Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
13.2.2007 | 16:22
Vondar fréttir - góð kvikmynd
Bestu rökin gegn auknum umsvifum álfyrirtækja á Íslandi þykja mér vera þau sem byggjast á því að það sé varasamt að afhenda sárafáum erlendum stórfyrirtækjum of sterk ítök í okkar örsmáa hagkerfi og samfélagi
Þess vegna fölna ég þegar ég les fréttir um að Rio Tinto Zink - af öllum fyrirtækjum - sé að undirbúa yfirtöku á Alcoa, fyrirtækinu sem á Fjarðarál og hefur áform um álversuppbyggingu á Bakka við Húsavík. Fjörutíu milljarðar bandaríkjadala er verðið sem rætt er um í þessu samhengi og það er svona þrisvar sinnum landsframleiðslan á Íslandi, þetta eina fyrirtæki er stærð sem íslenskt þjóðfélag á ekki séns í.
Alcoa og Rio Tinto eiga sér margvíslega sögu í ýmsum löndum heims, þau eru gríðarlega öflug og sagan sýnir að það getur kostað sitt fyrir litlar ríkisstjórnir að lenda upp á kant við þau, vegna þess að bandaríkjastjórn hefur margsinnis beitt pólitískum áhrifum og aðgerðum til að takamarka getu ríkja til þess að setja þessum stórfyrirtækjum stólinn fyrir dyrnar. Og bæði fyrirtækin eru í nánum tengslum við þau öfl sem nú hafa tögl og hagldir í bandarísku stjórnmálalífi. Þau öfl eru t.d. ekki mjög hrifin af "meginreglum umhverfisréttarins."
Sem stendur eru þrjú erlend fyrirtæki í álframleiðslu á Íslandi, Alcoa, Alcan og Century. Það síðastnefnda stendur víst ekkert of vel og maður hefur lengi heyrt talað um að þar kunni að verða breytingar á eignarhaldi. Líklegustu kaupendurnir eru þá aðrir álframleiðendur á Íslandi. Og það er raunveruleiki að við getum með engu móti komið í veg fyrir að eignarhald álfyrirtækja hér á landi þjappist svo saman öll framleiðsla áls á Íslandi komist í raun og veru á hendur eins og sama fyrirtækisins, sem hafi þá hreðjatak á íslensku efnahagslífi. Sagan sýnir að alþjóðleg stórfyrirtæki eins og Rio Tinto nota sér slík hreðjatök til hins ítrasta.
Í tilefni af þessum fréttum set ég hér inn í boði Google og í tveimur hlutum heimildarmyndina The Corporation, eina bestu mynd sem ég hef séð hin síðari ár. Hún er líka til úti á vídeóleigu. Enginn áhugamaður um uppbyggingu í atvinnulífinu ætti að láta hana fram hjá sér fara.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2007 | 14:28
Sextán ár
Ekki lái ég Birni Bjarnasyni að vilja helst að Sjálfstæðisflokkurinn fái að setjast í heilbrigðisráðuneytið í næstu ríkisstjórn. Þótt það nú væri að hann vildi það, það mundi ég örugglega vilja ef ég teldi að markaðslausnir væru rétta leiðin í heilbrigðismálum. Það tel ég hins vegar ekki en það eru miklar líkur á að Birni verði að ósk sinni og að Sjálfstæðismenn fái heilbrigðisráðuneytið í stjórninni sem þeir ætla að mynda með Samfylkingunni eftir kosningar. Svo óska ég Birni góðs og skjóts bata þar sem hann liggur á Landsspítalanum. Hann er hinn eini sanni ofurbloggari landsins og bætir enn fjöður í blogghattinn með því að skrifa sem aldrei fyrr af sjúkrabeði sínu.
En ég segi eins og Björn Ingi að ég mundi gjarnan vilja að það færi t.d. framsóknarmaður í menntamálaráðuneytið, án þess að það sé gagnrýni á þann sem nú situr þar fyrir eða aðra þá sjálfstæðismenn sem setið hafa undanfarin sextán ár, og ekki síður væri ég áhugasamur um að fá góðan framsóknarmann í dómsmálaráðuneytið. Þar þarf nú aldeilis að taka til hendinni, þykir mér, með fullri virðingu fyrir ýmsum þeim góðu verkum sem þar hafa verið unnin.
Það er til dæmis þetta með fangelsismálin, það er enn ekki búið að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna er komið í tómt óefni. Það er búið að þyngja svo dóma í fíkniefnamálum að sá vandaði embættismaður sem veitir forstöðu Fangelsismálastofnun telur ekki aðra lausn tæka en að láta barnaníðinga afplána dóma á áfangaheimili Verndar, það er bara ekki til fangelsispláss undir alla glæpamennina. Öðrum hefur verið vísað í afplánun í Byrginu, á Vog og víðar, vegna þess að ekkert var plássið í fangelsinu, þar þurfti að koma fyrir fíklum með sjö til tíu ára dóma fyrir að smygla inn e-töflum. Forgangsröðunin er sú að dæma þungt í fíkniefnamálum en taka t.d. vægar á brotum gegn börnum og ofbeldisbrotum. Ég er ekki ánægður með það. Hins vegar hefur miklu fé verið varið til að byggja upp embætti Ríkislögreglustjóra með þeim afleiðingum sem við blasa.
Og er ekki eitthvað að viðhorfum í lögreglustofnunum þegar menn bregðast við eins og sýslumaður á Selfossi, sem segist ekkert geta rannsakað mál kvennanna tíu sem talið er að hafi verið barnaðar af starfsmönnum Byrgisins nema þær gefi sig sjálfar fram? Er það ekki hægur vandi fyrir sýslumanninn að fá heimild til að kanna gögn og afla þannig upplýsinga um hvaða konur hafa verið í Byrginu og hverjar þeirra hafa eignast börn síðan og rekja sig þannig áfram eftir málinu, sem snýst um kynferðisbrot gegn skjólstæðingum heimilisins sem rekið var með tilstyrk hins opinbera? Er þetta það viðhorf sem skila mun árangri í þessari rannsókn?
Má ég biðja um aðeins meira af einurðinni sem birtist í Baugsmálinu í þessari Byrgisrannsókn, samt ekki meira en hálfan skammt, takk. Ég trúi ekki öðru en allar lögheimildir séu til staðar, en ef það er svo að lögregla hefur ekki þær heimildir sem þarf til að rannsaka þessi mál og að nota tálbeitur á barnaníðinga, á auðvitað löngu að vera búið að útvega henni þær heimildir.
Svo er það Hæstiréttur, ef ekki verður breyting stefnir í það að dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi skipað alla níu dómara Hæstaréttar í embætti, það finnst mér ekki ganga og reyndar fyllsta tilefni til að tryggja aðkomu annarra en dómsmálaráðherra eins að skipun dómara í réttinn.
Þannig að ég er sammála Birni um að það er rétt að gera breytingar á pólitískri forystu í ráðuneytum oft og reglulega, ég tala nú ekki um ráðuneyti eins og dómsmálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti, sem hafa verið í höndum sjálfstæðismanna í 16 ár samfleytt, líka samgönguráðuneytið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.2.2007 | 11:56
Jamm og já
Ég neita því ekki að það voru vondar fréttir að sjá 3,9% fylgi framsóknar í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Og ég ætla ekki að gera lítið úr því að staðan er ekki góð og nenni ekki að eyða tíma í að tala um aðferðarfræði könnunarinnar og svo framvegis. En í sporum Jóns Kaldal, ritstjóra Fréttablaðsins, hefði ég beðið eftir annarri könnun, sem sýndi svipaða niðurstöðu, áður en ég skrifaði leiðara um útrýmingarhættu framsóknar. Verst að þetta er líklega síðasta skoðanakönnunin sem birtist í febrúarmánuði eða þangað til þjóðarpúls Gallup kemur um næstu mánaðamót. Þannig að það versta við hana er að hefur möguleika á að móta umræðuna býsna lengi, þótt hún víki mjög frá öðrum nýlegum könnunum..
Ég minni á að um 12.000 manns eru skráðir félagar í Framsóknarflokknum og að við síðustu sveitarstjórnarkosningar var 216.191 kjósandi á kjörskrá. Það þýðir að um 5,5% kjósenda eru flokksbundnir framsóknarmenn og ég ætla að leyfa mér að trúa því að hið mögulega gólf liggi við þá tölu, jafnvel þótt flokksskráin sé hugsanlega ofmetin um 10-20%. Og í raun er erfitt að sjá fyrir sér að fylgið verði mikið undir því sem svarar til tveggja atkvæða á hvern skráðan flokksmann, eða 10-11%. Kemur í ljós.
En svo fagna ég því að ungir framsóknarmenn í Skagafirði hafa ályktað um það að framsókn eigi að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu eftir kosningar hvernig sem fer. Ég þekki einn framsóknarmann sem er í raun áhugasamur um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf. Ég ætla að leyfa honum að njóta nafnleyndar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.2.2007 | 09:46
Athyglisvert
"Meginábyrgð á málefnum sem varða forsetaembættið hvílir þannig á forsætisráðherra, en ekki utanríkisráðherra eins og formaður utanríkismálanefndar virðist halda, sem og reyndar ritstjórar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins."
Þetta stendur í athyglisverðum pistli á heimasíðu Framsóknarflokksins. Þar stendur ennfremur:
"Átti að freista þess að fá Framsóknarflokkinn með Valgerði Sverrisdóttur í broddi fylkingar til að taka slag, sem Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki að taka."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2007 | 17:55
Egill að hætta á Stöð 2?
Það er athyglisvert að þessa daga, rétt áður en sjö vikna aðalmeðferð Baugsmálsins hefst í Héraðsdómi, gengur á með mikilli auglýsingaherferð til þess að plögga nýjan síðdegisþátt Jóhanns Haukssonar á Útvarpi Sögu á sunnudögum, á sama tíma og Silfur Egils er á Stöð 2.
Nýi síðdegisþátturinn hans Jóa Hauks verður í boði DV og því er greinilegt að Baugsveldið telur nauðsynlegt að tefla fram nýjum þætti gegn Silfri Egils, og virðist hugsaður til að fá það fólk sem er að horfa á Silfur Egils milli kl. 12.30 og 14.00 á sunnudögum til þess að gera eitthvað annað, nánar tiltekið að hlusta á Jóa Hauks.
Ég tók eftir því um daginn að Kastjósið hélt upp á samþykkt nýrra laga um Ríkisútvarpið með því að fá Egil Helgason til þess að tala um fréttir vikunnar og þá fór ég að velta því fyrir mér hvort það geti verið að Silfur Egils heyri senn sögunni til á Stöð 2? Ég held ég láti mig bara hafa það að spá því að svo sé og að næsta haust muni Egill fara í loftið með nýjan þátt hjá Páli Magnússyni og félögum á RÚV. Ég held að báðum líði illa í sambúðinni núna, Agli hjá 365, og þeim Baugsmönnum, sem treysta Agli ekki almennilega til þess að virða húsaga og hafa ástæðu til.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.2.2007 | 13:41
Óákveðnir eiga leikinn
Enn eru óákveðnir með pálmann í höndunum í skoðanakönnun Fréttablaðsins, þar sem um 45% svarenda gefa sig ekki upp, þegar hringt er í þá, svörin byggjast því á afstöðu um 400 manna um land allt og vikmörkin há. Það er ástæða til þess að halda því til haga sem sagt var hér og hér og hér um skoðanakönnun Blaðsins í síðustu viku og hér í gær því allt á það með sama hætti við í dag og það átti þegar skoðanakönnun Blaðsins var kynnt sl. þriðjudag. En af hverju ætli blöðin þeir sem standa fyrir símaskrárkönnunum birti ekki vikmörk, maður verður að treysta á að Einar Mar reikni þau út og birti líkt og hann gerði eftir könnun Blaðsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2007 | 13:03
Hroki dagsins
Í þriðja skipti á skömmum tíma talar Mogginn í ritstjórnargreinum niður til Margrétar Sverrisdóttur með því að kalla hana unga konu. Það er í Reykjavíkurbréfinu í dag, þar sem það er rætt um hvað það sé ósanngjarnt að beina til hennar stórum og erfiðum spurningum.
Þetta er aðallega drepfyndið en undir liggur hrokinn. Margrét er 48 ára, og það er sama hvaða mælikvarði er á það tekinn, hún er hvergi unga konan, nema þegar hún er í heimsókn á elliheimilinu Grund eða þegar hún er að tala við ritstjóra Moggans.
Nú ætla ég alls ekki að gerast einhver talsmaður Margrétar en langar að koma á framfæri nokkrum ábendingum fyrir ritstjóra Moggans gamla. Margrét er:
1. Jafnaldri Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sem hefur setið á þingi í 16 ár. Hvað er langt síðan hann var kallaður ungi maðurinn í Mogganum?
2. Var 21 árs þegar Birkir Jón Jónsson fæddist og 19 ára þegar Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar fæddist, og gæti því hæglega verið mamma þeirra beggja.
3. Ári yngri en Ásta Möller og Jónína Ben.
4. Þremur árum yngri en Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra.
5. Fjórum árum yngri en Ingibjörg Sólrún.
6. Fjórum árum eldri en Siv Friðleifsdóttir.
7. Sjö árum eldri en Þórunn Sveinbjarnardóttir.
8. Sjö árum eldri en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
9. Tíu árum yngri en Davíð Oddsson, og þess vegna er Margrét núna jafngömul og Davíð Oddsson var þegar hann hafði verið forsætisráðherra í sex ár og liðin voru 15 ár frá því að hann tók við embætti borgarstjóra.
10. Þremur árum yngri en Steingrímur J. Sigfússon.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2007 | 18:39
Fréttablaðið kannar skoðanir
Fréttablaðið hefur gert skoðanakönnun í dag, spurt um fylgi við flokkana, traust á stjórnmálamönnum og fleira.
Hingað til hefur Fréttablaðið gert kannanir með um 800 manna úrtaki og þannig hafa þær að öllu leyti sambærileg við þær kannanir sem Fréttablaðið hefur gert undanfarin ár, DV þar á undan árum saman og Blaðið gerði í fyrsta skipti í síðustu viku. Einhverjir voru að gagnrýna það að niðurstöður könnunar Blaðsins hefðu aðeins birtst á svörum um 350 manna en það er bara ekkert nýtt við það, það er algengur fjöldi þeirra sem hafa gefið sig upp í þessum könnunum blaðanna allra undanfarin ár og áratugi. Þetta hefur oft og iðulega verið gagnrýnt en aldrei hefur gagnrýnin þó verið jafnhávær og eftir að könnun Blaðsins sýndi að fleiri gáfu sig upp sem stuðningsmenn VG en Samfylkingarinnar.
Þess vegna verður fróðlegt að sjá hvort Fréttablaðið heldur ekki bara sínu striki með stærð úrtaksins eða hvort það bregst við þeirri hörðu gagnrýni sem fram kom á aðferðafræðina í liðinni viku með einhverjum hætti, eins og þeim að stækka úrtalið.
Það er svo athyglisvert við þessa könnun að hún er gerð sama daginn og kosningabaráttan hefst eiginlega formlega með birtingu auglýsingar frá Samfylkingunni í Blaðinu í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.2.2007 | 11:43
Engir landsleikir, 100 milljóna hagnaður?!?
Merkileg frétt á íþróttasíðum Fréttablaðsins í dag þar sem gagnrýnt er verkefnaleysi karlalandsliðs KSÍ og sú staðreynd að jafnvel Lichtenstein fær þrisvar sinnum fleiri æfingaleiki en karlalandslið Íslands. Á sama tíma kemur fram að KSÍ skilaði um 100 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Mér finnst þetta segja eitthvað um störf þeirra sem hafa undanfarin ár verið í forystu KSÍ hér á landi og hafa nánast afhent fjármálamarkaðnum knattspyrnuhreyfinguna á silfurfati.
Viljum við Landsbankaliðið sem spilar helst ekki fótbolta en safnar fullt af peningum?
Fréttablaðið segir líka að Halla Gunnarsdóttir hafi ekki nema um 4% stuðning við framboð sitt á þingi KSÍ en ég held að þessi hreyfing hefði gott af ferskum vindum eins og þeim sem henni fylgja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2007 | 11:37
Þjóðlegur fróðleikur: JBH gagnrýnir samherja fyrir áróður
Eru menn ekki í skapi fyrir þjóðlegan fróðleik í dag? Til dæmis upprifjun á málum sem sem helst settu svip á umræður í þjóðfélaginu í aðdraganda alþingiskosninganna 1991. Þar kemur m.a. við sögu gagnrýni Jóns Baldvins á samherja sína í ríkisstjórn og auglýsingabæklingar sem dreift var inn á hvert heimili í landinu.
Alþýðubandalagsmenn sátu þá í ríkisstjórn með Alþýðuflokkinum og Framsókn í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, þeirri sem kom hér á þjóðarsáttinni sem gaf okkur blessaðan stöðugleikann, Ólafur Ragnar var fjármálaráðherra, Svavar Gestsson menntamálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon samgöngu- og landbúnaðarráðherra, Jón Baldvin kom við í utanríkisráðuneytinu milli tíðra flugferða til og frá landinu.
Pálmi Jónasson, fréttamaður á RÚV, hefur skrifað bók um Ólaf Ragnar, forseta vorn, sem er skemmtilegt að blaða í. Þar kemur fram að í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 1991 var mikið rætt í þjóðfélaginu um áróðursbæklinga sem ráðherrar Alþýðubandalagsins gáfu út á kostnað almennings og miðluðu til almennings. Jón Baldvin Hannibalsson hjólaði í félaga sína í ríkisstjórn fyrir þetta háttarlag og stjórnarandstæðingarnir í Sjálfstæðislfokknum drógu ekki af sér. Ólafur Ragnar, Svavar og Steingrímur J. sögðu gagnrýnina fjarstæðu, þeir væru eingöngu að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri við almenning.
Mest var deilt um bækling sem Ólafur Ragnar fjármálaráðherra lét litprenta í 82.000 eintökum og dreifa inn á hvert heimili í landinu. Þar var fjallað um stöðu ríkisfjármála. Eins og fram kom hér nýlega eyddi Ólafur Ragnar 75,1 milljón í auglýsingar og kynningu á verkum sínum síðustu sextán mánuðina fyrir kosningarnar 1991. Einnig var Svavar Gestsson gagnrýndur fyrir bækling um námslán og umfangsmiklar blaðaauglýsingar um nýtt grunnskólafrumvarp. Ekki slapp Steingrímur J. við gagnrýni heldur. Það var ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn sem var hávær í gagnrýni sinni á þetta og fjölmiðlar eins og DV heldur ofbauð Jóni Baldvin þetta gjörsamlega og tók málið upp við forsætisráðherra, Steingrím Hermannsson. Kannski var það íframhaldi af þessu sem hann fór að tala við Davíð Oddsson um myndun Viðeyjarviðreisnarinnar, sem fram kom fyrir skömmu, að hafði í raun verið myndið fyrir kosningar, ef ég man rétt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 24
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar