hux

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 11. febrúar 2007:

Eftir stendur hitt að auðlindagjaldið hefur verið samþykkt í grundvallaratriðum. Nú blasa við tvenns konar verkefni á þessum vígstöðvum. Í fyrsta lagi að knýja fram efndir á gefnum loforðum núverandi stjórnarflokka um að ákvæði verði tekið upp í stjórnarskár um sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum. Eins og nú horfir eru stjórnarflokkarnir að svíkja þetta loforð. Hvers vegna? Hvaða öfl eru þar að verki? Eru það þau öfl innan Sjálfstæðisflokksins, sem eru staðráðin í að ná fram einkaeignarrétti á fiskimiðunum? Þennan draugagang verður að stöðva.

Samhljóða leiðara frá 20. janúar. Er ekki hægt að treysta á að ritstjóri Morgunblaðsins haldi áfram stuðningi við Framsóknarflokkinn í þessu máli? Verður Sjálfstæðisflokkurinn skammaður í leiðara Mbl. á morgun? Þegar stórt er spurt...


Össur hefur einfaldan smekk

Ég hef heyrt menn undra sig á því í dag að Össur Skarphéðinsson skuli spinna þráð Sjálfstæðisflokksins í deilum stjórnarflokkanna um stjórnarskrárákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar eins og kveðið er á um í sáttmála ríkisstjórnarinnar.  Össur gangi fram eins og húskarl Sjálfstæðisflokksins og er vísað til greinar hans í dag á leiðaraopnu Fréttablaðsins, sem er ritstýrt af Þorsteini Pálssyni. Þorsteinn leiddi einmitt andstöðu gegn auðlindaákvæði í starfi stjórnarskrárnefndar. Sú andstaða leiddi til þess að sú sjálfsagða leið var valin af hálfu framsóknar  að knýja á um niðurstöðu á grundvelli stjórnarsáttmálans og auðlindanefndar fremur en á byggja á starfi stjórnarskrárnefndar.

Ég segi við félaga mína að ég sé ekki undrandi, þetta sé nákvæmlega það sem ég hefði átt von á. Við alla túlkun á texta Össurar hef ég í huga að hans meginmarkmið í pólitík eru þessi: 1. að hann komist í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili og 2. að sú ríkisstjórn lúti ekki forsæti Ingibjargar Sólrúnar svilkonu hans, sem lagði hann í formannskjörinu um árið.

Hvað stuðlar best að markmiðum Össurar? Auðvitað það að Samfylkingin myndi tveggja flokka ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þá er sjálfgefið að Geir H. Haarde verði forsætisráðherra en Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra.  Þar með verður hún farþegi í annarri hverri flugvél og sést varla á landinu. Þetta held ég að sé hinn voti draumur Össurar Skarphéðinssonar um næsta kjörtímabil. Minni svo á fyrstu viðbrögð Össurar við skipun stjórnarskrárnefndar. Þau sýna að hann hafði aldrei áhuga á að sjá málinu lokið. Sjá hér.

ps. Hvar var formaður Samfylkingarinnar á blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar í dag? Þar voru formaður VG og formaður Frjálslyndra en hvorki formaður né varaformaður Samfylkingarinnar heldur aðeins þingflokksformaðurinn, Össur. 


Orð í tíma töluð

Leiðari Morgunblaðsins um stjórnarskrárákvæði um sameign á auðlindum sjávar, 20. janúar 2007

Það skiptir miklu máli að þessi tillaga komi fram nú. Enn eru á ferðinni menn í þessu samfélagi, sem gera sér hugmyndir um að þeir geti komið því fram, að fiskimiðin verði gerð að einkaeign útgerðarmanna. Þess vegna skiptir máli, að ákvæðið um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar verði tekið upp í stjórnarskrá. Með því móti einu er hægt að koma endanlega í veg fyrir allar tilraunir til þess að fámennur hópur manna sölsi undir sig þessa miklu eign íslenzku þjóðarinnar, sem á að vera sameign hennar um aldur og ævi.

Er ekki hægt að treysta því að ritstjóri Morgunblaðsins haldi áfram stuðningi sínum við Framsóknarflokkinn í þessu máli? Verður Sjálstæðisflokkurinn skammaður í leiðara Mbl. á morgun? Þegar stórt er spurt....


Forræðishyggja og brjóstvit

Umræður í Silfrinu í gær hafa vakið mikla athygli hér í bloggheimi sérstaklega málflutningur Sóleyjar Tómasdóttur, ritara VG, um klám. Hún er á móti því að fólkið sem á að fylgja lögunum í landinu hafi skoðanir á þeim með brjóstvitið eintómt að vopni. Vill að kynjafræðingar og lögfræðingar skilgreini lagaákvæðin sameiginlega án afskipta frá þeim sem eiga að búa við lagasetninguna.

Vil vekja á  tveimur færslum um þetta.

Bloggarinn Hafrún Kristjánsdóttir tók sig til og skrifaði býsna magnaðan pistil þar sem hún tætir í sig málflutning Sóleyjar um klámið og netlöggurnar: Segir m.a.:

Ef við ætlum að banna allar síður með klámi því það er bannað á Íslandi þá þyrftum við að gera ansi margt líka.  Þá þyrftum við t.d. að banna allar síður sem væru með bjórauglýsingum, við þyrftum að banna allar síður þar sem heilbrigðisstarfsfólk auglýsir þjónustu sína.  Við þyrftum sennilega að hætta að sýna frá enska boltanum og öðrum íþróttaviðburðum.  Ekki mætti selja Liverpool treyjur hér á landi og svo lengi mætti telja.  Er þetta það sem Sóley vill?

Er það furða þótt að fjölmargar stelpur á aldri við mig og kalla sig jafnréttissinna vilja ekki tengja sig við feminista á Íslandi.  Alhæfingarnar og forræðishyggjan er slík að maður getur bara ekki með góðu móti gengið í lið með þessum konum, jafnvel þótt að jafnrétti sé eitthvað sem maður vill ná fram. 

Bloggarinn Eiður Svanberg Guðnason, sendiherra, segir í athugasemdum hjá Sóleyju um þann málflutning hennar að hneykslast á því að fólkið sem á að fylgja lögunum sem hún vill setja vilji hafa skoðanir á þeim:

Hélt  satt að segja að ég ætti ekki eftir að lesa  um aðra eins forræðishyggju á netinu.  Nú  vantar illa netlöggu, ef brjóstvit á að fara  vaða uppi í netheimum og  mannheimum.


Næst samkomulag um auglýsingar?

Það verður athyglisvert að sjá hvað kemur út úr samningaviðræðum milli flokkanna um takmarkanir á auglýsingum í kosningabaráttunni. Samfylkingin er komin fram með sína auglýsingaherferð nú þegar er framkvæmdastjórar flokkanna eru að reyna að ná samkomulagi um einhvers konar takmarkanir.

Lúddítarnir í VG vilja auðvitað bara banna sjónvarpsauglýsingar, það er þeirra besta hugmynd, víðtækt bann við nútímalegum vinnubrögðum en aðrir eru að ræða um takmarkanir á umfangi og að afmarka tímabil þar sem ekki er auglýst. Hugmyndin um  bann við sjónvarpsauglýsingum er sóunarhugmynd, og felur í sér bann við því að nýta það fé sem til ráðstöfunar með besta mögulega hætti. Sjónvarpsauglýsingar eru dýrar í framleiðslu en ná til stærri hóps og því er það verðið við að tala við hvern einstakling hagstæðara en með hinum fáránlega dýru auglýsingum í prentmiðlum hér á landi.


Sigríður Anna vill sendiherrastöðu

Sjálfstæðisflokkurinn hefur undanfarið sótt hart að Valgerður Sverrisdóttir skipi Sigríði Önnu Þórðardóttur, sem lætur af þingmennsku í vor, í embætti sendiherra í utanríkisþjónustunni. Valgerður verst af krafti og neitar að verða við óskum samstarfsflokksins um þennan bitling.

Valgerður varðist líka af og lét sig ekki þegar Hjálmar Árnason reyndi að komast að í utanríkisþjónustunni áður en hann ákvað að taka prófkjörsslaginn gegn Guðna Ágústssyni. Hjálmar verður að finna sér annað starf eftir að þingferli hans lýkur. Sendiherrum hefur ekki fjölgað í tíð Valgerðar eftir þá sprengingu í starfsliði utanríkisþjónustunnar  sem varð í tíð Davíðs Oddssonar. Nýjasta tilfærslan í utanríkisþjónustunni varð þegar Eiður Guðnason sendiherra var gerður aðalræðismaður í Færeyjum, þar var sendiskrifstofum Íslands erlendis fjölgað um eina án þess að fjölgað væri í starfsliðinu.


Silfur dagsins

Silfur Egils í dag fannst mér frábært. Ég tek undir það að í viðtalinu við Egil hafi Jón Sigurðsson stigið fram á sviðið sem fullskapaður stjórnmálaleiðtogi. Flokksþingið um helgina var honum gríðarlegur styrkur og veitir honum sterkt umboð í störfunum framundan. Ánægjulegt fyrir okkur flokksmenn að sjá hve ört Jón vex í þessu hlutverki og það er enginn vafi á að allur flokkurinn stendur þétt að baki honum.

Ekki síður fannst mér merkilegt að fylgjast með umræðum á vettvangi dagsins, vitaskuld var stóra fréttin  tilraun Sigurðar Kára til þess að sprengja Sjálfstæðisflokkinn út úr svikum í auðlindamálum með því að beina púðurskoti að Siv en það sem situr eftir í mínum huga er hversu sterkum litum Sóley Tómasdóttir, nýr ritari flokksins málaði afstöðu sína til "klámvæðingarinnar". Tilraunir Steingríms J. til að draga í land yfirlýsingar sínar um klám og netlöggur urðu að engu við málflutning Sóleyjar, sem var - pent sagt-  mjög eindreginn.

Síðan flutti Egill frábæran leiðara um einmitt netið og netlöggurnar. Kíkið á þáttinn ef þið misstuð af honum.


Orð dagsins

Björn Bjarnason í síðasta pistli

Í mínum huga er tiltölulega auðvelt að átta sig á því, hvers vegna virðing alþingis minnkar. Það er ekki endilega vegna þess, að ræður séu langar, heldur vegna þess að í löngum ræðum er í raun ekki sagt neitt sem máli skiptir. Bragurinn á þinghaldinu er einnig þannig vegna framgöngu þingmanna sjálfra og þess sem þykir fréttnæmast af störfum þeirra, að ekki er til þess fallið að vekja virðingu meðal þeirra, sem utan standa. Ef menn sýna ekki hver öðrum virðingu, eða eigin vinnustað virðingu, hvernig er þá unnt að vænta þess, að aðrir beri virðingu fyrir þessum stað?


Þjóðlendur verði endurskoðaðar

Harðorð ályktun um þjóðlendur liggur fyrir flokksþingi framsóknar. Þar segir:

  • Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn fresti frekari framgangi þjóðlendumála á Íslandi og taki lög um þjóðlendur til endurskoðunar.
  • Með frestun er átt við að ekki verði lýst kröfum í ný svæði.
  • Fjármálaráðuneyti og kröfunefnd þess endurskoði kröfugerð sína þar sem mál standa yfir og leiti þar sem fyrst sátta við jarðeigendur.
  • Þá leggja Framsóknarmenn áherslu á að ríkisvaldið uni úrskurðum Óbyggðanefndar enda nefndin skipuð af ríkisstjórn landsins.

Flokksþingið leggur áherslu á að forysta flokksins tryggi máli þessu þinglega meðferð fyrir þinglausnir.


Hvað með samráð banka og verðbréfafyrirtækja?

Í tilefni af því að Samkeppniseftirlitið réðist í gær til atlögu gegn samráði fyrirtækja í ferðaþjónustu langar mig að koma á framfæri við stofnunina þeim upplýsingum að hér í landinu er starfandi félagsskapur sem heitir Samráð banka og verðbréfafyrirtækja, ef ég man rétt, sem hefur það að markmiði að samræma aðgerðir bankanna gegn neytendum.

Minni svo á þessi ódauðlegu orð Adam Smith:

People of the same trade seldom meet together, even for merriment and diversion, but the conversation ends in a conspiracy against the public, or in some contrivance to raise prices. It is im-possible indeed to prevent such meetings, by any law which either could be executed, or would be consistent with liberty and jus-tice. But though the law cannot hinder people of the same trade from sometimes assembling together, it ought to do nothing to facilitate such assemblies; much less to render them necessary.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband