hux

3%

Mér fannst athyglisvert að lesa frétt Moggans af aðalfundi Kaupþings. Þar kemur fram að eingöngu 3% af hagnaði bankans, eða um 3 milljarða, megi rekja til viðskipta hans við einstaklinga og smærri fyrirtæki hér á landi.


15 mínútur

Ritstjórn Moggans glefsar í Össur á forsíðu í dag fyrir sýndarmennsku og skrípó. Röggi rakari tekur doktorinn líka fyrir og segir

Hann er aðallega í því að fara þangað sem hann heldur að vinsældirnar séu mestar hverju sinni. Þess vegna vantar alltaf herslumuninn.Þetta hefur enn einu sinni sannast undanfarna daga í umræðunni um auðlindamálið. Engin heildarsýn. Allt snýst um 15 mínútna frægð.


DV bauð í aðstoðarrritstjóra Króníkunnar

Arna Schram, aðstoðarritstjóri Króníkunnar, fékk atvinnutilboð frá DV á dögunum. Henni var boðið starf aðstoðarritstjóra, þ.e.a.s. að vera manneskja númer tvö á ritstjórn blaðsins.

Arna afþakkaði þetta góða boð. Hún er nýbúin að skipta um vinnu, hætt á Mogganum eftir meira en áratug og orðin aðstoðarritstjóri hins nýja tímarits Króníkunnar. Þar heldur úti ágætri pólitískri fréttaumfjöllun, einhverri hinni snörpustu sem völ er á um þessar mundir.


Þar fauk baksíðan

Í dag er stigið enn eitt skrefið í umbreytingu Morgunblaðsins. Baksíðan er komin í nýjan búning, hún er ekki lengur ein helsta fréttasíða blaðsins, heldur einhvers konar sambland af auðlesnu efni, fréttayfirliti, fréttum af fólki og neytendafréttum. Gott og vel.

Ég vandi mig snemma á að lesa Moggann afturábak, byrja á baksíðunni. Ég gerði þetta líka þau tæpu 14 ár sem ég vann á blaðinu. Baksíðan var aðalsíðan fyrir innlendar fréttir, af einhverjum dularfullum ástæðum var forsíðu blaðsins um 40 ára skeið sóað í erlendar fréttir. Verkföll í Bretlandi áttu frekar erindi á forsíðu blaðsins en verkföll á Íslandi, o.s.frv. Ekki spyrja mig hvers vegna, einhverjir sögðu það vera vegna þess að íslenskt þjóðfélag væri Morgunblaðinu ekki almennilega samboðið, það væri á æðra plani.

Nú eru breyttir tímar, nokkur ár síðan innlendar fréttir fóru að bera uppi forsíðuna og fyrr í vetur fóru breytingar í myndanotkun og fréttaskýringar á forsíðu að vekja athygli. Allt er þetta til þess að gera blaðið neytendavænna og er í heildina til bóta þótt enn gerist það reglulega að flokkspólitísk fréttaritstjórn og óskiljanleg heilaköst rýri gildi forsíðunnar og þar með blaðsins alls. Um það eru þrjú sterk og nýleg dæmi, síðast í gær. En Mogginn heldur áfram að þróa sig og reyna að gera nýjum lesendahópum og nýjum kynslóðum til hæfis. Gott hjá honum, þetta er allt að koma þótt það sé talsvert eftir enn.


Óli Björn hættur á Viðskiptablaðinu

Viðskiptablaðið í dag staðfestir orðróm sem verið hefur í gangi um hríð. Óli Björn Kárason, útgáfustjóri og stofnandi Viðskiptablaðsins, hefur látið af störfum. Exista keypti nýlega ráðandi hlut í Viðskiptablaðinu. Sú breyting var gerð á sama tíma og Viðskiptablaðið fjölgaði útgáfudögum úr tveimur í fjóra í viku. Í yfirlýsingu sem birt er í blaðinu í dag kemur fram að Óli Björn hafi kosið að láta nú af störfum og snúa sér að öðrum verkefnum en að hann muni áfram skrifa reglulega í blaðið. Það verður mikill missir að Óla Birni fyrir Viðskiptablaðið.

Þetta hafa margir fullyrt

Gylfi Gylfason, sölukall fyrir norðan og Moggabloggari fjallar um mál sem lengi hefur verið á slúðurstiginu og segir að heildsalar kaupi hillupláss með auglýsingum í miðlum á vegum Baugs. 

[...]heildsalinn þarf að borga fjölmiðlum Baugsmanna milljónir til að kaupa hillupláss. [...]Það versta er að heildsalar steinhalda kjafti því þeir þora ekki öðru, vilji þeir ekki missa af helming íslensks matvörumarkaðar á einu bretti.

Um þetta hefur lengi verið slúðrað en fólk í heildsölu hefur sagst ekki þora að hætta afkomu sinni með því að tala opinberlega um málið.


Orð dagsins

Leiðari Moggans í dag: 

Það er vond niðurstaða að stjórnarflokkarnir hafi ákveðið að afgreiða ekki á þessu þingi tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins þess efnis, að ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum verði tekið þar inn. Það þýðir ekkert fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að kenna stjórnarandstöðunni um. Þessir tveir flokkar höfðu og hafa bolmagn á Alþingi til þess að afgreiða þetta mál. Þeir lofuðu því við upphaf kjörtímabilsins að taka þetta ákvæði inn í stjórnarskrá og þeir hafa nú formlega svikið það loforð. Verst er fyrir stjórnarflokkana að þeir hafa engin rök fyrir þessari ákvörðun. Þeir voru búnir að koma sér saman um orðalag og áttu að standa við það. Það þýðir ekkert að bera það fyrir sig að meiri tíma hafi þurft til að sameina ólík sjónarmið varðandi orðalag o.fl. Lögfræðingar eru margir miklir snillingar í sínum fræðum en það er alveg ljóst, að það er hægt að kaupa hvaða álit sem er hjá lögfræðingum. Að lokum er það Alþingi, sem setur lög og afgreiðir tillögur um breytingar á stjórnarskrá með sínum hætti.


Brynjólfur og Orri að hætta hjá Símanum?

Orðrómur dagsins er sá að tilkynnt verði um starfslok Brynjólfs Bjarnasonar, forstjóra, og Orra Haukssonar, framkvæmdastjóra, á aðalfundi Símans sem hefst kl. 17 í dag. Báðir voru þeir ráðnir pólitískt af samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins til fyrirtækisins og hafa haldið stöðum sínum eftir einkavæðingu þess.

Steingrímur J. flutti áramótaávarp forsætisráðherra í kvöld

Ég var að horfa á Steingrím Jóhann Sigfússon máta sig við færsætisráðherrahlutverkið í fyrsta skipti á almannafæri. Það var í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Hann kom með skrifaðan heimastíl  í fyrsta skipti árum saman við þetta tækifæri, fór með ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, talaði landsföðurlega um gæfusama þjóð, sem kveður veturinn og gengur saman út í vorið. Þetta var einhvers konar áramótaávarp forsætisráðherra, gjörólíkt öllu því sem ég hef áður séð til Steingríms í ræðustól Alþingis.

Það liggur fyrir að ég er ekki helsti aðdáandi Steingríms en mér fannst hann ekki ná sér á strik í ábyrga landsföðurhlutverkinu. Hingað til hefur Steingrímur J. verið pottþétt skemmtiatriði í eldhúsdagsumræðum, talað það sem andinn blés honum í brjóst þar og þá, fljúgandi mælskur, rauður af reiði.

Það var rétt svo að það glitti í þann kappa sem maður kannast við í nokkrar sekúndur eða kannski hálfa mínútu í kvöld þegar hann skammaðist rétt aðeins út í ríkisstjórnina fyrir Írak, málefni RÚV og svikna vegaáætlun, kveinkaði sér undan ósanngjarnri gagnrýni og talaði um spunameistara.

Þá sleppti hönd hans aðeins taki á pontunni og hóf vísifingurinn reiðilega á loft. En það var bara í andartak, svo var eins og það rifjaðist upp fyrir Steingrími að hann var þarna kominn til að sýna þjóðinni hvernig hann tæki sig út sem forsætisráðherra. Höndin seig, greip um pontuna og Steingrímur J. Sigfússon fór að tala um gæfusama þjóð, veturinn og vorið.


Athyglisvert

Samtök herstöðvarandstæðinga (VG ) gengust í gær fyrir kvikmyndasýningu þar sem tekjur af veitingasölu runnu í sjóð fyrir lögfræðikostnaði "anarkista sem mótmælt hafa lokum Ungdomshuset í Kaupmannahöfn." Skyldu hafa safnast háar fjárhæðir?

ps. 17.3. Mér er bent á í kommenti í nafni sanngirni og nákvæmni að þau heita Samtök hernaðarandstæðinga og eru ekki deild í VG þótt mikil skörun sé milli félagaskráa safnaðanna tveggja. Það voru félagar í Anarkistabókasafninu Andspyrnu sem seldu hernaðarandstæðingum matinn.


Skýrsla Evrópunefndar: VG vill bakka út úr EES

Eins og fram hefur komið hér áður skiluðu fulltrúar sjálfstæðismanna og VG sameiginlegri bókun í Evrópunefnd undir stjórn Björns Bjarnasonar.  En að auki gera fulltrúar flokkanna tveggja sérbókun, hvor fyrir sig.

Sérálit Ragnars Arnalds og Katrínar Jakobsdóttur felur í sér grímulausa einangrunarhyggju þar sem kemur fram sú stefnumörkun að það geti þjónað hagsmunum Íslands til framtíðar að þróa samstarf við Evrópu í átt frá EES-samningum og að einfaldara tvíhliða samstarfi. 

Fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar -græns framboðs leggja áherslu á að hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja séu í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans en miðstýring og skrifræði samfara skorti á lýðræði einkenni stofnanir þess um of. Þótt EES-samningurinn sé langt í frá gallalaus og byggist um of á forræði ESB teljum við reginmun á því fyrir Íslendinga að byggja samskipti sín við ESB á EES-samningnum fremur en með inngöngu í Evrópusambandið með þeim stórfelldu ókostum sem ESB-aðild fylgja eins og fyrr er rakið. Á komandi árum gæti það þjónað hagsmunum Íslands betur en ESB-aðild að þróa EES samninginn í átt til einfaldari tvíhliða ramma um viðskipti og samvinnu.

Skýrslan er stórmerkileg lesning og greinilegt að vandað hefur verið vel til starfsins og miklar upplýsingar dregnar saman.


Nyhedsavisen lokar vegna sumarleyfa

Nyhedsavisen, danski Baugsmiðillinn, mun loka vegna sumarleyfa og ekki koma út í 2-5 vikur meðan sumarleyfi standa sem hæst í Danmörku. Ég hélt að sumarlokanir fjölmiðla heyrðu sögunni til eftir að Ríkissjónvarpið hætti að taka sér frí í júlímánuði. Nú ætlar þessi íslenski útrásarmiðill að endurvekja þjóðlegar hefðir og flytja út íslenskt sumarleyfi á danskan fjölmiðlamarkað.

Svenn Dam, forstjóri Nyhedsavisen, staðfestir sumarlokun í samtali við viðskiptaritstjórn Berlingske en segir lengd tímabilsins ekki fastákveðna: "Det kan være alt fra to til fem uger. Men vi neddrosler nok på en eller anden måde. Det kunne også være, at vi vælger at forsætte i enkelte områder, hvor kunderne efterspørger annoncerne mere end andre steder," segir Svenn Dam.

Fram kemur að fríblaðið 24timer muni einnig loka vegna sumarfría og að hjá fríblaðinu Dato séu menn einnig að íhuga þetta. Spurningin er auðvitað hvort menn komi til baka úr sumarfríinu, það er ljóst að tapið á Nyhedsavisen og öllum dönsku fríblöðunum er langt umfram það sem menn áætluðu og áætlanir Nyhedsavisen um lesendafjölda hafa ekki gengið eftir.


Samfylkingin á staðfastri leið fram af bjargbrúninni

Brjóstumkennanleg aðstaða Samfylkingarinnar í pólitíkinni um þessar mundir kom vel í ljós við umræður um störf þingsins í upphafi þingfundar í dag. Þar var Steingrímur J. Sigfússon krafinn svara um þau sinnaskipti sem komið hafa fram í málflutningi hans um virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Guðjón Ólafur Jónsson rifjaði upp að í nóvember 2005 hefði Steingrímur  verið krafinn svara um hvort hann væri yfirleitt meðmæltur einhverju máli eða hvort hann væri á móti öllu Hann kom upp í ræðustól þingsins og nefndi að hann væri t.d. á því að virkjanir í neðri hluta Þjórsár væru ágætur kostur. Það stóð stutt og var sennilega einhvers konar misskilningur því nú er Steingrímur á móti því máli eins og öðrum. Hann hefur einfaldan smekk: hann er á móti. Vísbendingar sem komið hafa fram um annað ber að hafa að engu.

En í þessari hálftíma umræðu hafði Samfylkingin aðeins eitt fram að færa, Mörður Árnason kvaddi sér hljóðs til þess að bera blak af Steingrími og VG, flokknum sem er búinn að koma Samfylkingunni ofan í léttvínsfylgi. (Í þessu samhengi má vitaskuld rifja upp að Mörður sjálfur hefur áður talað um virkjanir í neðri hluta Þjórsár sem vænlegan virkjanakost þótt hann kannist ekki við það lengur.) 

Aðstaða Samfylkingarinnar er brjóstumkennanleg af því að óttinn við  glundroðakenninguna um innbyrðis sundirlyndi vinstri flokkanna leiðir til þess að talsmenn hennar á þingi þora ekki að deila á Steingrím J. Sigfússon eða Vinstri græn. Á sama tíma sýna skoðanakannanir að VG stækkar á kostnað Samfylkingarinnar og að óbreyttu er augljóst að Steingrímur verður forsætisráðherra fari svo ólíklega að stjórnarandstaðan nái þingmeirihluta í komandi kosningum og málefnalegri samstöðu um ríkisstjórnarsamstarf í framhaldi af því. Jafnframt er ýmislegt í hinum pólitísku spilum sem bendir til þess að mikil pólitísk samstaða sé nú orðin milli Sjálfstæðisflokksins og VG í ýmsum málum og að líklegast sé að næsta ríkisstjórn verði mynduð af VG og Sjálfstæðisflokknum. Samfylkingarinnar bíði enn eitt kjörtímabil í stjórnarandstöðu.

En Samfylkingunni eru allar bjargir bannaðar, henni er um megn að skipta um kúrs frá því sem lagt var upp með við upphaf kjörtímabilsins af Össuri Skarphéðinssyni og Birgi Hermannssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni hans. Samfylkingin kann ekki annað en að skammast út í Framsóknarflokkinn jafnvel þótt augljóst sé að sú aðferðafræði ýti undir vöxt og viðgang öfgaflokka og bitni ekki síst á Samfylkingunni sjálfri.

ps. mér hefur verið bent á það af miklum vínsérfræðingi að það er rangt að Samfylkingin sé komin ofan í léttvínsfylgi, hún stefnir þangað hraðbyri en hangir enn í sérrí- eða púrtvínsfylgi. 


Framsóknarrútan

Heiða telur að Ingibjörg Sólrún sakni Davíðs og segir: Þegar skoðaðar eru fylgistölur Samfylkingarinnar eru bein tengsl á milli þess tíma sem liðinn er frá því að Davíð hætti í ríkisstjórn og minnkandi fylgi Samfylkingar. Í raun og sanni var pólitísk staða Ingibjargar aldrei sterkari en þegar Davíð var í forsætisráðuneytinu.

Hallur Magnússon er byrjaður að blogga og segir um stjórnarskrármálið: Það kann að vera að lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli. Hugtakið sameign þjóðarinnar hefur ótvírætt gildi sem pólitísk yfirlýsing sem alþjóð skilur og sem slíkt mun ákvæði um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum Íslands hafa bein áhrif á lagasetningu eftir að það tekur gildi í stjórnarskrá.

Ragnar Bjarnason segir um sama mál í tilefni af könnun Fréttablaðsins: Af þessari skoðanakönnun er ljóst að mikill meirihluti fólksins í landinu er hlynntur því að ákvæðið fari inn í stjórnarskrá þó svo að menn telji að ekki sé tími til þess nú. Þannig er nú málum farið að ef ekki verður af þessu nú tefst gildistakan um ein fjögur ár og ég held að það sé ekki rétt að láta það gerast heldur eigi að ganga frá þessu nú. Stjórnarandstaðan bauð lengra þinghald til að koma þessu í gegn um þingið og þá er um að gera að nýta það.


Meira eggjahljóð: Vildu flytja Evrópumál undir forsætisráðuneyti

Lengi vel virtist stefna í að í skýrslu Evrópunefndar Björns Bjarnasonar yrði gerð tillaga um að taka  Evrópumál undan forræði utanríkisráðuneytisins og hinnar Evrópusinnuðu utanríkisþjónustu  og fela  sérstakri Evrópuskrifstofu í forsætisráðuneytinu að annast samskipti Íslands við Evrópusambandið.

Heimildir mínar herma að á  fundum nefndarinnar um síðustu helgi hafi þessi róttæka hugmynd hins vegar slegin út af borðinu, þrátt fyrir að hún ætti talsverðan hljómgrunn í nefndinni meðal fulltrúa VG og Sjálfstæðisflokksins, sem fundu þarna pólitískan samhljóm, eins og í þessu máli og þessu hér


Glundroðakenningin lifir en það er eggjahljóð í VG og xD

Glundroðakenningin um það að vinstri flokkarnir á Íslandi geti ekki stjórnað landinu vegna innbyrðis sundurlyndis lifir góðu lífi. Það kom vel fram í Silfri Egils í gær þar sem Ögmundur Jónasson og Árni Páll Árnason, þingmannsefni Samfylkingarinnar, rifust eins og hundur og köttur. Hafliði Jónsteinsson frá Húsavík benti á þann glundroða sem hlyti að ríkja þegar VG og Samfylkingin reyndu að ná málaefnalegri samstöðu.

Hins vegar var athyglisvert að það ríkti góður friður í umræðunum milli Illuga Gunnarssonar, sjálfstæðismanns, og Ögmundar Jónassonar, báðir voru hins vegar að etja kappi við Árna Pál. Með hverjum deginum sem líður finnst manni trúlegri sú kenning að VG og Sjálfstæðsiflokkurinn hyggi á samstarf eftir kosningar, þeir eiga samleið í Evrópunefnd Björns Bjarnasonar, og eru sammála um þá reglugerð sem fjármálaráðherra setti til þess þess að torvelda bönkunum að gera upp í erlendum myntum.

Og mér finnst þessar spurningar nokkuð góðar hjá Marsibil.  


Agureyri

Frá Akureyri að ég tel
er  ekki margs að sakna
jú-þar er fagurt þangað til
þorpsbúarnir vakna

Þessa vísu orti Flosi Ólafsson þegar hann yfirgaf Akureyri eftir að hafa verið rekinn úr Menntaksólanum þar á miðjum námsferli, ef ég man rétt. Þetta er ómerkileg níðvísa, þótt hún sé snyrtilega ort. Akureyri er fínn bær og þorpsbúarnir algjörlega til fyrirmyndar. Ég átti ánægjulega helgi á Akureyri og ekki spillti fyrir að fjögur lið Þróttara komust á pall í Goðamóti Þórs.


Persónur og leikendur

Umfjöllun Moggans og Fréttablaðsins um lyktir auðlindamálsins ber sterkan keim af því að ritstjórar beggja blaðanna hafa verið miklar aðalpersónur í pólitískum deilum um þetta mál hér á landi um langt skeið og fram á þennan dag og að þeir eru umfram allt áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum. Ólík nálgun þeirra á málið sýnir hve djúpt deilur sjálfstæðismanna um þetta mál rista og hafa lengi gert.

Auðvitað get ég ekki sagt að ég hafi orðið hissa að lesa þá fáránlegu framsetningu Moggans að þetta hafi snúist um einhverjar deilur innan Framsóknarflokksins og að Geir hafi lagt fram tillögu eftir tillögu þegar sleppt er að minnast á að allar voru þær tillögur viðbrögð við frumvarpi sem Jón Sigurðsson lagði upphaflega fram.  Og nú er eins og ritstjóri Moggans kannist ekki lengur við leiðarann frá 20. janúar og Reykjavíkurbréfið frá 11. febrúar. Ég er að fara að keyra norður á Akureyri og á leiðinni ætla ég að velta því fyrir mér, einu sinni enn, af hverju ég er að borga eitthvað um 2.400 kr. á mánuði til að kosta kosningaáróður og spuna Sjálfstæðisflokksins. 

Og Fréttablaðið gagnrýnir aðferðafræðina, rétt eins og ritstjóri þess blaðs hafði gert sem nefndarmaður í auðlindanefndinni. Enginn fréttapunktur um að áratugadeilumál sé til lykta leitt. Ekki heldur um að formenn stjórnarflokkanna leggi fram þingmannafrumvarp, sem hefur varla gerst síðan Ólafslögin voru sett, að ég held, og svo mætti áfram telja.


Til hamingju Moggi

Það er ástæða til að fagna þeirri niðurstöðu sem er fengin um í stjórnarskrána ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum og ekki aðeins auðlindum sjávar, eins og kveðið var á um í stjórnarsáttmála, heldur öllum auðlindum, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, í samræmi við niðurstöðu auðlindanefndar. Að vísu var orðalagi hnikað þannig að í stað vísunar í eignir sem ekki eru háðar eignarrétti er vísað í eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, sem einmitt kveður á um vernd eigna sem háðar eru eignarrétti. Um þetta var mikið þvargað í þjóðfélaginu á árum áður en umræðan hefur legið í láginni frá því að samið var um stjórnarskrárákvæðið í stjórnarsáttmálanum.

Alveg er sérstök ástæða til þess að óska Morgunblaðinu til hamingju með þessa niðurstöðu sem er í samræmi við það sem blaðið hefur barist fyrir um 20 ára skeið og lýkur nú með fullum sigri blaðsins,  - þökk sé framsóknarmönnum. Það verður gaman að lesa fagnaðarlætin á síðum blaðsins í fyrramálið. 


Liggur Straumur úr landi?

Ég undraðist það hér um daginn hve litla umræðu hún hefði vakið reglugerðin sem Árni M. Mathiesen, fjármálaráðhrera, setti eftir pöntun frá seðlabankastjóra til þess að hindra fjármálastofnanir í að gera upp bækur sínar í erlendri mynd. Vegna þess að jafnt fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa leitt málið hjá sér kemur  hún eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í umræðuna sú yfirlýsing sem Björgólfur Thor gaf hluthöfum Straums Burðaráss í dag um að bankinn mundi nú kanna hvort rétt væri að hann flytti úr landi, - beinlínis vegna þessarar reglugerðar. Með setningu hennar væru stjórnvöld að snúa af þeirri braut viðskiptafrelsis og alþjóðavæðingar sem þau hafa fylgt undanfarin sextán ár.

Eina framlag fjölmiðla til þessar umræðu sem ég hef séð fram að þessu er leiðari Hafliða Helgasonar í Fréttablaðinu og blaðagrein Árna Páls Árnasonar lögmanns. Árni Páll er strax búinn að bregðast við yfirlýsingu BTB á heimasíðu sinni og segir:


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband