hux

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Króníkan - fjárfesting dagsins

Ég er ekki í stærsta markhópnum en samt er ég mjög ánægður með það sem ég fékk fyrir 650 kallinn sem ég setti í að kaupa fyrsta tölublaðið af Króníkunni þeirra Sigríðar Daggar og Valdimars.

Ég er ekki í markhópnum af því að þetta blað er ekki fyrst og fremst stílað inn á karlkyns fréttafíkla á fimmtugsaldri með pólitíska bakteríu á háu stigi. Það er ekki gert út á skúbbin þótt þarna sé ágætis úttekt á sjóræningjaveiðum og misnotkun á vörumerkjum íslenskra fyrirtækja. (Fróðleiksmoli dagsins: sjávarútvegur er spilltasta atvinnugreinin í Rússlandi.)

Sumt af þeirri gagnrýni sem ég hef heyrt frá karlkyns blaðamönnum held ég snúist um eitthvað sem Króníkan ætlaði ekki að gera; ég held að planið hafi aldrei verið að endurvekja Helgarpóstinn. Mér sýnist konseptið það að ná til fólks (kvenna) sem er ekki á kafi í fréttahringiðunni alla daga en vill fá vikulega samantekt á gangi mála í þjóðfélaginu, í bland við viðtöl, hefðbundið tímaritaefni og áhugaverðar fréttaskýringar. Ég held að þetta sé stór lesendahópur og vaxandi. Hann fær þarna ágætt blað. Mér finnst á því ferskur blær, sem stafar kannski af því að aldrei áður hafa konur leikið jafnstórt hlutverk á íslenskri ritstjórn (ok, ekki gleyma Veru!).

Frábær hönnun blaðsins kemur ekki á óvart. Bergdís Sigurðardóttir kann sitt fag.


Magnús Þór og Hell's Angels í boði Gunnars Örlygssonar

Gunnar Örn Örlygsson, flóttamaður úr Frjálslynda flokknum, heldur áfram að fara á kostum í greinaskrifum í Moggann um fyrrverandi samherja sína. Í dag skoðar hann ritsafn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og rifjar hann meðal annars upp árásir Magnúsar Þórs á Kristin H. Gunnarsson áður en pólitískar ástir tókust með þeim félögum.

En ég skellti aðallega upp úr við lestur þessarar stórskemmtilegu greinar þegar ég las upprifjun Gunnars á viðbrögðum Magnúsar Þórs við því þegar norskir mótorhjólamenn úr Hell's Angels voru handteknir á Keflavíkurflugvelli, 7. desember 2003: Þá skrifaði Magnús Þór á malefnin.com, að sögn Gunnars Arnar:

Ég verð nú að segja að þessi stefna lögregluvaldsins að ætla að fara að sortera fólk og nánast dæma og vísa á brott án dóms og laga þegar það kemur til landsins; það er í mínum huga mjög vafasamt." Og áfram segir Magnús: "Þessi viðbrögð gegn Norðmönnunum vekja margar spurningar. Ég er ekkert viss um að þetta hafi verið svo hættulegir menn og það eru örugglega miklu hættulegri ferðamenn sem þvælast inn og útúr landinu en þessir. Allt málið lyktar af paranoju sem ber þef af Halldóri Ásgrímssyni og fjósaflokki hans. Ég er gamall mótorhjólamaður og á enn mitt hjól og er stoltur af og ég hef kynnst þessum erlendu mótorhjólamönnum sem fá Framsóknarmaddömuna til að missa hland um leið og þeir birtast. Mín kynni af mótorhjólamönnum í Noregi eru þau að þar fer hið besta fólk sem ég gæti treyst fyrir bréfi á milli bæja hvenær sem væri.

Nú, þremur árum síðar, hefur Magnús Þór áhyggjur af því að fólk sem hingað kemur erlendis frá sé berkaveikir glæpamenn og heimtar læknisvottorð og sakavottorð.

Gunnar Örn hefur þetta að segja: "Að þessum orðum Magnúsar dreg ég þá ályktun að Magnús Þór sé eingöngu að nota hina nýju stefnu Frjálslyndra til þess að bjarga þingmannsstarfi sínu." Þetta er mögnuð aðdróttun og árás á Magnús, Gunnar heldur því fram að Magnús sé ekki raunverulegur útlendingahatari en hann sé tilbúinn til þess að þykjast vera það til þess að fá að sitja á þingi í fjögur ár í viðbót. 


Dimmir yfir á ritstjórn Blaðsins

Prentsmiðja Moggans er sá aðili sem hagnast mest á þeirri grósku sem nú er í blaðaútgáfu á Íslandi. Þar eru prentuð öll þau blöð sem bæst hafa í fjölmiðlaflóruna undanfarnar vikur.

Eigandi prentsmiðjunnar er vitaskuld Árvakur,  sem gefur út Moggann og á helming í útgáfufélagi Blaðsins. Einnig er Viðskiptablaðið prentað í Hádegismóum, sem og Króníkan og í næstu viku aukast enn verkefni við Rauðavatn þegar farið verður að prenta DV þar daglega á ný. DV er sem kunnugt er í eigu aðaleigenda 365, sem eiga sjálfir Ísafoldarprentsmiðju en beina viðskiptum samt til Moggans. Kannski sé það vísbending um frekara samstarf Moggans og 365 á sviði prentunar og dreifingar.

Og líklega er það vegna væntanlegrar prentunar DV sem dagblaðs sem blaðamenn Blaðsins voru sviptir útsýninu góða í vinnunni í gær.  Þannig er að ritstjórn Blaðsins er staðsett í sama húsi og prentsmiðjan og hafa blaðamenn getað horft ofan í prentsmiðjusalinn í gegnum glugga. En ekki lengur, í gær mættu þangað menn með dökkar filmur og límdu í gluggann til þess að koma í veg fyrir að blaðamenn Blaðsins geti séð það sem verið er að prenta í salnum. Ætli Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri DV, sem áður var ritstjóri Blaðsins, hafi sett þetta sem skilyrði fyrir viðskiptum við prentsmiðju Moggans?


Orkuvinadeildin í VG er stærri en ég hélt

Viti menn, Steingrímur J. Sigfússon, er ekki eini áhrifamaðurinn í VG, sem lýst hefur stuðningi við virkjanir, Tryggvi Friðjónsson, fyrrverandi gjaldkeri flokksins og fulltrúi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er líka áhugasamur um orkunýtingu, og stóð að og studdi orkusölusamning OR við Alcan vegna stækkunar í Straumsvík.

Þessi frétt var í Mogganum 1. júlí 2005 undir fyrirsögninni Styður samkomulagið við Alcan:

TRYGGVI Friðjónsson, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, segist styðja samkomulag, um að Alcan kaupi af Orkuveitunni 200 MW af raforku vegna hugsanlegrar stækkunar álversins í Straumsvík. Fulltrúar Alcan á Íslandi og OR skrifuðu undir samkomulagið í fyrradag.

Tryggvi segir það rétt að Vinstri grænir hafi haft efasemdir um áframhaldandi álversuppbyggingu. "Við settum fram ákveðnar efasemdir um álver í Helguvík," sagði hann, "og ég tel eðlilegt að fjallað verði um áframhaldandi aðild Orkuveitunnar að orkuöflun til stóriðju, í viðræðunum um framtíð R-listans."

Hann bendir hins vegar á að í Straumsvík sé þegar búið að reisa álver og að umrætt samkomulag snúist um stækkun á því álveri. Á því sé því ákveðinn stigsmunur, þ.e. að reisa nýtt álver og að stækka álver. "Það er líka mikilvægt að gæta meðalhófs í öllum ákvörðunum. Ég tel því rétt að standa að þessu verkefni," segir hann.


Veit það ekki

Ég var að glugga í hleranaskýrsluna loksins og varð undrandi að sjá þess hvergi getið að könnuð hefði verið dómabók Sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum til að sjá hvort úrskurðir um hleranir vegna öryggis ríkisins hefðu verið kveðnir upp við þann dómstól.

Líklega var Sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum lagður niður í kringum 1991 við aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds en hann var stofnaður árið 1973, um svipað leyti og lögreglan í Reykjavík flutti í lögreglustöðina á Hverfisgötu.

Dómstóllinn var til húsa á 2. hæð lögreglustöðvarinnar, hinu megin við ganginn frá Útlendingaeftirlitinu og voru starfsmenn hans nánast hluti af starfsliði lögreglunnar. Í 6. grein laga um dómstólinn er dómsmálaráðherra veitt heimild til að ákveða að hann skuli gegna öðrum verkefnum en sérstaklega eru upp talin í lögunum, ef ég skil rétt.  Ákæruréttarfar var tekið upp í landinu árið 1976, nema í fíkniefnamálum, þar gilti rannsóknarréttarfar til ársins 1986, skv. þessu

Nú kann að vera að gögn sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum séu að öllu leyti runnin saman við dómabækur Héraðsdóms Reykjavíkur, en mér þætti auðveldara að álykta um að engir úrskurðir um símhleranir vegna öryggis ríkisins hefðu verið kveðnir upp ef þess hefði verið sérstaklega getið í skýrslunni eða hún bæri með sér að dómabók SÁF hefði verið könnuð.


Steingrímur J. styður virkjanir í Þjórsá

Hver sagði þetta á Alþingi, 22. nóvember, 2005?

Neðri virkjanirnar í Þjórsá eru mjög hagkvæmar vegna þess að þær nýta alla miðlunina sem fyrir er ofar í Þjórsársvæðinu. Núpavirkjun og síðan Urriðafossvirkjun eru að vísu ekki án umhverfisfórna. Það þarf vissulega að fara vel yfir það, en að breyttu breytanda eru þær mjög eðlilegur virkjunarkostur áður en menn ráðast í ný og óröskuð svæði

Alveg rétt, það var pólitískur leiðtogi umhverfissinna í landinu, Steingrímur J. Sigfússon.


Frjálslyndar staðreyndir - hryðjuverk og fíkniefni

"Gerir hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir sér grein fyrir því að nú þegar er farið að handtaka á Keflavíkurflugvelli þekkta hryðjuverkamenn? (SæS: Það er einmitt þessi málflutningur.) Þú vilt fá sem sagt þekkta hryðjuverkamenn inn í landið? Þú vilt kannski bjóða þeim heim til þín?"

Valdimar Leó Friðriksson, þingmaður Frjálslynda flokksins, hefur orðið í umræðum á alþingi í síðustu viku. Hinn öflugi fréttamaður Sjónvarps, Brynja Þorgeirsdóttir, lét ekki nægja að spila þessar staðhæfingar Valdimars í Sjónvarpinu sama kvöld heldur hringdi í Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóra á Suðurnesjum og spurði hvort rétt væri að þekktir hryðjuverkamenn hefðu verið handteknir á Keflavíkurflugvelli.  Sæta þessi vinnubrögð Brynju - að staðreyna sjálf mörk staðreynda og fleipurs - nokkrum tíðindum í pólitískri fréttamennsku á Íslandi í seinni tíð. Í ljós kom að Valdimar fór þarna með fleipur, engir þekktir hryðjuverkamenn hafa verið handteknir á Keflavíkurflugvelli, svo að yfirmanni lögreglunnar á staðnum undanfarin ár sé kunnugt um.

Nú í morgun fylgdist ég með því í beinni útsendingu við upphaf þingfundar þegar Guðjón Ólafur Jónsson fór í ræðustól Alþingis til þess að kalla eftir því að Valdimar útskýrði nánar þessar staðhæfingar sínar um handtöku þekkta hryðjuverkamanna, eða drægi þær til baka og bæði Sæunni Stefánsdóttur, þingmann afsökunar á því að hafa vænt hana um að vilja fá þekkta hryðjuverkamenn inn í landið.

Valdimar svaraði engu en þess í stað kom upp Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslyndra, og sá var nú ekki á þeim buxunum að gefast upp eða biðja afsökunar. Hann hafði réttlætingar á orðum Valdimars á reiðum höndum. Réttlætingin var þessi: Valdimar var að tala um fíkniefnasmyglara þegar hann talaði um þekkta hryðjuverkamenn. Valdimar og frjálslyndum er svo illa við fíkniefni að þeir kalla þá hryðjuverkamenn.  Reynið nú að lesa þennan texta hér að ofan aftur og koma þeirri túlkun heim og saman.


Orð dagsins

Gunnar Örn Örlygsson skrifar sitt pólitíska Opus magnum í Moggann í dag. Hann er sem kunnugt er sá þingmaður sem yfirgaf skiptistöð frjálslyndra og fór í Sjálfstæðisflokkinn með fúkyrðaflaum fyrrverandi félaga sinna á eftir sér. Síðan hafa komið á skiptistöðina Valdimar L. Friðriksson frá Samfylkingu og Kristinn H. Gunnarsson frá Framsóknarflokki og áður Alþýðubandalagi. Grein Gunnars Arnar er fyrst og fremst gagnrýni á Magnús Þór en Guðjón Arnar fær það líka óþvegið.:

Guðjón Arnar hefur að mínu mati brugðist sem formaður og leiðtogi stjórnmálaafls. Sem áhorfanda þótti mér með ólíkindum að horfa á manninn snúa baki við Margréti Sverrisdóttur og styðja títtnefndan Magnús Þór sérstaklega. Sú ágæta kona hefur skrifað niður ræður og reimað skóna fyrir gamla skipstjórann í hartnær áratug.


10 dagar - pólitísk eilífð

Mér finnst gaman að klisjunni um að vika sé langur tími í pólitík. En tíu dagar, það er heil pólitísk eilífð, amk í lífi Ingibjargar Sólrúnar. Mér finnst stundum að hún mætti temja sér meira af staðfestu og samkvæmni Össurar Skarphéðinssonar.

27. janúar sl. var Ingibjörg á aðalfundi Samfylkingarfélags Reykjavíkur, ræddi stækkun í Straumsvík og sagði þetta:

Þetta er þeirra bær og þetta er þeirra ákvörðun. Og það er ekki við hæfi að ég taki afstöðu til þess hvað Hafnfirðingar eigi að gera í því sambandi.

6. febrúar var Ingibjörg á Alþingi og enn að ræða um Straumsvík en nú sagði hún þetta:  

Og ég tel að til þess að við getum náð utan um þetta tekið raunverulega í taumana að þá þurfi að fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru fyrirhugaðar á næstu árum og þá er ég auðvitað að vísa til áforma um stækkunina í Straumsvík og álver í Helguvík.

Mig minnir að það hafi verið suðlægar áttir fyrri daginn en norðlægar þann seinni. Ég veit ekki hvort það skýrir eitthvað en vildi halda því til haga í þessu sambandi.


Engin Héðinsfjarðargöng

Ég samgleðst Vestfirðingum með það að ráðast eigi í gerð jarðganga milli Bolungarvíkur og Hnífsdals og leggja þannig af hinn fáránlega veg um Óshlíð.

Það liggja fyrir alls konar matsgerðir um það að Óshlíðarvegur er sá hættulegasti á landinu, þar aka um 600 bílar á dag og allir með lífið í lúkunum, grjóthrun og snjóskriður daglegt brauð þótt aldrei sé um það skrifað nema eitthvert tjón verði. Þetta eru engin Héðinsfjarðargöng.


mbl.is Bæjarstjórnir fagna jarðgangaákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband