hux

Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Blaðið er í Hádegismóum

Athyglisverðar pælingar hjá Guðrúnu Helgu. Ég held að þetta sé rétt hjá henni, ólgan braust einhvern veginn fram á síðurnar meðan á þessu stóð. Svo fékk náttúrlega fólk þarna þær fréttir á mánudag að búið væri að segja Andrési Magnússyni upp störfum. Ég þekki -sme það vel að ég sé hann alveg fyrir mér þessa daga.

Ruglingurinn með Brussel og Strassborg er náttúrlega hámarkið/lágpunktur Blaðsins síðustu viku en mér er sagt að það hafi gerst þannig að -sme sjálfur hafi verið að vaka yfir forsíðuumbrotinu. Fyrirsögnin passaði ekki og kallinn sjálfur fór að vinna í málinu. Það var hann sjálfur sem gaf fyrirskipun um að fyrirsögnin ætti að vera Póstarnir í Brussel. Það fylgir sögunni að hann hafi engin önnur afskipti haft af innihaldi umfjöllunarinnar um tölvupóstana, taldi sig of nátengdan efninu. Kannski eins gott að hann kom ekki meira nálægt, miðað við þetta.

Auðvitað er hann of nátengdur efninu, líklega um of til að sjá að þetta voru ekki slík tímamót sem ætla mátti af lestri Blaðsins. Þannig að þótt hann hafi ekki tekið ákvörðunina um að keyra svona á málið hefði hann mátt hafa vit fyrir fólkinu sínu um að gera það ekki.

Begga er líka að velta fyrir sér DV og Blaðinu en úr annarri átt. Guðmundur Magnússon er að vísa í póstana og Blaðið en fer á of mikið dýpi fyrir mig.


Orð dagsins

Jón Ólafsson í Lesbók Moggans:

Það sem afhjúpanir Þórs Whithead nú gera ljóst er ekki að íslensk yfirvöld hafi metið hættu af róttækum hreyfingum hér á kreppu- og kaldastríðsárunum rétt, heldur einmitt að íslensk yfirvöld féllu í þá gryfju að ofmeta þessa hættu stórlega og leiddust því út í vafasamar og hugsanlega glæpsamlegar aðgerðir gegn saklausu fólki. Íslensk stjórnvöld ættu að láta sér það að kenningu verða og reyna eftir megni að forðast að gera sömu mistök aftur.


Sme ætlaði á DV en hætti við

Á dögunum fékk Sigurjón M. Egilsson, -sme, tilboð sem hann gat ekki hafnað. 365 hafði samband við hann og bauð honum að verða ritstjóri DV. Þetta hefur -sme lengi langað að gera, hann taldi illa fram hjá sér gengið þegar Páll Baldvin og Björgvin voru gerðir að ritstjórum þegar Jónas og Mikael duttu fyrir borði í upphafi árs. Sme sótti það þá hart að fá að stjórna DV en Gunnar Smári bróðir hans gaf engan kost á því. Samskipti bræðranna hafa ekki verið söm síðan. Vonbrigðin með að fá ekki DV gerðu að verkum að -sme var tilkippilegur til að yfirgefa Fréttablaðið og gerast ritstjóri Blaðsins þegar Sigurður G. Guðjónsson bauð honum starfið í vor. Síðan hefur Blaðið verið á uppleið eins og við þekkjum.

En á dögunum sá -sme fram á að gamli draumurinn gæti ræst og hann fengið mikla launahækkun í leiðinni. Hann gekk þess vegna að tilboði frá 365 um að verða ritstjóri DV og ætlaði að taka með sér þangað Janus, umbrotssnilling, Brynjólf Þór og Gunnhildi Örnu, fréttastjóra. En þá kom babb í bátinn. Sigurður G. Guðjónsson, stjórnarformaður Blaðsins, neitaði að sleppa takinu á kalli, taldi sig hafa samið við hann um átta mánaða uppsagnafrest. Niðurstaðan varð sú að -sme fór hvergi. Nú hefur verið frá því gengið að ritstjórnar DV verða Óskar Hrafn Þorvaldsson og Freyr Einarsson. Páll Baldvin Baldvinsson er hins vegar farinn yfir á Fréttablaðið og mun þar sjá um menningarumfjöllun. Sme heldur áfram á Blaðinu og ekki er líklegt að launin hans hafi lækkað í reiptoginu undanfarna daga.

Í Skaftahlíðinni telja menn sig illa svikna.


Legið á hleri

Leiðari Moggans í dag fjallar um hleranirnar. Minnir á að þetta sé ekki bara saga af því "að stjórnvöld hafi fengið dómsúrskurð til að fá að hlera síma hjá þessum eða hinum", og ekki bara saga af því hvaða menn stunduðu slíka starfsemi til að gæta öryggis ríkisins eða hvaða aðferðum þeir beittu. Hún verði líka saga af því hvernig óvinveitt, erlend ríki stunduðu njósnir hér á landi og leituðust við að ná hér ítökum og áhrifum og hvernig innlendir menn, stjórnmálaflokkar og samtök tengdust þessum ríkjum. Já, já.

Maður má nú gefa sér að fyrst þessi starfsemi var öll svona lögleg og í þágu öryggis ríkisins hefðu kommarnir verið ákærðir og dregnir fyrir dóm ef eitthvað annað og meira hefði komið upp um þeirra ólöglegu njósnir í þágu Sovétsins. Eða var það ekki lögmæta markmiðið með þessu löglega eftirliti á kostnað ríkisins að afla gagna til þess að vera grundvöllur refsimáls gegn landráðamönnum og koma í veg fyrir að áform þeirra næðu fram að ganga?

Það sem er forvitnilegast að vita núna er auðvitað hvert umfang þessarar starfsemi var og þá ekki síst hvers eðlis var samstarf þeirra opinberu starfsmanna og annarra sem njósnum ríkisins tengdust við stjórnvöld Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja. Það er óumdeilt að þeir aðilar miðluðu persónuupplýsingum um Íslendinga til erlendra ríkja, t.d. fékk stór hluti Íslendinga ekki að ferðast til Bandaríkjanna áratugum saman vegna upplýsinga sem íslenskir menn miðluðu til bandarískra stjórnvalda. Það hefur lengi verið látið að því liggja að sá tími muni koma að fjallað verði um þennan þátt málsins á síðum Moggans. Er ekki að því komið?


Gunnar Smári á dönsku

Hér getur maður víst lesið rafræna útgáfu af danska Fréttablaðinu. Síðan hefur reyndar ekki opnast enn eftir 10 mínútna bið en þá tékkar maður bara á þessu seinna.


Bókmenntagagnrýnandi ríkisins

Mér finnst það til fyrirmyndar hjá Jóni Sigurðssyni iðnaðarráðherra að fara út í samræður um Draumalandið, eins og hann gerði á fundi Samtaka iðnaðarins og Mogginn segir frá. Reyndar áttar maður sig ekki alveg á sjónarmiðum hans nema hafa bókina fyrir framan sig en maður áttar sig á því að hann leggur sig fram um að vera málefnalegur og ber fulla virðingu fyrir efninu. Ætli það hafi áður gerst að ráðherra hafi lagst í bókmenntagagrýni með þessum hætti?


Gæðunum er misskipt

Björn Ingi segir það ekki hreint út en hann er að vísa í það að hann sat í 2. sæti á lista framsóknar í Reykjavík suður í kosningunum 2003. Hann er varaþingmaður Jónínu Bjartmarz en hefur aldrei tekið sæti á þingi því Jónína er svo dugleg við að mæta. Ég held að Björn sé örugglega eini 1. varaþingmaðurinn sem aldrei hefur verið kallaður inn, þannig að dugnaður Jónínu við mætingar á sér bókstaflega engan sinn líka í þingmannahópnum.

Hjá þeim sem voru í framboði fyrir framsókn norðan við Miklubrautina er staðan önnur, tveir efstu menn á þeim lista eru hættir í pólitík og nú standa yfir æfingar til þess að komast undan því að kalla inn á þing manninn sem var í 6. sæti framboðslistans af því að hann er búinn að segja sig úr flokknum.

Björn Ingi vinur minn væri orðinn alþingismaður ef hann hefði skipað 3. sætið í Reykjavík norður eins upphaflega stóð til og verið næsti maður á lista á eftir Halldóri og Árna Magnússyni. Þá átti Guðjón Ólafur að vera í 2. sæti í Reykjavík suður. En það var andstaða í suðrinu við Guðjón Ólaf og því varð lendingin sú að þeir félagar höfðu stólaskipti.


Endurnýjun á kostnað hinna ungu

Það er ekki óvænt að Jón Sigurðsson ákveði að hasla sér völl í Reykjavík. Við því var búist að hann mundi velja þá leið að gera tilkall til þingsætis Halldórs Ásgrímssonar. Hins vegar þótti mörgum framsóknarmönnum víða um land tvennt mæla gegn því að hann veldi þann kostinn.

Það er hæpið að gera ráð fyrir að Jón nái kjördæmakosningu í borginni, en vissulega á hann mikla möguleika á uppbótarsæti. Það þýðir að alla kosningabaráttuna verður formaður Framsóknarflokksins í mikilli varnarstöðu í allri umræðu.

Hins vegar mun framboð Jóns í Reykjavík þrengja möguleika nýjustu þingmanna flokksins, Guðjóns Ólafs Jónssonar og Sæunnar Stefánsdóttur, á að komast á þing. Þau eru þingmenn Reykjavíkurkjördæmis norður en hljóta nú bæði að horfa annað í leit að pólitísku framhaldslífi. Þess vegna höfðu margir vænst þess að formaðurinn veldi ekki þennan kost.

Í Norðvesturkjördæmi hefur Framsóknarflokkurinn átt í forystukreppu, sem hægt hefði verið að binda enda á ef nýr formaður hefði þar lagt sig að veði í prófkjöri sem framundan er. Það var meðal annars í þeirri von sem meirihluti kjördæmisþingsfulltrúa í Norðvesturkjördæmi ákvað að velja leið póstkosningar við uppstillingu. Formanninum höfðu borist áskoranir um að fara þessa leið frá því á flokksþinginu í ágúst.

En af því varð ekki og nú bendir allt til þess að öfugt við aðra flokka verði endurnýjunin í þingliði framsóknarmanna fólgin í því að ungir þingmenn missa sæti sitt en hinir eldri sitja sem fastast.


Róbert fer fram í Suðurkjördæmi

Skúbb hjá Denna. En ekki óvænt. Róbert býður sig fram í 1.-2. sæti hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi.

Þar með munu fjórir berjast um forystuna, Björgvin G. Sigurðsson, Lúðvík Bergvinsson, og Jón Gunnarsson, auk Róberts. Sigríður Jóhannesdóttir, margreynd þingkona af Suðurnesjum, sem gefur kost á sér á ný, treystir sér hins vegar ekki ofar en í 2. sætið.

Líklega mun framboð Róberts koma sér verst fyrir Lúðvík Bergvinsson. Báðir sækja mestan styrk á heimaslóðirnar í Eyjum. Eyjamenn eru þekktir fyrir að bakka sína menn upp í pólitísku bjargsigi hvaða flokki sem þeir tilheyra. En það má bara kjósa einn mann í 1. sæti í hverju prófkjöri. Eyjamenn sem kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar þurfa nú að dreifa atkvæðum sínum á Eyjapeyjana tvo.

Það er því aldrei að vita nema sá sem fagnar framboði Róberts mest verði Björgvin G. Sigurðsson, sem hefur verið einn af öflugustu ungu þingmönnunnum á þessu kjörtímabili og á traust bakland í Árnessýslu.


Bjarni þreifar á framsóknarmönnum

Bjarni Harðarson, blaðamaður, ritstjóri Sunnlenska Fréttablaðsins, er að íhuga að bjóða sig fram í 2. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

Bjarni hefur undanfarna daga talað við fjölmarga framsóknarmenn og kannað undirtektir við framboð sitt. Ákvörðun um aðferð við uppstillingu liggur ekki fyrir en verður tekin í nóvemberbyrjun.

Þingmenn Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi eru Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, sem skipaði 1. sæti listans síðast og Hjálmar Árnason, formaður þingflokksins, sem skipaði 2. sætið. Í 3. sæti var síðast Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri á Flúðum. Talið er að allir hyggist þeir leita eftir endurkjöri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband