hux

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Þrjú dagblöð - þrír ritstjórar - einn flokkur

Eftir að Ólafur Þ. Stephensen er orðinn ritstjóri Blaðsins er staðan á íslenskum blaðamarkaði sú að ritstjórar þriggja útbreiddustu dagblaða á Íslandi hafa allir gegnt trúnaðarstörfum fyrir  Sjálfstæðisflokkinn. 

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, er sem kunnugt er fyrrverandi formaður flokksins og sá eini þremenninganna sem verið hefur í opinberri forystusveit flokksins Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Moggans, og Ólafur hafa lengi verið meðal áhrifamanna í flokknum, einkum þó í ungliðasveitinni. Ólafur var formaður Heimdallar um tveggja ára skeið í kringum 1990, en Styrmir, sem bjó til hugtakið innvígður og innmúraður, var heimdallarformaður á sjöunda áratugnum. Ólafur hefur verið meðal mestu áhugamanna innan Sjálfstæðisflokksins um nánara samband Íslands og ESB og er mikill sérfræðingur um Evrópumál.

Þrátt fyrir hinn flokkslega bakgrunn er hins vegar engum blöðum um það að fletta að Ólafur Þ. Stephensen er fagmaður fram í fingurgóma í blaðamennsku, var innan við tvítugt þegar hann fór að vinna á Mogganum með skóla og varð samstarfsmönnum hans hafi snemma orðið ljóst að þar fór mikill afburðamaður sem líklegur var til að gera stóra hluti hvar sem hann haslaði sér völl. Það verður spennandi að fylgjast með þróun Blaðsins undir hans stjórn og í tilkynningu Árvakurs kemur fram að markið er sett hátt, Ólafi er ætlað að gera Blaðið að útbreiddasta blaði landsins og skjóta Fréttablaðinu ref fyrir rass.

Jón Kaldal, meðritstjóri Þorsteins á Fréttablaðinu, og Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri DV, eru nú einu ritstjórar íslenskra dagblaða sem ekki hafa komist til metorða hjá Flokknum. Sigurjón hefur líklega aldrei komist nær Sjálfstæðisflokknum en það að vinna í sama húsi og Jón heitinn Sólnes á Akureyri fyrir mörgum árum, ef ég man söguna rétt.


Gunnar fær fjárlaganefnd, Ágúst Ólafur viðskiptanefnd

Gunnar Svavarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Kraganum, verður formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Fjárlaganefndarformennska er allmikið starf, formaður nefndarinnar hefur einn þingmanna sérstaka skrifstofu á nefndasviði þingsins og sinnir varla nokkru öðru starfi en fjárlagagerðinni allt haustþingið. Það er talið að Einar Oddur Kristjánsson verði áfram varaformaður fjárlaganefndar en hann hefur látið svo að sér kveða í því hlutverki á síðasta kjörtímabili að bæði fjölmiðlar og ýmsir aðrir hafa umgengist hann sem væri hann formaður nefndarinnar. Haldi Einar Oddur áfram varaformennskunni verður að fyrsta áskorun Gunnars Svavarssonar sem alþingismanns að koma hinum óstýriláta Flateyrarjarli í skilning um það hver er foringinn í fjárlaganefnd.

uppfærsla kl. 19.16. Einar Oddur verður ekki varaformaður fjárlaganefndar heldur Kristján Þór Júlíusson. 


Ritstjóraskipti á Blaðinu

Trausti Hafliðason er að hætta sem ritstjóri á Blaðinu, Ólafur Þ. Stephensen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, tekur við starfinu. Hann verður fimmti ritstjórinn í tveggja ára sögu Blaðsins.

Fréttir af þessu bárust út í gær en  Trausti sagði starfsfólki Blaðsins fyrst af því í morgun hvað til stendur.  Það er Árvakur, útgefandi Moggans og Blaðsins, sem knýr á um breytingarnar. Trausti tók við ritstjórn Blaðsins og yfirgaf starf fréttastjóra á Fréttablaðinu um áramót þegar Sigurjón M. Egilsson yfirgaf ritstjórastólinn til að taka við DV.

Ólafur Þ. Stephensen hefur starfað í uppundir 20 ár hjá Mogganum og hefur verið aðstoðarritstjóri frá því í upphafi ársins 2001. Það verður athyglisvert að fylgjast með þróun Blaðsins undir hans stjórn en væntanlega verður ritstjóraferill Ólafs þar nokkurs konar prófsteinn á hvort hann verður maðurinn sem Árvakur lítur á sem arftaka Styrmis Gunnarssonar á ritstjórastóli Moggans. Talið er að Styrmir hætti á Mogganum á næsta ári.

Ekki er ljóst hvaða Trausti Hafliðason tekur sér fyrir hendur en honum stendur m.a. til boða annað starf á vegum Árvakurs. 

Eins og fyrr sagði verður Ólafur Þ. Stephensen fimmti ritsstjóri Blaðsins. Fyrstur var Karl Garðarsson, þá Ásgeir Sverrisson, síðan Sigurjón M. Egilsson og þá Trausti Hafliðason. 


Ráðuneyti textíliðnaðarins

Iðnaðarráðuneytið hefur verið aðskilið frá viðskiptaráðuneytinu og tveir ráðherrar í nýrri ríkisstjórn sinna verkefnum sem einn sinnti áður. Nýr iðnaðarráðherra hefur ráðið til sín öflugan aðstoðarmann, Einar Karl Haraldsson, margreyndan ref úr stjórnmálabaráttunni, líklega eina manninn sem kemst með tærnar þar sem ráðherrann sjálfur hefur hælana í þeim merku fræðum að að stýra og móta pólitíska umræðu. 

Undanfarin ár hafa helstu verkefni iðnaðarráðuneytisins verið á sviði þungaiðnaðar, starfsemin hverfðist lengi um tilraunir ráðuneytisins til þess að fá erlend stórfyrirtæki til að reisa hér álver og undirbúa virkjanaframkvæmdir tengdar þeim rekstri. Þetta þekkja allir, málefni iðnaðrráðuneytisins hafa verið hin stórpólitísku deilumál í íslensku samfélagi undanfarin ár. Nú er ný ríkisstjórn tekin við og þótt orðalag stjórnarsáttmálans sé loðið og teygjanlegt um það hvaða fyrirætlanir ríkisstjórnin hefur á sviði virkjana og stóriðju er svo að heyra á ráðherrum Samfylkingarinnar að lítið verði að gera á því sviði hjá iðnaðarráðherra. Þess vegna er vert að velta því fyrir sér hver verði helstu verkefni þessa ráðuneytis á næstu árum, sem Össur Skarphéðinsson stýrir því með fulltingi Einars Karls Haraldssonar.

Og þá staldrar maður við það að víst eru fleiri iðngreinar stundaðar í landinu en álvinnsla og orkuvinnsla. Það er til dæmis textíliðnaður, það er að segja sú grein sem spinnur band og vefur vef í klæði. Því meir sem ég hugsa um þetta því frekar hallast ég að því að nokkurs konar textíliðnaður verði í hávegum hafður í iðnaðarráðuneytinu næstu árin, þar verði spunarokkarnir þandir frá morgni til kvölds. Í iðnaðarráðuneytinu verður rekið spunaverkstæði Samfylkingarinnar undir stjórn spunameistara sem eru svo snjallir að þeir eiga fáa sína líka. Það er helst að maður geti lesið um aðra eins spunasnillinga í ævintýri H.C. Andersen um Nýju fötin keisarans.


Fyrsta ráðningin

Á morgun rennur út umsóknarfrestur um starf skrifstofustjóra nýrrar skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu. Magnús Stefánsson auglýsti stöðuna fyrir nokkru og eins og hans var von og vísa lét hann umsóknarfrestinn renna út eftir kosningar þannig að það kæmi í hlut næsta ráðherra að veita embættið. Um það leyti sem auglýsingin birtist kom í Mogganum grein eftir Jóhönnu Sigurðardóttur - þá hina sömu og nú er orðin félagsmálaráðherra - þar sem hún gaf til kynna að Magnús ætlaði sér að koma einhverjum gæðingi í djobbið. Það var náttúrlega eins og hvert annað pólitískt kjaftæði í Jóhönnu. Nú er það hins vegar hún sjálf sem fær lista með nöfnum umsækjenda inn á sitt borð annað kvöld og getur tekið ákvörðun um hver fær djobbið. Væntanlega þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Jóhanna mun eingöngu láta málefnaleg sjónarmið þegar hún velur milli umsækjenda.


Athyglisvert

Athyglisverðar fréttir berast úr Skagafirði í gegnum svæðisútvarp Norðurlands. Þar segir: "Endurnýjunar er þörf í yfirstjórn Framsóknarflokksins. Þetta segir oddviti flokksins í  Sveitarstjórn Skagafjaðrar Hann íhugar að bjóða sig fram í embætti varaformanns flokksins." Ekki á ég von á að Gunnar Bragi Sveinsson ógni framboði Valgerðar Sverrisdóttur, sem nýtur mikils fylgis í öflugasta kjördæmi flokksins, á almennan stuðning á höfuðborgarsvæðinu og hefur væntanlega Landssamband framsóknarkvenna einhuga á sínu bandi. En það verður athyglisvert að fylgjast með þessu, ef af verður.


Non-denial denial

Ég heyrði nokkra menn hneyklast á því í gær að Össur iðnaðarráðherra hefði sagt ósatt um það að hann ætlaði sér að ráða Einar Karl fyrir aðstoðarmann sinn en eftir að ég greindi frá þeirri fyrirætlan hér skrifaði hann pistil á heimasíðu sína þar sem hann virtist vera að þræta fyrir að þetta væri í pípunum.

Ég hef beðið menn að skamma ekki Össur fyrir lygar heldur dást að snilli hans. Það sést þegar pistill hans er lesinn að hann neitar því hvergi að ætla að ráða Einar Karl, þrætir aðeins fyrir að þeir hafi hist í iðnaðarráðuneytinu.   Þarna sýnir Össur einu sinni sem oftar hvílíkur yfirburðarmaður hann er í íslenskum stjórnmálum á sviði spunafræða og að í þeim efnum er enginn hérlendur maður þess verður að hnýta skóþveng hans, það er helst að Einar Karl komist með tærnar þar sem hann er með hælana. Þarna nýtti Össur bragð sem kallað er "non-denial denial", þar sem hann nýtir sér ónákvæma frásögn af aukaatriði máls til þess að ýta óþægilegri frétt út af borðinu. Það tókst honum svo vel að flestir töldu að hann væri alls ekkert með Einar Karl í sigti en auðvitað var þetta í pípunum allan tímann.


Össur ræður aðstoðarmann

Í morgun fékk ég símtal frá manni sem veit allra manna best hvað gerist í iðnaðarráðuneytinu. Hann var að segja mér að búið væri að ganga frá ráðningu aðstöðarmanns Össurar Skarphéðinssonar. Eins og ég vissi og hafði sagt frá hér er það Einar Karl Haraldsson. Þá var ráðningin til umræðu, nú er hún frágengin.

Einar Karl og Össur eru gamlir vopnabræður úr pólitíkinni, líklega voru þeir báðir einhvern tímann ritstjórnar Þjóðviljans. Síðar var Össur ritstjóri á Alþýðublaðinu og DV ef ég man rétt en Einar Karl fyrsti ritstjóri Fréttablaðsins. Líklega eiga þeir eftir að líta saman í blöðin á morgnana félagarnir.

Einar Karl hefur starfað sem almannatengslaráðgjafi árum saman og hefur sem slíkur unnið mikið fyrir stjórnendur Kaupþings. Nú tekur hann að sér að vera Össuri til halds og traust um vanda Vestfirðinga, rammaáætlun um vernd og nýtingu vatnsafls og jarðhita og önnur þau stórmál sem blasa við iðnaðarráðuneytinu næstu misserin.


Hvalræði

Ríkisstjórn Íslands á enn eftir að ákveða hvaða stefnu verður fylgt í hvalveiðimálum og hvort haldið verður áfram að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því að eltast við langreyðar eða ekki. Samt stendur nú yfir fundur Alþjóðahvalveiðiráðsins í Alaska. Baráttumenn gegn veiðunum beina nú helst spjótum að Japan. Alþjóðleg blöð fjalla nú meira en áður um hvalveiðikvóta Bandaríkjamanna, sem frumbyggjar við Alaska nýta.  Ætli nýja ríkisstjórnin ákveði stefnuna áður en fundinum lýkur?

Gleðibankinn

Björn Bjarnason kemur á framfæri þeirri tillögu að ríkisstjórnin verði kölluð Gleðibankinn í þessum nýja pistli á heimasíðu sinni. Hann hefur sett saman annan pistil sem útskýrir af hverju hann situr við hlið Ingibjargar Sólrúnar á ríkisstjórnarfundum. Það er ekki af því að þau hafi svo margt að spjalla.

Hér er tilvitnun í Björn þar sem hann ræðir nafngift á ríkisstjórnina:


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband