hux

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Innanflokksvandamál?

Jóhannes Jónsson í Bónus, vinnuveitandi þúsunda kjósenda, auglýsir í öllum dagblöðum á eigin reikning í dag til þess að lýsa yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn en hvetur menn um leið til þess að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar. Undir stórri mynd af sjálfum sér hvetur hann sjálfstæðismenn í Reykjavík til þess að strika yfir siðleysið. Líklega þyrfti annar hver kjósandi að verða við óskinni til að hún hefði minnstu áhrif..

Það er eins og Jóhannes sé að segja að hann sé búinn að sættast við Sjálfstæðisflokkinn og ætli að kjósa hann, eina skuggann sem ber á sambandið er að Björn Bjarnason er á listanum.  Í texta auglýsingarinnar segir: Hvað skyldi Jón H.B. Snorrason eiginlega hafa á Björn Bjarnason úr því hann  hyggst skipa manninn í þetta háa embætti þrátt fyirr allt hans klúður? Mér finnst þetta með miklum ólíkindum og takið ekki feil á því að ég hef skömm á aðferðum Björns við embættisveitingar.

Þarna er öðru sinni á tveimur dögum reynt í krafti gríðarlegs auðs að hafa áhrif á úrslit og framgang kosninganna á morgun. Fyrir tveimur dögum kom Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, fram með 100.000 eintaka kosningablað þar sem hann hvatti til þess að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu ríkisstjórn.

Nú stígur Jóhannes Jónsson fram og hvetur fólk til þess að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, láta ekki hugsanlega óánægju með framgöngu stjórnvalda í Baugsmálinu fæla það frá flokknum. Þetta er maðurinn sem árum saman hefur haldið því fram að Baugsmálið hafi verið pólitísk aðför afla í Sjálfstæðisflokknum að honum og fjölskyldu hans. Nú er eins og hann sé búinn að sættast við nýja valdhafa í flokknum og Björn sé eini fleinninn í holdinu. (Er engum auðugum sjálfstæðismanni í Suðurkjördæmi misboðið út af veru Árna Johnsen þar á framboðslista? )

Geir H. Haarde bað réttilega um það um daginn að kosningabæklingur Hreins Loftssonar yrði færur á auglýsingareikning stjórnarandstöðunnar. Má ekki með sama hætti fara fram á að auglýsingar Jóhannesar, c.a. 1,5 milljón verði færðar á auglýsingareikning Sjálfstæðisflokksins? 


JBH styður Ómar

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins, lýsir stuðningi við Ómar Ragnarsson í aðsendri grein í Mogganum í dag. Hann segir: 

Með því að tryggja Ómari þingsæti, geta þessi kjósendur gert margt í senn: Fellt ríkisstjórnina, hnekkt stóriðjustefnunni, veitt Sjálfstæðisflokknum nauðsynlegt aðhald, axlað ábyrgð gagnvart afkomendum sínum og gengið út úr kjörbúðinni með góðri samvisku

 Af hverju stígur JBH þetta skref nú degi fyrir kjördag, maður sem er jafninnvígður og innmúraður í Samfylkinguna og hann? Er ástæðan sú að honum mislíkar það augljósa daður sem er í gangi milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins? Samfylkingin beinir engum spjótum að Sjálfstæðisflokknum í þessari baráttu og það er eins og báðir flokkar bíði eftir að baráttunni ljúki svo þeir geti myndað saman ríkisstjórnina sem Hreinn Loftsson var að panta í DV í fyrradag.


Raunveruleg sveifla í gangi

Mér sýnist mega álykta af þessu að að  það er í gangi raunveruleg sveifla til Framsóknarflokksins, sem vísbending kom fram um í Capacent könnuninni í gær, og sú sveifla kemur fram á lokaspretti kosningabaráttunnar.

Capacent er að mæla pólitíska landslagið í gær og fyrradag en könnun Félagsvísindastofnunar var að mestu tekin fyrir helgi.

Ég gæti trúað að yfirlýsing Valgerðar Sverrisdóttur um að flokkurinn fari ekki í stjórnarsamstarf fái hann útreið í kosningum sé hér að hafa áhrif.

Á morgun koma amk þrjár kannanir, stór könnun Fréttablaðsins, könnun Blaðsins og síðasta könnun Capacent.


mbl.is Samfylking og VG bæta við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langtímaminni III

Sjaldan hefur feitari kosningavíxill verið gefinn út en sá sem Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra undirritaði með búvörusamningi hálfum öðrum mánuði fyrir kosningar árið 1991. 30 milljarðar króna var verðmæti samningsins á verðlagi þess tíma. Ef ég kann að uppreikna vísitölu neysluverðs jafngildir það 53,3 milljörðum króna á verðlagi dagsins í dag.

Búvörusamningur Steingríms tók gildi á árinu 1992 og gilti til ársins 1998, þ.e. að öllu leyti eftir að kjörtímabili Steingríms lauk. Stjórnarandstaðan gagnrýndi þetta og sagði Pálmi Jónsson: "Þetta er einskonar stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar sem er að kveðja. Að vísu er næsta ríkis stjórn sett í óþægilega aðstöðu, því að það hefur auðvitað áhrif að bændasamtökin eru búin að skrifa undir þessa stefnuyfirlýsingu, að vísu með fyrirvara enn sem komið er. Eigi að síður er alþingi óbundið, og það hlýtur að koma í hlut næstu ríkis stjórnar að beita sér fyrir þeim laga breytingum sem hún vill koma fram, og ekki er hægt að segja á þessu stigi hvort verða þær sömu eins og núverandi ríkisstjórn vill að verði. Ég tel því að undirskrift á þessum svokallaða samningi hefði átt að bíða næstu ríkisstjórnar." Mér finnst eins og þarna sé Pálmi að segja nákvæmlega það sem stjórnarandstaðan hefur verið að segja undanfarna daga og allt gott og blessað um það.

Hálfum mánuði fyrir kosningar undirritaði Svavar Gestsson samning um byggingu bóknámshúss fyrir Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki. Svavar var víða á ferð með pennann og 11 dögum fyrir kosningar undirritaði menntamálaráðuneytið samning um byggingu síðari áfanga Fjölbrautarskóla Suðurlands. Framkvæmdirnar voru framundan næstu árin.

Liðlega 2 mánuðum fyrir kosningarnar 1991 fól Steingrímur J. Sigfússon samgönguráðherra Vegagerðinni að bjóða út framkvæmdir við jarðgöng á Vestfjörðum. Að því máli hafði lengi verið unnið og fyrir lá þingsályktun Alþingis og heimild til að verja 380 milljónum til verksins þetta ár, sem var innan við 10% af heildarkostnaði. Þessu var spilað út í aðdragand kosninga. Þremur dögum fyrir kosningar undirritaði hann svo samning um smíði nýs Herjólfs og batt þar með endahnút á nokkurra ára ferli þar sem fyrir lágu heimildir Alþingis. 

Stjórnarandstaðan nú hefur gagnrýnt ýmsa kosningavíxla og VG lagt fram frumvarp um að banna slíkt 90 dögum fyrir kosningar. Stefán frændi minn Pálsson segir mér að þetta eigi aðeins við um samninga og yfirlýsingar sem ekki styðjist við fjárheimildir frá Alþingi. Hann mótmælir því harðlega að ég nefni Herjólf í þessu sambandi. Nú hef ég ekki farið yfir alla "kosningavíxla" þessa árs en tel að flestir þeirra styðjist við samþykki og fjárheimildir, amk hvað varðar þetta ár. Ég held því að það sé í raun enginn munur á þessum málum sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt nú og stjórnarandstaða á öllum tímum hefur gagnrýnt og í raun sé þessi framganga í samræmi við rótgrónar venjur og hefðir í íslenskri pólitík, hvað sem mönnum finnst um þær venjur og hefðir. Á þennan hátt hafa allir íslenskir pólitíkusar starfað frá upphafi vega, ekki síst Steingrímur og samherjar hans. Þeir eiga auðvitað fullan rétt á að beita sér fyrir umbótum og breytingum, það er hið besta mál, en þeir eru þá meðal annars að breyta verklagi sem þeir sjálfir hafa viðhaft þegar þeir hafa verið í aðstöðu til. 

Sama á við um friðlýsingu Hrauns í Öxnadals og Arnarnesstrýtna í Eyjafirði sem greint er frá í dag. Hvorttveggja málið hefur verið í ferli árum saman en þeim er lokið nú, skömmu fyrir kosningar. Ólíkt búvörusamningi Steingríms hefur þessi friðlýsing hins vegar lítinn sem engan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.


mbl.is Arnarnesstrýtur friðlýstar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langtímaminni II

Í aðdraganda kosninganna 1991 var harðlega deilt á ráðherra Alþýðubandalagsins fyrir að eyða miklum fjárhæðum af almannafé til þess að auglýsa sjálfa sig og verk sín. Einbeittastur gagnrýnenda var Jón Baldvin Hannibalsson, sem sat þá í ríkisstjórn með Alþýðubandalaginu. 

Mest var deilt um bækling sem Ólafur Ragnar fjármálaráðherra lét litprenta í 82.000 eintökum og dreifa inn á hvert heimili í landinu. Þar var fjallað um stöðu ríkisfjármála. Ólafur Ragnar notaði 75,1 milljón af almannafé í auglýsingar og kynningu á verkum sínum síðustu sextán mánuðina fyrir kosningarnar 1991. Nánar hér og hér. Svavar Gestsson var gagnrýndur fyrir bækling um námslán og umfangsmiklar auglýsingar um grunnskólamál. Um þetta má m.a. lesa í bók Pálma Jónassonar um Ólaf Ragnar. Dómur kjósenda um eyðslufyllerí Alþýðubandalagsins á kostnað almennings féll 22. apríl 1991. Þremur dögum fyrir kosningar undirritaði Steingrímur J. Sigfússon, samgönguráðherra, samning um smíði nýs Herjólfs. Þessi upptalning er engan veginn tæmandi. Nú þremur dögum fyrir kosningar kynnir VG frumvarp um að banna ráðherrum að ráðstafa almannafé og skuldbinda ríkissjóð síðustu 90 daga fyrir kosningar. Ég hef ekki lesið frumvarpið, bara fréttir af því, en fagna því að Steingrímur og Svavar hafi skipt um skoðun og fordæmi í verki með þessu frumvarpi eigin framgöngu fyrir kosningarnar 1991.


Punktar

Þegar ég fletti blöðunum í morgun og sá opnuauglýsingar með rauðum punktum Samfylkingarinnar hugsaði ég með mér eitt andartak að mikið ofboðslega ætti Samfylkingin mikið af peningum í auglýsingarnar. En svo sá ég að þetta voru bara auglýsingar frá Glitni sem er að nota þessa rauðu punkta í nýrri auglýsingaherferð. Það væri gaman að heyra prófessor Godd tjá sig um þetta.

Stóriðjustopp í 3 ár - er Steingrímur J. að gefa afslátt?

Steingrímur J. Sigfússon var á þriðjudag í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og ræddi stóriðjumálin eins og stundum áður. Mér fannst hann vera að gefa afslátt af fyrri yfirlýsingum, eins og hann væri að gera flokkinn sinn samstarfshæfari. Mér finnst hann vera að bakka úr stóriðjustoppi í þriggja ára stóriðjustopp. Ég held að það þýði í raun enga raunhæfa töf á þeim verkefnum sem menn eru nú að segja að séu í spilunum. Dæmið sjálf, hér eru orðaskiptin í þættinum:

En komist þið til áhrifa Steingrímur, ætlið þið að segja stopp á það sem að þegar er verið að undirbúa?

Nei, já, við myndum þá reyna að fresta... fara í viðræður við þá aðila sem eru með slík plön, eru með slík áform um að nú verði ekki meiru hleypt af stað, við getum ekki stöðvað það sem þegar er í gangi, en það verður ekki nýjum framkvæmdum hleypt af stað næstu árin og... heldur verði gert hlé og við endurmetum þessi mál og náum þar með þessu fram sem við viljum að hagkerfið jafni sig, að náttúran fái nú grið um tíma. Við getum þá tekið frá og friðlýst þau háhitasvæði og vatnsföll sem við ætlum ekki... ætlum ekki að hrófla við og... þá ekki kannski í þrjú ár eða svo og þá verðum  við í miklu betri aðstöðu til að taka ákvarðanir um framhaldið. Þá hvar og í hvaða mæli við höldum áfram að beisla orkuna, auðvitað munum við halda áfram að gera það til margvíslegra þarfa, en að setja stopp á þessa blindu, glórulausu stóriðjustefnu sem er að reynast okkur mjög dýr og hættuleg. Það er bara alveg þjóðarnauðsyn. Og það er það eina stopp sem við viljum fyrir nú utan það að vilja kannski stoppa ruglið í ónefndum mönnum


Langtímaminni

VG var í dag að kynna frumvarp sem kveður á um að stjórnmálamönnum  verði bannað gera samninga sem fela í sér útgjöld fyrir ríkissjóð síðustu 90 dagana fyrir kosningar. Hefðu þetta verið gildandi lög vorið 1991 hefði Steingrímur J. Sigfússon, samgönguráðherra, ekki getað skrifað undir samning um smíði á nýjum Herjólfi þremur dögum fyrir alþingiskosningarnar 1991.

Palladómur

Það var ferskleiki yfir formannaþættinum á Stöð 2, þar á bæ eru menn vel vakandi fyrir möguleikum miðilsins og leggja sig fram um að búa til sem best sjónvarpsefni úr stjórnmálaumræðunum. Vissulega verður sú áhersla til þess að stundum ná efnislegar umræður ekki djúpt og sú staðreynd hefur misjöfn áhrif á möguleika leiðtoganna til að flytja sitt mál. Afar vel heppnað þótti mér það að taka hvern formann í sérstaka fimm mínútna yfirheyrslu.

Mér fannst Geir H. Haarde öflugur í þessum þætti, hann var ákveðinn og skaut fast, t.d. lét hann í ljós megna vanþóknun á útgáfu Hreins Loftssonar á kosningabæklingi undir merkjum DV í dag. Hann talaði um pólitíska misnotkun Baugs á aðstöðu í því sambandi og lagði til að útgáfukostnaðurinn yrði færður á auglýsingareikning stjórnarandstöðunnar. Eins nýtti Geir vel færið til þess að setja ofan í við Steingrím J þegar hann lét undir höfuð leggjast að hafna þeirri dæmalausu stðhæfingu Hjörleifs Guttormssonar að álver væru meinvarp í íslensku samfélagi.

Mér fannst Jón Sigurðsson líka standa sig vel. Mér var ljóst fyrir þáttinn að hann hefði mun minni reynslu í sjónvarpskappræðum en keppinautar hans og að honum falla betur sjónvarpsþættir þar sem  tóm gefst til djúprar efnislegrar umræðu um mál. Tveir sterkustu punktar Jóns fannst mér annars vegar vera þegar hann lýsti, eins og Geir vanþóknun á kosningabæklingi Hreins Loftssonar, og spurði hvort auðhringurinn vildi skipta Samfylkingunni inn fyrir Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn. Eins fannst mér gott svar Jóns í yfirheyrslunni hjá Svanhildi þegar hún spurði hann um eftirlaunin. Hann sagðist ekkert vilja þiggja nein eftirlaun heldur vildi hann fá að vinna til dauðadags.

Álitsgjafar Stöðvar 2 voru á einu máli um að Ingibjörg Sólrún hefði komið vel út og ég get tekið undir það, greinilegt er að öryggi hennar vex í takt við vaxandi gengi flokksins í könnunum. Mér fannst mest áberandi að hún var með meðvitaða línu um að spila öruggan leik, hún hélt því opnu að setjast í ríkisstjórn þótt hún yrði ekki forsætisráðherra. Við blasir að túlka það svo að hún sé að undirstrika áhuga sinn á stjórnarsamstarfi í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Ætli sú stjórn fái nafnið Baugsstjórnin eftir kosningabækling Hreins Loftssonar?

Steingrímur J lenti í vörn þegar farið var að tala um bjórverksmiðjuna á Árskógsströnd og það að hann var á móti bjórnum á sínum tíma. Þá varð hann reiður og mér fannst hann gera mistök með því að taka svo mikinn tíma í að tala sjálfur um þetta. Svo lýsti hann því fyrirvaralaust yfir að Ingibjörg Sólrún yrði forsætisráðherraefni nýrrar vinstristjórnar.

Ég á erfitt með að tengja við Ómar sem stjórnmálamann og ég segi eins og fleiri að ég sé ekki að unaðsstundir og kílówattstundir þurfi að vera ósættanlegar andstæður eins og hann virðist telja.

Guðjón Arnar talaði mikið um kvótakerfið en kvartaði samt undan því að vera alltaf spurður um kvótakerfið. Hann var spurður hvort hann hefði átt þátt í því að svindla á kvótakerfinu og svaraði: Ekki svo ég muni. Mér fundust þeir Ómar og Guðjón áberandi sístir í þættinum en álitsgjafar  þáttarins voru ekki sammála mér um það og töldu Ingibjörgu besta. Þannig er það. Hverjum þykir  víst sinn fugl fagur.


Hvar er Ólafur F?

Er það ekki rétt munað hjá mér að Margrét Sverrisdóttir hafi lýst því yfir við blaðamenn um það leyti sem Íslandshreyfingin var stofnuð að Ólafur F. Magnússon yrði í heiðurssæti á lista Íslandshreyfingarinnar. En hann er hvergi sjáanlegur á listanum. Hvað gerðist? Og hvað varð um þjóðþekkta Sjálfstæðismanninn sem átt að vera á leið í framboð hjá Íslandshreyfingunni? Getur einhver bent mér á hvar ég finn hann á listum Íslandshreyfingarinnar?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband