan kynnst manni sem er jafn laus við hégómleika og sjálfhverfu. Ég vona að Jóni vegni vel í framtíðinni og veit að það verður fengur að honum hvar sem hann kýs að hasla sér völl.


mbl.is Jón Sigurðsson segir af sér formennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr auglýsingamiðill !

Það er komin auglýsing á þessa bloggsíðu, frá sparisjóðnum Byr, sett upp með mínu samþykki og ég fær greitt fyrir eitthvað smotterí. Fréttablaðið nefnir 50 þúsund kall á mánuði, það er ekki fjarri lagi. Þórmundur Bergsson, auglýsingagúrú, hafði samband og óskaði eftir þessu sem ég samþykkti. Veit ekki hvort Mogginn fær eitthvað að auki, líklega er það svo. En kosturinn við Moggabloggið er m.a. að þeim dettur ekki í hug að setja auglýsingar inn á bloggsíður án samþykkis, öfugt við amk einhver bloggsvæðin á Vísi. Erlendar bloggsíður sem ég les hafa auglýsingar sem seldar eru í sérstöku kerfi sem bloggarar hafa sammælst um að búa til.

Sannar sögur úr sveitum

Heyrði í gær tvær ágætar sögur úr kosningabaráttunni sem ég ætla að miðla hér áfram.

Fyrst þessi: Maður af höfuðborgarsvæðinu, sem nú er orðinn landsbyggðarþingmaður, kom á bóndabæ þar sem verið var að rýja fé. Hann horfði á atganginn og spurði bóndann: Eru menn hættir að taka gæruna um leið og ullina?

Svo þessi: Einn duglegasti landsbyggðarþingmaðurinn er sagður keyra um 100.000 km á ári. Varla fer svo fram útför í kjördæminu að hann sé ekki á meðal syrgjenda. Nýlega var hann einn þriggja gesta í kirkju þar sem öldruð kona var jarðsungin. Hinir tveir kirkjugestirnir litu á manninn og annar spurði: Hver er þetta? Þetta er útfararstjórinn, sagði hinn.


Frekar rýr hlutur Samfylkingar

Ekkert kemur á óvart við ráðherralista Samfylkingarinnar, þarna eru þeir einstaklingar að fá framgang sem ég spáði hér að yrðu fyrir valinu.

Björgvin G. Sigurðsson er nýr ráðherra og fylgja honum hinar bestu hamingjuóskir frá þessari bloggsíðu í viðskiptaráðuneytið. Áreiðanlega framtíðarmaður. En ríki hans er lítið, og meira að segja óvíst hvar ráðherraskrifstofuna er að finna. Það verður fyrsta verkefni Björgvins að láta búa til handa sér skrifstofu því iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur verið óskipt árum saman og þar er aðeins ein ráðherraskrifstofa. Þangað sest áreiðanlega Össur Skarphéðinsson, ráðherra iðnaðar- og byggðarmála, en á þeim sviðum starfa um það bil 2/3 hlutar af sérfræðingum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Össur tekur að auki ferðamál með sér undan samgönguráðuneytinu.

Kannski verða svo flutt verkefni yfir til viðskiptaráðuneytis Björgvins, e.t.v. utanríkisviðskipti frá utanríkisráðuneyti, e.t.v. húsnæðismál frá félagsmálaráðuneytinu, e.t.v. fær hann líka Hagstofuna.

Kristján L. Möller verður samgönguráðherra, það er frekar gamaldags ráðstöfun, þykir mér, að setja fyrirgreiðslupólitíkus af landsbyggðinni í samgönguráðuneytið þegar brýnustu verkefnin bíða hér á höfuðborgarsvæðinu. En Kristján er þungaviktarmaður innan þingflokksins og hann fær sem sagt að verða maðurinn sem vígir Héðinsfjarðargöngin sem tengja heimabyggð hans við Eyjafjarðarsvæðið. Kannski kemur hann svo Vaðlaheiðargöngum á dagskrá innan tíðar.

Jóhanna Sigurðardóttir er heimavön í félagsmálaráðuneytinu, sem nú verður eflt og við það bætt tryggingamálum, þ.e. elli- og örorkulífeyrismálum og málefnum aldraðra, þar á meðal hjúkrunarheimilum, ef ég skil rétt. Jóhanna gjörþekkir þennan málaflokk og þessi endurskipulagning held ég að sé að flestu leyti skynsamleg. En þessi breyting hlýtur að kalla á lagabreytingar og bandorm strax á sumarþingi. Kannski þarf að gera meiri breytingar á stjórnarráðslögunum og er það hið besta mál.

Þórunn Sveinbjarnadóttir er líka vel komin að ráðherrastól, hún hefur setið á þingi síðan 1999 og m.a. setið í umhverfinefnd og sýnt þeim málum mikinn áhuga.

En það er talað um tveggja ára stóriðjuhlé, hvað þýðir það í raun? Tefur það framkvæmdir sem hafist hefðu innan tveggja ára? Ég held að engar framkvæmdir hefðu hafist innan tveggja ára. Talað er um rammaáætlunin sem ljúka á innan tveggja ára? Samkvæmt áætlun Jóns Sigurðssonar átti vinnu við hana að ljúka árið 2010. Þetta þýðir kannski að áætlunargerðinni lýkur ári fyrr en ráðgert hafði verið, þannig að mér sýnist þetta vera hálfgerður spuni.

Ég held það verði ekki horft fram hjá því að í raun er hlutur Samfylkingarinnar talsvert rýrari en Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir þessa endurskipulagningu einstakra skrifstofa innan ráðuneytanna. Vissulega er endurskipulagning félagsmálaráðuneytisins nokkuð veigamikil en það er engu að síður svo að auk forsætis- og fjármálaráðuneytis hefur Sjálfstæðisflokkurinn langstærstu útgjaldaráðuneytin, - helbrigðis- og menntamálaráðuneytin.

En nýrri ríkisstjórn og öllum ráðherrum beggja flokka fylgja bestu óskir, megi störf þeirra verða landi og þjóð að sem mestu gagni. Á morgun lítur málefnasamningur dagsins ljós og þá verður hægt að ræða hvaða verkefni þessi ríkisstjórn hyggst vinna. Einhverjir voru að tala um að þetta yrði frjálshyggjustjórn, það held ég varla, stjórnin mun væntanlega bera mikið svipmót af miðjupólitík. Bæði eru mestu frjálshyggjumennirnir í vörn í Sjálfstæðisflokknum og eins hefur Samfylkingin sótt mikið inn á miðjuna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband