Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
14.5.2007 | 19:56
Meðvituð breikkun...
Hugmynd VG um að Framsóknarflokkurinn verji minnihlutastjórn VG og Samfylkingar er annað hvort meðvituð tilraun VG til að eyðileggja möguleika á myndun ríkisstjórnar án þátttöku Sjálfstæðisflokksins eða þá til marks um ótrúlegan skort á pólitísku næmi og tímaskyni af hálfu VG.
Alveg rétt, minnihlutastjórnir hafa iðulega setið við völd á Norðurlöndum. En þær eru engu að síður neyðarúrræði sem menn grípa til þegar stjórnarkreppa blasir við, það er bara ekki hægt að trúa því að mönnum sé alvara með að kasta þeim fram á fyrstu metrum, þegar það virðast amk fjórir aðrir möguleikar á meirhlutastjórn í stöðunni. Þegar þetta ótrúlega tilboð bætist við eggjahljóðið sem maður hefur heyrt frá VG í garð Sjálfstæðisflokksins fyrir og eftir kosningar finnst mér blasa við að líta á þetta sem örvæntingarfulla tilraun til þess að: 1. reyna að slíta framsókn úr faðmi sjálfstæðismanna svo að VG komist sjálfir í þann eftirsótta faðm. 2. friða bakland VG, þannig að hægt sé að selja því að það sé framsókn að kenna að VG hafi ekki átt kost á vinstra samstarfi. VG er hvort sem er vant að reyna að kenna framsókn um allt það sem miður fer.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.5.2007 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.5.2007 | 23:09
Spegill, spegill
Á kjördag fyrir réttu ári fór mótmælaganga um miðborg Reykjavíkur. Kolbrún Halldórsdóttir taldi gönguna til marks um þann stuðning sem VG nyti í borginni. Núverandi starfsmaður VG var einn skipuleggjenda. Þar var borið skilti með áletruninni "Drekkjum Valgerði". Spurð álits á uppátækinu sagði þessi starfsmaður VG að skipuleggjendum þætti miður að Valgerður hafi tekið þessum orðum persónulega. "Þetta var komið í fjölmiðlana áður en að við gátum við ráðið en þetta er náttúrulega ekkert á okkar vegum þessi borði. Þetta er ekki á vegum Íslandsvina, þannig að ég get ekkert svarað fyrir það en mér finnst mjög ólíklegt að það verði farið út í ofbeldið."
Skipuleggjendur göngunnar gerðu engar ráðstafanir til að fjarlægja þennan borða, firrtu sig aðeins ábyrgð á honum um leið og VG eignaði sér fylgi göngumanna. Ég minnist þess ekki heldur Steingrímur hafi séð ástæðu til þess að fordæma þetta atvik né minnist ég þess að aðrir forsvarsmenn VG hafi gert það. Ég minnist þess hins vegar að ýmsir VG menn hafi talið ráðherrann gera úlfalda úr mýflugu með því að kveinka sér undan þessu. Á bloggsíðum einstaklinga sem tengdir eru VG kepptist hver um annan þveran við að gera sem minnst úr þessu og saka ráðherrann um móðursýkisleg viðbrögð þegar hún óskaði eftir að lögregla kannaði hvort alvara byggi að baki hótuninni. Maður sem iðulega er gestapenni á heimasíðu Ögmundar Jónassonar skrifaði í Moggann, sakaði ráðherrann um ómerkilegan málatilbúnað með því að kvarta undan þessu og hvatti hana til að leita læknisaðstoðar frekar en lögregluaðstoðar.
Svo eru það þessi ummæli Ögmundar sjálfs á heimasíðunni hans nýlega: "Hvað Framsókn varðar finnst mér að fólk eigi að halda áfram að vera góðhjartað. Mesta náð og líkn sem ég get hugsað mér Framsóknarflokknum til handa er að kjósendur sameinist um að leggja þann flokk til hinstu hvílu. Í því væri fólgin mikil miskunnsemi. Kv. Ögmundur"
Í kvöld óskaði Steingrímur J. Sigfússon eftir því að Jón Sigurðsson bæði hann afsökunar á því að ungir framsóknarmenn hafa gert teiknimynd af stoppkalli, sem óneitanlega líkist Steingrími J. Sigfússyni og er augljós gagnrýni á málflutning Steingríms. Í öðrum sjónvarpsþætti nýlega nefndi Steingrímur þessa teiknimynd einnig og reyndi þá ranglega að tengja hana við fyrirtæki sem rekið er af syni Jóns.
Reyndar virðist honum Framsóknarflokkurinn svo ofarlega í huga að í sjónvarpsþættinum í kvöld henti það hann að kalla Guðjón Arnar Guðjón Ólaf. (Steingrímur kallaði Guðjón Ólaf "háttvirtan yfirgjammara" í þingræðu nýlega) Og enginn sem horfði á Kastljóssþáttinn um skattamál gleymir því í bráð hvernig Steingrímur J. hellti sér þar yfir ungan framsóknarmann sem beindi til hans spurningu sem Steingrími fannst óeðlileg. Sök þess unga manns virtist fyrst og fremst sú að hann var framsóknarmaður og því hvorki verður kurteisi í ávarpi né öðrum samskiptum við Steingrím J.
Steingrímur hefur kallað andstæðinga sína á þingi gungur og druslur, kallað þá fífl, beðið þá þegja og almennt gengið manna harðast fram í brigslum og svívirðingum um ýmsa andstæðinga sína í íslenskri pólitík undanfarin ár.
Barmmerkin Zero Framsókn, Aldrei kaus ég framsókn hefur hann varið, útgefna bók forsvarsmanns VG í Reykjavík með níðvísum um framókn, hefur hann aldrei gert athugasemd við.
Nú er hann friðlaus út af teiknimynd ungra framsóknarmanna þar sem skopmynd af honum bregður fyrir og krefst þess opinberlega að formaður Framsóknarflokksins leggist í duftið.
Blessaður maðurinn, guð hjálpi honum, gefi honum logn í höfði og frið í hjarta, þannig að hann megi njóta til fulls með sínu fólki þess ágæta sigurs sem hann vann í kosningunum um helgina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
13.5.2007 | 17:07
Grasrótin talar
Úr grasrót Framsóknarflokksins:
Gunnlaugur Stefánsson, forseti bæjarstjórnar á Húsavík: Kjósendur hafa talað og skilaboð þeirra eru skýr. Framsóknarflokkurinn á ekki að fara í ríkistjórn. Til þess hefur hann ekkert umboð.
Ragnar Bjarnason, formaður Framsóknarfélags Reykdæla: Hins vegar er það alveg á hreinu og núverandi ríkisstjórn er ekki að fara að sitja áfram, einfalt mál. Það var ljóst alveg um leið og fyrstu tölur lágu fyrir í gærkvöldi.
Eygló Harðardóttir, skipaði 4. sæti á B-lista í Suðurkjördæmi: En líkt og Jón sagði þá er það ekki okkar að ákveða hverjir verða næst í stjórn.
Fanný Guðbjörg Jónsdóttir, sem skipaði 3ja sæti í Reykjavík norður: Nú er svo komið fyrir okkur Framsóknarmönnum að við VERÐUM að fara í stjórnarandstöðu og byggja okkur upp.
Gestur Guðjónsson: En fyrir höndum liggur stjórnarandstaða fyrir Framsókn og uppbygging, skemmtileg uppbygging.
Ætli þingmennirnir lesi Moggabloggið? Að lokum þessi frétt á Vísi: Nýr þingmaður Framsóknarflokksins, Bjarni Harðarson í Suðurkjördæmi, segir meiri grundvöll fyrir vinstristjórn með þáttöku Framsóknarflokksins heldur en að Framsókn starfi áfram með Sjálfstæðisflokki. Þessi orð lét hann falla í Silfri Egils eftir hádegi í dag. Þessi meirihluti er mjög veikur og ég tel ekki mjög sennilegt að stjórnin haldi áfram við þessar aðstæður," sagði Bjarni meðal annars. Ég held að eðlilegast sé að flokkurinn endurmeti sína stöðu." Bjarni sagði Framsóknarflokkinn ekki munu standa í vegi fyrir umræðum um myndun vinstristjórnar. Ég tel meiri grundvöll fyrir þriggja flokka vinstristjórn heldur en áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi. Ég tel það að mörgu leyti miklu farsælla," sagði nýji þingmaðurinn meðal annars í þættinum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.5.2007 | 13:02
Hún er búin að vera
Auðvitað er ríkisstjórnin búin að vera, Jón Sigurðsson er búinn að lýsa því yfir í raun, gerði það strax og fyrstu tölur lágu fyrir þegar hann sagði að frumkvæðið yrði annarra. Skilaboðin úr kosningunum til framsóknar eru þau að stíga til hliðar og huga að sínum málum. Ekkert hefur komið frá Jóni Sigurðssyni sem breytir þeirri yfirlýsingu hans og í raun vakti hún ótrúlega litla athygli. Spurningin um hvort stjórnin standi eða falli óháð útkomu flokkanna sem hana mynda er tilbúningur fjölmiðla. Hins vegar er það augljóslega Geir H. Haarde í hag að tefja það að forseti Íslands komi inn í dæmið. Hann er með öll tromp á hendi. VG og Samfylkingin eru í kapphlaupi um að komast heim með Geir.
Fyrir Framsóknarflokkinn hér á höfuðborgarsvæðinu er þessi niðurstaða eins vond og hún gat orðið, að mínu mati, ekki óvænt, þetta er nánast það sama sem uppsafnaða Gallup könnunin sagði í vikunni fyrir kosningar en þingflokkinn mynda næstu fjögur ár sex þingmenn af landsbyggðinni með Siv sem eina fulltrúa um 7.500 kjósenda flokksins á höfuðborgarsvæðinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.5.2007 | 10:57
Út að kjósa
Loksins er komið að kosningum og ef marka má kannanir bendir flest til þess að 12 ára stjórnarsamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sé að ljúka. Sjálfstæðisflokkurinn stefnir í nokkuð góða kosningu en Framsóknarflokkurinn í afleita.
Baráttunni lauk með formannafundi á Ríkissjónvarpinu í gær og ég held að sá þáttur hafi ekki valdið straumhvörfum í baráttunni fyrir nokkurn flokkanna. Samt fannst mér þetta langbesta frammistaða Jóns Sigurðssonar í sjónvarpsþáttum í allri baráttunni, hann var gríðarlega öflugur í umræðum um heilbrigðismál, skattamál, orkumál. Jóni virtist koma á óvart í upphafi þáttarins að menn væru farnir að tala um að framsóknarmenn hefðu háð neikvæða kosningabaráttu - og lái honum hver sem vill. Var sú umræða með ólíkindum rétt eins og það að sjá Steingrím verja auglýsingu Jóhannesar í Bónus af sannfæringu. Steíngrímur hélt því fram að sonur Jóns eða auglýsingastofa hans hefði gert teiknimyndaauglýsingua um stoppkallinn. Það er rangt. Í lok þáttarins fannst mér eins og enn vantaði mikið á að VG hefði sýnt fram á að VG væru samstarfshæf í ríkisstjórn. Tal Steingríms um að framkvæmdir fyrir austan hefðu fyrst og fremst styrkt atvinnulífið í Póllandi og Kína og að hann væri á móti iðnvæðingu en með öllu hinu atvinnulífinu fór langt með að innsigla það í mínum huga.
Það skiptir gríðarlega miklu fyrir Framsóknarflokkinn að Jón Sigurðsson, formaður flokksins nái kjöri. Ég kýs í Reykjavík norður. Nú er að drífa sig á kjörstað. Leggja sitt litla lóð á vogarskálarnar. Komaso.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.5.2007 | 11:22
Fjölgar ógildum atkvæðum fyrir tilstuðlan Jóhannesar í Bónus?
Ég heyri menn lýsa áhyggjum af því að hvatning Jóhannesar Jónssonar til kjósenda Sjálfstæðisflokksins um að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en strika Björn Bjarnason fjölgi stórlega ógildum atkvæðum í kosningunum á morgun.
Kjósendur annarra flokka telji sig geta gert Jóhannesi það til geðs að strika út Björn þótt þeir kjósi aðra flokka. Með því móti yrði atkvæði ógilt. Eingöngu aðrir sjálfstæðismenn en Jóhannes geta orðið við hvatningu hans án þess að ógilda atkvæði sitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.5.2007 | 08:10
Innanflokksvandamál?
Jóhannes Jónsson í Bónus, vinnuveitandi þúsunda kjósenda, auglýsir í öllum dagblöðum á eigin reikning í dag til þess að lýsa yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn en hvetur menn um leið til þess að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar. Undir stórri mynd af sjálfum sér hvetur hann sjálfstæðismenn í Reykjavík til þess að strika yfir siðleysið. Líklega þyrfti annar hver kjósandi að verða við óskinni til að hún hefði minnstu áhrif..
Það er eins og Jóhannes sé að segja að hann sé búinn að sættast við Sjálfstæðisflokkinn og ætli að kjósa hann, eina skuggann sem ber á sambandið er að Björn Bjarnason er á listanum. Í texta auglýsingarinnar segir: Hvað skyldi Jón H.B. Snorrason eiginlega hafa á Björn Bjarnason úr því hann hyggst skipa manninn í þetta háa embætti þrátt fyirr allt hans klúður? Mér finnst þetta með miklum ólíkindum og takið ekki feil á því að ég hef skömm á aðferðum Björns við embættisveitingar.
Þarna er öðru sinni á tveimur dögum reynt í krafti gríðarlegs auðs að hafa áhrif á úrslit og framgang kosninganna á morgun. Fyrir tveimur dögum kom Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, fram með 100.000 eintaka kosningablað þar sem hann hvatti til þess að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu ríkisstjórn.
Nú stígur Jóhannes Jónsson fram og hvetur fólk til þess að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, láta ekki hugsanlega óánægju með framgöngu stjórnvalda í Baugsmálinu fæla það frá flokknum. Þetta er maðurinn sem árum saman hefur haldið því fram að Baugsmálið hafi verið pólitísk aðför afla í Sjálfstæðisflokknum að honum og fjölskyldu hans. Nú er eins og hann sé búinn að sættast við nýja valdhafa í flokknum og Björn sé eini fleinninn í holdinu. (Er engum auðugum sjálfstæðismanni í Suðurkjördæmi misboðið út af veru Árna Johnsen þar á framboðslista? )
Geir H. Haarde bað réttilega um það um daginn að kosningabæklingur Hreins Loftssonar yrði færur á auglýsingareikning stjórnarandstöðunnar. Má ekki með sama hætti fara fram á að auglýsingar Jóhannesar, c.a. 1,5 milljón verði færðar á auglýsingareikning Sjálfstæðisflokksins?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.5.2007 | 07:56
JBH styður Ómar
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins, lýsir stuðningi við Ómar Ragnarsson í aðsendri grein í Mogganum í dag. Hann segir:
Með því að tryggja Ómari þingsæti, geta þessi kjósendur gert margt í senn: Fellt ríkisstjórnina, hnekkt stóriðjustefnunni, veitt Sjálfstæðisflokknum nauðsynlegt aðhald, axlað ábyrgð gagnvart afkomendum sínum og gengið út úr kjörbúðinni með góðri samvisku
Af hverju stígur JBH þetta skref nú degi fyrir kjördag, maður sem er jafninnvígður og innmúraður í Samfylkinguna og hann? Er ástæðan sú að honum mislíkar það augljósa daður sem er í gangi milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins? Samfylkingin beinir engum spjótum að Sjálfstæðisflokknum í þessari baráttu og það er eins og báðir flokkar bíði eftir að baráttunni ljúki svo þeir geti myndað saman ríkisstjórnina sem Hreinn Loftsson var að panta í DV í fyrradag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.5.2007 | 13:14
Raunveruleg sveifla í gangi
Mér sýnist mega álykta af þessu að að það er í gangi raunveruleg sveifla til Framsóknarflokksins, sem vísbending kom fram um í Capacent könnuninni í gær, og sú sveifla kemur fram á lokaspretti kosningabaráttunnar.
Capacent er að mæla pólitíska landslagið í gær og fyrradag en könnun Félagsvísindastofnunar var að mestu tekin fyrir helgi.
Ég gæti trúað að yfirlýsing Valgerðar Sverrisdóttur um að flokkurinn fari ekki í stjórnarsamstarf fái hann útreið í kosningum sé hér að hafa áhrif.
Á morgun koma amk þrjár kannanir, stór könnun Fréttablaðsins, könnun Blaðsins og síðasta könnun Capacent.
![]() |
Samfylking og VG bæta við sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2007 | 11:53
Langtímaminni III
Sjaldan hefur feitari kosningavíxill verið gefinn út en sá sem Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra undirritaði með búvörusamningi hálfum öðrum mánuði fyrir kosningar árið 1991. 30 milljarðar króna var verðmæti samningsins á verðlagi þess tíma. Ef ég kann að uppreikna vísitölu neysluverðs jafngildir það 53,3 milljörðum króna á verðlagi dagsins í dag.
Búvörusamningur Steingríms tók gildi á árinu 1992 og gilti til ársins 1998, þ.e. að öllu leyti eftir að kjörtímabili Steingríms lauk. Stjórnarandstaðan gagnrýndi þetta og sagði Pálmi Jónsson: "Þetta er einskonar stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar sem er að kveðja. Að vísu er næsta ríkis stjórn sett í óþægilega aðstöðu, því að það hefur auðvitað áhrif að bændasamtökin eru búin að skrifa undir þessa stefnuyfirlýsingu, að vísu með fyrirvara enn sem komið er. Eigi að síður er alþingi óbundið, og það hlýtur að koma í hlut næstu ríkis stjórnar að beita sér fyrir þeim laga breytingum sem hún vill koma fram, og ekki er hægt að segja á þessu stigi hvort verða þær sömu eins og núverandi ríkisstjórn vill að verði. Ég tel því að undirskrift á þessum svokallaða samningi hefði átt að bíða næstu ríkisstjórnar." Mér finnst eins og þarna sé Pálmi að segja nákvæmlega það sem stjórnarandstaðan hefur verið að segja undanfarna daga og allt gott og blessað um það.
Hálfum mánuði fyrir kosningar undirritaði Svavar Gestsson samning um byggingu bóknámshúss fyrir Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki. Svavar var víða á ferð með pennann og 11 dögum fyrir kosningar undirritaði menntamálaráðuneytið samning um byggingu síðari áfanga Fjölbrautarskóla Suðurlands. Framkvæmdirnar voru framundan næstu árin.
Liðlega 2 mánuðum fyrir kosningarnar 1991 fól Steingrímur J. Sigfússon samgönguráðherra Vegagerðinni að bjóða út framkvæmdir við jarðgöng á Vestfjörðum. Að því máli hafði lengi verið unnið og fyrir lá þingsályktun Alþingis og heimild til að verja 380 milljónum til verksins þetta ár, sem var innan við 10% af heildarkostnaði. Þessu var spilað út í aðdragand kosninga. Þremur dögum fyrir kosningar undirritaði hann svo samning um smíði nýs Herjólfs og batt þar með endahnút á nokkurra ára ferli þar sem fyrir lágu heimildir Alþingis.
Stjórnarandstaðan nú hefur gagnrýnt ýmsa kosningavíxla og VG lagt fram frumvarp um að banna slíkt 90 dögum fyrir kosningar. Stefán frændi minn Pálsson segir mér að þetta eigi aðeins við um samninga og yfirlýsingar sem ekki styðjist við fjárheimildir frá Alþingi. Hann mótmælir því harðlega að ég nefni Herjólf í þessu sambandi. Nú hef ég ekki farið yfir alla "kosningavíxla" þessa árs en tel að flestir þeirra styðjist við samþykki og fjárheimildir, amk hvað varðar þetta ár. Ég held því að það sé í raun enginn munur á þessum málum sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt nú og stjórnarandstaða á öllum tímum hefur gagnrýnt og í raun sé þessi framganga í samræmi við rótgrónar venjur og hefðir í íslenskri pólitík, hvað sem mönnum finnst um þær venjur og hefðir. Á þennan hátt hafa allir íslenskir pólitíkusar starfað frá upphafi vega, ekki síst Steingrímur og samherjar hans. Þeir eiga auðvitað fullan rétt á að beita sér fyrir umbótum og breytingum, það er hið besta mál, en þeir eru þá meðal annars að breyta verklagi sem þeir sjálfir hafa viðhaft þegar þeir hafa verið í aðstöðu til.
Sama á við um friðlýsingu Hrauns í Öxnadals og Arnarnesstrýtna í Eyjafirði sem greint er frá í dag. Hvorttveggja málið hefur verið í ferli árum saman en þeim er lokið nú, skömmu fyrir kosningar. Ólíkt búvörusamningi Steingríms hefur þessi friðlýsing hins vegar lítinn sem engan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.
![]() |
Arnarnesstrýtur friðlýstar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 537232
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 18
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar