hux

Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Beðið eftir 2011?

Samfylkingin er að skapa sér stöðu sem veitir ýmsa möguleika. Flokkurinn á nú kost á að stilla upp nýju fólki í oddvitastöður í þremur kjördæmum. Jón Baldvin og fleiri hafa kallað eftir því að gerð yrði breyting og stillt upp verkfæru fólki og fólki sem nyti trausts. Jóhann, Rannveig og Margrét hafa nú skapað jarðveg fyrir þessa endurnýjun. Ef vel tekst til gæti það eflt Samfylkinguna og gert hana ferskari valkost fyrir kjósendur og máð af henni gamla allaballastimpilinn.

Á sama tíma er staðan önnur í Framsóknarflokknum. Í dag er ekki raunhæft að ætla flokknum meira en sjö til átta þingmenn næsta vor. Eins og málið lítur út í dag verður aðeins endurnýjun í Reykjavík norður. Þar er búist við að nýr formaður hasli sér völl í stað þess gamla, og þá á kostnað nýjustu og ferskustu þingmanna flokksins, Guðjóns Ólafs og Sæunnar. Það er svo annað mál að þingsæti í Reykjavík norður er sýnd veiði en ekki gefin fyrir formanninn eins og staðan er nú.

Mér finnst líklegra en hitt að framsóknarmenn verði utan ríkisstjórnar á næsta kjörtímabili. Þingflokkur þeirra í stjórnandstöðu yrði að mestu skipaður þeim þrautreyndu stjórnmálamönnum sem eru í oddvitasætum flokksins nú, og vanari ríkissjórnarsetu en stjórnarandstöðu. Í dag er fátt sem bendir til þess að Framsóknarflokkurinn hafi afl til að skila ungu, öflugu fólki eins og Páli Magnússyni, Birni Inga Hrafnssyni, Sæunni Stefánsdóttur og Guðjóni Ólafi Jónssyni til frambúðar inn í landsmálapólitíkina fyrr en í fyrsta lagi árið 2011. Ætli þau verði flest ekki búin að snúa sér að einhverju öðru þegar þar að kemur?


Eplið, eikin og almúginn

Ég heyri að Guðlaugur Þór verði Birni Bjarnasyni þungur í skauti í prófkjörsbaráttunni. Baráttan um annað sætið verður mæling á því hvernig flokkurinn er stemmdur í garð nánustu samherja Davíðs Oddssonar. Ákvörðun Gulla um að miða á 2. sætið þýðir að hann veðjar á að sú stemmning sé ekki mjög jákvæð.

Skil núna af hverju Gulli ætlar bara að vera stjórnarformaður í Orkuveitunni fyrsta árið á kjörtímabili nýrrar borgarstjórnar. Hann miðar á ráðherrastól næsta vor.

Heyri líka að Jóhanna Vilhjálmsdóttir í Kastljósi (fyrrverandi kærasta Guðlaugs Þórs) sé alvarlega að hugleiða framboð. Hún er dóttir Vilhjálms borgarstjóra.

Áslaug Friðriksdóttir, sem nýlega var kosin í stjórn Hvatar, er líka líkleg til að gefa kost á sér. Hún er dóttir Friðriks Sophussonar.

Svo er verið að vinna í Ingibjörgu Guðmundsdóttur, varaforseta ASÍ. Henni er ætlað að skipa hefðbundið sæti verkalýðsforingja á framboðslista sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þar situr nú Guðmundur Hallvarðsson. Framboð Ingibjargar veit ekki á gott fyrir hann. Það er bara gert ráð fyrir einum fulltrúa verkalýðsins í partíinu. Hún lagar líka kynjahlutfallið. Tveir fyrir einn.


Spurning um trúverðugleika?

Fyrir utan endursögn NFS og mola í Fbl. hef ég ekki séð neina umfjöllun um uppgjör Magnúsar Kristinssonar við Björgólf Thor. Ég er leikmaður en mér sýnast ásakanir hans að sumu leyti sambærilegar við þær sem Jón Gerald bar á Jón Ásgeir. Kannski finnst mönnum Magnús Kristinsson ekki jafntrúverðugur og Jón Gerald.


Hvers eiga Jóhann og Rannveig að gjalda?

Ekki á hverjum degi sem ungliðahreyfing leggst gegn endurnýjun á framboðslistum.


Milljarðar milli vina

Mögnuð grein Magnúsar Kristinssonar í sunnudagsmogganum. Þarna eru lýsingar á Straumi og Novator og viðskiptunum með Kaldbak sem væri gaman að heyra sérfróða tjá sig um í fréttum á morgun.

Þarna eru líka svona kaflar:

"[...Björgólfur Thor hóf] feril sinn í viðskiptum í brugghúsi í Rússlandi og umgekkst þar eflaust eingöngu fólk sem er jafnvant að virðingu sinni og hann. Hann hefur þannig ekki sama reynsluheim og ég sem hef í gegnum tíðina einkum haft samskipti við venjulegt fólk úr mínu nánasta umhverfi, í Vestmannaeyjum aðallega, auk sjómanna og útvegsmanna á Íslandi. Í þeim hópi hef ég ekki þótt undarlegri en aðrir Eyjapeyjar."


Samfylking í verki

Jón Gunnarsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, studdi þessa ályktun á aðalfundi SSS um síðustu helgi. Hann var enda formaður fráfarandi stjórnar og það var einmitt stjórnin sem bar ályktunina fram. Ályktunin var samþykkt með einu mótatkvæði. Fylgjandi henni - og þar með hvatamenn álvers í Helguvík - voru sveitarstjórnarmenn Samfylkingarinnar í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum.


Upplýsingaþjónusta ferðamanna

Össur: "Ég geng nokkrum sinnum dag hvern yfir Austurvöll á leið til og frá þinginu. Það bregst varla að hvern einasta dag spyr mig einhver hvað sé merkilegt við manninn á styttunni."

Merkilegt; ætli þingmenn fái almennt þessar daglegu fyrirspurnir á leið sinni yfir Austurvöll eða er það eitthvað í fari Össurar sem vekur upp hjá fólki hugmyndina um Upplýsingaþjónustu ferðamanna? Kannski er hann bara þannig í fasi að fólkið hópast að honum og vill láta fræða sig. Eftir kynni mín af Össuri er ég alveg opinn fyrir þeim möguleika. Og þó...

Var það ekki Steinn Steinarr sem orti: "Jón Sigurðsson, forseti, standmynd, sem steypt er í eir/hér stöndum við saman, í myrkrinu, báðir tveir"

Hér hefði ég viljað segja: þegar stórt er spurt? en ætla að standast freistinguna og varast eftirlíkingar.


Jakob og Stefán Bogi slíðra sverðin

Það er allt löðrandi í sátt og samlyndi innan Framsóknarflokksins þessa dagana. Nú hafa Stefán Bogi og Jakob Hrafnsson fallist í faðma, Jakob heldur formennsku í SUF en Stefán Bogi býður sig fram til stjórnarsetu. Sem sagt: engar kosningar í SUF um helgina. Sjá hér.


Ákært verður fyrir olíusamráð

Heimildir sem ég treysti segja mér að það liggi nú fyrir að einhverjir einstaklingar verði ákærðir vegna ætlaðra lögbrota í tengslum við samráð olíufélaganna. Ákærur verða hins vegar væntanlega ekki gefnar út fyrr en í næsta mánuði.


Fréttastofa Stöðvar 2 endurfæðist

Enn er ekkert í fjölmiðlum að gagni um mál NFS en mér er sagt að málið sé þetta: 1. NFS verður lokað. 2. Fréttastofa Stöðvar 2 verður endurvakin uppi á Lynghálsi. 3. Ísland í Bítið verður áfram sent út uppi á Lynghálsi. Það verður augljóslega mikil fækkun í starfsliðinu. Semsagt: Það verður sett í bakkgírinn og farið í það horf sem hlutirnir voru í áður.

Tímaritaútgáfunni verður hætt eins og fram kom í Blaðinu í morgun. Enn er tekist á um DV, sem mér skilst að seljist aðeins í 4-5000 eintökum í hverri viku og tapi því stórfé. Mér finnst það að vissu leyti sorglegt því að ég tel að Páll Baldvin hafi náð að gera góða hluti með blaðið undanfarna mánuði. Íþrótta- og menningarumfjöllun í sérflokki, en það er kannski ekki það sem hinn hefðbundni markhópur DV hefur verið að leita eftir. En ég held að DV sé ekki á hausnum af því að hann hafi ekki staðið sig; það eru fortíðarvandræðin sem eru að sliga skútuna. Vörumerkið dó í vetur sem leið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband