hux

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Orð dagsins

Fínn leiðari Þorsteins Pálssonar, sem leggur mat á reynsluna af sameiningu sjúkrahúsa og segir:


Skipt í miðju en þó heldur til hægri

Nú þarf ég ekki lengur að borga 2.500 krónur til þess að fá pólitískt stöðumat hjá Rögga rakara. Hann er farinn að blogga af lífi og sál um pólitík og ferst það vel eins og klippingarnar og körfuboltadómgæslan.


Sigurvegarar og aðrir viðstaddir

Sigri Björgvins var spáð hér og nú getur spámaður minn líka tekið gleði sína eftir hrakfarir í Kraganum enda hafa spárnar að öðru leyti gengið eftir í meginatriðum. Hann var með 5. efstu í Suðurlandi rétt en víxlaði röðinni á Jóni og Ragnheiði í 4. og 5. sæti.

Það kom líka á daginn að framboð Róberts klauf Eyjafylgið og virðist hafa tryggt Björgvin sigurinn. Þetta er annað áfallið á rúmu ári sem ferill Lúðvíks verður fyrir, fyrst tapaði hann fyrir Ágústi Ólafi í varaformannskjöri, nú tapar hann í prófkjöri fyrir Björgvin. Það hlýtur þó að veikja stöðu þessa lista að yfir honum grúfir sá dómur Lúðvíks að Björgvin hafi ekki næga reynslu til að takast á við ráðherrastörf.

Lúðvík og Jón Gunnarsson fóru snemma af kosningavökunni en Jón mun líka þurfa að víkja úr 5. sætinu fyrir konu vegna reglna um 40% kynjahlutfall í fimm efstu sætunum.

Ingibjörg Sólrún harmaði úrslitin í Norðvestur og Suðvestur en segir að fáar konur hafi verið í framboði í Suður og að það verði að sæta úrslitunum. Össur er hins vegar væntanlega kátur með þessi úrslit eins og í hinum landsbyggðarkjördæmunum.


Samræmt göngulag

Nú liggur fyrir að Guðjón Arnar, Margrét Sverrisdóttir og Ólafur F. Magnússon bakka Magnús Þór Hafsteinsson upp í málflutningi hans um útlendinga. Sigurjón Þórðarson hefur áður talað á svipuðum nótum. Þar með eru foringjar Frjálslyndra allir um borð í skútunni og ekki ástæða til að velta frekar fyrir sér möguleikanum á að flokkurinn klofni út af málinu, að svo stöddu. Þau sameinast um að grípa þetta hálmstrá til að bjarga sér frá 3% fylgi og yfirvofandi útþurrkun úr pólitíkinni.

Hins vegar þætti mér enn fróðlegt að heyra viðbrögð Guðrúnar Ásmundsdóttur og Ástu Þorleifsdóttur við þessum fréttum af flokknum sem þær gengu til liðs við fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Nú vantar skoðanakönnun. Vonandi bætir Fréttablaðið úr því.


Nú er Bingi á þingi

Í dag tók Björn Ingi Hrafnsson sæti á Alþingi í fyrsta skipti sem varamaður Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, sem loksins þurfti að bregða sér frá og taka inn varamann þegar meira en þrjú ár eru liðin af kjörtímabilinu. Þar með hafa allir 1. varaþingmenn á Alþingi tekið þar sæti á þessu kjörtímabili.

Björn Ingi settist í þingsalinn kl. 15 við upphaf þingfundar og beið ekki boðanna því samkvæmt fundargerð dagsins var hann kominn í stólinn kl. 18.34 og gerði andsvar við ræðu Steingríms J. Sigfússonar. Nú klukkan 20 er Björn búinn að gera nokkur andsvör og halda sjálfur ræðu í umræðum um tekjuskatt og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.


Veðurteppa

Sammála: Nú var alveg ljóst að óveðrið myndi bresta á í nótt. Þetta mátti heyra í öllum fréttatímum í gær. Samt gat Samfylkingin ekki komið kjörgögnum frá Vestmannaeyjum upp á land í tæka tíð í gærkvöldi. Talning í prófkjörinu í Suðurkjördæmi hefur tafist sem þessu nemur. Kannski verður ekki talið fyrr en eftir hádegi á morgun. Meira hvað þessi stjórnmálaflokkur er seinheppinn!

Þetta er argasta klúður hjá Samfylkingunni eftir góða kosningaþátttöku. Um 5.000 manns tóku þátt, sem er um 17,5% af fjölda kjósenda í kjördæminu í kosningunum 2003. Um 13% kjósenda kusu hjá Sjálfstæðisflokknum í borginni.

Um 1.200 atkvæði eru veðurteppt í Vestmannaeyjum heyrði ég í fréttum. 2.800 Eyjamenn greiddu atkvæði í sveitarstjórnarkosningunum nú í vor. Þannig að Eyjamenn eru að skila yfir 40% af kjósendum sínum til þátttöku í þessu prófkjöri.


Töflufundur

Hér kemur tafla með úrslitum í efstu 8 sæti hjá Samfylkingunni í Kraganum. Töflumöguleikar í Blogger eru litlir og þetta eru mestu gæði sem ég ræð við núna. Smellið á töfluna til að sjá stærri útgáfu. Af þessu sést að Gunnar Svavarsson fékk um 27,5% af um 4400 atkvæðum í 1. sæti, Þórunn Sveinbjarnardóttir fékk tæp 27% en Árni Páll tæp 20%.

Ekki beint sterkt umboð Gunnars, sem er 6. að heildaratkvæðafjölda, og hæpið að hann geti gert sterkt tilkall til ráðherradóms, komist Samfyflkingin í ríkisstjórn. Munar 46 atkvæðum að hann detti í 3ja sæti og þar hefði munað sáralitlu að hann dytti í 4.

Og ekki ætla ég að gleyma því einu sinni enn að þarna er ekki að finna tölur um einn af þingmönnum Samfylkingarinnar, Valdimar L. Friðriksson, sem kolféll, varð 14. að heildaratkvæðafjölda með aðeins 1216 atkvæði.


Bjóða frjálslyndir fram klofið?

Eftir Silfur Egils finnst mér orðið brýnt að oddvitar frjálslyndra tjái sig nánar um útlendingamálin. Hvað segja Margrét Sverrisdóttir, Ólafur F. Magnússon, Guðjón Arnar Kristjánsson um málflutning Jóns Magnússonar, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Sigurjóns Þórðarsonar? Hvað segir skrautfjöðurin Guðrún Ásmundsdóttir og Ásta Þorleifsdóttir? Er flokkurinn heill í þessu máli?


Sökudólgur fundinn

Egill Helgason á ekki upp á pallborðið hjá femínistum eftir að hafa neitað að taka almenna ábyrgð á nauðgunum vegna kynferðis síns. Á póstlista feminista fær Egill það óþvegið fyrir þessi ummæli og nú er hann líka orðinn ábyrgur fyrir rýrum hlut kvenna í stjórnmálum almennt og kannski líka því að Þórunn tapaði með um 40 atkvæðum fyrir Gunnari Svavarssyni í Kraganum. Á póstlista femínista segir:

"Egill er þar með ekki bara að halda sig við það að hleypa hér um bil eingöngu karlkyns frambjóðendum að í þáttinn sinn og hafa þannig áhrif á kynjahlutfall á þingi heldur fer hann fram fyrir skjöldu og reynir að draga úr fylgi við kvenkyns frambjóðanda. Ekki er heldur hægt að skilja pistil Egils öðruvísi en sem hvatningu til karlmanna um að láta sig ofbeldismál engu varða - þetta er greinilega "kvennamál". [...] Ok Egill - við náum skilaboðunum. Það er þinn réttur að halda áfram á sömu braut að draga úr þeim sem berjast gegn ofbeldi og sem skilja út á hvað málið gengur. Mundu bara að þar með ertu ekki hlutlaus heldur búinn að taka afstöðu."


Um vaxtarlag spámanna

Spámaðurinn var úti á þekju í Kraganum, spáði sigurvegaranum 3. sæti en þeim sigri sem lenti í 4. sæti. Annað var eftir því. Þetta var hörkuspennandi en spennan var milli Þórunnar og Gunnars, Árni Páll var aldrei að taka þetta.

Spáin gekk betur í Norðaustur, þar voru þrjú efstu rétt. Ótrúlega öflug niðurstaða fyrir Kristján L. Möller að fá 69% atkvæða í fyrsta sætið, líklega er hann orðinn öruggt ráðherraefni fái flokkur hans aðild að ríkisstjórn. Væntanlega mun Ragnar Sverrisson kaupmaður á Akureyri nú fara að tala enn og aftur um nauðsyn þess að Akureyringar bjóði fram sérstakan lista en miðað við gengi Benedikts Sigurðarsonar, fulltrúa Akureyringa í þessari baráttu, er lítil eftirspurn eftir þessari póstnúmerahugsun í bænum.

Það væri athyglisvert að ræða niðurstöðuna í Norðvestur við Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Nú er Kristján frá Siglufirði, smábæ á Norðvesturhorninu, ekki einu sinni í almennilegu vegasambandi við restina af kjördæminu. Samt rúllar hann þessu upp. Póstnúmerið var honum ekki til trafala, kallinn er bara það öflugur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband