23.2.2007 | 17:35
Í tunnuna með það
Meiri stormurinn sem þetta nafnlausa bréf hefur valdið í Baugsmálinu. Ég hef fengið og séð nafnlaus bréf um hinar aðskiljanlegustu samsæriskenningar, oftast í tölvupósti. Lendingin á tunglinu hafi verið sviðsett, árásin 11. september hafi verið plönuð af Bandaríkjastjórn og eitthvað fleira sem fólk þorir jafnvel ekki að skrifa undir af ótta við CIA, páfann, Bilderberg-hópinn eða einhverja slíka. Nú er það Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, sem á að vera handbendi andskotans.
Nú segja menn í kvöldfréttum RÚV að bréfið valdi ómældum skaða! Hvernig má það vera? Er skaðinn nokkur annar en sá að menn sýndu tilburði til þess að taka það alvarlega með því að halda sérstakan fund? Voru það ekki þá viðtakendur bréfsins sem ollu skaða með viðbrögðum sínum - með því að gefa bréfinu vikt sem það rís ekki undir?
Ég hef alltaf húmor fyrir góðum samsæriskenningum og hef jafnvel átt góðar (úff!!!) stundir við að sjóða þær saman mér til skemmtunar þótt ég hafi aldrei komist svo langt að skrifa þær niður. Yfirleitt hendi ég bara svona nafnlausum bréfum. Ég veit ekki til þess að menn geri mikið með þetta.
En það sem er venjulegt á ekki við í Baugsmálinu. Þar fer allt á hvolf þegar menn fá nafnlaus bréf, bara af því að þau bera með sér að bréfritarinn sé lögfræðingur eins og það sé eitthvað merkilegra fyrir það. Þeir ættu bara að prófa að blogga, þá fengju þeir að lesa nafnlaus komment og bréf og yrðu fljótir að átta sig á þeim. Hafa mennirnir einhverja ástæðu til þess að ætla að það þurfi að taka nafnlausa lögfræðinginn alvarlega? Ef honum er alvara og getur staðið á því sem hann segir sendir hann þetta bara aftur og skrifar undir. Eins og er á bara að líta á þetta sem hvern annan markpóst eða fjölpóst eða hvað þetta heitir auglýsingadótið sem er borið heim til manns óumbeðið. Í tunnuna með það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.2.2007 | 14:21
Bæjarstjórn Kópavogs einhuga að baki Gunnari Birgissyni?
Var það ekki 9. febrúar sem framkvæmdir voru stöðvaðar í Heiðmörk, eftir að Gunnar bæjarstjóri og starfsmenn Klæðningar, voru búnir að ryðja niður trjánum sem ég og fleiri góðir menn gróðursettum sem unglingar? Ég held það, ég finn amk fréttir frá 11. febrúar um málið.
Þann 13. febrúar hélt svo bæjarstjórn Kópavogs bæjarstjórnarfund. Ég fór á netið áðan að leita að fundargerðinni til þess að lesa bókanirnar sem minnihlutinn hefði gert til þess að hrauna yfir ýtustjórann í bæjarstjórastólnum og skamma hann þótt ekki væri nema fyrir dæmalausa framgöngu hans í fjölmiðlum vegna málsins.
En viti menn - ekki orð! Bæjarstjórnin kom fullskipuð saman til fundar meðan málið stóð sem hæst og eftir að það komst í hámæli en minnihlutinn hafði ekkert um það að segja! Engin bókun, ekki orð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.2.2007 | 10:34
DV - aftur til fortíðar
DV fannst mér ágætt í gær, fyrsta tölublað endurreists dagsblaðs. Það var eiginlega eins og að fara aftur í tímann að skoða forsíðuna og baksíðuna. Það er greinileg yfirlýsing þarna um að ferðinni sé heitið aftur fyrir aldamót þegar DV var og hét. Það var formúla sem neytendur höfðu smekk fyrir, á þeim tíma amk. Loki er á sínum stað á baksíðunni og þarna var líka athyglisvert graf um hlutdeild ritstjórna dagblaðanna í efni þeirra. Hið besta mál.
Svo er ég í þeim kannski 50 manna hópi sem glotti út í annað þegar Jói Hauks blasti við á sömu opnu og leiðari Sigurjóns M. Egilssonar en gott hjá þeim. Þarna er Jói loksins kominn með hreinræktaðan skoðanavettvang.
Og svo var Hreinn Loftsson mættur í prentsmiðjuna samkvæmt Mogganum í dag til þess að skoða fyrsta tölublaðið... athyglisvert.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2007 | 23:08
Capacent mælir fylgi við Margréti, Ómar og Jón Baldvin
Mundir þú kjósa umhverfisverndarframboð leitt af Ómari Ragnarssyni, Margréti Sverrisdóttur og Jóni Baldvin Hannibalssyni? Þessa spurningu fékk fólk sem hringt var í frá Capacent í kvöld.
Af hverju var ekki spurt um Jakob Frímann, hann er á kafi í undirbúningi með þeim félögum? Ég hefði svarað nei, ég mundi ekki kjósa slíkt framboð en það þarf svo sem ekki að koma á óvart.
Ég hefði hins vegar svarað játandi þessari spurningu: Mundirðu fara á sveitaball með Ómari Ragnarssyni, Jóni Baldvin, Margréti Sverrisdóttur og Jakobi Frímann? Ekki spurning.
En í ljósi þessara upplýsinga um könnunina finnst mér merkilegt að lesa nýjustu færsluna á bloggi Ómars Ragnarssonar. Ómar var ofboðslega hrifinn af ræðunni sem Jón Baldvin flutti í Hafnarfirði í gærkvöldi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.2.2007 | 17:23
Komment á komment
Frá því að ég flutti mitt blogg hingað yfir hafa komið upp í hugann ýmsar spurningar um hvernig eigi að umgangast kommentakerfið hér. Ég ákvað í upphafi að hafa aðgang öllum opinn en einsetti mér um leið að líða ekki einhvern málefna- eða barnalandsbrag á því sem hér færi fram.
Hingað til hef ég reynt að fylgja þeirri stefnu að eyða kommentum, sem fela í sér dylgjur og dólgshátt, og líka öllum kommentum frá óskráðum nafnleysingjum sem gefa upp ógagnsæ netföng, - nema um sé að ræða fólk sem 1. ég veit hverjir eru og 2. heldur sig innan marka. Ég hef aldrei séð eftir því að eyða kommenti, hins vegar hanga hér enn inni nokkur komment sem ég hefði - eftir á að hyggja - átt að eyða strax.
Síðan hef ég tekið eftir því að hér á moggablogginu hafa einhverjir aðilar skráð sig fyrir bloggum sem þeir nota ekki til neins nema til þess að kommentera hjá öðrum bloggunum og hafa sumir þeirra aldrei neitt fram að færa nema skít og dylgjur. Framvegis mun ég án undantekninga eyða kommentum frá þeim og líka hinum sem ekki gefa upp fullt nafn og sæmilega gagnsæ netföng. Eins mun ég blokkera aðra notendur sem fara yfir þá línu sem ég dreg.
Ég geri enga kröfu til þess að þessi lína sé öðrum sýnileg en, sem sagt, ég vil ekki láta kommentakerfi þessa bloggs verða að ruslatunnu fyrir andlegan og tilfinningalegan úrgang. Það geta ekki aðrir en ég borið ábyrgð á því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.2.2007 | 11:30
Samræmdur spuni
Samfylkingin er komin langt á undan öðrum flokkum í kosningabaráttunni vegna þingkosninganna. Hún auglýsir nú grimmt í blöðum, nánast daglega. Hún hefur skipulagt og miðstýrir fjölmörgum bloggsíðum hér á moggablogginu. Loks stendur nú yfir skipulögð greinaherferð í blöðum þar sem hver Samfylkingarmaðurinn og - konan á eftir öðrum úrfærir spunann um það að Ingibjörg Sólrún sæti einhverju sérstöku einelti í pólitískri umræðu. Það er ein svona grein í Fréttablaðinu í dag og í Mogganum skrifar Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, um þetta sama. Um daginn var svo Hallgrímur Helgason með makalausa grein í þessum anda. Bloggfærslurnar eru fleiri en ég kem tölu á en nærtækast er að nefna að truno.blog.is var að því er mér sýnist stofnað til þess að halda þessari umræðu á lofti.
Nú ætla ég ekkert að þræta fyrir það að Ingibjörg Sólrún hefur víða verið gagnrýnd undanfarið og stundum sjálfsagt ómaklega. Harðast hafa gengið fram hennar eigin flokksmenn. Tilefni gagnrýninnar hefur verið það að skoðanakannanir hafa sýnt hver á fætur annarri að frá því að Ingibjörg Sólrún tok við formennsku hefur fylgi flokksins í skoðanakönnunum hrapað úr 34% í um 20%. Samfylkingarfólk hefur verið frústrerað yfir þessu sem vonlegt er, leitar sökudólga og staðnæmist við konuna í brúnni. Og eins var greinilegt að ummæli Ingibjargar Sólrúnar um að þingflokkurinn nyti ekki trausts, sem mér fundust til marks um hugrekki og heiðarleika af hennar hálfu, hleyptu mjög illu blóði í marga þingmenn flokksins.
Ég var stuðningsmaður Halldórs Ásgrímssonar og mér finnst vægast sagt að það andstreymi sem Ingibjörg hefur mætt í umræðu undanfarið vera hjóm miðað við þau spjót sem stóðu á Halldóri, mér finnst það líka hjóm miðað við þá gagnrýni sem t.d. Valgerður Sverrisdóttir sat undir í viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu. Og mér finnst hún hjóm miðað við margt af því sem beindist gegn Davíð Oddssyni á sínum tíma og rann meðal annars úr penna sama Hallgríms Helgasonar sem skrifaði greinina í Fréttablaðið á dögunum. En það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem það kemur í ljós að það er eitt að gera kröfur á aðra og annað að rísa undir þeim sjálfur. Og þess vegna get ég ekki annað en hlegið þegar Samfylkingarfólk er að kvarta undan skorti á málefnalegri umræðu um pólitík í landinu. Það má þó hann Össur eiga að hann hefur ekki gerst söngmaður í þessum kór, enn sem komið er. Kannski á hann grein um þetta einelti gegn Ingibjörgu í blöðunum á morgun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.2.2007 | 17:03
DV án áskriftar
DV hefur göngu sína sem dagblað á ný á morgun en samkvæmt þessari frétt verður ekki hægt að gerast áskrifandi að blaðinu, nema þá helgaráskrifandi, eins og verið hefur frá því að útgáfu þess sem dagblaðs var hætt.
Undarleg staða fyrir dagblað á Íslandi að geta ekki sóst eftir áskrifendum en þetta er vitaskuld vegna þess að ekki er til dreifingarkerfi til þess að annast dreifingu síðdegisblaðs. Væntanlega mun þetta hafa áhrif á efnistökin og auka enn frekar mikilvægi sölulegrar forsíðu á hverjum degi fyrir afkomu blaðsins.
21.2.2007 | 16:25
Ég er sammála Kolbrúnu Halldórsdóttur
Það gerist ekki oft, en þegar ég hlustaði á utandagskrárumræðu í þinginu um meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga var ég sammála Kolbrúnu Halldórsdóttur þegar hún hvatti til þess að sá lærdómur yrði dreginn af Byrgismálinu að sameina eigi heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti. Þá þyrftu menn ekki lengur að hártogast um heilbrigðisstofnanir og búsetuúrræði og þau gráu svæði sem geta myndast við slíkar hártoganir.
Ég var reyndar ekki sammála Kolbrúnu um hennar fílósóferingar um orsakir alkóhólisma og fíknar sem mér þóttu bera með að enn geti hún bætt við sig upplýsingum á grunnþætti málsins, eins og glöggt kom fram í bestu ræðu umræðunnar, þeirri sem Katrín Fjeldsted hélt. En þarna hitti hún svo sannarlega naglann á höfuðið, þótti mér. Það er svo auðvitað rétt sem Siv sagði að jafnvel þótt ráðuneytin yrðu sameinuð stæði eftir að munurinn á heilbrigðisstofnunum og félagslegum búsetuúrræðum.
Það er reyndar í gangi í stjórnarsamstarfinu vinna við að endurskoða lögin um stjórnarráðið, hún hófst sem verkefni Björns Bjarnasonar og Árna Magnússonar og var komin nokkuð á veg þegar Árni lét af störfum. Hvað er orðið af þessu? Væri það ekki tilvalið hjá þessari ríkisstjórn að sameina atvinnuvegaráðuneytin þrjú (landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðar-) í eitt ráðuneyti, sameina heilbrigðis- og félagsmáalráðuneyti í eitt ráðuneyti, þó þannig að jafnréttismál fari undir forsætisráðuneyti og e.t.v. sveitarstjórnarmál í innanríkisráðuneyti þar sem dómsmálaráðuneytið væri og samgönguráðuneytið.
Að lokum minni ég á hugmyndir bæjarstjórans um greiningarstöð til að samhæfa nýtingu meðferðarúrræða en bæði Hjálmar Árnason og Ögmundur Jónasson hafa flutt þingmál í þá veru.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.2.2007 kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2007 | 16:20
Engin dramatík, en maður má nú vona
Búinn að kanna stóra fjárlaganefndarmálið nánar og það reyndist ekki jafndramatískt og ég var að vona. Skýringin er einfaldlega sú að það voru ekki fleiri stjórnarliðar mættir á nefndarfundinn en þessir fjórir sjálfstæðismenn og þess vegna voru þeir minnihluti í nefndinni þegar málið var afgreitt. Framsóknarmennirnir sem mættu ekki á nefndarfundinn studdu álitið í gegnum atkvæðagreiðslu, svo þetta var stormur í vatnsglasi. En maður má nú vona!
Í raun er kominn tími til að Framsóknarflokkurinn launi Sjálfstæðisflokknum fyrir þau svik sem hann hefur framið undanfarnar vikur í stjórnarsamstarfinu. Hæst ber vitaskuld niðurstöðu - eða skort á niðurstöðu í stjórnarskrárnefnd - þrátt fyrir ákvæði stjórnarsáttmála um að í stjórnarskrá verði sett ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar. Ég vil eggja þingmenn Framsóknarflokksins til þess að beygja Sjálfstæðisflokkinn rækilega í því máli.
Svo má halda því til haga að Sjálfstæðisflokkurinn heldur nýsköpunarfrumvarpi iðnaðarráðherra enn í gíslingu í nefndum þrátt fyrir að allir viti að samið var um það við afgreiðslu RÚV-frumvarpsins að það frumvarp yrði að lögum samhliða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2007 | 15:34
Stjórnarmeirihlutinn klofnar í fjárlaganefnd
Við atkvæðagreiðslu um frumvarp til lokafjárlaga ársins 2005, á Alþingi rétt í þessu, kom fram að stjórnarmeirihlutinn klofnaði í fjárlaganefnd um afgreiðslu málsins. Efnislega er málið lítið en engu að síður er þetta afar fátítt. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Einar Oddur, Arnbjörg, Gunnar Örlygsson og Drífa Hjartardóttir) í nefndinni mynduðu 1. minnihluta og lögðu fram tvær breytingartillögur við frumvarp Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, þar sem hnikað er til tillögum Árna og embættsmanna hans.
Fulltrúar Framsóknarflokksins í nefndinni (Birkir J. Jónsson, formaður nefndarinnar, og Guðjón Ólafur Jónsson) standa ekki að þessari breytingartillögu. Nú á ég eftir að lesa fylgskjölin (hér, hér og hér) sem þarf að glugga í til að átta sig á þýðingu þessa (við atkvæðagreiðslu var málinu vísað áfram til 3ju umræðu) en allir sem fylgjast vel með stjórnmálum vita að það sætir talsverðum tíðindum í þessu senn 16 ára stjórnarsamstarfi að stjórnarflokkarnir standi ekki saman að nefndaráliti við afgreiðslu ríkisstjórnarfrumvarps úr nefnd. Jafnvel Kristinn H. Gunnarsson stóð nær undantekningalaust að meirihlutaálitum sameinaðs stjórnarliðsins. Í þessu máli er um smáfjárhæðir að ræða á mælikvarða þingsins, hundraðþúsundkalla og fáeinar milljónir til eða frá.
Það er greinilegt að kosningar eru að nálgast. Hvernig væri nú að framsóknarmenn svöruðu fyrir sig með því að knýja fram samþykkt frumvarps um að auðlindir sjávar skuli teljast almenningseign, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum, það er komið fordæmi fyrir smá sólói í aðdraganda kosninganna. Það vita allir að það er samstaða um slíka breytingu meðal allra nema sjálfstæðismanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2007 | 12:00
Hvor er róttækari femínisti, Valgerður eða Steingrímur J?
Fór að velta spurningunni í fyrirsögninni fyrir mér þegar ég var að rúnta á netinu áðan og sá annars vegar rifjuð upp orðaskipti þeirra tveggja í þinginu á árinu 2001 og hins vegar pistil Valgerðar, þar sem hún er að tala um hlut kvenna í íslenskum stjórnmálum. T.d. þetta:
Þegar við lítum til baka hér heima, og út fyrir landsteinana, hlýtur það að vera umhugsunarefni að kona hafi aldrei hlotið stuðning til að gegna ákveðnum ráðherraembættum hér á landi. Ég nefni hér embætti fjármálaráðherra, landbúnaðarráðherra, sjávarútvegsráðherra og samgönguráðherra, að ógleymdu forsætisráðherraembættinu. Ekki er það vegna þess að skortur er á hæfum konum. Ég hef kynnst hæfileikaríkum konum úr öllu litrófi stjórnmálanna sem gætu sinnt þessum embættum með miklum sóma.
Svo las ég þetta á síðunni hjá Birni Inga, þar sem hann (í tilefni af yfirlýsingum Steingríms J. um að hann sé róttækur feministi) var að rifja upp orðaskipti hans við Valgerði í þingsal árið 2001. Þá sagði hinn yfirlýsti feministi þetta um viðmælanda sinn:
Það er eins og mig minni að [Valgerður Sverrisdóttir] eigi frama sinn m.a. að þakka því að hafa ung verið kjörin fyrsta konan í stjórn Kaupfélags Eyfirðinga. Síðan stóð svo á í framhaldinu að það vantaði konu í stjórn SÍS og þá var [Valgerður] einnig kjörin þar inn til forustu. Síðan lá leiðin áfram upp í þingsæti eins og kunnugt er. Hér talar sá sem gerst á að þekkja.
Undarlegur þessi feminismi hans Steingríms og það má með sanni segja að það sé róttækt að sá sem svona talar kenni sig við femínísma. Það væri kannski nær að tala um hann sem óvenjulegan feminista. Á þennan venjulega mælikvarða virkar hann svona álíka róttækur í sínum feminisma og Geir H. Haarde og Guðni Ágústsson og flestir aðrir stjórnmálakallar af þessari kynslóð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2007 | 17:52
Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins, góðan dag!?!
Þessa vikuna má segja að Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins sé kostaður af Háskólanum í Reykjavík og Reykjavíkurborg. Þetta er þannig að þrír kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins - tveir borgarfulltrúar og þingmaður - verða frummælendur á ráðstefnu sem Háskólinn í Reykjavík er að gangast fyrir í lok vikunnar í félagi við Reykjavíkurborg og Álaborgarháskóla. Ráðstefnustjóri verður Guðfinna Bjarnadóttir, verðandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, - fjórði fulltrúi Flokksins eina á staðnum.
Helga Vala vakti athygli mína á þessari samkomu,. Hún talar um að nemendur HR séu reiðir og telji að fyrrverandi rektor sé að misnota skólann pólitískt. Sjálfsagt hafi ráðstefnan verið undirbúin í rektorstíð Guðfinnu.
Allir pólitíkusar sem koma að ráðstefnunni eru sjálfstæðismenn. Þarna er gamli, góði Villi og Jórunn Frímannsdóttir borgarfulltrúi, og líka Guðlaugur Þór þingmaður. Forstjóri Sjóvár, sem er fyrrverandi formaður Heimdallar, mun svo fjalla um hvað tryggingafélögin ætla að hugsa vel um gamla fólkið þegar sjálfstæðismenn eru búnir að einkavæða velferðarkerfið. Önnur pólitísk sjónarmið komast ekki að.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.2.2007 | 15:58
Hvað ætlar Guðjón Arnar að sitja lengi?
Smá hugdetta í framhaldi af hinni óvæntu ákvörðun Kristins H. Gunnarssonar að gerast aftursætisfarþegi Guðjóns Arnars í stað þess að leiða eitthvert kjördæmi og verða þannig augljóst ráðherraefni ef svo færi (sem guð forði okkur frá) að frjálslyndir fái aðild að næstu ríkisstjórn.
Getur verið að Guðjón Arnar sé farinn að huga að því að setjast í helgan stein fljótlega á næsta kjörtímabili? Að hann ætli sér að standa upp og eftirláta Magnúsi Þór formennsku í flokknum fljótlega og skilja þá við flokkinn með Kristin sem leiðtoga í Norðvesturkjördæmi. Getur það verið díllinn í þessu? Veit auðvitað ekkert um það en þannig meikar sú ákvörðun Kristins að gerast varaskeifa Guðjóns Arnars fyrst einhvern sens fyrir mér.
Það er óhætt að segja að Guðjón Arnar sé kominn af léttasta skeiði. Hann verður 63 ára í sumar og mun vonandi verða látinn svara því fljótlega hvort hann hafi hugsað sér að sitja á þingi til 2011 eða hvort hann ætli sér að fara að njóta ávaxtanna af eftirlaunafrumvarpinu fljótlega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2007 | 12:41
Skotskífa sett á Einar Odd
Athyglisverð niðurstaða að Kristinn H. Gunnarsson ætli sér að setjast í aftursætið hjá Guðjóni Arnari Kristjánssyni í Norðvesturkjördæmi. Mest hefur verið um það rætt að hann mundi leiða lista á vegum flokksins enda hefði maður talið að frjálslyndir mundu tefla fram manni með þá miklu reynslu sem Kristinn býr yfir sem ráðherraefni. Var annað hvort Reykjavíkurkjördæmið nefnt í því sambandi.
Það verða sem sagt tveir fyrirferðaðrmiklir Vestfirðingar, Guðjón Arnar og Kristinn H. Gunnarsson sem skipa efstu sæti frjálslyndra í Norðvesturkjördæmi. Báðir njóta nokkurs persónufylgis í sínu kjördæmi, sem á rætur að rekja til gagnrýni þeirra á stefnu stjórnvalda í sjávarútvegi og byggðamálum. Með þessari niðurstöðu mun Kristinn geta einbeitt sér að slíkum málflutningi og forðast að lenda á oddinum í útlendingaumræðu flokksins. Sjálfsagt mun sameiginlegt framboð þeirra félaga hrista upp í hlutunum í pólitíkinni í þessum landshluta á næstunni og skal því spáð hér að þessi niðurstaða auki ekki líkur á því að Einar Oddur Kristjánsson, Vestfirðingurinn í baráttusæti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, nái kjöri.
Kristinn í 2. sæti hjá Frjálslyndum í Norðvesturkjördæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2007 | 11:52
Margrét er enn handan við hornið, á fundi með JFM
Þótt enn sé beðið eftir því að framboðsmál Margrétar Sverrisdóttur skýrist og að niðurstaðan, sem var handan við hornið fyrir mörgum dögum, komi fram í dagsljósið er unnið af krafti að undirbúningi framboðs.
Margrét tók daginn í dag snemma og snæddi morgunverð með Jakobi Frímann Magnússyni, Stuðmanni, varaþingmanni Samfylkingarinnar og nýjum umboðsmanni Silvíu Nóttar á Hótel 101. Væntanlega verður Jakob einn helstu forkólfa nýja framboðsins en meðal annarra sem rætt er um í tengslum við framboð Margrétar er Ómar Ragnarsson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.2.2007 | 15:47
15 ár frá Skítlegu eðli - hátíðarhöld ná hámarki á forsíðu Mbl.
Hátíðarhöld sjálfstæðismanna og (annarra áhugamanna um bandarískt þingræði) standa nú yfir til að minnast þess að hinn 13. febrúar voru liðin 15 ár frá því að forseti Íslands lét falla hin ósmekklegu ummæli um skítlegt eðli Davíðs Oddssonar. Nær hátíðin hámarki með frétt á forsíðu Morgunblaðsins í dag.
Fréttin er fólgin í því að með orðhengilshætti hefur ritstjóra Morgunblaðsins tekist að snúa út úr auðskiljanlegum ummælum, sem forsetinn lét falla í viðtali við Egil Helgason á Stöð 2 í gær. Útúrsnúningnum er slegið upp í fjórdálka forsíðufrétt. Öllum sem viðtalið heyrðu mátti vera ljóst að þar var forsetinn ekki að halda því fram að stjórnarráðið væri deild í forsetaembættinu heldur hinu að sú túlkun væri álíka langsótt og hin að forsetaembættið væri deild í stjórnarráðinu, eins og sjálfstæðismenn virðast telja. Þarf mikinn hæfileika til skapandi heyrnar eða vilja til að slíta ummæli úr samhengi til þess að geta lagt út af ummælunum eins og Morgunblaðinu tekst að gera í forsíðufrétt og ritstjórnargrein í dag. Þeim, sem ekki þekkja til á ritstjórninni, þykir sjálfsagt undarlegt að enginn samstarfsmanna ritstjórans hafi náð að telja hann ofan af því að leggja forsíðu blaðsins undir þessa vitleysu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.2.2007 | 15:02
Baldur og Konni?
Reglugerðin sem Árni M. Mathiesen setti upp á sitt einsdæmi fyrir nokkrum dögum til þess að hindra bankana í því að gera upp bókhald sitt í erlendri mynt, líkt og Straumur-Burðarás gerir, hefur vakið furðulega litla umræðu í þjóðfélaginu og til að mynda ekki komið til umræðu í sölum Alþingis, svo ég viti.
Hafliði Helgason skrifaði ágætan leiðara um málið í Fréttablaðið í gær og einnig hefur Árni Páll Árnason, lögmaður látið málið til sín taka á heimasíðu sinni. Hann telur lagastoð reglugerðarinnar hæpna og er ekki í vafa um að með reglugerðinni séu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins að fara að vilja formanns bankastjórnar Seðlabankans og segir m.a.:
Samband Geirs Haarde og forvera hans er svipað og samband Baldurs og Konna og það fer ekkert á milli mála hvor er hugsuðurinn og hvor er spýtudúkkan í því sambandi. Þegar Davíð hvarf af vettvangi jókst fylgi Sjálfstæðisflokksins, því þjóðin vildi trúa því að nú væri lokið heiftúðugri hefndarherferð flokksins á hendur þeim forystumönnum í atvinnulífinu sem höfðu neitað að lúta flokkslegri forskrift. Endurkoma dúettsins Baldurs og Konna á svið stjórnmálanna sýnir að það var röng ályktun.
Í öllu þessu brambolti og óðagoti felast skýr skilaboð Sjálfstæðisflokksins til fyrirtækjanna í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að viðhalda ofþenslu og verðbólguþrýstingi og forðast stöðugleika eins og heitan eldinn. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar síðan að standa í vegi fyrirtækjanna þegar þau reyna að forðast þær búsifjar, sem þessi efnahagsóstjórn leiðir til, með því að gera upp í evrum. Til þess verða allir lagaklækir nýttir og nýjar reglur uppdiktaðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.2.2007 | 18:08
Vertu úti, hr. forseti, það er komið að Nágrönnum!
Það var athyglisvert að fylgjast með hinu ágæta viðtali Egils Helgasonar við Ólaf Ragnar Grímsson í Silfri dagsins á Stöð 2. Þegar klukkan var orðin tvö, (kannski einhverjar sekúndur yfir) og tilsettur tími liðinn, virtist Egill ekkert á þeim buxunum að fella talið. Fer þá ekki útsendingastjórinn að spila kynningarstef þáttarins undir orðum forsetans, og má ætla að það hafi hann ekki gert nema vera búinn að minna Egil á það í eyrað að slíta viðtalinu og ljúka þættinum.
Egill lét á engu bera og hélt viðtalinu áfram. Þess vegna voru síðustu mínútur viðtalsins þannig að kynningarstefnið hljómaði undir meðan forsetinn og Egill ræddu saman og greinilega hafði Ólafur Ragnar ekki hugmynd um hvað var í gangi. Afar sérstakt, svo ekki sé meira sagt.
Þetta var fyrsta flokks "almannaþjónustusjónvarpsefni"- þar til útsendingarstjórinn skarst í leikinn. Þarna var forseti Íslands í viðtali í beinni útsendingu, sem gerist sjaldan, svaraði af fullri hreinskilni um mörg af umdeildustu deilumál í samfélaginu, þar á meðal virkjanamál, varði embætti sitt af einurð gegn atlögum sjálfstæðismanna (og naut þess greinilega að skjóta því á Halldór Blöndal að hann hefði talið Bandaríkin til þingræðisríkja í ádrepu sinni á forsetann við þingsetninguna haustið 2004!).
En þeir á Stöð 2 máttu ekki til þess hugsa að viðtalið færi fram yfir auglýstan tíma af því að það þurfti að koma að tveggja klukkutíma endursýningu af áströlsku sápuóperunni Nágrönnum (!!!).
Ég ítreka að ég spái því að senn sjái fyrir endann á vist Egils á Stöð 2 og að hann flytji sig yfir til RÚV ohf. með haustinu. Held að þetta umhverfi svali illa metnaði Egils fyrir hönd þáttarins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.2.2007 | 19:43
Til hamingju - en hvor er hvor?
Fín niðurstaða ég er sammála því að Guantanamo- skrif Davíðs Loga, frumbyggjans hér á Moggablogginu, hafi staðið upp úr á síðasta ári.
Líka gleðilegt að Jóhannes Kristjánsson fái verðskuldaða viðurkenningu eftir það sem gekk á í lok ársins - fárið í kjölfar fyrsta Byrgisþáttarins. Jóhannes er brautryðjandi og Kompásþættirnir hafa sætt tíðindum og varpað hér ljósi á mál sem ella væru enn í þagnargildi.
Mér finnst líka vel við hæfi að verðlauna Auðunn Arnórsson fyrir alla ESB-umfjöllunina, sem ber með sér hans miklu þekkingu á viðfangsefninu. Gaman að því að þeir fyrrverandi félagarnir úr erlendum fréttum á Mogganum, Davíð Logi og Auðunn, standi saman í þessum sporum í dag. Gleður gamla Moggamenn nær og fjær.
Í tilefni dagsins læt ég loks verða af því að birta þessar myndir af tvíförunum, Davíð Loga Sigurðssyni og Josh Marshall. Tveir fínir bloggarar og blaðamenn. Hvor er hvor?
Davíð Logi fær tvær viðurkenningar fyrir umfjöllun um Guantanamo | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.2.2007 | 16:28
Þegar Davíð og Einar Oddur vildu hugsanlega ganga í ESB
Fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins haustið 1989 var lögð skýrsla svonefndrar aldamótanefndar sem flokkurinn hafði skipað. Starf nefndarinnar sætti tíðindum vegna þess að leiðtogi hennar var sjálfur Davíð Oddsson, þá borgarstjóri í Reykjavík en í augum allra sem fylgdust með stjórnmálum, framtíðarleiðtogi flokksins. Tæpum tveimur árum eftir að skýrslan var lögð fram komst Davíð Oddsson í þá aðstöðu til að hafa öðrum mönnum meira að segja um þá stefnu sem íslenskt þjóðfélag tæki og þeirrar aðstöðu naut hann langt fram á þessa öld, sem kunnugt er.
Í aldamótanefndinni sátu með Davíð valinkunnir einstaklingar, Einar Oddur Kristjánsson, fiskverkandi á Flateyri, formaður VSÍ og síðar þingmaður, Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og fyrrverandi bloggari, Sigríður Anna Þórðardóttir, nú þingmaður og fyrrverandi ráðherra, Valur Valsson, bankastjóri og Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri og nú forstjóri Flugstoða.
Skýrslan sem lögð var fram er nú hvergi aðgengileg á vefnum og kannski hvergi nema í skjalasafninu í Valhöll og á Þjóðskjalasafninu. Það er synd því vissulega væri verðugt rannsóknarefni að rifja upp þá sýn á þróun samfélagsins sem Davíð lagði fram rétt áður en hann komst til valda og bera saman við þá þróun sem síðar varð. En í þeim eftnum er í fljótu bragði aðeins hægt að styðjast við blessað Morgunblaðið, sem fjallaði nokkuð um störf nefndarinnar í fréttum sínum, nú opnum og aðgengilegum á vefnum.
Og í Morgunblaðinu er meðal annars fjallað um skýrslu aldamótanefndarinnar í þessari frétt, föstudaginn 6. október 1989:
Í DRÖGUM að greinargerð aldamótanefndar Sjálfstæðisflokksins er minnt á að Íslendingar taki nú þátt í viðræðum við Evrópubandalagið (EB) með öðrum EFTA-ríkjum.
Þar kunni að nást samkomulag sem Íslendingar geti sætt sig við til frambúðar. Hugsanlega verði þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngönguna ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki.
Í greinargerðinni sem lögð er fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins án þess að þar verði formlega tekin afstaða til hennar, segir að gjaldeyris- og gengismál, peningastjórnun og lagaleg atriði varðandi eignarhald fyrirtækja og skattalega meðferð þeirra hljóti að þurfa að færast í átt við það, sem viðurkennt er og best þykir til brúkunar í þeim löndum, sem viljum skipta við. Við getum ekki treyst því að endalaust verði horft í gegnum fingur við okkur af því að við séum lítil og skrítin og hernaðarlega mikilvæg þjóð á norðurhjara.
Í drögunum segir: "Hugsanlega verður þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngönguna ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki. Verði sú niðurstaðan, að þau séu óaðgengileg talin, hafa menn heldur engar brýr brotið að baki sér. Og þrátt fyrir allt er líklegt að smæð okkar verði okkar styrkur ásamt með því að við erum að véla við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og margar hefðbundnar vinaþjóðir, þar sem við njótum trausts. Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að við séum sjálfir að búa okkur til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar meðað veikja okkar eigin samningsstöðu er við mætum með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópubandalagið. . .
Í væntanlegum samningum við Evrópubandalagið í hvaða formi sem þeir verða, hvort heldur með öðrum EFTA-ríkjum eða á tvíhliða grundvelli, hljótum við að hafa það hugfast, að við náum fram því sem við viljum, ef sæmilega fast er fylgt á eftir og sanngirni beitt. Með þessum hætti unnum við að lokum fullan sigur í landhelgisbaráttu okkar með fullu forræði á 200 mílna efnahagslögsögu."
Hvað breyttist?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 27
- Frá upphafi: 536808
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar