hux

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Er það svo?

Jón Kaldal skrifar leiðara um að allt bendi til þess að RÚV frumvarpið fari í gegnum þingið á næstunni. Hverju hef ég misst af? Síðast þegar ég vissi benti fátt til þess að frumvarpið færi í gegnum þingið á næstunni.


Bjalla, fé og hirðir

Sömu daga og verið er að ganga frá löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna er: 1. Frá því greint að forsætisráðherra sé að greiða fyrir myndun fjárfestahóps um kaup á bresku knattspyrnufélagi. 2. Látið að því liggja að íslenskur auðmaður hafi borgað fyrir að láta forsætisráðherra Íslands hringja bjöllu yfir kaupahéðnum á Wall Street.

Það er ekki til brýnna verkefni í þessu samfélagi en að setja löggjöf um fjármál stjórnmálastarfseminnar. Ég er hins vegar sammála þeim sem segja að eins og endranær er það gagnsæið sem skiptir meginmáli, það að hagsmunatengslin liggi á borðinu, fremur en hvort sett séu einhver þök á fjárhæðir.


Undan vinstrigrænni torfu

Torfusamtökin eru skriðin undan sinni vinstrigrænu torfu, eða voru þau kannski geymd í Draugasafninu á Stokkseyri meðan VG átti aðild að meirihlutasamstarfi í borginni? Hvort heldur er hafa þau nú gengið aftur og berjast fyrir skjólleysi á Laugarveginum og eilífu lífi þeirra 30 friðuðu kumbalda sem standa við þá götu og byggðir voru af vanefnum á krepputímum.


Saga dagsins

Sammála Guðmundi. Og það er eitthvað súrrealískt að Jónína Ben. sé að vísa opinberlega í annarra manna tölvupósta. Hún birtir þá kannski bara í heild bráðum og heldur svo áfram málarekstrinum í Strassborg.


Íslandssaga og mannkynssaga

Móðuharðindin drápu ekki bara Íslendinga. Skaftáreldar drógu úr rennsli Nílar og ollu hungursneyð í Egyptalandi.


Gagnsæi er gott

Venjulega pukrast sveitarfélög ósköpin öll með samskipti sín við eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Reykjanesbær er dæmi um sveitarfélag sem hefur átt í samskiptum við nefndina út af gríðarlegri skuldasöfnun en þar á bæ hafa menn lítið verið fyrir það gefnir að miðla upplýsingum um þau samskipti til almennings. Þess vegna finnst mér hressandi að sjá á vef Bolungarvíkur bréf sem bærinn er búinn að senda sem svar við fyrirspurnum eftirlitsnefndarinnar. Ekkert pukur hjá Grími, Soffíu, Önnu og félögum. Gagnsæi er gott.


Hver fer í fötin hans Halldórs Blöndal?

Hvernig fer slagurinn um 1. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi? Fyrirfram skyldi maður ætla að Kristján Þór Júlíusson ætti að vinna þetta. Hann hlaut 36,3% atkvæða í varaformannskjöri á landsfundi fyrir rúmu ári. Það var sagt sl. haust að stóran hluta af fylgi sínu í varaformannskjörinu ætti hann að þakka því að frjálshyggjumenn hefðu kosið hann í stríðum straumum til þess að koma til skila táknrænni andstöðu við upphefð Þorgerðar Katrínar, þetta hafi ekki verið raunveruleg mæling á hann sjálfan.

Arnbjörg Sveinsdóttir hefur verið vaxandi þingmaður, orðin mjög reynd og starfar nú sem þingflokksformaður. En reynsla sjálfstæðiskvenna af prófkjörum hefur ekki verið of góð undanfarnar vikur.

Svo er það Þorvaldur Ingvarsson, sem er Reykvíkingur eins og Halldór Blöndal. Hann er formaður Sjálfstæðisfélagsins á Akureyri og framboð hans bendir til þess að ekki sé einhugur um Kristján Þór meðal sjálfstæðismanna í bænum. Mér er sagt að hann njóti velvildar Halldórs Blöndal og hans manna í þessum leiðangri. Þorvaldur er lækningaforstjóri FSA, dósent við læknadeild HÍ og væri ný tegund af stjórnmálaleiðtoga frá Akureyri. Hann fylgir framboði sínu úr hlaði á heimasíðu sinni meðal annars með þessum orðum: "Undanfarið ár hafa orðið miklar breytingar í Sjálfstæðisflokknum undir traustri stjórn Geirs Haarde. Ferskir vindar blása um flokkinn, nýtt fólk er að kveða sér hljóðs með nýjar áherslur í atvinnu-, mennta-, heilbrigðis- og umhverfismálum. Ég er meðal þeirra." Athyglisverð yfirlýsing.


Breitt bak

Ég er ánægður með Valgerði. Auðmýktin hefur ekki verið of fyrirferðarmikil hjá íslenskum stjórnvöldum undanfarin ár. Maður verður hálfhvumsa loksins þegar hún lætur á sér kræla.

Það var búið að stofna sérstakt félag til þess að annast um varnarsvæðið og setja m.a. Árna Sigfússon bæjarstjóra yfir það, ásamt Stefáni Þórarinssyni og Magnúsi Gunnarssyni, stjórnarformanni. En Valgerður reyndi ekki að skýla sér bak við þá félaga og gott hjá henni.


Flugmóðurskip í Norður-Atlantshafi

NFS:

Utanríkisráðuneytið þarf að spyrja bandaríska flotann áður en svar er gefið um það hvort heimila megi aðgang að gögnum um hleranir íslenskra stjórnvalda á tímum kalda stríðsins. Þetta kemur fram í gögnum frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband