hux

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Hvar eru þau nú?

Formaður Framsóknarflokksins er búinn að gera upp við Íraksstríðið og hið sama gerði ritstjóri Morgunblaðsins í Kastljósi í kvöld. Kannski fer að koma að því að forystumenn Sjálfstæðisflokksins geri hið sama. Er ekki tími til kominn? Í drottningarviðtali á Stöð 2 um daginn var Geir H. Haarde gefið færi á hinu sama en hann notaði sér það ekki heldur fór með þulu um lýðræði í Írak. Er þetta boðlegt?


Tímabært uppgjör

Jón Sigurðsson átti líka fínan leik á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins, miðað við þær fréttir sem ég hef haft af honum. Auðvitað réði afstaða Íslands engum úrslitum um innrásina og listinn margumræddi var einhliða bandarísk uppfinning en þeirri afstöðu sem íslensk stjórnvöld tóku fylgir þung siðferðileg og pólitísk ábyrgð og óhjákvæmilegt að málið sé rætt í þaula.

Þessi innrás var byggð á lygum um gereyðingarvorp á borð við þær sem Colin Powell flutti frammi fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Vísvitandi lygum eins og þeim sem Cheney og félagar hans reyndu hvarvetna að koma á framfæri um ímynduð tengsl Íraks við Al Qaeda. Ranghugmyndum eins og þeim að Tony Blair væri trausts verður. Án þess trausts sem íslensk stjórnvöld báru til stjórnvalda nánustu bandalagsríkja Íslendinga í alþjóðamálum um áratugaskeið hefði afstaðan orðið önnur, það vita amk þeir sem þekkja hug Halldórs Ásgrímssonar til málsins. Þetta traust misnotuðu Bandaríkjamenn sér enda er það nú að engu orðið.

Aðferðin sem Halldór og Davíð Oddsson viðhöfðu við ákvörðunina var amk pólitísk mistök og svo afdrifarík að nauðsynlegt er að tryggja með löggjöf að sambærilegar ákvarðanir fái vandaðri meðferð í framtíðinni. Hins vegar er auðvitað borin von að lýðskrumarar eins og Össur Skarphéðinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson leggi skerf til málefnalegrar umræðu um þau mál.


Lifi Þróttur

Fín helgi. Þróttarar komnir af Sp.Kef móti 5. flokks með þrjá bikara og nokkur kíló af góðmálmi. Langflottastir.


Leiðari

Ég vil hvetja Guðmund til þess að segja meira frá þessu:

Hugmyndin um utanaðkomandi leiðarahöfund var einnig rædd á Fréttablaðinu, þegar ég starfaði þar, en ég var henni mótfallinn og frá henni var horfið.


Tæknileg iðrun

Það voru tæknileg mistök að tala um tæknileg mistök. Eitthvað í þá veru segir Árni Johnsen í samtali við Eyjar.net.


Jólabókin komin

Það eru fyrst og fremst tvær ástæður fyrir því hvað ég er seinn til bloggs í dag: 1. Annríki við brauðstritið. 2. Ég gleymdi mér við að blaða í árituðu eintaki mínu af hinni stórkostlegu bók Halldórs Baldurssonar, skopmyndarateiknara á Blaðinu. Hún er hrein gersemi. Halldór á engan sinn líka í íslenskri blaðamennsku og fjölmiðlaflóru og er að mínu mati fyrsti íslenski skopmyndateiknarinn á heimsmælikvarða. Það verður enginn svikinn af því að kaupa svona 1-2 eintök af þessari bók. Hún heitir 2006 í grófum dráttum.


Undur og stórmerki

Muna menn önnur dæmi þess að forystumaður í stjórnmálaflokki blandi sér í prófkjörsbaráttu með líkum hætti og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gerir á bls. 4 í Morgunblaðinu í dag? Þótt ekki sé um jafnafdráttarlausar yfirlýsingar að ræða - og forsagan önnur og óljósari - er helst að þessu megi jafna til þess þegar Geir H. Haarde kvartaði undan "aðförinni að Birni Bjarnasyni."

Dæmi: "Þorgerður tekur fram að hún telji þýðingarmikið að konur séu ekki eingöngu í baráttusætum heldur líka í öruggum þingsætum. [...] Við erum með konur sem hafa sýnt það og sannað að þær geti verið öflugir talsmenn flokksins og því tel ég að við eigum að styðja við þær eins og við höfum stutt við karlmenn sem verið hafa öflugir talsmenn flokksins."

Mér finnst ómögulegt að túlka ummæli Þorgerðar öðru vísi en sem beina stuðningsyfirlýsingu við Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformann, í harði baráttu hennar við Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóra og andstæðing Þorgerðar í varaformannskjöri á síðasta landsfundi, og Þorvald Ingvarsson, lækni og formann sjálfstæðisfélagsins í bænum.

Ummælin, sem ég vitna til, verða ekki túlkuð sem almenn hvatning til þess að styðja konur eftir ómaklega útreið Drífu Hjartardóttur í prófkjörinu á Suðurlandi. Spurning hvort Arnbjörgu sé í raun styrkur að þessum yfirlýsingum varaformannsins eða hvort þetta hafi bara á sér blæ örvæntingar á síðustu metrum baráttunnar? Og eins og með átökin í Norðvesturkjördæmi vaknar auðvitað spurningin hvort skipti meira máli að styðja Arnbjörgu eða halda aftur af Kristjáni Þór, sem hefur verið Davíðs- og frjálshyggjumegin í flokknum.


Erlendar fréttir

Atlanta: Woman, 92, Dies in Shootout With Police

Gaza: Grandmother blows herself up in Gaza

Albuquerque: About 30 women, children and fathers held a "nurse-in" at the Delta check-in counter at Albuquerque International Sunport, joining the New Mexico woman who said she was kicked off a flight last month for breast-feeding her child.


Einfalt svar við einfaldri spurningu

Ómar spyr: Hvað er næst? Vilja tryggingafélögin ekki líka fá heilsufarsupplýsingar, svo hægt sé að hækka iðgjöldin á slysatryggingum þeirra sem spila fótbolta? Svo þau geti neitað að líftryggja þá sem eiga foreldra með krabbamein?

Svarið er já, Mogginn segir frá því í dag að samkvæmt frumvarpi viðskiptaráðherra um vátryggingasamninga eiga tryggingafélögin rétt á upplýsingum um sjúkrasögu ættingja þeirra sem þau tryggja.


Stefna dagsins

Samfylkingin er farin að tala fyrir skólagjöldum í meistaranámi í ríkisháskólum, segir Hjálmar Árnason. A.m.k. sumir. Stundum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband