hux

Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Fáfróður Frakki

Mér sýnist að hér komi tvennt til greina: 1. Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, veit ekki að forsætisráðherra hefur úrskurðað að ESB-aðildarviðræður séu ekki raunverulegt viðfangsefni í íslenskum stjórnmálum. 2. Honum er alveg sama.


Allt búið?

Stórfréttir í vændum?


Kunnugleg rödd

Spurningin um aðildarviðræður við ESB "er ekki raunverulegt viðfangsefni í íslenskum stjórnmálum," segir forsætisráðherra.

Málið er ekki á dagskrá sagði forveri hans á formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum árum saman, eins og íslenskt þjóðfélag snerist í kringum höfuð hans. Með tímanum fór nákvæmlega það að gerast.

Ég efast um að nýi forsætisráðherrann sé maður með svo mikið aðdráttarafl. En yfirlýsingin finnst mér benda til þess að ekki vanti í hann suma aðra af eiginleikum eldri árgerðarinnar.

Sjá nýja könnun Samtaka iðnaðarins hér.


Nýr leiðtogi S í Kraganum

Gunnar Svavarsson stefnir á fyrsta sætið hjá Samfylkingunni í Kraganum og mun keppa um það við Þórunni Sveinbjarnardóttur.

Þórunn er þekkt nafn út á við eftir að hafa verið á þingi í tvö kjörtímabil og er, að því er mér sýnist, í þeim hluta þingflokksins sem hefur hvað mesta vigt. Gunnar er lítið þekktur út á við en mér segir fólk, sem ég veit að þekkir mjög vel, til að Þórunn eigi tæplega séns í hann.

Hann er formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og mjög vel látinn fyrir mikil og öflug störf innan flokksins. Það er fullyrt að Gunnar fari létt með að vinna 1. sætið í prófkjöri. Hann sýndi mikinn styrk í sveitarstjórnarkosningunum með því að sækjast eftir 6. sæti í prófkjöri og fá það með massívu atkvæðahlutfalli, síðan fékk Samfylkingin 7 menn í bæjarstjórnina.

Þannig að hann virðist vera einhvers konar Jón Sigurðsson þeirra í Samfylkingunni, stjarna innan flokksins en óþekktur út á við. Mun samt vinna í prófkjöri konu sem er þekkt út á við en hefur ekki sterka stöðu innan flokksins.

Almennt held ég að það verði mest spenna á prófkjörsvertíðinni innan Samfylkingarinnar. Veit ekki hvaða séns þessi Benedikt Sigurðsson frá Grænavatni á í Kristján Möller, skilst að hann sé umdeildur, m.a. vegna starfa sem stjórnarformaður KEA. Hann var sá sem rak Andra Teitsson úr starfi fyrir að fara í fæðingarorlof og var svo felldur á aðalfundi. Held hins vegar að Lára Stefánsdóttir geti orðið Einari Má hættuleg í baráttunni um annað sætið. Norðvestur verður spennandi, menn eru ekki spenntir fyrir að bjóða upp á Jóhann Ársælsson og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur í efstu sætin áfram. Árni Páll fer ekki fram þar, er mér sagt en leit að þungaviktarfólki stendur yfir.


Lúðvík á leikinn

Sá í kvöldfréttunum að sú saga sem ég hafði heyrt er rétt að Dofri Hermannsson er launaður starfsmaður Samfylkingarinnar og hefur sem slíkur verið að vinna að mótun nýrrar umhverfisstefnu fyrir flokkinn undanfarna mánuði. (Hvar var annars varaformaður Samfylkingarinnar á þessum blaðamannafundi?)

Hin nýja umhverfisstefna Samfylkingarinnar kemur væntanlega fyrst til framkvæmda hjá bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Stækkun í Straumsvík er næsta hugsanlega stóriðjuverkefni hér á landi. Bæjarstjórnin er búin að selja Alcan lóð undir stækkun í Straumsvík og mun hafa úrslitaáhrif um hvort af stækkuninni verður. Lúðvík Geirsson og Gunnar Svavarsson, sem stefnir á fyrsta sæti Samfylkingarinnar í Kraganum, hafa málið á valdi sínu.


Fram og aftur Reykjanesbrautina

Ármann er áreiðanlega á leið í prófkjör í Kraganum. Það er viðtal við hann í Mogganum í dag þar sem hann segir óráðið hvað hann taki sér fyrir hendur. Ég veðja á að hann vilji verða Kópavogsbúinn á D-listanum og þar með arftaki Gunnars I. Birgissonar.

Aðalverkefni nýja aðstoðarmannsins fyrstu mánuðina verður sennilega að tryggja fjármálaráðherra fyrsta sætið í Suðurkjördæmi. Áður voru Árni Sigfússon og Steinþór Jónsson búnir að gefa sig upp með Árna Matt og nú bætist Böðvar Jónsson í hópinn og sem maður í fullu starfi fram yfir prófkjör. Suðurnesin eru með 40% af kjósendum Suðurkjördæmis þannig að þetta lítur vel út fyrir Árna Mathiesen.

Það hlýtur að vera þreytandi að þurfa að taka Keflavíkurrútuna í vinnuna á hverjum morgni, sérstaklega ef maður er sjálfstæðismaður og lítið gefinn fyrir almenningssamgöngur. Kannski það verði ráðinn sérstakur einkabílstjóri aðstoðarmanns ráðherra. Ég gæti trúað að margir kjósendur Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi hefðu skilning á því að það er engin ástæða til þess að láta drenginn taka rútu þótt honum hafi aðeins orðið á og áfengið hafi brenglað dómgreind hans, eins og Eyþór Arnalds sagði.

Svo er líka til í dæminu að Böðvar fái far með Eysteini Jónssyni, aðstoðarmanni landbúnaðarráðherra, sem býr í Keflavík og vinnur í næsta húsi við fjármálaráðuneytið. Eysteinn er með bílpróf. Eysteinn er í minnihlutanum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar en Böðvar er í meirihlutanum. Þeir geta rætt fjármál bæjarins á leið í og úr vinnu.


Tímans tönn

Umfjöllun í tveimur blöðum um Steingrím J vakti forvitni mína yfir morgunkaffinu.

Í fyrsta lagi Staksteinar sem gefa í skyn tvískinnung hans í hvalveiðimálum án þess að tala hreint út. Hálfkveðin vísa í anda Styrmis. Það nægði til þess að ég tók fimm mínútur í að leita í ræðum og þingskjölum á vef Alþingis að ummælum og afstöðu Steingríms til hvalveiða. Komst að því að Steingrímur sat hjá við atkvæðagreiðslu um hvalveiðar 1999 og hefur vissulega í umræðum reynt að gefa í skyn vilja til veiða en óánægju með aðferðir við að fara í málið. Hann hefur talað allmikið um málið og rætt kost og löst.

Í fljótu bragði held ég að afstaða Steingríms J. hafi staðist betur tímans tönn í þessu máli en flestum öðrum. Hins vegar er langt í frá að Steingrímur hafi talað um hvalveiðar eins og græningi, meira eins og pragmatískur bændasonur úr Þistilfirði. Ég vissi að hann væri bændasonur úr Þistilfirði en ég hef sjaldan áður tengt hann við pragmatík, sem er um það bil það jákvæðasta sem hægt er að segja um pólitíkus í mín eyru. Í mínum huga hafa Staksteinar þess vegna gert Steingrími pólitískan greiða með því að vekja athygli á afstöðu hans til hvalveiða en auðvitað er þetta aðferð til þess að draga úr trúverðugleika hans sem græningja.

Talandi um Steingrím J og tímans tönn fannst mér bráðfyndið að lesa þetta í grein eftir Jón Kristjánsson í Blaðinu í dag: "Sá tími er liðinn þegar Steingrímur Sigfússon gekk úr kaupfélaginu á Þórshöfn vegna viðskipta félagsins við Bandaríkjamenn út af byggingu radarstöðvar á Gunnólfsvíkurfjalli."


Burt með boxið

"Yfirstíga þarf tæknileg vandamál áður en unnt verður að senda út læstar sjónvarpsrásir um öll kerfin, en gert er ráð fyrir að þær útsendingar hefjist í síðasta lagi 15. september næstkomandi."
Þetta er tekið úr fréttatilkynningu Dagsbrúnar og Símans þann 7. apríl sl. Fyrirtækin voru að lofa neytendum því að frá og með næsta föstudegi ættu þeir að geta séð dagskrá Stöðvar 2 og Sýnar annars vegar og Enska boltans hins vegar í gegnum sama boxið. Um leið og færi gefst mun ég losa mig við arfalélegan Digital Ísland myndlykil og láta nægja að horfa á sjónvarpið í gegnum ADSL frá Símanum; bæði Stöð 2, Sýn og Enska boltann.

Ég er hins vegar farinn að bíða eftir því að þessu ágætu fyrirtæki auglýsi þessi merku tímamót og tilkynni hvernig ég á að bera mig að við þessa breytingu á viðskiptum mínum við þau.


Árbær eða Álftanes

Sammála Össuri. Það er bráðsniðugt hjá VG að halda sameiginleg prófkjör fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Almennir kjósendur eru ekkert að spá í því hvort þeir eru staddir í Reykjavík, á Seltjarnarnesi eða í Kópavogi. Enn síður hvort þingmennirnir þeirra eiga heima í Árbæ eða á Álftanesi.


Róttæklingurinn

Þennan útdrátt úr nýrri bók eftir Sidney Blumenthal, How Bush Rules: Chronicles of a Radical Regime lesa á Salon í dag. Þar stendur m.a. þetta:

"Neither his opponents, nor the reporters covering him, nor his closest campaign aides suggested that he would be the most willfully radical president in American history."
Meira hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband