hux

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Meira um sameininguna sem ekki varð

Aðstandendum DV og Króníkunnar ber ekki saman um hvor aðilinn átti frumkvæði að viðræðum um sameiningu miðlanna tveggja. Í upphafi vildi Króníkufólk ná samlegðaráhrifum í rekstri skrifstofu, ljósmyndunar og umbrots. Krafa um að Króníkan yrði lögð niður kom fram frá DV á föstudag og það var hún sem leiddi til þess að Sigríður Dögg og Valdimar slitu viðræðum við Hrein Loftsson. Enginn af blaðamönnum Króníkunnar vildi fara yfir á DV.

Það er athyglisvert að  viðræður um samkrull þessara miðla hafi farið í gang svo skömmu  eftir að þeir hófu göngu sína. Það hlýtur að vera staðfesting á því að áætlanir eru ekki að ganga eftir og sala beggja er undir væntingum.

Hvað varðar efnistök eru DV og Króníkan kannski tvö ólíkustu blöðin á markaðnum og vandséð að þau eigi annað sameiginlegt en nýjabrumið. Það var alltaf vitað að Króníkan stæði og félli með Sigríði Dögg og Valdimar og að þau hefðu auk eiginfjár fengið lánsfé frá Björgólfsbatteríinu.

En maður hélt að bakland DV sem er í eigu Baugsveldisins, væri traustara en svo að fara þyrfti í svona æfingar eftir fáeinar vikur. Ég veit að frá upphafi hefur DV verið í klandri með að fullmanna stassjónina og hefur keypt talsvert af efni utan úr bæ frá degi til dags. Líklega sáu menn leik á borði að leysa mönnunarvandann á einu bretti og kaupa þaulreynda ritstjórn Króníkunnar. En hugmyndirnar að blöðunum tveimur eru gjörólíkar. Blaðamenn Króníkunnar slitu upp djúpar rætur á öðrum miðlum til þess að hrinda nýrri hugmynd í framkvæmd en ekki til þess að ráða sig á DV-skútuna.


Yfirtaka DV á Króníku rann út í sandinn

Fyrir tveimur klukkutímum runnu út í sandinn viðræður um yfirtöku DV á Króníkunni. Tilboð DV til Örnu Schram um aðstoðarritstjórastöðu var liður í einhvers kona taugastríði meðan þreifingar stóðu yfir um sameiningu, eða frá sjónarhóli DV: yfirtöku á Króníkunni, sem átti að hætta að koma út.

DV menn töldu sig hafa náð samningum við eigendur Króníkunnar, hjónin Sigríði Dögg og Valdimar Birgisson, og átti að undirrita samning kl. 17 í dag. Af því varð ekki, að sögn vegna þess að Ólafsfell, félag í eigu Björgólfsfeðga, neitaði að framselja DV lánssamning við útgáfufélag Króníkunnar. Talið er að þess í stað hafi Króníkunni verið tryggt fé til að halda áfram útgáfunni.

Samkomulagið er sagt hafa gert ráð fyrir að Sigríður Dögg yrði umsjónarmaður Helgarblaðs DV og Valdimar auglýsingastjóri. Jafnframt hafi DV ætlað að yfirtaka launasamninga allra starfsmanna Króníkunnar sem vildu koma til starfa á DV. Þreifingar milli blaðanna munu hafa hafist fyrir viku, gengu hægt í fyrstu, en komust á skrið í gær, og stefndi í samkomulag þar til Björgólfsfeðgar ákváðu að koma í veg fyrir að Króníkan kæmist í hendur félags í eigu Baugs.


Upphefðin kemur að utan

Ingibjörg Sólrún er nú á fundi sænskra jafnaðarmanna sem ætla að heiðra hana, það má með sanni segja að upphefð hennar komi að utan þessa dagana. Ingibjörg vék af þingi fyrir Ellert B. Schram meðan allt var í háalofti í pólitíkinni. Mér er sagt að alþingi beri kostnaðinn af ferðalagi hennar.

ps. Skúli Helgason, framkvæmdstjóri Samfylkingarinnar, segir í kommenti hér að Alþingi beri engan kostnað af ferðinni heldur sé hún farin á kostnað Samfylkingarinnar. 


3%

Mér fannst athyglisvert að lesa frétt Moggans af aðalfundi Kaupþings. Þar kemur fram að eingöngu 3% af hagnaði bankans, eða um 3 milljarða, megi rekja til viðskipta hans við einstaklinga og smærri fyrirtæki hér á landi.


15 mínútur

Ritstjórn Moggans glefsar í Össur á forsíðu í dag fyrir sýndarmennsku og skrípó. Röggi rakari tekur doktorinn líka fyrir og segir

Hann er aðallega í því að fara þangað sem hann heldur að vinsældirnar séu mestar hverju sinni. Þess vegna vantar alltaf herslumuninn.Þetta hefur enn einu sinni sannast undanfarna daga í umræðunni um auðlindamálið. Engin heildarsýn. Allt snýst um 15 mínútna frægð.


DV bauð í aðstoðarrritstjóra Króníkunnar

Arna Schram, aðstoðarritstjóri Króníkunnar, fékk atvinnutilboð frá DV á dögunum. Henni var boðið starf aðstoðarritstjóra, þ.e.a.s. að vera manneskja númer tvö á ritstjórn blaðsins.

Arna afþakkaði þetta góða boð. Hún er nýbúin að skipta um vinnu, hætt á Mogganum eftir meira en áratug og orðin aðstoðarritstjóri hins nýja tímarits Króníkunnar. Þar heldur úti ágætri pólitískri fréttaumfjöllun, einhverri hinni snörpustu sem völ er á um þessar mundir.


Þar fauk baksíðan

Í dag er stigið enn eitt skrefið í umbreytingu Morgunblaðsins. Baksíðan er komin í nýjan búning, hún er ekki lengur ein helsta fréttasíða blaðsins, heldur einhvers konar sambland af auðlesnu efni, fréttayfirliti, fréttum af fólki og neytendafréttum. Gott og vel.

Ég vandi mig snemma á að lesa Moggann afturábak, byrja á baksíðunni. Ég gerði þetta líka þau tæpu 14 ár sem ég vann á blaðinu. Baksíðan var aðalsíðan fyrir innlendar fréttir, af einhverjum dularfullum ástæðum var forsíðu blaðsins um 40 ára skeið sóað í erlendar fréttir. Verkföll í Bretlandi áttu frekar erindi á forsíðu blaðsins en verkföll á Íslandi, o.s.frv. Ekki spyrja mig hvers vegna, einhverjir sögðu það vera vegna þess að íslenskt þjóðfélag væri Morgunblaðinu ekki almennilega samboðið, það væri á æðra plani.

Nú eru breyttir tímar, nokkur ár síðan innlendar fréttir fóru að bera uppi forsíðuna og fyrr í vetur fóru breytingar í myndanotkun og fréttaskýringar á forsíðu að vekja athygli. Allt er þetta til þess að gera blaðið neytendavænna og er í heildina til bóta þótt enn gerist það reglulega að flokkspólitísk fréttaritstjórn og óskiljanleg heilaköst rýri gildi forsíðunnar og þar með blaðsins alls. Um það eru þrjú sterk og nýleg dæmi, síðast í gær. En Mogginn heldur áfram að þróa sig og reyna að gera nýjum lesendahópum og nýjum kynslóðum til hæfis. Gott hjá honum, þetta er allt að koma þótt það sé talsvert eftir enn.


Óli Björn hættur á Viðskiptablaðinu

Viðskiptablaðið í dag staðfestir orðróm sem verið hefur í gangi um hríð. Óli Björn Kárason, útgáfustjóri og stofnandi Viðskiptablaðsins, hefur látið af störfum. Exista keypti nýlega ráðandi hlut í Viðskiptablaðinu. Sú breyting var gerð á sama tíma og Viðskiptablaðið fjölgaði útgáfudögum úr tveimur í fjóra í viku. Í yfirlýsingu sem birt er í blaðinu í dag kemur fram að Óli Björn hafi kosið að láta nú af störfum og snúa sér að öðrum verkefnum en að hann muni áfram skrifa reglulega í blaðið. Það verður mikill missir að Óla Birni fyrir Viðskiptablaðið.

Þetta hafa margir fullyrt

Gylfi Gylfason, sölukall fyrir norðan og Moggabloggari fjallar um mál sem lengi hefur verið á slúðurstiginu og segir að heildsalar kaupi hillupláss með auglýsingum í miðlum á vegum Baugs. 

[...]heildsalinn þarf að borga fjölmiðlum Baugsmanna milljónir til að kaupa hillupláss. [...]Það versta er að heildsalar steinhalda kjafti því þeir þora ekki öðru, vilji þeir ekki missa af helming íslensks matvörumarkaðar á einu bretti.

Um þetta hefur lengi verið slúðrað en fólk í heildsölu hefur sagst ekki þora að hætta afkomu sinni með því að tala opinberlega um málið.


Orð dagsins

Leiðari Moggans í dag: 

Það er vond niðurstaða að stjórnarflokkarnir hafi ákveðið að afgreiða ekki á þessu þingi tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins þess efnis, að ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum verði tekið þar inn. Það þýðir ekkert fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að kenna stjórnarandstöðunni um. Þessir tveir flokkar höfðu og hafa bolmagn á Alþingi til þess að afgreiða þetta mál. Þeir lofuðu því við upphaf kjörtímabilsins að taka þetta ákvæði inn í stjórnarskrá og þeir hafa nú formlega svikið það loforð. Verst er fyrir stjórnarflokkana að þeir hafa engin rök fyrir þessari ákvörðun. Þeir voru búnir að koma sér saman um orðalag og áttu að standa við það. Það þýðir ekkert að bera það fyrir sig að meiri tíma hafi þurft til að sameina ólík sjónarmið varðandi orðalag o.fl. Lögfræðingar eru margir miklir snillingar í sínum fræðum en það er alveg ljóst, að það er hægt að kaupa hvaða álit sem er hjá lögfræðingum. Að lokum er það Alþingi, sem setur lög og afgreiðir tillögur um breytingar á stjórnarskrá með sínum hætti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband