Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006
29.12.2006 | 18:35
Þættinum hefur borist bréf
Bréfrifari er maður sem þekkir vel til í fjölmiðlaheiminum og viðskiptalífinu. Hann spáir því að stjórnendur Árvakurs, sem eiga Blaðið á móti Sigurði G. Guðjónssyni, séu allt annað en ánægðir með samstarf Sigurðar G. Guðjónssonar við Jón Ásgeir. Hann segir þetta í framhaldi af fréttum um samruna Fögrudyra og Birtings:
Með sameiningu Birtings og Fögrudyra er öruggt að Sigurður G. Guðjónsson hefur samþykkt að falla frá lögbannskröfu og frekari lagalegum aðgerðum gagnvart SME. Hitt er svo annað mál hvort hluthafar í Blaðinu (Árvakur) hafi eða muni samþykkja slíkt.
Einnig er vert að velta fyrir sér hvort og þá með hvaða hætti sameiningin og samvinna Sigga G. og Jóns Ásgeirs hefur áhrif á Blaðið. Mun ráðandi hluthafi í Mogga (Björgólfur) samþykkja að samverkamaður mans og meðhluthafi í Blaðinu sé búinn að taka höndum saman við aðaleiganda og stjórnarformanna helsta keppinautar Morgunblaðsins? Og hvaða áhrif hefur samstarfið á stöðu Sigurðar G. sem framkvæmdastjóra Fjárfestingarfélagsins Grettis, þar sem Björgólfur er ráðandi?
Mér finnst einnig kómískt að lesa að Reynir Traustason, Mikael Torfason og Jón Trausti Reynisson séu taldir upp sem hluthafar í hinu sameinaða hlutafélagi: Samtals eiga þeir 2%. SME samdi þó um 11% hlut að minnsta kosti í orði.
Ákvörðun tekin í byrjun næsta árs hvort krafist verði lögbanns á störf Sigurjóns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2006 | 14:46
Birtingur og Fögrudyr sameinast - Hér og nú lagt niður
Það halda áfram vendingarnar á blaðamarkaði. Nú heyri ég að tilkynnt verði síðar í dag að Útgáfufélagið Birtingur muni renna saman við Útgáfufélagið Fögrudyr, sem gefur út Ísafold og keypti í gær útgáfuréttinn að Hér og nú og Veggfóðri. Um leið verður tilkynnt að Hér og nú verði lagt niður enda er það augljóslega helsti samkeppnisaðili Séð og heyrt sem Birtingur gefur út.
Hjálmar Blöndal mun verða framkvæmdastjóri útgáfufélagsins Dagblaðsins Vísis, hins nýja eiganda DV en mun að öðru leyti ekki koma að útgáfunni.
Stóra spurningin er hvert verður næsta skref? Rennur kannski DV saman við Útgáfufélagið Birting? Þá væri -sme aftur kominn í vinnu hjá Sigurði G. Guðjónssyni, aðaleigenda Birtings. Önnur spurning er hvort þetta þýði að Mikael Torfason sé orðinn yfirritstjóri Ísafoldar? Kemur væntanlega í ljós síðar í dag.
Ellý Ármanns fráfarandi ritstjóri Hér og nú greindi frá því á bloggi sínu í gær að henni hafi verið sagt upp og að Fögrudyr hafi keypt Hér og nú. Spurning hver hafi hagnast á þeim málamyndagerningi að láta blaðið hafa viðkomu í einhverju félagi í nokkra klukkutíma áður en það var aftur selt Fögrudyrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.12.2006 | 11:32
TF-Pollýanna
Hvað hafa þessir sextíu flugumferðarstjórar, sem vinna hjá Flugmálastjórn en vilja ekki vinna hjá Flugstoðum frá áramótum, eiginlega verið að gera í vinnunni? Það mætti halda að þeir séu bara að bora í nefið fyrst að það er hægt að komast af án þeirra starfskrafta án þess að það hafi nokkur teljandi áhrif á öryggi flugsamgangna innanlands og utan.
Ég hef verið að halda því fram að stofnun Flugstoða ohf. sé klúður af því að nú sé komin ellefta stund og engir flugumferðarstjórar hafi ráðið sig til starfa hjá fyrirtækinu. Þær staðhæfingar byggðust á þeirri trú að flugumferðarstjórar væru stéttin sem er kjarni starfseminnar hjá flugumferðarstjórn, svona líkt og læknarnir á spítalanum eða lögfræðingarnir á lögfræðistofunni. En nú les ég í hverju blaðinu á fætur öðru að þetta sé alls ekki svona og að það skipti litlu sem engu máli fyrir flugrekstur í landinu að engir flugumferðarstjórar séu við störf. Í Mogganum stendur þetta:
Í yfirlýsingu frá Flugmálastjórn kemur fram að flugöryggi skerðist ekki 1. janúar, eins og skilja megi af orðum formanns Félags flugumferðarstjóra í fjölmiðlum. Viðbúnaðaráætlunin miðist við fullt og óskert flugöryggi, bæði hvað varðar innanlands- og millilandaflug.
Þannig að ég er farinn að spyrja mig hvað eru þessir flugumferðarstjórar að gera í vinnunni ef það er hægt að komast af án þeirra? Ætti maður kannski að þakka Sturlu fyrir að losna loksins við þessa iðjuleysingja af launaskrá? Ég held ekki. Ég á erfitt með að taka þennan pollýönnuleik flugmálastjórnar alvarlega.
Svo á alltaf eftir að svara þeirri spurningu hvaða nauðsyn bar til þess að taka þessa starfsemi undan ríkinu og búa til um hana opinbert hlutafélag? Ég skil rökin fyrir því að gera sams konar breytingu á starfsemi RÚV, það er fyrirtæki í samkeppnisrekstri, en það á ekki við hér og hvernig er það með flugumferðarstjórina, eru einhver efnisleg rök fyrir því að henni sé betur fyrir komið með þessum hætti heldur en upp á gamla mátann, þar sem þetta var viðurkennt hlutverk ríkisins?
Eru einhver önnur rök fyrir þessari breytingu en sú pólitíska fjóstrú frjálshyggjumanna að ríkisvaldið sé af hinu illa í sjálfu sér. "Ríkið er ekki hluti af lausninni, það er hluti af vandamálinu," sagði Ronald Reagan, bandaríkjaforseti, ástmögur frjálshyggjumanna. Hann þótti ganga fram af miklum skörungsskap þegar bandarískir flugumferðarstjórar gerðu verkfall snemma á forsetaferli hans. Reagan reyndi að vísu ekki að halda því fram að flugumferðarstjórar væru óþarfir, heldur kallaði hann bara út hermenn með flugumferðarstjóraþjálfun og lét þá annast störfin. Reagan átti bandamann í Margréti Thatcher sem sagði einu sinni: "Það er ekki til neitt sem heitir samfélag, bara einstaklingar og fjölskyldur þeirra." Helsti lærifaðir Thatcher, Keith Joseph, er talinn hafa verið með asperger-heilkenni og útskýrir það vissulega þá hugmynd um mannlegt samfélag sem hin tilvitnuðu orð fela í sér. Það er spurning hvort þessi leiðangur Sturlu Böðvarssonar sé fyrst og fremst gerður þeim Reagan og Thatcher til dýrðar eða er eitthvað annað sem fyrir honum vakir. Nákvæmlega hvað græðum við - almenningur - á þessari breytingu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2006 | 18:01
DV áfram í Skaftahlíð
Sme er orðinn ritstjóri DV og segir mér að þegar ég fullyrti að nýja blaðið hans ætti ekki að heita DV hafi það verið rétt og vinnuheitið hafi verið DB. Rétt fyrir jól hafi verið ákveðið að láta reyna á hvort hægt væri að byggja nýja sókn á DV-nafninu.
Fyrsta DV undir stjórn sme mun koma út 5. janúar. Starfsemin verður fyrst um sinn til húsa í Skaftahlíðinni en aðeins til bráðabirgða því stefnt er að flutningum við fyrsta tækifæri. Öllum blaðamönnum verður boðið að vinna áfram en ritstjórarnir Óskar Hrafn Þorvaldsson og Freyr Einarsson láta af störfum. Brynjólfur Guðmundsson kemur af Blaðinu til starfa á DV og fleiri blaðamenn verða ráðnir.
Ákvarðanir um hvenær útgáfudögum verður fjölgað hafa enn ekki verið teknar en sme segist vonast til að það verði á næstu vikum.
Feðgarnir sme og Janus eiga 11% í útgáfufélagi DV, Hjálmur á 49% og 365 40%. Tengslin við útgáfufélag Ísafoldar eru mikil og má segja að hafi einhvern tímann verið til Baugsmiðlar þá sé það nú þar sem Baugur í gegnum Hjálm er orðinn ráðandi eigandi í DV, Ísafold, Veggfóðri, Hér og nú og Bístró, auk þess að eiga tæplega fjórðung í 365.
Útgáfufélag í eigu Baugs og 365 tekur við útgáfu DV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.12.2006 | 18:07
Atvinnumál
Guðmundur Steingrímsson, sem skipar 5. sætið í Kraganum á lista Samfylkingarinnar, hefur verið ráðinn til starfa á skrifstofu Samfylkingarinnar.
Guðmundur fær starfsheitið vefstjóri flokksins og mun því væntanlega sjá um að uppfæra heimasíðuna xs.is og halda henni ilmandi af nýmeti og sjá um áróðurs- og spunamál flokksins ásamt Dofra Hermannssyni, framkvæmdastjóra þingflokks, og Skúla Helgasyni framkvæmdastjóra. Ég veit ekki hvað Guðmundur hefur verið að gera undanfarna mánuði og af hvaða starfi hann lætur þegar hann tekur við þessu. Samfylkingarfólk telur 5. sætið sem Guðmundur skipar í Kraganum baráttusæti sitt við þingkosningarnar í vor.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.12.2006 | 20:57
Gleðileg jól
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2006 | 20:51
Okkar menn í Washington
Athyglisverð forsíðufrétt í aðfangadagsmogganum um að íslenska ríkið borgi Plexus Consulting Group í Washington milljón á mánuði til að gæta íslenskra hagsmuna í höfuðborg Bandaríkjanna og hafi greitt þessu fyrirtæki 87 milljónir króna frá árinu 2000. Það er áreiðanlega þetta fyrirtæki sem náði þeim árangri í baráttunni við Washington Post, sem ég lýsti hér. Plexus hefur í sínum röðum íslenskan starfsmann, sem heitir Heiðrún Ýrr Júlíusdóttir.
Lobbýismi er mikill iðnaður í Bandaríkjunum og af því að undanfarin ár hefur mikið hneykslismál skekið þennan iðnað þar í landi fór ég á þorláksmessukvöldi að kanna bakgrunn og sögu þessa fyrirtækis. Skemmst er frá því að segja að þetta Plexus Consulting virðist með hreinan skjöld í því máli sem tengist Tom DeLay og Jack Abramoff og því fólki, sem einhverjir lesendur kannast kannski við.
En Plexus er heldur greinilega ekki mikill "player" í lobbýismanum vestanhafs, það er á Eye Street í Washington en ekki K Street sem er miðstöð helstu fyrirtækjanna í þessum ævintýralega spillta iðnaði. Sannast sagna virðist þetta fremur vera PR-fyrirtæki en almennilegt amerískt lobbýistafyrirtæki. Það auglýsir að það sé óháð flokkum sem hljómar vel en dregur hins vegar mjög úr líkum á að það nái minnsta árangri í þeirri Washington borg sem repúblíkanar hafa búið til undanfarin 10 ár, en undir þeirra forystu hafa farið fram skipulegar hreinsanir á demókrötum og flokksleysingjum, sem hraktir hafa verið úr þessum bransa og eiga bókstaflega ekki séns að fá viðtöl hjá áhrifamönnum í ríkisstjórn og löggjafarsamkomu Bandaríkjanna þegar hér er komið sögu. En Plexus hefur sem sagt fengið 87 milljónir úr ríkissjóði og náð þeim árangri að leiðara Washington Post var breytt eftir birtingu en fyrir dreifingu til smærri blaða í Bandaríkjunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.12.2006 | 21:42
Átök um uppsögn sveitarstjóra
Grímsnes- og Grafningshreppur - sveitarfélagið þar sem Byrgið er starfrækt - sagði í gær upp sveitarstjóra sínum. Í fundargerð þess fundar þar sem málið var afgreitt er eftirfarandi bókað um málið:
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkir að segja upp ráðningarsamningi Sigfríðar Þorsteinsdóttur sveitarstjóra dagsettum 28. júní. Uppsögnin er frá og með 31. desember 2006. Í samningnum stendur ráðningartímabilið er frá 1. júlí 2006. Einnig stendur í samningnum Fyrstu sex mánuði ráðningartímans er gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Einnig er lagt til að oddvita verði falið að ganga frá starfslokum sveitarstjóra enda sé það gert í samræmi við ráðningarsamninginn.
Sveitarstjóri óskar bókað: þar sem mikil sárindi eru í sveitarfélaginu eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor tel ég að gæta verði vel að því hvernig stjórnsýslan tekur á málum. Mikilvægt er við þær aðstæður að gæta meðalhófs og að jafnræði ríki við meðferð mála. Þar sem dagskipun K-listans sem myndar meirihluta í hreppsnefnd er að sýna hörku í samskiptum við í búana sé ég mér ekki annað fært en bóka þetta við þessi tímamót.
Varðandi starfslok sveitarstjóra lýsa fulltrúar c lista furðu á að sveitarstjóra skuli vera sagt upp án fundar í sveitarstjórn og án þess að sveitarstjóri hafi fengið áminningu frá sveitarstjórn. Fulltrúar c lista lýsa fullri ábyrgð á hendur meirihluta sem fer með sveitarfélagið eins og einkafyrirtæki tveggja til þriggja einstaklinga. Ekkert gefur tilefni til að svo harkalega sé gengið fram enda meirihlutinn ekki lagt fram rökstuðning í málinu. Gerð er krafa um að starfið verði auglýst.
Að sjálfsögðu verður starfið auglýst.
21.12.2006 | 20:13
Hvað nú?
Það er fagnaðarefni að ríkissaksóknari hafi skýrt ákvörðun sína í kærumáli Jóns Baldvins og Árna Páls með sérstakri yfirlýsingu. Það er óvenjulegt enda ber honum engin skylda til þess. Ríkissaksóknari heyrir nefnilega ekki undir einn né neinn, hann er ríki í ríkinu. Þegar hann ákærir menn er málatilbúnaður hans eðli málsins samkvæmt prófaður fyrir dómi en þegar hann ákærir ekki hefur enginn aðili í þjóðfélaginu færi á að fara yfir forsendur niðurstöðu hans; það gætir enginn þessa varðar.
Ríkissaksóknari túlkar venjulega allan lagabókstaf um embætti sitt með þrengsta mögulega hætti. Því er óvenjulegt að hann rökstyðji niðurstöðu sína með þeim hætti sem gert hefur verið í dag, fyrir því eru PR-ástæður eða pólitískar ástæður, ekki hitt að á honum hvíli lagaleg skylda til þess.
Menn sitja uppi með það að í þessum efnum er ekki hægt að deila við ríkissaksóknara. Hann vísar í yfirlýsingu sinni til forsendna og upplýsinga og dregur af þeim ályktanir sem verða hin endanlega niðurstaða málsins af því að enginn annar á að því aðkomu. (Árétta að þetta eru komment á staðreyndir um lögformlegt skipulag ákæruvalds í landinu og tengjast hugmyndum um hvernig almennu eftirliti með stofnunum samfélagsins eigi að vera háttað, þetta lýsir ekki einhverju vantrausti á persónu ríkissaksóknara.)
En höldum því líka til haga að markmið lögreglurannsókna er ekki að leiða í ljós hvort tiltekinn atburður hafi átt sér stað heldur að koma fram refsingu fyrir refsiverð brot á lögum, á þessu tvennu er mikill munur. Ástæða þess að rannsókn lýkur er sú að ekki atburður hafi ekki gerst heldur sá að rannsókn kallar ekki fram upplýsingar sem líklegt er að nægi til sakfellis yfir einhverjum einstaklingi fyrir brot á lögum. Þetta er bara svona.
Höldum því líka til haga að ef ríkissaksóknari telur fram komið að maður hafi haft uppi rangar sakargiftir ber honum skylda til að ákæra þann mann og draga fyrir dóm. Þeir sem vilja draga þá ályktun af því að rannsókninni er hætt að hleranir hafi ekki átt sér stað hljóta með sama hætti að túlka þá staðreynd að JBH og ÁPÁ eru ekki kærðir fyrir rangar sakargiftir með þeim hætti að þeir hafi ekki borið fram rangar sakargiftir, eða hvað?
Eins og mál standa nú verður mál Jóns Baldvins og Árna Páls vatn á myllu þeirra sem vilja sem minnst úr umræðum um hleranir gera. Það væri vont. Í því efni liggja nefnilega fyrir óyggjandi staðreyndir í skjölum og gögnum. Upplýsingar um hleranir hjá Hannibal, ASÍ, Ragnari Arnalds og öðrum eru ærin ástæða til þess að setja lög sem kveða á um sakaruppgjöf þeirra sem veitt geta þýðingarmiklar upplýsingar og sérstakan farveg rannsóknar þessara mála, t.d. hjá þingnefnd.
Rannsókn á meintum hlerunum ekki haldið áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.12.2006 | 20:03
Blaðamannafréttir dagsins
Úff. Það er nú meira hringlið á honum Brynjólfi Guðmundssyni, fréttastjóra á Blaðinu. Mér er ekki ljúft að skrifa hér í þriðja skipti færslu um það hvort hann ætli að fara eða vera eftir að -sme er hættur sem ritstjóri, en eftir að ég er einu sinni byrjaður á þessu er engin leið að hætta, fyrst drengurinn heldur alltaf áfram að skipta um skoðun.
Haldið þið ekki að hann sé einu sinni enn búinn að snúa við Blaðinu? Hann ætlar að hætta um áramót, er búinn að taka tilboði frá -sme og verður með honum á nýja blaðinu. Sem sagt kominn í heilan hring frá því að ég skrifaði þetta og þetta. ég mun aldrei aftur minnast á það hvar Brynjólfur vinnur.
En það er fleira að frétta úr þessum bransa. Björgvin Guðmundsson, ritstjórnarfulltrúi Fréttablaðsins, verður fréttastjóri nú eftir að Trausti Hafliðason er orðinn ritstjóri Blaðsins. Fyrra starf Björgvins sem fólst í umsjón með aðsendum greinum og efni á leiðaraopnu verður fyrst um sinn í höndum ritstjóranna tveggja.
Þriðja fréttin af mannahaldi á blöðum er svo sú að Brjánn Jónasson, einn af helstu fréttamönnum Morgunblaðsins nú um stundir, hættir þar um áramót og byrjar á nýju ári í vinnu á Fréttablaðinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 26
- Frá upphafi: 536845
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar