hux

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fluttur

Eyjan er tekin til starfa, slóðin er eyjan.is.  Kíkið yfir. Á Eyjunni í dag er m.a. fréttir um það hvernig íslensk stjórnvöld hafa ívilnað breskum fiskvinnslustöðvum í baráttunni um óunninn fisk af Íslandsmiðum. Og margt fleira.

Bloggarar Eyjunnar eru þessar: Egill Helgason, sem skrifar Silfur Egils á Netinu fyrir Eyjuna, Þráinn Bertelsson, Össur Skarphéðinsson, Arna Schram, Helga Vala Helgadóttir,  Björn Ingi Hrafnsson, Pétur Tyrfingsson, Pétur Gunnarsson,  Björgvin Valur Guðmundsson, Andrea Ólafsdóttir, Tómas Hafliðason,  Andrés Magnússon, Grímur Atlason,  Magnús Sveinn Helgason (FreedomFries), Hafrún Kristjánsdóttir, Þorbjörg Gunnlaugsdóttir og Andrés Jónsson.

Nánar hér

Áður en ég kveð vil ég þakka fyrir innlitin og ánægjuleg samskipti við aðra bloggarar og lesendur, sérstaklega þá sem hafa notað athugasemdakerfið. Ég vona að þeir haldi uppteknum hætti og heimsæki eyjan.is/hux 

Einnig vil ég þakka starfsmönnum blog.is fyrir samstarfið og samskiptin. Bless og takk fyrir mig.


Stelpurnar okkar

Við erum sigursælasta íþróttalið á Íslandi. Eitthvað í þessa veru sagði Ásthildur Helgadóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í viðtali fyrir nokkrum dögum, í aðdraganda leiksins í gær þar sem stelpurnar burstuðu Serba 5-0 frammi fyrir 6.000 áhorfendum í blíðskaparveðri. 

Kvennalandsliðið eru góðu fréttirnar í íslensku íþróttalífi um þessar mundir, þær standa í stórþjóðunum, ná góðum sigrum. Undanfarin þrjú eða svo hafa kvennalandsliðsleikir líklega boðið upp á besta fótbolta sem ég hef séð hér á landi og er þá frábær leikur gegn Ungverjum ofarlega í minningunni. Ummæli Ásthildar eru lýsandi fyrir það sjálfstraust sem er í liðinu og algjör andstæða við karlalandsliðið en menn minnast þess þegar Eyjólfur Sverrisson reyndi að halda niðri væntingum fyrir leikinn við Lichtenstein með því að tala um hvað Lichtenstein væri sterkt um þessar mundir.

Samt eru strákarnir að fá 80% eða svo af þeim peningum sem fara í fótboltalandsliðin en stelpurnar 20%. Strákaliðið hefur aldrei verið sterkara á pappírnum en þeir eru áhugalitlir á vellinum og komnir  komnir í hóp með Ruanda, Víetnam og Malawi á styrkleikalista FIFA.

Á sama tíma bursta stelpurnar Serba og standa uppi í hárinu á hvaða andstæðingi sem sem er. Það er eitthvað  að þessari forgangsröðun, væri ekki ráð að snúa þessu við og setja meira í stelpuboltann. Framboð Höllu Gunnarsdóttur til formanns KSÍ var til marks um óánægju knattspyrnukvenna með þetta ástand og gengi karlalandsliðsins annars vegar og kvennalandsliðsins hins vegar ætti að verða til þess að menn horfist í augu við það að knattspyrnukonurnar hafa rétt fyrir sér, sú stefna sem fylgt hefur verið er ekki að ganga upp.

Fjárfestum í stelpunum, dælum í þær peningum, þær eru að ná árangri og í þeim liggur okkar eina von um að komast á alþjóðlegt stórmót í fótbolta í fyrirsjáanlegri framtíð. Noregur, Bandaríkin og Þýskaland hafa lagt mikið í kvennafótboltann með góðum árangri, er ekki ráð að fylgja fordæmi þeirra?


Bloggari stingur á kýli

Merkileg færsla Elíasar Halldórs Ágústssonar sem var kerfisstjóri í Reiknistofnun Háskólans og komst á snoðir um menn sem notuðu tölvu háskólans til að hlaða niður barnaklámi. Hann fylgdist með aðgerðum þeirra og reyndi að vekja áhuga lögreglu en án árangurs, sem er með ólíkindum því að Elías hafði fylgst svo með mönnunum að málið virðist hafa verið nánast fullrannsakað þegar hann var að reyna að fá lögregluna til að kanna það. Lögreglan hlýtur að verða krafin svara um viðbrögð sín.

Stöð 2 var með frétt um málið í kvöld, byggða á færslu Elíasar. en þar kemur fram að mennirnir tveir séu mikilvirkir hér á Moggablogginu og skoðanir þeirra um femínisma og klám hafi m.a. verið valdar af  blogginu til birtingar á prenti í Mogganum. 

uppfært 22.6 kl. 14.10: Þetta var í Íslandi í dag en ekki í fréttum Stöðvar 2. 


Júlíus og Ingibjörg

Glöggur maður benti mér á að það væri nú gaman að því að rifja upp eitthvað af því sem Júlíus Hafstein hafði að segja um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir nokkrum árum, meðan Davíð Oddsson var og hét, bæði í þáttunum hjá Ingva Hrafni (er ennþá verið að senda þá út?) og í einhverjum Moggagreinum. Mig rámar í þetta, Júlíus hafði Ingibjörgu mjög á hornum sér. Nú er hann sendiherra og hún utanríkisráðherra, gaman væri að vera fluga á vegg á fundum þar sem þau bæði taka þátt, það er áreiðanlega jafnathyglisvert og að fylgjast með Birni Bjarnasyni og Ingibjörgu á ríkisstjórnarfundum.

Ég veit það ekki fyrir víst en kannski er Júlíus og viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins komin með 3ja fermetra skrifstofu í útihúsi utanríkisráðuneytinu við Þverholt, með útsýni yfir portið hjá Pólar- rafgeymum. Víst væri gaman að rifja upp öll þessi ummæli, verst ég má ekki vera að því að finna þetta núna, nýkominn frá Kanarí og allt á fullu að undirbúa Eyjuna, sem fer í gang fljótlega.


Íslendingar kaupa virkjanir í Montenegro

Í morgun var undirritaður á Nordica samningur milli Iceland Energy Group og stórnvalda í Svartfjallalandi svipaðs eðlis og sá sem undirritaður var milli IEG og stjórnvalda í Lýðveldi Bosníu Serba á laugardaginn og felur í sér að íslenska fyrirtæki eignast vatnsafls virkjanir í Montenegro. Í Mogganum í morgun segir að samningurinn frá á laugardag sé stærsta íslenska útrásarverkefnið og ekki minnkaði það við þennan samning, sem nú liggur fyrir.

Umsækjandi dagsins

Árni Guðmundsson var einn umsækjenda um embætti Umboðsmanns barna. Á bloggi sínu ræðir hann þá niðurstöðu að ráða framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu í starfið, véfengir að lögfræðimenntun sé rétti bakgrunnurinn til starfsins, segist vera að íhuga að óska að krefjast rökstuðnings á grundvelli stjórnsýslulaga og gefur í skyn að markmiðið með ráðningunni nú hafi verið að losa um embætti framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu fyrir - ja, fyrir hvern?. Meira hér.

Ólíkar áherslur sjálfstæðismanna

Það var ekki beinlínis samhljómur með ræðum flokksbræðranna forsætisráðherra og forseta Alþingis á þjóðhátíðardaginn. Báðir ræddu vandann í sjávarútvegi, sem hefur verið mál málanna frá því um  sjómannadagshelgina.

Geir segir að vandinn í sjávarútvegi sé eitt helsta viðfangsefnið nú, viðurkennir vanda sjávarbyggðanna; undirstrikar styrkleika þjóðarbúsins til að mæta áföllum í sjávarútvegi nú og lýsir trausti á sjávarútvegsráðherra og væntanlega ákvörðun hans um hámarksafla. Þetta finnst mér benda til Einar K. muni leggja niðurstöður Hafró til grundvallar þótt hæpið sé - í ljósi reynslunnar - að gera ráð fyrir að hann fylgi ráðum Hafró um að breyta aflareglunni og færa hlutfallið niður í 20%.

En það er ræða Sturlu sem mér finnst sæta mestum tíðindum, svona pólitískt séð. Það er greinilegt að það eru ekki bara þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar sem ætla að taka sér mikið svigrúm til að undirstrika sérstöðu sína í þessu stjórnarsamstarfi, forseti Alþingis áskilur sér allan rétt til hins sama. Það er athyglisvert að þessa ræðu flytji 1. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, forseti Alþingis, nýstaðinn upp úr ráðherrastól en ennþá í stjórnarliðinu og í lykilhlutverki þar.

Athugið að með þessu dreg ég ekki úr því að mér finnst þetta hin fínasta ræða hjá Sturlu og má súmmera það álit upp með því að endurbirta úr henni þennan kafla:

"Áform okkar um að byggja upp fiskistofnana með kvótakerfinu sem stjórnkerfi fiskveiða virðist hafa mistekist. Sú staða kallar á allsherjar uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu ef marka má niðurstöðu Hafrannsóknarstofnunar. Staðan í sjávarútvegsmálum er því mjög alvarleg og kallar á breytingar ef sjávarbyggðirnar eiga ekki að hrynja. Margt bendir til þess að aflaheimildir safnist á hendur fárra útgerða sem leggja skipum sínum til löndunar í útflutningshöfnunum og herða enn frekar á þenslunni í atvinnulífinu þar, allt í nafni hagræðingar sem mun koma hart niður á þeim byggðum sem allt eiga undir veiðum og vinnslu sjávarfangs."

Sturla, sem lagði sig einnig fram um að hafna því að einungis væri hægt að bregðast við með flutningi opinberra starfa, talar þarna nánast með sama hætti og Björn Ingi gerði á sjómannadag og fleiri hafa síðan gert. En strax eftir sjómannadag lagði Einar K. Guðfinnsson sig fram um að ganga gegn þessum sjónarmiðum, og virtist í talsverðri vörn gagnvart umræðu af þessu tagi. Nú virðist það blasa við að þeir eru alls ekki á sömu blaðsíðunni í sjávarútvegsmálum sjávarútvegsráðherrann, sem skipar 2. sæti á D-lista í NV-kjördæmi og Sturla, sem skipar 1. sætið á sama lista. Og forsætisráðherrann hefur uppi sömu sjónarmið og Einar K. Guðfinnsson, eftir því sem mér sýnist og þótt Geir hafi lýst sérstöku trausti á þá ákvörðun sem Einar K. muni taka liggur beint við að túlka orð Sturlu þannig að hann hafi ekki sama traust á því sem í vændum er úr sjávarútvegsráðuneytinu.


Útrás dagsins

Þetta held ég að hljóti að vera merkur áfangi í íslensku útrásinni. Íslenskt einkafyrirtæki hefur samið um rekstur vatnsaflsvirkjunar við stjórnvöld í Lýðveldi Serba í Bosníu. Voru ekki allir stjórnmálaflokkar að tala um að hefja útrás með þekkingu Íslendinga á sviði vatnsafls og jarðvarma. Þá var nefnt að stóru orkufyrirtækin mundu leiða þá útrás en hér er frumkvæði einstaklinga að bera árangur. Auk Árna Jenssonar og Bjarna Einarssonar, sem nefndir eru í frétt RÚV, er meðal aðstandenda þessa félags, Icelandic Energy Group, Gísli Gíslason, fornvinur minn. Heyrði aðeins af þessum áformum hjá honum í fyrrasumar þegar ég heimsótti hann til Kaupmannahafnar, þá var málið á frumstigi, nú er það í höfn. Til hamingju með það.

Upprisa dagsins

Með þeirri ákvörðun að slíta eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga og skipta eignum félagsins milli tryggingataka fær samvinnurekstur mikla uppreisn æru. Þugir þúsunda Íslendinga eiga í vændum vænan hlut í þeim arði sem orðið hefur til í þessu félagi, stór hluti af þessu fólki er búsett í dreifbýlinu, m.a. í þeim byggðum sem höllum fæti standa. Ég er sannfærður um að samvinnurekstrarformið á mikla framtíð fyrir sér og vonandi gefur þetta mál mönnum kjark í nýja leiðangra undir merkjum hans. Það eru enn til glæsileg fyrirtæki sem rekin eru með samvinnurekstrarformi á Íslandi, m.a. Kaupfélag Skagfirðinga. Ég þekki ekki glöggt til sögu samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi en hef komið mér upp þeirri skoðun að ófarir ýmissa kaupfélaga hafi fremur tengst þeim þjóðfélagsbreytingum sem hér gengu yfir með breyttum atvinnuháttum, búferlaflutningum og miðstýrðu efnahagslífi en rekstrarforminu sjálfu.

Stefnubreyting dagsins

Steingrímur J. Sigfússon tætir í sig ákvæði stjórnarsáttmálans í grein í Mogganum í dag og segir m.a.: 

Digurbarkaleg ummæli forystumanna Samfylkingarinnar, þ. ám. formanns þess flokks, á landsfundi skömmu fyrir kosningar og loforð um að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar með aðild Samfylkingarinnar yrði að taka nafn Íslands af lista yfir hinar vígfúsu þjóðir hafa gufað upp og orðið að engu. Hin nýja ríkisstjórn hefur ekkert aðhafst eða gert sem formgerir stefnubreytingu. [...] Afstaða núverandi ríkisstjórnar og framganga gagnvart Bandaríkjamönnum í þessu sambandi er sú sama og hinnar síðustu. Engin formleg orðsending, tilkynning, ekkert bréf hefur farið til Bandaríkjamanna eftir stjórnarskiptin. Harmurinn sem kveðinn er að ríkisstjórn samkvæmt stjórnarsáttmálanum vegna stríðsrekstursins í Írak hefur ekkert stjórnskipulegt gildi. Í honum felst að sjálfsögðu engin stefnubreyting eða hvað? Liggur stefnubreytingin í því að fyrri ríkisstjórn hafi fagnað stríðsrekstrinum en þessi harmi hann? Ísland er enn á lista hinna staðföstu þjóða. Bandaríkjamenn geta litið svo á að þeir hafi áfram heimildir til afnota af íslensku landi, ef þeim svo sýnist, vegna aðgerðanna í Írak. Þeir hafa engar tilkynningar fengið um annað. Undir þessu situr Samfylkingin, þ.m.t. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband