29.12.2006 | 11:32
TF-Pollýanna
Hvað hafa þessir sextíu flugumferðarstjórar, sem vinna hjá Flugmálastjórn en vilja ekki vinna hjá Flugstoðum frá áramótum, eiginlega verið að gera í vinnunni? Það mætti halda að þeir séu bara að bora í nefið fyrst að það er hægt að komast af án þeirra starfskrafta án þess að það hafi nokkur teljandi áhrif á öryggi flugsamgangna innanlands og utan.
Ég hef verið að halda því fram að stofnun Flugstoða ohf. sé klúður af því að nú sé komin ellefta stund og engir flugumferðarstjórar hafi ráðið sig til starfa hjá fyrirtækinu. Þær staðhæfingar byggðust á þeirri trú að flugumferðarstjórar væru stéttin sem er kjarni starfseminnar hjá flugumferðarstjórn, svona líkt og læknarnir á spítalanum eða lögfræðingarnir á lögfræðistofunni. En nú les ég í hverju blaðinu á fætur öðru að þetta sé alls ekki svona og að það skipti litlu sem engu máli fyrir flugrekstur í landinu að engir flugumferðarstjórar séu við störf. Í Mogganum stendur þetta:
Í yfirlýsingu frá Flugmálastjórn kemur fram að flugöryggi skerðist ekki 1. janúar, eins og skilja megi af orðum formanns Félags flugumferðarstjóra í fjölmiðlum. Viðbúnaðaráætlunin miðist við fullt og óskert flugöryggi, bæði hvað varðar innanlands- og millilandaflug.
Þannig að ég er farinn að spyrja mig hvað eru þessir flugumferðarstjórar að gera í vinnunni ef það er hægt að komast af án þeirra? Ætti maður kannski að þakka Sturlu fyrir að losna loksins við þessa iðjuleysingja af launaskrá? Ég held ekki. Ég á erfitt með að taka þennan pollýönnuleik flugmálastjórnar alvarlega.
Svo á alltaf eftir að svara þeirri spurningu hvaða nauðsyn bar til þess að taka þessa starfsemi undan ríkinu og búa til um hana opinbert hlutafélag? Ég skil rökin fyrir því að gera sams konar breytingu á starfsemi RÚV, það er fyrirtæki í samkeppnisrekstri, en það á ekki við hér og hvernig er það með flugumferðarstjórina, eru einhver efnisleg rök fyrir því að henni sé betur fyrir komið með þessum hætti heldur en upp á gamla mátann, þar sem þetta var viðurkennt hlutverk ríkisins?
Eru einhver önnur rök fyrir þessari breytingu en sú pólitíska fjóstrú frjálshyggjumanna að ríkisvaldið sé af hinu illa í sjálfu sér. "Ríkið er ekki hluti af lausninni, það er hluti af vandamálinu," sagði Ronald Reagan, bandaríkjaforseti, ástmögur frjálshyggjumanna. Hann þótti ganga fram af miklum skörungsskap þegar bandarískir flugumferðarstjórar gerðu verkfall snemma á forsetaferli hans. Reagan reyndi að vísu ekki að halda því fram að flugumferðarstjórar væru óþarfir, heldur kallaði hann bara út hermenn með flugumferðarstjóraþjálfun og lét þá annast störfin. Reagan átti bandamann í Margréti Thatcher sem sagði einu sinni: "Það er ekki til neitt sem heitir samfélag, bara einstaklingar og fjölskyldur þeirra." Helsti lærifaðir Thatcher, Keith Joseph, er talinn hafa verið með asperger-heilkenni og útskýrir það vissulega þá hugmynd um mannlegt samfélag sem hin tilvitnuðu orð fela í sér. Það er spurning hvort þessi leiðangur Sturlu Böðvarssonar sé fyrst og fremst gerður þeim Reagan og Thatcher til dýrðar eða er eitthvað annað sem fyrir honum vakir. Nákvæmlega hvað græðum við - almenningur - á þessari breytingu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2006 | 18:01
DV áfram í Skaftahlíð
Sme er orðinn ritstjóri DV og segir mér að þegar ég fullyrti að nýja blaðið hans ætti ekki að heita DV hafi það verið rétt og vinnuheitið hafi verið DB. Rétt fyrir jól hafi verið ákveðið að láta reyna á hvort hægt væri að byggja nýja sókn á DV-nafninu.
Fyrsta DV undir stjórn sme mun koma út 5. janúar. Starfsemin verður fyrst um sinn til húsa í Skaftahlíðinni en aðeins til bráðabirgða því stefnt er að flutningum við fyrsta tækifæri. Öllum blaðamönnum verður boðið að vinna áfram en ritstjórarnir Óskar Hrafn Þorvaldsson og Freyr Einarsson láta af störfum. Brynjólfur Guðmundsson kemur af Blaðinu til starfa á DV og fleiri blaðamenn verða ráðnir.
Ákvarðanir um hvenær útgáfudögum verður fjölgað hafa enn ekki verið teknar en sme segist vonast til að það verði á næstu vikum.
Feðgarnir sme og Janus eiga 11% í útgáfufélagi DV, Hjálmur á 49% og 365 40%. Tengslin við útgáfufélag Ísafoldar eru mikil og má segja að hafi einhvern tímann verið til Baugsmiðlar þá sé það nú þar sem Baugur í gegnum Hjálm er orðinn ráðandi eigandi í DV, Ísafold, Veggfóðri, Hér og nú og Bístró, auk þess að eiga tæplega fjórðung í 365.
Útgáfufélag í eigu Baugs og 365 tekur við útgáfu DV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.12.2006 | 18:07
Atvinnumál
Guðmundur Steingrímsson, sem skipar 5. sætið í Kraganum á lista Samfylkingarinnar, hefur verið ráðinn til starfa á skrifstofu Samfylkingarinnar.
Guðmundur fær starfsheitið vefstjóri flokksins og mun því væntanlega sjá um að uppfæra heimasíðuna xs.is og halda henni ilmandi af nýmeti og sjá um áróðurs- og spunamál flokksins ásamt Dofra Hermannssyni, framkvæmdastjóra þingflokks, og Skúla Helgasyni framkvæmdastjóra. Ég veit ekki hvað Guðmundur hefur verið að gera undanfarna mánuði og af hvaða starfi hann lætur þegar hann tekur við þessu. Samfylkingarfólk telur 5. sætið sem Guðmundur skipar í Kraganum baráttusæti sitt við þingkosningarnar í vor.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.12.2006 | 20:57
Gleðileg jól
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2006 | 20:51
Okkar menn í Washington
Athyglisverð forsíðufrétt í aðfangadagsmogganum um að íslenska ríkið borgi Plexus Consulting Group í Washington milljón á mánuði til að gæta íslenskra hagsmuna í höfuðborg Bandaríkjanna og hafi greitt þessu fyrirtæki 87 milljónir króna frá árinu 2000. Það er áreiðanlega þetta fyrirtæki sem náði þeim árangri í baráttunni við Washington Post, sem ég lýsti hér. Plexus hefur í sínum röðum íslenskan starfsmann, sem heitir Heiðrún Ýrr Júlíusdóttir.
Lobbýismi er mikill iðnaður í Bandaríkjunum og af því að undanfarin ár hefur mikið hneykslismál skekið þennan iðnað þar í landi fór ég á þorláksmessukvöldi að kanna bakgrunn og sögu þessa fyrirtækis. Skemmst er frá því að segja að þetta Plexus Consulting virðist með hreinan skjöld í því máli sem tengist Tom DeLay og Jack Abramoff og því fólki, sem einhverjir lesendur kannast kannski við.
En Plexus er heldur greinilega ekki mikill "player" í lobbýismanum vestanhafs, það er á Eye Street í Washington en ekki K Street sem er miðstöð helstu fyrirtækjanna í þessum ævintýralega spillta iðnaði. Sannast sagna virðist þetta fremur vera PR-fyrirtæki en almennilegt amerískt lobbýistafyrirtæki. Það auglýsir að það sé óháð flokkum sem hljómar vel en dregur hins vegar mjög úr líkum á að það nái minnsta árangri í þeirri Washington borg sem repúblíkanar hafa búið til undanfarin 10 ár, en undir þeirra forystu hafa farið fram skipulegar hreinsanir á demókrötum og flokksleysingjum, sem hraktir hafa verið úr þessum bransa og eiga bókstaflega ekki séns að fá viðtöl hjá áhrifamönnum í ríkisstjórn og löggjafarsamkomu Bandaríkjanna þegar hér er komið sögu. En Plexus hefur sem sagt fengið 87 milljónir úr ríkissjóði og náð þeim árangri að leiðara Washington Post var breytt eftir birtingu en fyrir dreifingu til smærri blaða í Bandaríkjunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.12.2006 | 21:42
Átök um uppsögn sveitarstjóra
Grímsnes- og Grafningshreppur - sveitarfélagið þar sem Byrgið er starfrækt - sagði í gær upp sveitarstjóra sínum. Í fundargerð þess fundar þar sem málið var afgreitt er eftirfarandi bókað um málið:
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkir að segja upp ráðningarsamningi Sigfríðar Þorsteinsdóttur sveitarstjóra dagsettum 28. júní. Uppsögnin er frá og með 31. desember 2006. Í samningnum stendur ráðningartímabilið er frá 1. júlí 2006. Einnig stendur í samningnum Fyrstu sex mánuði ráðningartímans er gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Einnig er lagt til að oddvita verði falið að ganga frá starfslokum sveitarstjóra enda sé það gert í samræmi við ráðningarsamninginn.
Sveitarstjóri óskar bókað: þar sem mikil sárindi eru í sveitarfélaginu eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor tel ég að gæta verði vel að því hvernig stjórnsýslan tekur á málum. Mikilvægt er við þær aðstæður að gæta meðalhófs og að jafnræði ríki við meðferð mála. Þar sem dagskipun K-listans sem myndar meirihluta í hreppsnefnd er að sýna hörku í samskiptum við í búana sé ég mér ekki annað fært en bóka þetta við þessi tímamót.
Varðandi starfslok sveitarstjóra lýsa fulltrúar c lista furðu á að sveitarstjóra skuli vera sagt upp án fundar í sveitarstjórn og án þess að sveitarstjóri hafi fengið áminningu frá sveitarstjórn. Fulltrúar c lista lýsa fullri ábyrgð á hendur meirihluta sem fer með sveitarfélagið eins og einkafyrirtæki tveggja til þriggja einstaklinga. Ekkert gefur tilefni til að svo harkalega sé gengið fram enda meirihlutinn ekki lagt fram rökstuðning í málinu. Gerð er krafa um að starfið verði auglýst.
Að sjálfsögðu verður starfið auglýst.
21.12.2006 | 20:13
Hvað nú?
Það er fagnaðarefni að ríkissaksóknari hafi skýrt ákvörðun sína í kærumáli Jóns Baldvins og Árna Páls með sérstakri yfirlýsingu. Það er óvenjulegt enda ber honum engin skylda til þess. Ríkissaksóknari heyrir nefnilega ekki undir einn né neinn, hann er ríki í ríkinu. Þegar hann ákærir menn er málatilbúnaður hans eðli málsins samkvæmt prófaður fyrir dómi en þegar hann ákærir ekki hefur enginn aðili í þjóðfélaginu færi á að fara yfir forsendur niðurstöðu hans; það gætir enginn þessa varðar.
Ríkissaksóknari túlkar venjulega allan lagabókstaf um embætti sitt með þrengsta mögulega hætti. Því er óvenjulegt að hann rökstyðji niðurstöðu sína með þeim hætti sem gert hefur verið í dag, fyrir því eru PR-ástæður eða pólitískar ástæður, ekki hitt að á honum hvíli lagaleg skylda til þess.
Menn sitja uppi með það að í þessum efnum er ekki hægt að deila við ríkissaksóknara. Hann vísar í yfirlýsingu sinni til forsendna og upplýsinga og dregur af þeim ályktanir sem verða hin endanlega niðurstaða málsins af því að enginn annar á að því aðkomu. (Árétta að þetta eru komment á staðreyndir um lögformlegt skipulag ákæruvalds í landinu og tengjast hugmyndum um hvernig almennu eftirliti með stofnunum samfélagsins eigi að vera háttað, þetta lýsir ekki einhverju vantrausti á persónu ríkissaksóknara.)
En höldum því líka til haga að markmið lögreglurannsókna er ekki að leiða í ljós hvort tiltekinn atburður hafi átt sér stað heldur að koma fram refsingu fyrir refsiverð brot á lögum, á þessu tvennu er mikill munur. Ástæða þess að rannsókn lýkur er sú að ekki atburður hafi ekki gerst heldur sá að rannsókn kallar ekki fram upplýsingar sem líklegt er að nægi til sakfellis yfir einhverjum einstaklingi fyrir brot á lögum. Þetta er bara svona.
Höldum því líka til haga að ef ríkissaksóknari telur fram komið að maður hafi haft uppi rangar sakargiftir ber honum skylda til að ákæra þann mann og draga fyrir dóm. Þeir sem vilja draga þá ályktun af því að rannsókninni er hætt að hleranir hafi ekki átt sér stað hljóta með sama hætti að túlka þá staðreynd að JBH og ÁPÁ eru ekki kærðir fyrir rangar sakargiftir með þeim hætti að þeir hafi ekki borið fram rangar sakargiftir, eða hvað?
Eins og mál standa nú verður mál Jóns Baldvins og Árna Páls vatn á myllu þeirra sem vilja sem minnst úr umræðum um hleranir gera. Það væri vont. Í því efni liggja nefnilega fyrir óyggjandi staðreyndir í skjölum og gögnum. Upplýsingar um hleranir hjá Hannibal, ASÍ, Ragnari Arnalds og öðrum eru ærin ástæða til þess að setja lög sem kveða á um sakaruppgjöf þeirra sem veitt geta þýðingarmiklar upplýsingar og sérstakan farveg rannsóknar þessara mála, t.d. hjá þingnefnd.
Rannsókn á meintum hlerunum ekki haldið áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.12.2006 | 20:03
Blaðamannafréttir dagsins
Úff. Það er nú meira hringlið á honum Brynjólfi Guðmundssyni, fréttastjóra á Blaðinu. Mér er ekki ljúft að skrifa hér í þriðja skipti færslu um það hvort hann ætli að fara eða vera eftir að -sme er hættur sem ritstjóri, en eftir að ég er einu sinni byrjaður á þessu er engin leið að hætta, fyrst drengurinn heldur alltaf áfram að skipta um skoðun.
Haldið þið ekki að hann sé einu sinni enn búinn að snúa við Blaðinu? Hann ætlar að hætta um áramót, er búinn að taka tilboði frá -sme og verður með honum á nýja blaðinu. Sem sagt kominn í heilan hring frá því að ég skrifaði þetta og þetta. ég mun aldrei aftur minnast á það hvar Brynjólfur vinnur.
En það er fleira að frétta úr þessum bransa. Björgvin Guðmundsson, ritstjórnarfulltrúi Fréttablaðsins, verður fréttastjóri nú eftir að Trausti Hafliðason er orðinn ritstjóri Blaðsins. Fyrra starf Björgvins sem fólst í umsjón með aðsendum greinum og efni á leiðaraopnu verður fyrst um sinn í höndum ritstjóranna tveggja.
Þriðja fréttin af mannahaldi á blöðum er svo sú að Brjánn Jónasson, einn af helstu fréttamönnum Morgunblaðsins nú um stundir, hættir þar um áramót og byrjar á nýju ári í vinnu á Fréttablaðinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.12.2006 | 18:21
Suðurnesjamenn vildu fleiri frambjóðendur
Hjálmar Árnason tók áskorun Suðurnesjamanna sem söfnuðu undirskriftum um að bjóða sig fram gegn Guðna Ágústssyni í prófkjöri framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. En framboð Hjálmars virðist umdeilt meðal flokkssystkina hans á Suðurnesjum. Stjórn fulltrúaráðs framsóknarmanna í Reyjanesbæ samþykkti einróma á laugardag að skora á kjörstjórn að framlengja framboðsfrest svo að fleiri Suðurnesjamenn geti boðið sig fram í prófkjörinu.
Formaður stjórnarinnar sendi kjörstjórninni bréf þessa efnis og var það tekið fyrir á fundi kjörstjórnarinnar í fyrrakvöld. Kjörstjórnin hafnaði óskum Suðurnesjamanna og því er staðan í prófkjöri framsóknar í kjördæminu sú að af tólf frambjóðendum eru aðeins 2 frá Suðurnesjum.
Suðurnesjamenn óttast að ef Hjálmar tapi bardaganum við Guðna, sem flestir telja líklegt, muni hann afþakka sæti á listanum og því muni Suðurnesjamenn engan fulltrúa eiga í líklegu sæti á listanum. Hjálmar hefur ekki talað hreint út um hvort hann muni taka 2. sætinu ef hann hreppir það í prófkjörinu.
Framboð Hjálmars í 1. sætið kom flatt upp á marga framsóknarmenn á Suðurnesjum, sem höfðu ekki orðið varir við undirskriftarsöfnunina og tóku yfirlýsingar Hjálmars á kjördæmisþingi 5. nóvember alvarlega. Þar sagðist hann styðja Guðna í 1. sætið og stefna áfram að 2. sætinu. Sú yfirlýsing varð til þess margir Suðurnesjamenn, sem hugleitt höfðu framboð, ákváðu að sitja hjá og tryggja Hjálmari góða kosningu í 2. sætið, en þrír aðrir frambjóðendur sækjast eftir því. En eftir að Hjálmar sneri við blaðinu og skoraði Guðna á hólm er þungt í stuðningsmönnum varaformannsins á Suðurnesjum og þeir eru margir, eins og sést af því að tillagan um lengri framboðsfrest var samþykkt án mótatkvæða í stjórn fulltrúaráðsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.12.2006 | 10:40
Batman og Robin í Bítið
Jóhannes í Bónus var í drottningarviðtali í Ísland í Bítið en að mati umsjónarmannanna þekkir hann betur en flestir til þess hvort og í hvaða mæli velferðarkerfið og aðstoð við tekjulágt fólk er misnotuð hér á landi.
Tilefnið var meðal annars málefni Byrgisins en fram kom að Jóhannes hefur styrkt starfsemi Byrgisins með matargjöfum og öðrum framlögum. Jóhannes sagðist mundu halda þeirri styrkveitingu áfram en komi í ljós að ásakanir eigi við rök að styðjast muni nýir menn taka við rekstri Byrgisins.
Framan af í viðtalinu var rætt um örlæti Jóhannesar við ýmis líknarsamtök og fátækt fólk og í miðju viðtalinu fór ég að velta því fyrir mér hvort hér væri hungursneyð ef ekki nyti þjóðin örlætis Jóhannesar og gjafa hans til fátækra. Sá náttúrlega að það var tóm vitleysa en svona er ég nú hrifnæmur á góðri stund. Svipað augnablik átti ég þegar fram kom að hlutfall ráðstöfunartekna fólksins í landinu, sem fer til matvörukaupa, hefur frá 1988 lækkað úr um 25% - þegar Bónus opnaði - í um 16% í dag. Mér fannst eitt andartak eins og allt þetta hefði hann Jóhannes nú gert fyrir þjóð sína og líklega hefur spyrlunum liðið eins því ekkert sögðu þeir sem gefið gat annað til kynna en að þetta væri einmitt þannig vaxið.
Að loknu spjalli um fátæktina og styrkveitingar Jóhannesar var svo farið að tala um Baugsmálið og vanhæfi Haralds Johannessen og Jóns H. B. Snorrasonar og þann harmleik sem Baugsmálið vissulega er öllum Íslendingum, einkum þeim sem eldurinn brennur á og fjölskyldum þeirra.
En er það rétt tilfinning, sem ég hef, að ávallt þegar nýr úrskurður dómstóla hefur fallið þeim Baugsmönnum í vil birtist Jóhannes í Bónus í drottningarviðtali í Íslandi í bítið? Hvers vegna skyldi það vera? Á hann kannski fjölmiðilinn og mætir bara þegar hann vill? Í þessum viðtölum - líkt og í morgun - er annars vegar fjallað um öll hans góðu verk í þágu lítilmagnans og hins vegar illsku mannanna sem að honum sækja. Ég hef örugglega séð ein 10 svona viðtöl. Þegar ég horfi á þessi viðtöl verður mér stundum hugsað til sögunnar sem ritstjóri Morgunblaðsins hefur sagt af sínu fyrsta blaðamannsverki, sem var viðtal við ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem þá hélt um alla þræði á Morgunblaðinu. Viðtalið fór þannig fram að viðmælandi ritstjórans sagði. "Nú spyrð þú og þá svara ég..." Hann bjó bæði til spurningarnar og svörin. Þá er spyrillinn í hlutverki Robins og viðmælandinn í hlutverki Batmans, eða hvað?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.12.2006 | 11:08
Sturla öryggismálaráðherra
Að óbreyttu virðist stefna í að flugsamgöngur til og frá landinu verði í ólestri frá áramótum. Verið er að stofna félag sem heitir Flugstoðir utan um rekstur flugumferðarstjórnarkerfisins og í stað þess að vera opinberir starfsmenn verða flugumferðarstjórnar starfsmenn þess félags. Meinið er að flugumferðarstjórnarnir vilja ekki vinna hjá þessu félagi af því að þeir telja sig ekki hafa tryggingu fyrir að þeir haldi sömu kjörum og réttindum og þeir gerðu sem opinberir starfsmenn. Það þarf eitthvað að gerast næstu vikuna ef ekki eiga að verða vandræði með flug til og frá landinu.
Svo sé ég á forsíðu Moggans í dag að ekkert má út af bregða í fjarskiptamálum landsins vegna þess í hve ótryggu og lélegu ljósleiðarasambandi landið er við umheiminn. Fyrir okkur menn ársins er þetta náttúrlega mjög slæmt mál en líka fyrir allt þjóðfélagið sem meira og minna er orðið háð ljósleiðarasambandi. Það er helst að hvalveiðiflotinn geti komist af án ljósleiðarans.
Það er mikið í tísku að tala um varnar- og öryggismál þessa dagana og nú er íslensk sendinefnd í Danmörku að leita samstarfs við Dani um varnir landsins. Mér finnst það hið besta mál, en hervarnir eru samt hálfóraunverulegt viðfangsefni í öryggismálum í samanburði við það að halda hér uppi óbrjáluðum flugsamgöngum og ljósleiðarasambandi við umheiminn.
Af þessu tilefni fór ég að rifja upp ráðherraferil samgönguráðherrans, Sturlu Böðvarssonar, í leit að máli sem hefði tekist vel til með undir hans stjórn. Ég verð að segja eins og er að ég er alveg blankur. Hins vegar kemur hvert klúðrið af öðru upp í hugann. Ég veit að það hljóta að vera einhver mál sem vel hafa tekist hjá Sturlu öll þessi ár. Bið um aðstoð frá lesendum í komment. Það má ekki telja með malbikunarframkvæmdir, hafnarbætur og flugvallargerð á Norðvesturlandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.12.2006 kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.12.2006 | 10:11
Öryggisráðið sem tekjulind
Bandaríkjastjórn er sögð múta þeim ríkjum sem eiga sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, og veitir til hvers þeirra 59% hærri fjárhæðum þau ár þegar þau eiga sæti í ráðinu en hin árin þegar þau eru utan þess. Þetta kemur fram í rannsókn hagfræðinga, sem greint er frá í Observer í gær. Þar segir:
When there is a controversial vote in prospect, the premium for countries with a security council seat is even higher. US aid surges by as much as 170 per cent, bringing in a £23m windfall, while the UN spends an extra £4m.
Some countries serve on the security council during relatively calm years, whereas others, by chance, are fortunate enough to serve during a year in which a key resolution is debated and their vote becomes more valuable,' the authors say.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.12.2006 | 21:48
Milljarðamæringar berjast í stuttbuxum
Milljarðamæringar á stuttbuxum slógust upp á líf og dauða í Madison Square Garden í gærkvöldi. Leik NY Knicks og Denver Nuggets í NBA deildinni var að ljúka með öruggum sigri Denver þegar fjandinn varð laus og leikmenn beggja liða létu hendur skipta. Sjá upptöku frá YouTube hér að neðan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.12.2006 | 12:25
Íslenskur þrýstingur á Washington Post?
Tilburðir íslenskra stjórnvalda til þess að vinda ofan af þeim skaða sem hvalveiðar og andstaða við botnvörpuveiðar á úthöfunum hafa valdið íslenskum hagsmunum virðast hafa borið einhvern pínulítinn árangur. Það merki ég af því að breytingar hafa verið gerðar á leiðaranum sem Washington Post birti um málið og kallaði Blame Iceland.
Harðasta skotið á Ísland - mest móðgandi orðalagið - hefur verið tekið út úr textanum fyrir birtingu í öðrum blöðum. Eins og algengt er um leiðara stórblaðanna hefur þessi leiðari verið seldur til birtingar í fjölmörgum smærri dagblöðum vítt og breitt um Bandaríkin. Eitt þeirra blaða sem birtir hann er St. Petersburg Times í Florida, sem birtir hann í dag og velur honum fyrirsögnina: Iceland leads maulers of the seas, eða Ísland í fararbroddi níðinga hafsins. Svo sem engin ástæða til þess að fagna þessari nýju fyrirsögn, hún er svakaleg.
En breytingin er þarna samt og hún er þessi. Í upphaflegu útgáfunni voru Íslendingar kallaðir "genuine moral outliers in world attitudes toward oceans" (lauslega: raunverulegir siðferðislegir einfarar hvað varðar viðhorf heimsins til málefna hafsins). Þessi setning hefur verið tekin út úr leiðaranum fyrir endurbirtingu. Slíkar breytingar gera ritstjórnir ekki að tilefnislausu, þetta hlýtur að þýða að íslensk stjórnvöld hafi sett sig í samband við ritstjórnina og gert henni grein fyrir íslenskri fiskveiðistjórnun og fleiru sem borið hefur þann árangur að þessari móðgandi staðhæfingu hefur verið kippt út. Breytir litlu en er án efa stærsti sigur Einars K. Guðfinnssonar í þessu vonlausa stríði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.12.2006 | 11:34
Leyndarvirkjun
Leiðari Moggans í dag hittir naglann á höfuðið. Þar er fjallað um þá leynd sem Landsvirkjun hjúpar orkusamninga sína við álbræðslufyrirtæki. Greinilegt er að ritstjórinn sjálfur skrifar. Tek undir þegar hann segir:
En ef svo skyldi vera að eigendur Landsvirkjunar, íslenzka þjóðin, séu þeir einu sem vita ekki um raforkuverð til álvera hér á landi er ástæða til að endurskoða þá afstöðu sem Landsvirkjun hefur haft. Það hefur mikla þýðingu að þjóðfélag okkar sé opið og að allar upplýsingar sem varða hagsmuni þjóðarinnar liggi á borðinu fyrir hvern sem er að skoða. Þetta er grundvallaratriði í því lýðræðislega þjóðfélagi sem við viljum byggja upp á nýrri öld.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.12.2006 | 11:08
Á hægri leið inn úr kuldanum
Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í dag sætir tíðindum. Guðmundur hefur þegar gert það að umtalsefni og vísa ég á skrif hans. En þegar ég las þetta Reykjavíkurbréf datt mér fyrst í hug að nú væri ritstjórinn að stíga skref í þá átt sem hann hefur nokkrum sinnum gert atrennu að, fyrst í minningargrein sem sem Styrmir Gunnarsson skrifaði um Eyjólf Konráð Jónsson, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins og alþingismann, og birtist þann 14. mars 1997.
Í minningargreininni sagði Styrmir:
Eyjólf Konráð Jónsson þekkti ég lítið þar til dag einn fyrir tæpum fjórum áratugum að æskuvinur minn, Hörður Einarsson hrl., sem leiddi mig til starfa á vettvangi Sjálfstæðisflokksins, bað mig að fara á fund Eykons, eins og hann var jafnan kallaður, hann ætti við mig erindi. [...] Þetta var á þeim árum, þegar gríðarleg harka var í kalda stríðinu á milli hins frjálsa heims, undir forystu Bandaríkjanna, og Sovétríkjanna, sem höfðu raðað í kringum sig leppríkjum í Austur-Evrópu og víðar. Þeir sem ekki upplifðu kalda stríðið eins og það var harðast munu aldrei skilja þau viðhorf, sem réðu gerðum manna á þeim árum.
Í þessu samtali fékk ég örlitla innsýn í veröld, sem ég vissi ekki að væri til á Íslandi en tengdist þessum alheimsátökum. Eykon bað mig um að taka að mér verkefni, sem ég gerði, en ekki fyrr en að lokinni alvarlegri umhugsun. Því sinnti ég á hans vegum fram eftir Viðreisnaráratugnum. Það starf hafði margvísleg áhrif á pólitíska vígstöðu flokkanna en eins og margt af því, sem gerðist á tímum kalda stríðsins, bíður frásögn af því síðari tíma. [...] Upp úr þessu hitti ég hann a.m.k. vikulega en oft daglega. Við skiptumst á upplýsingum.
Feitletrunin í tilvitnuninni er mín. Í Reykjavíkurbréfinu stígur Styrmir svo raunverulegt skref, þótt það sé sannarlega aðeins hænufet, að segja allt af létta um þennan leynilega erindrekstur sinn.
Meira hlýtur að vera á leiðinni, því eins og Guðmundur bendir á vekur frásögn Reykjavíkurbréfsins fleiri spurningar en svarað er og það eina sem við vitum nú er að forysta Sjálfstæðisflokksins vildi koma hér á leynilegu varaliði - væntanlega undir eigin stjórn- undir því yfirskyni að verjast átökum á vinnumarkaði þótt hitt eiginlega tilefni væri ótti við átök vegna samnings í landhelgisdeilunni.
Þeir æskuvinir Styrmir og Hörður Einarsson hafa svo báðir tengst náið blaðaútgáfu á Íslandi, Styrmir sem ritstjóri Morgunblaðsins, Hörður sem útgefandi Vísis og síðar DV.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2006 | 18:45
Brynjólfur verður áfram á Blaðinu
Brynjólfur Guðmundsson hættir ekki sem fréttastjóri á Blaðinu, hann er búinn að ákveða að halda áfram og ganga að nýju tilboði um launakjör sem stjórnendur Blaðsins gerðu honum í dag.
Já, það er rétt að þettta stangast á við það sem ég hélt hér fram kl. rúmlega 13.30 í dag. Á þeim tíma gaf Brynjólfur félögum sínum til kynna með ótvíræðum hætti að hann ætlaði að hætta. En honum snerist hugur og ákvað að hætta við að elta -sme í hans nýju heimkynni. Þess í stað ætlar hann að vinna áfram að því með Trausta Hafliðasyni og Gunnhildi Örnu að styrkja stöðu Blaðsins á fríblaðamarkaði.
15.12.2006 | 14:26
Þættinum hefur borist bréf
Helgi Seljan hefur svarað fyrirspurn minni, sem ég beindi til hans hér og sent mér bréf sem er svohljóðandi:
"Sæll Pétur.
Sá að þú beindir þeirri spurningu til mín hvers vegna ég hefði kosið að taka það fram að þú hefðir verið ritstjóri kosningavefs Framsóknarflokksins í umfjöllun Kastjóss um verkefnaráðningar hjá borginni og fyrirtækjum í hennar eigu. Þetta gerði ég einfaldlega vegna þess að í síðustu kosningabaráttu Framsóknarmanna í borginni gegndir þú ritsjórastöðu Hrifluvefsins, sem þá var kosningavefur Framsóknarmanna í Reykjavík. Þarna var ekki og ég endurtek svo það sé alveg á hreinu alls ekki verið að tala um vefsíðu þína hux.blog.is."
Helgi lætur fylgja bréfi sínu afrit af frétt NFS frá 19. mars sl. þar sem fjallað var um tilburði fyrrverandi borgarfulltrúa sem taldi sig ritskoðaðan af því að pistill hennar fékkst ekki birtur á Hriflunni og henni vísað með umkvörtunarefni sitt á póstlista flokksfélaga. Fjölmiðlar stukku á málið, sem í mínum huga snerist ekki um ritskoðun heldur ritstjórnarlegt sjálfstæði. En ég ítreka það sem ég sagði hér um daginn að ég var ritstjóri Hriflunnar um nokkurra vikna skeið en hætti því starfi að eigin frumkvæði þegar ég réði mig til Fréttablaðsins ca. 20. mars. Þá voru tæpir tveir mánuðir í kjördag og kosningabaráttan varla hafin. En ég þakka Helga bréfið og hvet hann að lokum til að taka Sigmar sér til fyrirmyndar og fara að blogga sjálfur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2006 | 14:05
Hástökk án atrennu
Það kemur ekki á óvart að Hjálmar Árnason hafi ákveðið að bjóða sig fram gegn Guðna Ágústssyni í 1. sæti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Það hefur lengi mátt skynja á Hjálmari að hann var orðinn leiður á að eiga ekki möguleika í ráðherrastóli. Ég vann um tíma náið með Hjálmari (sem er afskaplega góður vinnufélagi) og hef búist við því að hann veldi annan tveggja kosta: 1. að bjóða sig fram gegn Guðna. 2. að draga sig í hlé og hætta afskiptum af stjórnmálum. Ég lagði aldrei trúnað á þær frásagnir að hann ætlaði sér áfram að sitja í 2. sætinu.
Það verður fróðlegt að fylgjast með baráttu þessara gömlu vopnabræðra, Hjálmars og Guðna. Ég hef ekki trú á að Hjálmar geti lagt Guðna að velli.
Ég er sannfærður um að staða Guðna er mjög sterk í kjördæminu og innan flokksins en það er greinilegt að Hjálmar gerir út á þá umræðu að enginn Suðurnesjamaður sé í fremstu víglínu hjá flokkunum. Þannig að hann ætlar að láta póstnúmerið, sem hann býr í, og liðsinni utanflokksfólks tryggja sér forystusætið. Eina von hans er að smala miklu liði utanflokksfólks til þátttöku í prófkjörinu. Spurning hvort það gangi jafnvel hjá Hjálmari og það gekk hjá Árna Johnsen.
Ég held hins vegar að allt eins líklegt sé að þetta verði til að 2. sætið gangi Hjálmari líka úr greipum. Hann er engan veginn óumdeildur innan flokksins í kjördæminu, hvorki á Suðurnesjum né annars staðar. Tel mig reyndar vita að það sé honum nokk sama um, hann vilji berjast fyrir sínu, leggja allt undir og annað hvort veita forystu eða draga sig í hlé og berjast til síðasta blóðdropa.
Hjálmar Árnason gefur kost á sér í efsta sætið í Suðurkjördæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2006 | 13:33
Brynjólfur hættir á Blaðinu
Þeir Trausti og Brynjólfur störfuðu lengi saman á Fréttablaðinu og voru m.a. samtímis vaktstjórar undir stjórn -sme.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.1.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 25
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar