Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
21.3.2007 | 11:15
Þegar stórt er spurt...
Nýjasti pistill Denna vekur upp athyglisverða pælingu. Ómar Ragnarsson er búinn að safna tilskyldum fjölda meðmælenda með framboði sem heitir Íslandsflokkurinn. Nú er rætt um að framboðið muni ekki heita Íslandsflokkurinn heldur Íslandshreyfingin.
Denni segir: "Í lögum um kosningar kemur fram að heiti framboðs þurfi að koma fram í haus meðmælendalista. Samkvæmt því er Íslandsflokkur ekki vinnuheiti, heldur nafn á framboði. Breyti Ómar og Margrét um nafn á flokknum eru undirskriftarlistarnir í raun ónýtt plagg, því eins og áður sagði þarf nafn framboðs, ekki vinnuheiti eða hugmynd, að koma fram á haus listans."
Kannski er þetta bara spurning um hvort einhver hreyfir andmælum eða ekki? Ef enginn hreyfir andmælum setur dómsmálaráðuneytið þetta kannski ekki fyrir sig en ef einhver andmælir formlega gætu Ómar og Margrét þurft að byrja upp á nýtt á undirskriftarsöfnuninni út af þessu formsatriði. Hreyfir einhver andmælum? Þegar stórt er spurt...
ps kl. 12.14: Annar flötur á framboðsmálum Ómars og Margrétar er sá sem Helga Vala bendir á í kommenti: Ísafjarðarlistinn fékk að nota listabókstafinn Í í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Hvers vegna mega þá Ómar og Margrét ekki nota listabókstafinn Í í alþingiskosningum? Í RÚV í gær vísaði fulltrúi dómsmálaráðuneytisins í að það væri hefð fyrir því að nota ekki broddstafi (á,é,í,ó,ú,ý) í listabókstöfum en nú höfum við tæplega ársgamalt dæmi frá Ísafirði um notkun Í á Ísafirði. Ef ég man rétt er það svo að sveitarfélög og félagsmálaráðuneyti annast stjórnsýslu í sveitarstjórnarkosningum en dómsmálaráðuneyti í þingkosningum, en á samt að þurfa að breyta einhverju um atriði eins og þetta?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.3.2007 | 10:57
Beðið eftir Jóni Ásgeiri
Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá ræðu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á aðalfundi 365 í gær. Þar segir:
Jón Ásgeir lagði áherslu á mikilvægi þess að fjölmiðlar væru óháðir eigendum sínum hvort sem þar færu kaupsýslumenn eða ríkisvald. Hann sagði að gera ætti kröfu um að ritstjórar og stjórnendur fréttastofa væru óháðir stjórnmálaöflum, hagsmunaaðilum eða fyrirtækjum, t.d. viðskiptabönkum. Fjárhagsleg staða ritstjóra, eignir þeirra í hlutabréfum, aðild þeirra að stjórnmálasamtökum eða öðrum félögum, verður að liggja fyrir. Krafan um gegnsæi á einnig að ná til ritstjóra.
Athyglisvert, ég sé ekki betur en Jón Ásgeir vilji gera meiri kröfur til ritstjóra dagblaða en gert er til viðskiptajöfra eins og hans sjálfs á verðbréfamarkaði, eða er gerð krafa um að hann upplýsi um persónulega fjárhagsstöðu sína? Auðvitað er Jóni Ásgeir í lófa lagið að hrinda þessu í framkvæmd gagnvart þeim ritstjórum sem starfa hjá fyrirtækjum hans. Maður hlýtur að ætla Kauphöllinni berist fljótlega svona upplýsingar um þá ágætu menn, annars er þetta bara eins og hvert annað blaður.
Í tilefni af þessu rifjaði góður maður upp fyrir mér grein sem Jón Ásgeir skrifaði í Moggann 7. janúar 2004 þar sem hann féllst á að hætta væri á því að fjölmiðlum væri misbeitt í þágu eigenda sinna. Þar stendur:
Fréttaflutningur ræður að mörgu leyti hvernig við skynjum það samfélag sem við búum í og hvaða skoðanir og viðhorf við höfum til ýmissa mála. Við eigum ekki kost á beinni snertingu við nema lítinn hluta samfélagsins en afganginn þekkjum við að miklu leyti af fréttum. Þótt ég treysti eigendum Fréttablaðsins, DV og Stöðvar 2 held ég að það væri til bóta að koma á kerfi sem tekur af allan vafa um hvort eignarhald hafi áhrif á fréttaflutning en leyfði um leið samfélaginu að njóta mestu hagræðingar í rekstri fyrirtækis til hagsbóta fyrir almenning.
Í greininni, sem vakti talsverða athygli, gerði Jón Ásgeir beinar tillögur um hvernig tryggja mætti frekar ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra þriggja fjölmiðla sem Baugur átti þá stærstan hlut í: Fréttablaðsins, DV og Stöðvar 2. Ein tillagan var þessi:
Stofnað verði fjölmiðlaráð sem vakir yfir fréttaflutningi fjölmiðlanna þriggja og gæti þess að hann sé innan hlutleysis- og réttlætismarka. Fjölmiðlaráðið yrði skipað þremur mönnum tilnefndum af félagasamtökum og óvilhöllum stofnunum; til dæmis Neytendasamtökunum, Háskóla Íslands og Blaðamannafélagi Íslands.
Hvað er að frétta af þessu máli? Jóni Ásgeir hefur alla tíð verið í lófa lagið að hrinda þessu í framkvæmd en hann hefur ekki gert það. Hvers vegna skyldi það vera?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2007 | 17:39
Grunnnetið komið í leitirnar
Þegar Síminn var seldur fyrir ca. 2 árum þóttu öll tormerki á því að aðskilja rekstur grunnnetsins frá öðrum rekstri. Það var víst voðalega flókið að skilgreina hvað var grunnnet og hvað ekki. Nú hafa nýir eigendur ákveðið að fara nákvæmlega þá leið, sem menn kepptust við að segja ófæra áður og stofna sérstakt fyrirtæki um rekstur grunnnetsins. Hvað hefur breyst?
Fyrirtækið Míla stofnað um fjarskiptanet Símans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.3.2007 | 15:05
Þröstur frá DV til Blaðsins
Þröstur Emilsson hefur verið ráðinn fréttastjóri á Blaðinu. Þröstur var fréttastjóri á DV þegar blaðið hóf göngu sína undir stjórn Sigurjóns M. Egilssonar, fyrir nokkrum vikum, en er hættur og búinn að ráða sig yfir til Blaðsins og verður þar fréttastjóri við hlið Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur.
DV fær mann á móti því að í dag hættir á Blaðinu Trausti Hafsteinsson og fer til starfa hjá föðurbróður sínum, nefndum -sme. Þar hittir hann líka fyrir frændsystkini sín Janus og Hjördísi Sigurjónsbörn.
Af DV er það annars að frétta að sme ber sig vel yfir gengi blaðsins og segist vera að undirbúa að koma því í áskrift til lesenda. Nú er aðeins hægt að fá helgaráskrift en breyting verður væntanlega á því í apríl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.3.2007 | 10:45
Óbundnar hendur
Auðvitað er það laukrétt hjá Jónínu Bjartmarz að með því að vinna gegn frumvarpi iðnaðarráðherra um auðlindir í jörðu og koma í veg fyrir afgreiðslu þess vann stjórnarandstaðan gegn náttúruvernd. Og það er laukrétt hjá Sæunni Stefánsdóttur að með þessari frestun hefur stjórnarandstaðan fært iðnaðarráðherra óbundnar hendur til þess að gefa út leyfi til rannsóknar og nýtingar á vatnsafli og jarðhita.
Og þegar Ingibjörg Sólrún talar um að frumvarpið hafi verið til marks um sátt stjórnarflokkanna einna er hún að dissa sinn eigin fulltrúa í nefndinni, Jóhann Ársælsson, hann tók þátt í að semja þetta frumvarp eins og Kolbrún Halldórsdóttir, þingkona VG, sem er sömuleiðis dissuð með afgreiðslu málsins sem hefði komið í veg fyrir að skref yrðu stigin til virkjana á nýjum svæðum fyrr en eftir gildistöku rammaáætlunar. Í greinargerð frumvarpsins segir:
Frumvarp þetta er samið af nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði. Í nefndina voru skipaðir eftirtaldir aðilar: Karl Axelsson, formaður, tilnefndur af iðnaðarráðherra; [...] Arnbjörg Sveinsdóttir, tilnefnd af þingflokki Sjálfstæðisflokksins; Birkir J. Jónsson, tilnefndur af þingflokki Framsóknarflokksins; [...] Ingileif Steinunn Kristjánsdóttir, tilnefnd af þingflokki Frjálslynda flokksins; Jóhann Ársælsson, tilnefndur af þingflokki Samfylkingarinnar; Kolbrún Halldórsdóttir, tilnefnd af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.[...]"
Frumvarpið var samið í þverpólitískri sátt með þátttöku fulltrúa allra flokka, en stjórnarandstöðuflokkarnir virtu ekki niðurstöður sinna eigin fulltrúa þegar frumvarpið kom til meðferðar í þinginu. Þess vegna hefur iðnaðarráðherra óbundnar hendur um útgáfu nýrra leyfa. Þetta er svona. Og stjórnarandstaðan hefði líka getað lögfest frumvarp umhverfisráðherra um meginreglur umhverfisréttarins. En hún kaus frekar 70 klst málþóf um RÚV og að slá pólitískar keilur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2007 | 23:19
Capacent kannar og kannar
Í skoðanakönnuninni sem Capacent er að gera núna er meðal annars spurt hvort fólk sé líklegt eða ólíklegt til að kjósa framboðslista Íslandshreyfingarinnar, flokksins þeirra Margrétar og Ómars. Einnig er sams konar spurning um fylki við baráttuhóp aldraðra eða öryrkja.
Auk þess að spyrja um fylgi við flokka, aldur, menntun, fyrri störf, tekjur, skóstærð, fjölskylduhagi og hvað maður kaus síðast spyr Gallup hvort maður hafi orðið var við lækkun matarskatts í verslunum og veitingahúsum. Líka hvert mikilvægasta málefnið sé í kosningabaráttunni, annars vegar á landsvísu og hins vegar í viðkomandi kjördæmi. Svo er spurt: Hvað finnst þér brýnast að gert sé í samgöngumálum og málefnum aldraðra.
19.3.2007 | 12:05
Göngur og réttir
Það hafa 1029 skrifað undir sáttmálann sem Framtíðarlandið lagði fram í gær núna kl. tæplega 12. Á heimasíðu þeirra getur maður lesið nöfnin og meira að segja leitað að því hverjir hafa skrifað og hverjir ekki. Athyglisvert, þetta er skipulagður og öflugur þrýstihópur, sem veit nákvæmlega hvað hann er að gera.
Ég ákvað að nota þessi verkfæri á heimasíðunni í þeim eina tilgangi sem þau geta átt að þjóna, nefnilega til þess að leita að því hvaða þingmenn og þingmannsefni eru nú þegar búnir að hoppa á vagninn. Það var fljótlegt að ganga úr skugga um að allir þingmenn VG eru nú þegar búnir að skrifa, nema Þuríður Backman, þingmaður í Norðausturkjördæmi. Spái því að hún eigi eftir að skila sér, og að hún sé óhrædd við að þurfa að deila við kjósendur sína í nágrenni Húsavíkur um réttmæti þess.
En það var athyglisvert að leita þingmanna og þingmannsefna Samfylkingarinnar á þessum lista. Þar vantar býsna marga. Ingibjörg Sólrún, Ásta Ragnheiður, Jóhanna Sigurðardóttir, Helgi Hjörvar, Gunnar Svavarsson, Guðbjartur Hannesson, Karl V. Matthíasson, Kristján L. Möller, Einar Már Sigurðarson, Lára Stefánsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og Róbert Marshall. Öll þessi láta sig ennþá vanta. Hins vegar eru Össur, Mörður, Guðrún Ögmundsdóttir, Björgvin G. Sigurðarson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir búin að skrifa sig á listann og líka starfsmenn flokksins, Skúli Helgason, Dofri Hermannsson og Guðmundur Steingrímsson. Kannski Ingibjörg, Jóhanna og þau viti bara ekki af þessu, ef þið sjáið þau segið þeim að fara inn á framtidarlandid.is og undirrita sáttmálann og sýna í verki hvað það ríkir mikil eindrægni í hópnum um virkjanamálin.
19.3.2007 | 11:48
Kosningar í fullum gangi
18.3.2007 | 22:27
Ómar + Margrét = xÍ
Í verður listabókstafur framboðs Ómars Ragnarssonar og Margrétar Sverrisdóttur og annarra aðstandenda. Mér er sagt að Ómar Ragnarsson sé búinn að tryggja sér þennan listabókstaf. Það hefur komið fram að vinnuheiti framboðsins er Íslandsflokkurinn. Umsókn um listabókstafinn Í bendir til að vinnuheitið eigi að verða endanlegt heiti. Það er stórt orð Hákot, sagði karlinn.
ps. 19.3: 08:50. Hermt er að nafn framboðsins eigi að verða Íslandshreyfingin - lifandi land.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.3.2007 kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.3.2007 | 22:04
Hann sagði það nú samt
Í Silfri Egils í dag þrætti Steingrímur J. Sigfússon fyrir að Ögmundur Jónasson hefði nokkru sinni sagt að hann vildi bankana úr landi. Svar Ögmundar við lesendabréfi á heimasíðu hans hefði verið afbakað. En Ögmundur sagði þetta nú samt eða það er amk fullkomlega eðlileg túlkun á ummælum hans. Hér er frétt Fréttablaðsins um málið, hér er pistillinn sem Steingrímur vísar til og hér er þessi færsla um málið.
Það sem Ögmundur sagði var þetta:
Er jafnaðarsamfélaginu fórnandi fyrir 12 milljarða og nokkra stráka og stelpur í silkigöllum; þotuliðið? Eða eigum við að snúa spurningunni við: Er þotuliðinu fórnandi fyrir meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti? Mitt svar er játandi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 24
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar