hux

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Til hamingju Ísland

Ég óska íslenskum West Ham aðdáendum til hamingju. Þeir voru átta í óktóber en verða væntanlega orðnir álíka margir og eigendur Toyota-bíla fyrir áramót. Litlir drengir í West Ham bolum merktum Reo-Coker og Bobby Zamora verða hvarvetna næsta vor og ólíklegustu menn munu halda því fram að David James hafi alltaf verið vanmetinn markvörður.

En hver tekur við KSÍ af Eggerti Magnússyni? Ég sé ekkert skrifað um það. Er ekki Guðni Bergsson rétti maðurinn í þetta? Hann vinnur meira að segja í Landsbankanum, ekki satt.


Gróði dagsins

Auglýsingahlutfallið í Blaðinu í dag er svívirðilega hátt. Örugglega arðbærasta tölublað frá upphafi. Maður sá stundum svona hlutfall í Fréttablaðinu meðan prentsmiðja Ísafoldar var lítil og vandkvæðum bundið að breyta stærð blaðsins í takt við flóð og fjöru í auglýsingasölunni. En þetta hélt ég að væri ekki vandamál hjá prentsmiðju Moggans. Þannig að líklega er þetta bara meðvituð ákvörðun um það að græða alveg ofboðslega á blaðinu í dag og selja villt og galið á vinstri síðurnar. Enda fór það svo að ég fletti í gegnum allt blaðið án þess að staldra nokkurs staðar við nema á leiðaraopnunni. Það er vandrataður meðalvegurinn í þessu og kannski eðlilegt að menn missi sig aðeins þegar þeir eru komnir í svona rífandi eftirspurn. Vona að auglýsingadeildin nái jafnvægi fljótlega, maður hættir að nenna að fletta blaðinu ef fréttirnar fá ekki sæmilegt rými.


Hvað á Anna K. að gera?

Össur skrifar um Sleggjuna og telur fráleitt að Kristinn taki 3ja sæti framsóknar í Norðvestur í samræmi við niðurstöður prófkjörsins sem hann stofnaði sjálfur til.

Því var hvíslað að mér - og er góð ábending - að Össuri stæði líklega nær að hafa skoðun á því hvort Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingmaðurinn sem skipaði 2. sæti lista Samfylkingarinnar í Norðvestur í síðustu kosningum en féll fyrir tveimur nýliðum niður í 3ja sæti í prófkjöri flokksins nýlega ætti að taka það sæti eða axla sín skinn og leita kannski á náðir frjálslyndra.

Hvernig er það, ætlar Anna Kristín að taka sætið, eða er kominn upp klofningur í Samfylkingunni í Norðvestur eins og hjá Valdimar og félögum í Kraganum?


Sólsetur Dagsbrúnar

Úr upplýsingakerfi Kauphallarinnar. Nýjasta tilkynningin er þessi.


Að kljúfa rekavið

Rétt svar hefur borist við getraun gærdagsins í kommentakerfið. Það var Bjarni Guðnason, prófessor og þá þingmaður Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, sem lét þessi orð falla um stofnanda flokksins Vestfjarðagoðann Hannibal Valdimarsson á alþingi vorið 1974, skömmu áður en Ólafur Jóhannesson rauf þing og boðaði til kosninga. Hannibal rakst víst ekki vel í flokki og fannst lýðræðið best þegar niðurstaðan var honum sjálfum hagstæð. Þegar Bjarni lét þessi ummæli falla var Hannibal farinn fyrir borð í ríkisstjórnarsamstarfi sem hann hafði sjálfur átt þátt í að stofnað var til.


Björn dagsins

Þessa dagana er sótt að Birni Bjarnasyni á síðum Fréttablaðsins. Þorsteinn Pálsson skrifaði hárbeittan leiðara í laugardagsblaðið í framhaldi af Moggagrein Arnars Jenssonar og talar um að dómskerfið geti illa búið við það ástand sem grein Arnars hafi skapað. Til þeirrar greinar hafði Björn vísað í dagbók sinni í hlutlausri færslu, sem vakti athygli á skrifum Arnars án þess að leggja mat á efni þeirra.

Í dag fær gamall pennavinur Björns, Hreinn Loftsson, birta grein á leiðaraopnu Fréttablaðsins þar sem vísað er í leiðara Þorsteins og Björn krafinn svara og viðbragða vegna þess vantrausts sem æðstu embættismenn lögreglunnar virðist nú bera til dómskerfisins.

Björn heldur sínu striku og svarar með sínum hætti. Þessa færslu má lesa í dagbók hans í dag: Dreifingu Fréttablaðsins er þannig háttað, að blaðið berst aðeins öðru hverju heim til mín og þar af leiðandi les ég það æ sjaldnar. Hvort ég fer á mis við eitthvað, sem máli skiptir, veit ég ekki,


Getraun dagsins

Hver sagði þetta og um hvern?

Hann er nú vestur á fjörðum og klýfur þar rekavið til þess að þjóna lund sinni.
Svör óskast í komment.


Hégómi

Líklega er það rétt sem bent er á hér í kommentum og hjá Guðmundi Magnússyni að Samfylkingin verður að una við það að Valdimar L. Friðriksson hlaupi fyrir borð. Hér er bréfið þar sem Ásgeir Friðgeirsson segir af sér sem varaþingmaður og virðist orðalagið það afdráttarlaust að hann á vart afturkvæmt. Ég veit hins vegar að einhverjir félagar Valdimars skynjuðu að hverju dró undanfarna daga og gerðu ráðstafanir til þess að kanna hvort mögulegt væri að sparka honum bara af þingi og fá Ásgeir inn í staðinn.

Allt um það er þetta einstakt mál. Valdimar var annar varaþingmaður og komst inn á þing á miðju kjörtímabili þegar 1. varamaðurinn sagði sig frá starfinu. Eftir útreið Valdimars í prófkjörinu hefur hann látið hégóma sinn teyma sig út í það að ætla að mynda eins manns gengi inni í þinginu fram á vor. Þetta er sá árstími á kosningavetri þegar hégómi fallkandídata í prófkjörum er allsráðandi, það eru særð egó að sleikja sár í öllum landshlutum, eftir að hafa orðið fyrir höfnun kjósenda. Sumir ná að horfa í spegil og horfast í augu við stöðuna eins og hún er, aðrir æða áfram af hóflausum persónulegum metnaði. Auðvitað er höfnunin sár en fáum í þessari stöðu hef ég eins litla samúð með og téðum Valdimar. Honum var ekki hafnað í prófkjöri vegna þess að störf hans voru umdeild heldur vegna þess að enginn vissi hver hann var og hvað hann stendur fyrir. Hann fékk tækifærið en notaði það bara ekki.


Hvað gerir Ásgeir Friðgeirsson?

Valdimar L. Friðriksson hefur ákveðið að yfirgefa Samfylkinguna. Valdimar kom inn á þing þegar Guðmundur Árni hætti og fór til Svíþjóðar. Þá átti Ásgeir Friðgeirsson að taka sæti Guðmundar Árna en hann kaus að halda áfram starfi sínu fyrir Björgólf og BTB. Nú vaknar spurningin: á Ásgeir leið til baka? Er Valdimar fullvaxinn þingmaður eða hefur hann í raun og veru bara stöðu varaþingmanns fyrir Ásgeir Friðgeirsson? Getur Ásgeir nú skrifað forseta Alþingis bréf og sagt: Aðstæður mínar hafa nú breyst og ég geri kröfu til þess að taka þingsætið sem losnaði þegar Guðmundur Árni fór til Svíþjóðar. Ég veit það ekki en ætla að veðja á að menn í Samfylkingunni séu nú að hvetja Ásgeir til þess að láta á þetta reyna.


Spádómar og sleggjudómar

Hér var spáð rétt um fyrstu fjögur sætin í prófkjörinu hjá framsókn í Norðvestur. Við prófkjörið fjölgaði á félagaskrá um ca. 500 manns, einkum fyrir tilverknað stuðningsmanna Herdísar Sæmundardóttur og Kristins H. Gunnarssonar.

Á kjörskrá í NV-kjördæmi í síðustu þingiskosningum voru 21.220 manns. Framsókn hlaut 21,7% fylgi sem var slakasta útkoman á landsvísu. Flokknum voru greidd rétt rúmlega tvisvar sinnum fleiri atkvæði en nemur skráðum félögum. Í Kraganum var þetta hlutfall u.þ.b. sex atkvæði fyrir hvern flokksmann.

Að loknu prófkjöri nú eru 2.552, eða um 11,9% kjósenda í Norðvesturkjördæmi, flokksbundnir framsóknarmenn. Það væri afhroð ef fylgi í kosningum færi undir tvö atkvæði fyrir hvern flokksmann. Ef atkvæði haldast umfram það lágmark ætti Herdís Sæmundardóttur að vera örugg á þing í vor og eðlilegt að líta á að þriðja sætið sem baráttusæti.

Það má halda því fram að það breikki ásýnd Framsóknarflokksins í kjördæminu og á landsvísu að hafa Kristin í 3ja sæti. Hins vegar staðfestir niðurstaða prófkjörsins að ýmis sjónarmið sem Kristinn hefur haldið á lofti eru utan við meginstrauma í flokknum. Það á ekki að þurfa að koma á óvart. Össur spáir því að Kristinn leiti nú yfir til frjálslyndra. Eftir málflutning frjálslyndra í málefnum útlendinga held ég að það sé afar ólíklegt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband