25.2.2007 | 18:05
VG - ennþá í villta vinstrinu
VG talar tæpitungulaust um róttæka andstöðu við allar virkjanir, talar tæpitungulaust um lögfestingu kynjakvóta, tæpitungulaust um netlögreglu, en í óútfærðu og óútskýranlegu máli um skatta- og efnahagsmál. Ég spyr eins og Staksteinar mundi gera: hvers vegna skyldi það vera?
Áherslur VG eftir flokksþingið finnast mér ekki benda til þess að flokkurinn ætli að sækja langt inn á miðjuna eftir nýjum kjósendum. Hversu mikil stemmning er í þjóðfélaginu fyrir lögfestingu jafns kynjahlutfalls í stjórnum fyrirtækja, netlögreglu til að stöðva klámdreifingu og óljósum og óútfærðum hugmyndum í skattamálum, sem eru annað hvort ávísun á skattahækkanir eða snakk sem ekki er ætlunin að framkvæma? Ég held að VG sé ennþá langt vinstra megin við Jóhönnu og Mörð, að ekki sé talað um obbann af þeim rúmu 30% sem enn eru óákveðin í skoðanakönnunum.
Steingrímur talaði í Silfri Egils í dag um að hann vildi ekki skattahækkanir heldur tilfærslur, talaði um það í gamalkunnum frösum án nánari útfærslu. Hann talaði um að 4-5% hækkun fjármagnstekjuskatts á móti 120.000 frítekjumarki. Nú skilar fjármagnstekjuskattur um 20 milljörðum í ríkissjóð, ef ég veit rétt, sem þýðir að 5% hækkun mundi skila 10 milljörðum til viðbótar, að þeirri hæpnu forsendu gefinni að enginn flótti brysti á fjármagnið við þessa breytingu.
En hvað kostar það, Steingrímur, að veita 120.000 frítekjumark af fjármagnstekjum, þ.e. hver stór hluti þessara 20 milljarða sem ríkið fær af fjármagnstekjum í dag er af fjármagnstekjum undir þessu frítekjumarki? Það er bara ekki hægt að taka svona skattaumræðu, eins og Steingrímur býður upp á alvarlega, það þarf að reikna þetta út og sem betur fer dettur engum stjórnmálaforingja nema honum í hug að leggja fram svona hugmyndir án útreikninga.
Meira að segja Guðjón Arnar kastaði tölu á hugmyndir sínar fyrir síðustu kosningar þótt þær væru ómarktækar af því að hann þekkti ekki muninn á persónuafslætti og skattleysismörkum.
Steingrímur ræddi um hátekjuskatt sem miða ætti við milljón til tólfhundruð þúsund króna mánaðartekjur hjá fjölskyldu, án þess að geta nokkuð um hvað ríkið hefði mikið í dag í tekjuskatt af hjónum með yfir milljón á mánuði, hann nefndi ekki heldur hvað hann ætlaði hátt með prósentuna og hvað það ætti að gefa í ríkissjóð. Ég held að þetta séu óverulegar fjárhæðir í dag og að hann gæti þurft að fara um eða yfir 50% til þess að geta talið það sem þessi hátekjuskattur gefur af sér í einhverjum fjárhæðum.
Meðan Steingrímur er svona ónákvæmur er ekki hægt að taka hann alvarlega þegar hann segir að hann telji heildartekjuöflunarstig ríkis og sveitarfélaga duga til þess að standa undir þeirri samneyslu sem hann vill stefna að, sérstaklega ekki þegar hann boðaði að auki að hann væri tilbúinn að taka á ríkissjóð bótaskyldu gagnvart stóriðjufyrirtækjum og orkufyrirtækjum í því formi að kaupa af þeim undirbúningsvinnu sem þau hefðu lagt í vegna stóriðjuframkvæmda. Að ógleymdum öllum öðrum útgjaldatillögum þessa landsfundar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:46 | Facebook
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 27
- Frá upphafi: 536808
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég get fullvissað þig um það, Pétur minn, að það hefur enginn áhuga á að fylgjast með því sem þú ert að skoða á Netinu, allra síst Steingrímur. Enda væri slíkt óframkvæmanlegt og það vita allir. Hins vegar hafa verið settar upp klámsíur í sumum skólum landsins og það er sjálfsagt að efla slíkt eftirlit. Um það eru stjórnmálamenn í öllum flokkum sammála. Og þú getur sjálfsagt fengið nánari útfærslu á þessum tillögum hjá Steingrími og birt þær hér, ef þú hefur áhuga á því. Mér líst hins vegar mjög vel á að skattar lágtekjufólks verði lækkaðir með því að hækka skatta hátekjufólks. Þeir rétti upp hönd sem eru á móti því.
Steini Briem (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 19:00
Góður pistill hjá þér Pétur. Gríman hefur loks fallið af VG; hér er á ferðinni argasti forræðisflokkur sem hugsast getur; þau ætla að hafa vit fyrir fyrirtækjunum og innleiða ritskoðun að hætti Kínverja. Ég spái því að þeir verði komnir niður í gamla grunnfylgi komma á Íslandi innan tíðar. <10%
Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 22:50
Já, Kínverjarnir eru byrjaðir að ritskoða Moggann og nú er hann ekki lengur blár, heldur grænn! Og ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að nafnið á tímaritinu Bleikt og blátt verði Bleikt og grænt og Blái hnötturinn verði Græni hnötturinn! Það er best að koma sér í háttinn áður en hryllingsmyndirnar byrja í Sjónvarpinu og hræða ekki sjálfan sig of mikið, börnin mín stór og smá.
Steini Briem (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 23:24
Ótrúlegt bull hjá Steingrími J. Ætla landsmenn að kjósa þessa vitleysu yfir sig til þess að stjórna landinu? Hvað næst?
klakinn (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 01:15
VG hafa enga stefnu í efnahagsmálum, hugmyndir þeirra þar að lútandi er mjög óútskýrðar. Skattatilfærslur segja þeir, en sannleikurinn er sá að allar breytingar vinstrimanna á skattakerfinu leiða ævinlega til þess að fólk með meðaltekjur (þ.e. fólk sem þarf að gefa upp allar sínar tekjur, t.d. fólk sem vinnur hjá hinu opinbera) fær mestu skattbyrðina. Þetta er fólk sem vinnur hörðum höndum og er með svona 250 - 450. þús á mánuði. Þessi hópur kemur til með að borga brúsann af skattastefnu vinstrimanna og hér erum við að tala um bróðurpartinn af launafólki.
Endurbætur í velferðarmálum þýða einfaldlega að mikil aukning verður í allskonar opinberri stjórnsýslu sem á að framkvæma þetta og í það færi líka bróðurparturinn af því fjármagni sem veitt yrði í þetta, en ekki til þeirra sem eiga að njóta þjónustunarinnar.
VG talar um eflingu starfa á landsbyggðinni, en hvaða það er og hvernig vita þeir ekki.
Svo er það nú svo að þegar VG kæmust í stjórn væri hugsjónavíman fljót að fara af þeim!
Örn Jónasson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 09:49
Já, örninn flýgur fugla hæst og ef hann heldur að 250-450 þúsund krónur á mánuði séu hér meðaltekjur er eins gott að hann vinni ekki við að lána fólki peninga. Vinnur lágtekjufólk ekki hér hörðum höndum og gefur það ekki upp allar sínar tekjur, bara fólk með meðaltekjur? Í upplýsingum Hagstofu Íslands um meðaltekjur eftir aldri og hjúskaparstöðu, sem unnar eru upp úr framtöldum tekjum einstaklinga, kemur fram að á árinu 2004 voru heildaratvinnutekjur hjóna og sambúðarfólks tæpar 5,9 milljónir króna og árstekjur einstaklinga tæpar 1,9 milljónir króna. Uppfært miðað við meðaltal launavísitölu milli áranna 2004 og 2005 má áætla að meðaltekjur hjóna og sambúðarfólks séu tæpar 6,3 milljónir króna, eða um 524 þúsund krónur á mánuði, 262 þúsund krónur á mann, og að einstaklingar hafi miðað við sömu uppfærslu tæplega 2 milljónir króna í árstekjur, eða um 165 þúsund krónur á mánuði. Þar verður þó að hafa í huga að um getur verið að ræða að framteljandi sé í námi eða hlutastarfi. Tekjulausum framteljendum er sleppt í þessum útreikningum Hagstofunnar. Athyglisvert er einnig að samkvæmt skattframtölum miðað við tekjur 2005 voru ríflega 16 þúsund framteljendur í hópi einstaklinga 25 ára og eldri með mánaðartekjur undir 130 þúsund krónum og 6.857 hjón með samanlagðar tekjur undir 260 þúsund krónum á mánuði.
Það þarf ekki að reisa hér stórvirkjanir og leggja raflínur út og suður um allar koppagrundir til að skapa störf fyrir Kínverja. Þeir hafa nógan starfa við slíka iðju í sínu heimalandi. Stóriðja er ekki svarið. Stærðin skiptir ekki máli og margt smátt gerir eitt stórt.
Steini Briem (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 12:18
"Það þarf ekki að reisa hér stórvirkjanir og leggja raflínur út og suður um allar koppagrundir til að skapa störf fyrir Kínverja. Þeir hafa nógan starfa við slíka iðju í sínu heimalandi. Stóriðja er ekki svarið. Stærðin skiptir ekki máli og margt smátt gerir eitt stórt."
Óskráður (Steini Briem), 26.2.2007 kl. 12:18
En hvað með vinnu handa ómenntuðum Íslendingum sem vilja komast í hóp fólks með yfir 250 þúsunda á mánuði eins og starfsmenn ALCAN eru með. Má ekki reisa vinnustað fyrir það fólk.
Jón Gestur Guðmundsson, 26.2.2007 kl. 13:00
Sæll Pétur.
Hér hefurðu gleymt að lesa heima:
http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=132&mnr=31
Spyr um leið:
Nennirðu að rifja upp fyrir mér hvenær framsókn sagði frá því að 90% lánin myndu fyrst og fremst skila sér í hærra húsnæðisverði þegar upp væri staðið og því hefði eins mátt moka kostnaðinum við kerfið út um gluggan?
Gestur Svavarsson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 15:00
framsókn ætlaði, gestur, að veita lán upp á 90% af verði íbúðar af hóflegri stærð og var talað um að fara í lánin í áföngum fyrst í 12 og á endanum í um 16 milljónir ef ég man rétt, það átti að miða við markaðsverð 4ra herb íbúðar. Þú manst ekki rétt, félagi, því að það voru bankarnir sem komu á þennan markað þar sem þeir höfðu ekki verið áður og fóru að lána án hámarksfjárhæða, held að það hafi reyndar aðeins verið tímaspursmál hvenær þeir færu þangað en ég hvet þig til að lesa betur heima, skil hins vegar að 4ra ára saga geti orðið óljós í minningunni sérstaklega eins og spunadoktorar stjórnarandstöðunnar hafa djöflast í þessu máli og afflutt út og suður.
Pétur Gunnarsson, 26.2.2007 kl. 15:20
Sæll Steini Briem
Ég hef aldrei borið á móti því að lágtekjufólk vinnur hér hörðum höndum og á skilið skattulækkanir. Ég þurfti bara ekki taka það fram, því allir (allir sem eru skynsamir) eiga að vita þetta.
Og Steini, hvað hefur þú á móti Kínverjum (og öðru erlendu verkafólki? Ertu rasisti eða hvað? Og hver er kominn til að segja að það verði bara útlendingar sem komi til með að starfa í álverum hér á landi! Og ef svo er, þá eru útlendingar velkomnir hinga til starfa ef þörf er fyrir þá.
Það er bara þannig að fólk á meðaltekjum þarf alltaf að borga brúsann af skattabreytingum sem miða að því að jafna byrði þeirra sem hafa lægstar tekjur. Ég veit þetta þar sem að ég bjó í 11 ár í Skandinavísku velferðarlandi með Sócíaldemókratískri velferðarsjónarmiði, og þar var þetta svona. Þeir sem voru með meðaltekjur, bára hlutfallslega þyngstu skattbyrði þegar allt var tekið með í reikninginn. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að svona yrði þetta hér á landi, komist vinstristjórn til valda - (sem ég vona að verði ekki, annars flý ég land sem pólitískur flóttamaður!).
Vinstrimenn eru vonlausir þegar kemur að efnahagsmálum. Það að fara að hleypa þessu fólki í stjórn er glapræði. Íslendingar hafa aldrei haft það svo gott eins og undanfarin 11-12 ár. Til hvers að skipta um stjórn þegar efnahagsmálin eru svona góð?? - Næg atvinna, smávægileg tímabundin verðbólga vegna neyslufyllerís fólks, góð staða ríkissfjármála og miklar framfarir á öllum sviðum.
Vinstri stjórn mun ekki geta skapað eitt einasta starf úti á landi, því mun fólks- og atgervisflótti bresta á og landið verður lagskipt, ríkt og þróað Höfuðborgarsvæði vs. fátæk og vanþróuð landsbyggð. VG hafa lofað að stöðva stóriðjuframkvæmdir og það mun bitna harðast á landsbyggðinni. Hvað ætla VG að koma með í staðinn?? SVARIÐ NÚ VINSTRA FÓLK!
Ekki verður það hátækniiðnaður því nýjasta dæmið sýnir t.d. Marel sem er á förum frá Ísafirði, en einnig hefur Síminn dregið verulega úr starfsemi útí á landi. Ég get heldur ekki ímyndað mér að t.d. Actavis, Össur eða önnur hátæknifyrirtæki hafi áhuga á að setja upp starfsemi úti á landi.
Stóriðja er ekki neitt neikvætt fyrirbæri. Þær eru atvinnutækifæri eins og allt annað.
Örn Jónasson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 16:16
Há laun eru ekki aðalatriðið fyrir alla, Jón Gestur, en ómenntuðu fólki ráðlegg ég að mennta sig, til dæmis í iðnskólum, tækniskólum og háskólum, bæði hérlendis og erlendis. Þú ættir ekki að spyrja hvað þjóðin geti gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir sjálfan þig og þjóðina. Ég bjó í Rússlandi um tíma og þar skilur fólk gildi menntunar. En það reiðir sig ennþá á sterkan foringja, hefur aldrei þekkt annað. Nógu mikill er nú þungaiðnaðurinn þar fyrir austan fjall en skynsamir menn í Garðaríki veðja á menntun, verslun og smáiðnað. Og ekki fann ég kommúnista í austurvegi, enda þótt ég leitaði þar dyrum og dyngjum að slíkum persónum. Þeir voru allir gufaðir upp, hafi þeir nokkurn tíma verið til, sem er mér til efs. Ég spurði hvern og einn sem ég fyrirhitti: "Hafið þér verið kommúnisti, vinstri eða hægri grænn, sósíaldemókrat, Sjálfstæðismaður eða jafnvel Framsóknarmaður?" Nei, þeir könnuðust ekki við neitt af framantöldu. En ef ég sagði brandara um Pútin var ég litinn hornauga af öllum, jafnt háskólaprófessorum sem Tatjönu skúringakonu. Ég hætti því fljótlega þessum gamanmálum til að verða ekki persona non grata í gjörvöllu heimsveldinu Rússíá, þveru og endilöngu, eins og hver annar klámhundur á ísa köldu landi. Þetta atriði hafa Klakverjar apað upp eftir þessum austlæga þjóðflokki. "Hann er svo mikill foringi!" Alveg eins og sagt var um konur að þær væru svo miklar húsmæður og barnið "mikið rassgat". (Má skrifa svona á Netinu?) En ég segi eins og þeir þar austurfrá að ég hef aldrei verið í einhverjum flokki og áskil mér rétt til að kjósa hvaða flokk sem er. Mér er slétt sama hvaðan gott kemur.
Það er búist við um einni milljón ferðamanna til landsins eftir nokkur ár. Það þarf tugi þúsunda manna til að sinna þeim og þeir koma nú hingað allan ársins hring. Byggja þarf fjölmörg hótel um allt land til að sinna þessum ferðamönnum og þeir þurfa á alls kyns þjónustu að halda, til dæmis mat og drykk, flutningi á milli staða og ýmissi skemmtan. Íslenskir leikarar hafa flutt verk erlendis og að sjálfsögðu er hægt að sýna útlendu fólki leikverk hér, til dæmis á tungu Engla, og alls kyns erlendingar hafa komið hingað á tónleika. Þeir eru líka tíðir gestir hér í bókabúðum, enda þótt Bjarna Harðar hafi ekki ennþá tekist að pranga inn á þá Ævisögu Eldeyjar-Hjalta. Hins vegar skilst mér að þetta sé eina bókin sem Bjarni hefur til sölu, enda titlar hann sig sem bóksala en ekki bókasala. En eitthvað verður Bjarni að hafa fyrir stafni þegar hann er búinn að selja bókina, því ekki kemst hann inn á þing.
Hvers vegna ekki að stofna nýjan banka eða sparisjóð sjálf, í staðinn fyrir að biðja erlenda banka um að stofna útibú hér? Það eru um 75 þúsund fjölskyldur í landinu og ef hver þeirra leggur eina milljón í púkkið, 250 þúsund krónur á mann, eru komnir 75 milljarðar í stofnfé. Ef við lánum fólki peninga á lægri vöxtum en aðrir bankar og sparisjóðir værum við ekki í vandræðum með útlánin en hvað með innlánsvextina? Þeir þyrftu að vera jafnháir eða hærri en innlánsvextir hjá öðrum til að fólk og fyrirtæki leggi inn hjá okkur. Vaxtamunurinn yrði því minni hjá okkur en við þurfum að nota hann til að reka bankann okkar, greiða til dæmis laun, skatta og húsnæðiskostnað. Ef þið haldið að þetta geti gengið skal ég leggja í púkkið.
Fólk tapaði milljörðum hér áður fyrr á því að eiga pening í banka og fáir voru svo vitlausir að gera það, aðrir en börn og gamalmenni. Græddur er geymdur eyrir, sagði gamla fólkið, en það var nú aldeilis ekki raunin. Fólk verður að læra að leggja fyrir til að eignast eitthvað, sérstaklega ungt fólk, í staðinn fyrir að kaupa til dæmis nýjan bíl 17 ára gamalt og borga hann upp á 7 árum fyrir verð tveggja nýrra bíla. Þegar bankarnir hér byrjuðu að bjóða 90% og upp í 100% húsnæðislán rauk fjöldi fólks til og keypti sér nýtt eða stærra húsnæði. Og með stóraukinni eftirspurn rauk verð á húsnæði upp úr öllu valdi. En var fólk skyldugt til að kaupa sér stærra húsnæði og taka lán fyrir því? Hvað með að leggja fyrir, fyrst innlánsvextirnir eru svona háir? Hversu mikið hefur verið byggt á Ísafirði og Akureyri síðastliðna þrjá áratugi og hversu mikið hefur Ísfirðingum og Akureyringum fjölgað á þessum tíma? Hversu mörg hús voru fyrir utan Glerá fyrir 30 árum og hversu marga fermetra þarf hver og einn undir rassinn á sér? Enda þótt Seðlabankinn hækki stýrivextina upp úr öllu valdi tekur fólk samt endalaus neyslulán og margir eru með milljón króna yfirdrátt, sem kostar yfir 200 þúsund krónur á ári, til að fjármagna til dæmis utanlandsferðir, sem er nú varla skynsamlegt. Betra að leggja fyrir og þegar innlánsvextirnir eru háir tekur skemmri tíma að eiga nógan pening fyrir nýja bílnum og utanlandsferðinni.
Það þarf mikinn mannskap til að leggja Sundabrautina og tvöfalda þjóðveginn á milli Selfoss og Akureyrar á næstu árum. Einnig í jarðgangagerð, til dæmis undir Vaðlaheiðina. Nítján milljarðar fara í sauðfjárræktina á næstu árum en árstekjur sauðfjárbænda hafa verið um 800 þúsund krónur, þannig að þeir þurfa einnig að vinna við annað en sauðfjárrækt. Eru bændur almennt hrifnir af stóriðju og raflínum út og suður í sínu byggðarlagi? Ég held ekki. Bæjarstjórar Hveragerðis, Ölfuss og Árborgar hafa nú fengið svar við erindi sem þeir sendu Vegagerðinni fyrir skömmu, þar sem óskað var eftir skýringum á misvísandi tölum varðandi ætlaðan kostnað við tvöföldun vegarins á milli Selfoss og Reykjavíkur. Vegagerðin áætlar nú að framkvæmdin myndi kosta 13,5 milljarða, eða 5,5 milljörðum minna en fer í vegarollurnar á næstu árum.
Ég læt hér staðar numið að sinni til að skrifa ekki út fyrir Netið. Góðar stundir og gangið þið á Guðs vegum með bundnu slitlagi, eins og Sturla samgönguráðherra sagði um daginn.
Steini Briem (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 16:38
þetta kosningavesen gerir mig bara ringlaða ... ég sem hafði svo mikið álit á VG veit ekkert í minn haus núna... ætli ég skili ekki bara auðu?!?
Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 17:17
Sæll aftur, Örn. Það er til dæmis svart fólk frá Afríku og hvítt fólk frá Rússlandi í minni fjölskyldu og ég hef líka búið í Svíþjóð. Líka átt kærustur úr öllum heimshornum. Það er nú ekki langt síðan blámenn sáust fyrst norðan heiða og þegar tengdamóðir mín fyrrverandi á Húsavík sá fyrst einn slíkan á sínu heimili var stóra spurningin í hennar huga: "Borða svertingjar pönnukökur?"
Ég sagði hér fyrr í þessari umræðu að búist er við um einni milljón ferðamanna til landsins eftir nokkur ár. Það þarf tugi þúsunda manna til að sinna þeim og þeir koma nú hingað allan ársins hring. Byggja þarf fjölmörg hótel um allt land til að sinna þessum ferðamönnum og þeir þurfa á alls kyns þjónustu að halda, til dæmis mat og drykk, transportasjónum á milli staða og ýmissi skemmtan. Erlendir ferðamenn hafa hins vegar ekki áhuga á að koma hingað til að sjá stóriðjuver, stórvirkjanir og raflínur út og suður. Það er nóg af slíku í þeirra heimabyggð. Við verðum því að velja á milli stóriðju og erlendra ferðamanna. Ég vel síðari kostinn. Þúsundir útlendinga vinna hér nú þegar og ég hef ekki trú á að nokkur breyting verði á því. Verið er að byggja stórt menningarhús í Reykjavík og þar verður einnig reist hátæknisjúkrahús á næstunni.
Það þarf einnig mikinn mannskap til að leggja Sundabrautina og tvöfalda þjóðveginn á milli Selfoss og Akureyrar á næstu árum. Einnig í jarðgangagerð, til dæmis undir Vaðlaheiðina. Við flytjum út fleira en ál, til dæmis sjávarafurðir, tónlist, bókmenntir, hugbúnað, breytta bíla, jarðhitaþekkingu, lyf og bankastarfsemi. Það er fleira matur en feitt ket.
Steini Briem (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 16:16
Og ef það er eitthvert atriði fyrir þig, Örn minn, hef ég búið á landsbyggðinni, bæði í sveit og við sjávarsíðuna. Bjó á fjár- og kúabúi í Svarfaðardalshreppi (nú Dalvíkurbyggð), á Akureyri, í Grindavík og Hnífsdal. Hef unnið sem almennur verkamaður, í saltfiskverkun, frystihúsi og rækjuverksmiðju. Verið á togara, línu- og netabátum. Auk þess skrifaði ég aðallega um sjávarútveg á Morgunblaðinu í nokkur ár og mér þykir ákaflega vænt um landsbyggðina og fólkið sem þar býr.
Steini Briem (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 16:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.