hux

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Óvenjuleg og beinskeytt gagnrýni

Athyglisverð gagnrýni Hildar Dungal, forstjóra Útlendingastofnunar, á stjórnkerfi útlendingamála í kvöldfréttum RÚV. Hún talar um úrelt stjórnkerfi, önnur ríki hafi endurskipulagt sitt stjórnkerfi í takt við breytta tíma til að auðvelda atvinnulífinu að keppa um hugvit erlendra sérfræðinga.

Saknaði þess að fréttamaður spyrði dýpra um málið. En þessi gagnrýni hlýtur ekki síst að beinast að því ráðuneyti, sem stofnun Hildar heyrir undir, þ.e.a.s. dómsmálaráðuneytinu og það er óvenjulegt að forstöðumenn opinberra stofnana gagnrýni með svo beinskeyttum hætti stjórnkerfið. Hins vegar á félagsmálaráðuneytið hluta af gagnrýninni enda er stjórnsýslu þessara mála skipt milli þessara tveggja ráðuneyta. Vinnumálastofnun félagsmálaráðherra annast útgáfu atvinnuleyfa en Útlendingastofnun útgáfu dvalarleyfa.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingar á stjórnarráðslögunum. Þar er ætlunin að sameina landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti, færa hluta af verkefnum heilbrigðisráðuneytis undir félagsmálaráðuneyti, eitthvað frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis og eitthvað fleira. Ágætis skref en bara skref í átt að nútímalegri stjórnsýslu. Væri ekki ráð að Alþingi tæki nú mið af þessari gagnrýni Hildar og fá hana á fund þingnefndar og gera breytingar á stjórnarráðslögunum og öðrum lögum sem málið snerta til þess að færa okkur inn í 21. öldina hvað varðar stjórnsýslu útlendingamála?


Understatement dagsins

Það var einlæg játning sem Magnús Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, gerði í ræðustól Alþingis þegar rætt var um aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um málefni barna - og unglinga (sem Einar Oddur ætlar að greiða atkvæði gegn).

"Ég hef smá reynslu af því hvernig gengur að fá fármuni til ýmssa verkefna á þessum vettvangi," sagði Magnús í kvöldfréttum útvarps. Mikil merking er fólgin í fáum orðum. Þarna er Magnús að lýsa reynslu sínu af því að reka velferðarráðuneyti og áður fjárlaganefnd í ríkisstjórn þar sem fjármálaráðuneytið var á hendi Sjálfstæðisflokksins. Í yfirlýsingunni er fólgin forspá um stjórnarsamstarfið, sú spá að líkt og í síðustu ríkisstjórn muni samstarfsflokkurinn þrýsta á um fjárveitingar til velferðarmála en Sjálfstæðisflokkurinn standa á bremsunni og heimta kaup kaups í þágu einkavæðingar fyrir hvert skref sem stigið er. Jafnvel þótt hagur ríkissjóðs sé nú betri en hann hefur nokkru sinni áður verið, skuldir hverfandi og forsendur til að ráðast í margvíslegar umbætur í velferðarmálum næstu ár.


Velkominn aftur, Steingrímur

Steingrímur J. Sigfússon, leiðtogi Vinstri grænna er kominn í leitirnar. Ég var farinn að óttast að hann hefði horfið ofan í hyldýpi þeirrar pólitísku sjálfsvorkunnar og sektarkenndar sem draup af hverju orði hans í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á dögunum þegar hann flutti heila ræðu í beinni sjónvarpsútsendingu á besta tíma. Sú ræða fjallaði um það að Steingrímur hefði leikið af sér eftir kosningar og bæri höfuðábyrgð á því að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur mynduðu ríkisstjórn. 

En það er greinilegt að Steingrímur er búinn að gráta og risinn upp öflugri en nokkru sinni fyrr. Rétt í þessu var hann að ljúka við klassíska eldmessu að eigin hætti í þinginu og skammaði Össur Skarphéðinsson blóðugum skömmum fyrir að hafa keypt nokkra lítra af grænni málningu til þess að dulbúa Samfylkinguna með í aðdraganda kosninganna. Það var auðvitað verið að tala um stjóriðjustefnuna sem Samfylkingin þóttist vera á móti í kosningabaráttunni. Össuri varð nokkur um við lesturinn, sem von var, en um leið og hann bar af sér sakir fagnaði hann því að Steingrímur væri snúinn aftur og virtist eins og hann ætti að sér. Auðvitað er það einmitt það sem upp úr stóð.


Jóhanna gagnrýnir Seðlabankann

Jóhanna Sigurðardóttir var rétt í þessu að gagnrýna hækkun launa seðlabankastjóra í ræðustól á Alþingi. Ýmsir bloggarar hafa undrað sig á því að Jóhanna, ráðherra velferðar og verkalýðsmála, tjáði sig ekki um málið starx og fréttir bárust út. En svarið kom sem sagt í dag þegar Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, krafði Jóhönnu svara um málið í ræðu um aðgerðaráætlun í málefnum barna og unglinga. Álfheiður bað sérstaklega um skýringu á afstöðu fulltrúa Samfylkingarinnar í bankaráðinu en hann stóð að 200.000 kr. hækkun mánaðarlauna bankastjóranna eins og allt bankaráðið nema Ragnar Arnalds, fulltrúi VG. 

Jóhanna tjáði sig fremur almennum orðum um hækkunina en gagnrýndi hana þó, einkum á þeim forsendum að hún væri ekki í neinu samræmi við það sem komið hefði frá bankanum sem hefði haldið uppi mikilli gagnrýni á sveitarfélög, ríkissjóð, fyrirtæki og atvinnulíf fyrir eyðslu. 

Eftirminnilegustu ummæli þessara orðaskipta á þingi átti hins vegar Álfheiður þegar hún sagði: "Það er atgervisflótti víðar en úr Seðlabankanum, það er atgervisflótti frá öllum hjúkrunar- og umönnunarstofnunum í landinu."

uppfært kl. 17.02: Þess  skal getið að bankaráðsfulltrúar Seðlabankans eru Jón Þór Sturluson hagfræðingur og Sigríður Stefánsdóttir sviðsstjóri


Launahæsti starfsmaður íslenska ríkisins

Fréttablaðið í dag upplýsir að heildarlaun Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans, séu ríflega 1.700 þúsund krónur á mánuði og að hann sé betur launaður eftir hækkunina en bæði forseti Íslands og forsætisráðherra. Þar með er seðlabankastjóradjobbið það best launaða hjá íslenska ríkinu. Davíð á svo náttúrlega býsna góðan lífeyrisrétt samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra sem safnast upp meðan hann er í starfi í bankanum. Það er sagt að drifkrafturinn að baki launahækkununum sé sú mikla eftirspurn sem er í bankakerfinu eftir starfsmönnum Seðlabankans. Athyglisvert.

Kílóvattstund dagsins

Það eru mikil tíðindi í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag þar sem forstjóri OR staðfestir að Norðurál greiði 2,1 krónu á hverja kílóvattstund vegna álvers í Helguvík. Allt frá því á sjöunda áratugnum hefur það verið gagnrýnt að orkuverðið væri leyndarmál og auðvitað hefur það alla tíð  takmarkað möguleika á að ræða þessi mál í heild að óvissa hefur verið um orkuverðið.

Ég man að fyrir nokkrum misserum komu fram upplýsingar í blaði í Brasilíu, hafðar eftir forstjóra Alcoa, um hvað fyrirtækið greiði fyrir orkuna frá Kárahnjúkavirkjun. Nú bíð ég eftir að minnugir blaðamenn grafi upp þær upplýsingar og haldi áfram með málið.


No Comment dagsins

Það var athyglisvert að horfa á alþingismennina Katrínu Júlíusdóttur, formann iðnaðarnefndar Alþingis, og Kjartan Ólafsson, í Íslandi í dag rétt áðan. Þau urðu vandræðaleg þegar þau voru spurð álits á launahækkunum seðlabankastjóra og sögðust ekki hafa getað kynnt sér málið vegna anna í þinghúsinu. Meiri annirnar að fólkið hafi ekki getað litið yfir forsíðu Fréttablaðsins í morgun og lesið þar ca. 10 dálksentimetra frétt um málið. Hvað þurfti að kynna sér, launin hækka um 200.000 kall á mánuði, ég held amk að Katrín hefði ekki þurft langan tíma til að kynna sér málið áður en hún tjáði sig um það meðan hún var í stjórnarandstöðu.

Svo var rætt um orkusölusamning OR til Helguvíkur og ég skildi Katrínu þannig að hún hikaði ekki við að lýsa sig andvíga samningum, sem mér fannst merkilegt og djarft af formanni iðnaðarnefndar nýs ríkisstjórnarmeirihluta, sem starfar samkvæmt loðnum og teygjanlegum ákvæðum um stóriðjumál í stórnarsáttmála. Það er ýmislegt sem stjórnarflokkarnir eiga eftir að gera út um sín á milli í þessum efnum. Kjartan Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á hinn bóginn óhræddur að hann hefði trú á að álver ætti eftir að rísa í Helguvík. Þarna er gjá milli ríkisstjórnarflokkanna.


Vísir lokar á Egil sem biður Hux að birta yfirlýsingu

Eftir að lögmaður Egils Helgasonar, skrifaði 365 bréf það sem vísað er til í færslunni hér á undan, hefur aðgangi Egils að Vísi verið lokað. Hann getur því ekki birt bréfið né svarað fréttaflutningi af málum hans á síðunni á Vísi. Samt er 365 búið að leggja í leiðangur til þess að fá viðurkennt að Egill sé skuldbundinn til þess að vinna hjá fyrirtækinu. Egill hefur beðið mig að birta þessa yfirlýsingu sem hann ætlaði að birta á eigin vef en kemur þar að luktum dyrum:

Þær upphæðir sem hafa verið nefndar sem launagreiðslur til mín bæði frá 365 og RÚV eru fjarri veruleikanum eins og blaðamenn Fréttablaðsins hefðu getað komist að ef þeir hefðu haft samband við mig. Kannski sjá einhverjir sér hag í að dreifa svona skáldskap. 
Skipti mín yfir á Ríkisútvarpið eru ekki vegna þess að þar hafi mér boðist meiri peningar – heldur vegna þess að ég tel framtíðarhorfurnar bjartari í því fyrirtæki.

Samskipti mín við 365 undanfarna daga hafa styrkt mig í þeirri trú. 
Það er betra að byggja upp en rífa niður.

Í þessu ljósi er reyndar kaldhæðnislegt að það blasir við að í sumar verð ég á launalausum uppsagnarfresti frá 365 - en eins og komið hefur fram hefur fyrirtækið ekki greitt mér laun á sumrin – án þess þó að geta unnið fyrir mér annars staðar. Ég er ekki einu sinni viss um að ég megi blogga.

Eins og komið hefur fram hef ég ákveðið að heiðra meintan "samning" 
við 365. Ég hafna því að hann hafi verið gerður, en til að koma í veg fyrir þjark fyrir fógeta og dómstólum kýs ég að fara þessa leið. Vona þá að málið sé úr sögunni.

Það er dagljóst að í hinum meinta "samningi" er 3 mánaða uppsagnarfrestur. Í síðasta tölvupósti sem mér barst frá Ara Edwald stendur að samningurinn verði að öðru leyti (fyrir utan laun) "í samræmi við þann ramma sem gilt hefur". Í fyrri samningum mínum við fyrirtækið hefur ávallt verið 3 mánaða uppsagnarfrestur.

Ég hef þegar sagt upp hinum meinta "samningi".

Auðvitað vildi ég vera á launum eins og talað er um í slúðurdálki Fréttablaðsins. Staðreyndin er hins vegar að laun blaða- og fjölmiðlamanna á Íslandi eru frekar léleg, sérstaklega ef miðað er við forstjóra og lögmenn.


Egill segir upp án þess að viðurkenna samning

Það dregur til tíðinda í máli Egils Helgasonar og Stöðvar 2. Í dag svarar lögmaður Egils bréfi lögmanns Stöðvar 2. Þar kemur fram að bréfið sé skrifað til þess að segja upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti þeim samningi sem Ari Edwald telur sig búinn að gera við Egil án þess þó að viðurkenna að sá samningur hafi verið gerður. 

Egill hafni því að samningur hafi verið kominn á en leggi áherslu á að forðast málaferli og dómstólaþjark og vilji ljúka málinu eins hratt og kostur er. Því hafi verið ákveðið að bregðast við líkt og samningur hefði verið kominn á í stað þess að hafa málaferli hangandi yfir sér. Í því felist þó ekki viðurkenning á að nokkur samningur hafi legið fyrir.

Það undarlega í málinu er að staða Egils gagnvart Stöð 2 er alveg óbreytt eftir þessi tíðindi. Sá samningur sem 365 telur sig hafa haft í höndum gerði ráð fyrir Egill væri bæði launalaus og verkefnalaus fram á haust og nú er hann sem sagt kominn á uppsagnarfrest og allan þann uppsagnarfrest hefur hann - samkvæmt þeim samningi sem Ari segist sjálfur hafa gert - hvorki skyldu til þess að mæta í vinnu né gera nokkurn skapaðan hlut í þágu Stöðvar 2 og þiggur engin laun frá vinnuveitandanum á tímabilinu. Ætli stjórnendur Stöðvar 2 telji sig hafa unnið frækinn sigur í málinu?


Beitt sjálfsgagnrýni?

Fréttablaðið segir frá því á forsíðu í dag að laun Seðlabankastjóra hafi verið hækkuð um 200 þúsund á mánuði upp í 1.400 þúsund. Fylgja aðrir fordæmi Seðlabankans? Fer nú af stað skriða launahækkana sem verður velt út í verðlagið? Gæti þetta orðið til þess að kalla á hækkun stýrivaxta?

Var það ekki bara í gær sem Davíð Oddsson var að gagnrýna stjórnvöld, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga fyrir of mikla neyslu, fyrir að spenna bogann of hátt? 


mbl.is Samþykkt að hækka laun seðlabankastjóra um 200.000 kr. á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband