hux

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þetta er svona

Fréttablaðið og Blaðið á laugardag og Mogginn í dag hafa sagt frá því að við Andrés Jónsson séum að skoða möguleika á að setja á fót nýjan miðil til að auðga flóruna á netinu. Þetta er svona, gengur vel, skýrist vonandi bráðum.

Við Andrés höfum þekkst í nokkur ár og uppgötvuðum í vetur sl. að við vorum báðir búnir að vera með svona áform á prjónunum. Þá var ég farinn að ræða um þetta við Jón Garðar félaga minn sem er þrautreyndur og farsæll í viðskiptalífinu. Við Andrés sýndum hvor öðrum á spilin í vor og ákváðum að kanna framhaldið saman með Jóni. Það lítur ágætlega út, kosturinn við netið er sá að það þarf ekki að stofna neitt Group utan um svona rekstur. Þetta er núna á ágætu róli á hönnunarstigi en það er ýmislegt ófrágengið enn.


Engin gúrka

Það er allt á fullu í pólitíkinni miðað við það sem maður les í Mogganum. Þar eru innri mál nýrrar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde efst á blaði. Einhvern tímann hefði maður látið segja sér það tvisvar, tvisvar að Mogginn héldi uppi fjörinu og færi fremstur í flokki þeirra sem eru að leita að fleygum til þess að reka inn í stjórnarliðið svona á miðjum hveitibrauðsdögunum. En lesið bara Moggann í dag.

Um helgina var Mogginn með viðtal við Svandísi Svavarsdóttur þar sem hún kom sökinni af því að hafa spillt Reykjavíkurlistanum af VG og yfir á Samfylkinguna.  Það var framboð Ingibjargar Sólrúnar til þings og flótti hennar úr Ráðhúsinu sem gekk af R-listanum dauðum og ábyrgðin er Samfylkingarinnar, segir Svandís. Staksteinar taka boltann á lofti og kasta honum í höfuð Össurar, hann hafi plottað Ingibjörgu út úr Ráðhúsinu til að veikja hana. 

Og svo eru hvalveiðarnar, Mogginn er að leiða það mál, Þórunn Sveinbjarnardóttir lýsti harðri andstöðu við hvalveiðar í viðtali við blaðið um helgina og það verður tilefni leiðara þar sem Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra er bent á að hann sé kominn í nýja ríkisstjórn og þurfi að hætta því að eltast við þessar níu langreyðar, hann geti ekki lengur treyst á að hann styðjist við meirihluta þingsins í því ævintýri. 

Þannig að pólitíska gúrkan er langt í frá byrjuð og Mogginn er í stuði enda eru þar reyndir menn í að hanna atburðarásir sem gefa af sér fréttir og leiðara, eins og viðtölin við Svandísi og Þórunni eru til marks um. 


Fagra Ísland

Þennan sunnudagsmorgun lítur miðborg Reykjavíkur út eins og óeirðir hafi átt sér stað í Bankastræti sl. nótt. Að vísu sé ég ekki betur en rúður séu allar heilar en samt er gangstéttin þakin glerbrotum. Líklega voru þau glerbrot einu sinni bjórglös og vínglös, ætli þetta séu áhrif reykingabannsins? Gestir veitingahúsanna tolla síður innandyra og þar eru engin borð til að leggja frá sér glösin, þá eru þau bara látin falla, eða sett til hliðar og svo stígur einhver ofan á þau. 

Það voru fáir á ferli hér í morgun helst túristar, rónar, einstaka ungir foreldrar með barnavagn og svo við nokkrir félagarnir.  Túristarnir eru ekki að anda að sér hreina loftinu eða horfa á Esjuna, þeir fara  varlega, horfa forviða á ummerki næturinnar og reyna að varast að stíga á glerbrot. Maður sér á þeim að þeir eru að velta því fyrir sér hvað hafi hér verið á seyði? Þeir komu hingað til að eyða fríinu í hreinasta og óspilltasta landi í heimi !!

Guði sé lof fyrir Hreinsunardeild Reykjavíkur, sagði félagi minn þegar við virtum þetta fyrir okkur. Hvernig væri þessi borg ef ekki væri fólk í vinnu við að tína upp skítinn eftir borgarbúa?

Hér er mynd tekin með farsíma í Bankastræti kl. 9.45 í morgun.

IMG00390


Blogg um blogg

Ég hef lengi verið áhugasamur lesandi erlendra fjölmiðla á netinu og fór að fylgjast daglega með bandarísku fréttabloggi fyrir rúmum sex árum síðan eða um það leyti sem George W. Bush komst til valda með dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna, illu heilli.

Ég hef haft mjög gaman af því að fylgjast með því hvernig vefmiðlar vestanhafs hafa fært til landamæri  í blaðamennsku, þeir veita nýtt sjónarhorn á málin og nýja nálgun sem mér finnst gríðarlega spennandi, að ekki sé nú talað um þá möguleika sem þeir veita blaðamönnum á að vera eigin herrar. Meðal þeirra sem ég nota mest eru t.d. Raw Story, Huffington Post og Talkingpointsmemo.  Sumir þessir miðlar leggja meira upp úr fréttum, aðrir eru ennþá bloggsíður en samt annað og meira og þurfa ekkert stórkostlegt eigendabatterí á bak við sig.


Áætlun í efnahagsmálum

Þráinn Bertelsson hefur gert athyglisverða áætlun um fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum fyrir ríkisstjórnina og greinir frá henni í dagbók sinni í Fréttablaðinu í dag. Hér eru helstu atriði hennar, Þráinn segir: 

Ef ég væri í ríkisstjórn myndi ég skera Seðlabankannn niður um tvo þriðju strax núna um helgina og efla Fjármálaeftirlitið að sama skapi.
Svo mundi ég ræða við þann snilling sem ber ábyrgð á því að hækkun á verði fasteigna skuli hafa verið reiknuð inn í vísitölu sem "húsnæðiskostnaður" því að þar er ekki um "kostnað" að ræða heldur stórkostlega eignaaukningu almennings.
Því næst myndi ég spyrja að því hvers vegna íslenskur almenningur þori hvergi að geyma sparifé sitt nema í steinsteypu?
Er það vegna góðrar reynslu af fjármálastjórn í landinu?
Eða vegna þess að allt sem ekki er naglfast er jafnóðum hirt af mannskapnum? [...]
Gaman væri ef einhver gæti útskýrt fyrir mér hvernig á því stendur að stærsta hagkerfi heimsins í Bandaríkjunum kemst af með einn seðlabankastjóra meðan minnsta myntkerfi veraldar útheimtir þrjú stykki?


Plögg

Sextán Harley Davidson, nýkomin til landsins og bíða eftir eiganda. Ducati og fleira. Meira hér.

Kompaní dagsins

Einu sinni var Sigmund einmana á síðum Moggans, svo fékk hann félagsskap í Staksteinum en nú er fyrst orðið fjör í partíinu því að Egill Helgason er orðinn fastagestur þeim til samlætis Sigmund og Staksteinum á bls 10 í Mogganum. Ég veit ég ekki til þess að Mogginn hafi nokkurn tímann spurt leyfis til þess að klippa þessi blogg til að vild og birta á prenti með mynd af höfundi. Ætli Mogginn kanni hvort bloggarar geri einvers staðar fyrirvara við slíka meðferð á netefni sem ekki er ætlað til prentunar?

Húsvíkingur dagsins

Magnús Halldórsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, heldur áfram að skúbba um raforkumál og stóriðju í blaðinu í dag. Gríðarlega vel unnið efni hjá Magnúsi undanfarna daga, hann upplýsti um daginn um raforkuverðið sem OR samdi um við Norðurál. Ég held að hann hafi fundið út þetta út með því að spyrja um samningsforsendur allt þar til að aðeins ein stærð var eftir, - verðið sjálft, þá reiknaði hann það út og fékk útreikninginn staðfestan hjá forstjóra fyrirtækisins. Í meira en 40 ár hefur það vafist fyrir íslenskum blaðamönnum og almenningi að finna út raforkuverð til stóriðju, en svo var Magnús settur í málið og þá fór það að skýrast.


Ráðherrar gripu í tómt

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, og Einar Kr. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, eru nú á ferð um Vestfirði að kynna sér stöðu og horfur og ræða við fólk í atvinnulífi og sveitarstjórnum.

Þeir komu í Bolungarvík og ætluðu þar að hitta Grím Atlason, bæjarstjóra, en gripu í tómt; bæjarstjórinn var farinn á sjó á handfæraveiðar. Það er víst þannig í sjávarplássunum að ráðherrarnir koma aftur en þegar menn þurfa að róa þá þurfa þeir að róa. 


Dómur hafnaði því að tölvupóstur staðfesti verksamning

Hvenær semur maður við mann og hvenær semur maður ekki við mann? Er tölvupóstur viðhlítandi sönnunargagn um það hvort verksamningur sé kominn á eða ekki? Þessu hafa menn velt fyrir sér í framhaldi af sambandsslitum Egils Helgasonar og 365. En í mars sl. kvað Héraðsdómur Norðurlands eystra upp dóm þar sem tölvupóstur var ekki talið gilt sönnunargagn, í því máli amk.

Maður sem taldi sig hafa gert verksamning við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og byggði m.a. á tölvupóstum frá forsvarsmönnum þess tapaði málinu. Sjá nánar hér: Hróðmar Dofri Hermannsson gegn Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. En ég dreg í efa að Dofri sýti það mikið að hafa misst af starfi hjá Atvinnuþróunarfélaginu vorið 2005. Ári seinna var hann orðinn varaborgarfulltrúi í Reykjavík og framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband