hux

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Meira um viðræður

Magnús Þór Hafsteinsson alþingismaður er búinn að kommentera á færslu Egils Helgasonar, þar sem Egill greinir frá því að hann hafi heyrt af viðræðum VG og Sjálfstæðsiflokksins um helgina og greinir Magnús Þór frá því að Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, hafi á opinbeurm fundi hjá Frjálslyndum í byrjun mánaðarins sagst hafa öruggar heimildir fyrir viðræðum milli VG og Sjálfstæðisflokksins. Magnús Þór segir:

Fyrstu helgi nú í mars hélt Frjálslyndi flokkurinn til að mynda málefnaráðstefnu í Reykjavík. Þar var Guðmundur Ólafsson hagfræðingur meðal fyrirlesara.  [...] Hann sagði þar hreint út í erindi sínu og sagðist hafa öruggar heimildir fyrir og lagði þunga áherslu á orð sín; - að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri Grænir væru í viðræðum.

Frá þessum fundi og orðum Guðmundar Ólafssonar var greint á vef Frjálslyndra 8. mars í þessari færslu hér


Blöðin tapa öll lesendum, Fbl. minnst en Blaðið mest

Lestur allra dagblaðanna minnkar í nýrri könnun Capacent, miklu munar samt á útkomunni, hún er langbest hjá Fréttablaðinu, lakari hjá Mogganum en flestum lesendum tapar Blaðið frá síðustu könnun. 

Að meðaltali lásu nú 65,1% hvert tölublað Fréttablaðsins, meðallestur Morgunblaðsins var 43,6% en 38,3% hjá Blaðinu. Í nóvember sl. voru þessar prósentur 66,2% hjá Fréttablaðinu, 46,3% hjá Mogganum en 43,9% hjá Blaðinu þannig að tap þess á lesendum er umtalsvert. Góðu fréttirnar fyrir Moggann í könnuninni eru þær að fleiri lesa nú eitthvað í blaðinu í viku hverri en áður.

Niðurstöðurnar byggjast á svörum liðlega 2500 manna á aldrinum 12-80 ára. Könnun var framkvæmd frá 10. janúar til 28. febrúar.

Bak við tjöldin

Egill Helgason í nýjum pistli:

Nú hafa gengið sögur um fund Steingríms J. Sigfússonar og Geirs H. Haarde. Ég heyrði ávæning af því núna um helgina að hann hefði átt sér stað. Vinstri græn neita þó. Áður hafa birst fréttir um þreifingar milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Alveg burtséð frá því hvað er satt í þessu er kjarni málsins sá að við vitum ekki hvað er að gerast bak við tjöldin. Er verið að mynda ríkisstjórn án þess að kjósendur hafi nokkurn pata af því? Allmikil hefð virðist vera komin á slíkt háttarlag í íslenskum stjórnmálum. Flokkarnir vilja ekki láta stinga undan sér stuttu fyrir kjördag.

Þreifingar

Þreifingar milli stjórnmálaforingja um stjórnarmyndanir í aðdraganda kosninga eru alþekktar. Ég rifjaði upp í gær að það er komið fram að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hittust á einkafundum um páskana 1995 og lögðu grunninn að því stjórnarsamstarfi sem stendur enn. 

Og er það ekki rétt munað að í 3ja bindi ævisögu Steingríms Hermannssonar, sem Dagur B. Eggertsson skráði, séu áhugaverðar upplýsingar um fundi Ólafur Ragnar Grímssonar, þá formanns Alþýðubandalagsins, með Steingrími Hermannssyni, þá formanni Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra? Þetta var árið 1988, í aðdraganda þess að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk, að því er menn töldu í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þá var Sjálfstæðisflokknum varpað á dyr í stjórnarráðinu og Alþýðubandalagið tekið inn í staðinn. En Steingrímur og Jón Baldvin höfðu sem sagt fengið meldingar frá  Álþýðubandalaginu áður en stjórnin sprakk. Það gerðist á fundi Steingríms og Ólafs Ragnars, sem Ólafur óskaði eftir undir öðru yfirskini, í nafni þingmannasamtakanna Parlamentarians for Global Action.

Ég man ekki alveg hvað er fram komið um aðdragandann að myndun ríkisstjórnar 1991, það fer að koma, rétt að gera því skil síðar.

ps. uppröðun málsgreina í þessari færslu var breytt kl. 14.55. 


Fréttaskot úr fortíð: Lærisveinn töframannsins

Larsen og OddssonÉg fer upp í sveit, Lok, lok og læs, Þrjú hjól undir bílnum og Jói Útherji voru lög sem gerðu Ómar Ragnarsson heimsfrægan á Íslandi á árunum upp úr 1960, hann var eiginlega bæði Íþróttaálfurinn og Birgitta Haukdal á sínum tíma. Ómar var aðalskemmtikrafturinn á 17. júníhátíðinni í Kópavogi árið 1967 og á þeim tíma var ekki hægt að gera betur við börnin í Kópavogi en að bjóða upp á Ómar.

En það var fleira sér til gamans gert þennan þjóðhátíðardag í Kópavogi eins og sést þegar gamlir Moggar eru skoðaðir á Landsbókasafninu. (smellið á myndina) Meðal þeirra sem fram komu var Töframaðurinn Tarento ásamt aðstoðarmanni sínum. Tarento var listamannsnafn Ketils Larsens, sem síðar varð þekktari fyrir að leika jólasvein, en í hlutverki aðstoðarmannsins var ungur piltur að nafni Davíð Oddsson. Davíð hélt á hattinum meðan Ketill dró upp kanínurnar, eða þannig.

Ekki veit ég hvort Davíð og Ómar voru oft saman á sviði
á þessum árum, líklega ekki. Ómar hélt áfram að skemmta en Davíð stóð ekki lengi við í bransanum heldur fór í pólitík. Þar náði hann árangri sem seint verður leikinn eftir og var forsætisráðherra lengur en nokkur annar í sögu landsins. Hvort eitthvað af því sem hann nam við fótskör töframannsins Tarento nýttist Davíð í pólitíkinni skal ósagt látið. En nú er Ómar að hasla sér völl á því sviði þar sem Davíð var áður stjarna - og líkt og Davíð 17. júní 1967 er Ómar í hlutverki byrjandans nú. Kannski væri nú ráð fyrir Ómar að heyra aðeins í Katli Larsen, hann er flesta daga á ferð hér í miðbænum.


Af gefnu tilefni

Steingrímur J. var í fréttum Stöðvar 2 að sverja af sér að hafa átt einkafund með Geir H. Haarde í síðustu viku eins og hér hefur verið staðhæft. Þess vegna vil ég taka fram eftirfarandi um þær heimildir sem þetta byggði á: Um helgina var starfsmaður Steingríms J. Sigfússonar staddur á bar í Reykjavík í hópi blaðamanna og greindi þar frá því að Steingrímur og Geir H. Haarde hefðu nýlega hist á fundi. Skilningur heimildarmanns míns var að þar hefði ríkisstjórnarsamstarf borist í tal en um það treysti hann sér ekki til að fullyrða. Nú kemur Steingrímur fram og segir þetta lygi, þeir Geir hafi ekki hist í síðustu viku. Hvers vegna starfsmaður Steingríms er á blaðamannabar um miðja nótt að ljúga menn fulla með sögum af þessu tagi veit ég ekki, ég hef talið víst að Steingrímur J. Sigfússon hafi aðeins í kringum sig valinkunna og sannsögla sómamenn.

Fengitími og forsagan

Það er ekki nýtt að stjórnmálaforingjar vinni að ríkisstjórnarmyndun fyrir kosningar. Drög að stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru lögð á einkafundi Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar á Þingvöllum um páskana 1995. Hið sama gæti verið uppi á tengingnum nú milli VG og xD.

Fréttin sem hér var sögð um einkafund Geirs H. Haarde og Steingríms J. Sigfússonar hefur greinilega valdið titringi í herbúðum VG. Á skömmum tíma hrúgast hér inn komment frá spunadeild VG.  Það er skiljanlegt að VG sé ekki ánægt með að þessi fundur hafi spurst út en þannig er það nú samt.

Það er á margra vitorði að Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi, reyndi í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna að semja við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson um samstarf VG og Sjálfstæðisflokks.  Árni bað Vilhjálm að hafa þolinmæði  meðan VG setti á fót leikrit að loknum kosningum til að róa vinstriarm flokksins. VG treysti sér ekki í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn nema vera áður búið að tala við samstarfsmenn sína í R-listanum, vissi sem var að annað mundi leggjast illa í baklandið. Hugurinn stóð þó til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Vilhjálmur var ekki tilbúinn að taka þátt í spunaleikritinu með Árna Þór og því varð ekki úr samstarfi. Nú er Árni Þór búinn að kommentera á eldri færsluna og reyna að spinna sig út úr sögunni um fund Steingríms og Geirs. Hann vill ekki að baklandið viti af þessum þreifingum.


Djúpborun

 Íslandshreyfingin kynnti merki sitt á blaðamannafundi á dögunum. Glöggur maður benti mér á að ekki hefði hreyfingin nú borað djúpt eftir merkinu. Það er nánast eins og merki Djúpborunarfélagsins, sem vinnur að því þjóðþrifamáli að nýta betur orku háhitasvæðanna.

islandshreyf djupborun


Einkafundur Steingríms J. og Geirs H. Haarde í síðustu viku

Steingrímur J. Sigfússon og Geir H. Haarde hittust á einkafundi í vikunni sem leið. Þetta hef ég eftir heimildum sem ég treysti algjörlega.

Heimildarmaður minn telur að Steingrímur hafi óskað eftir fundinum. Vitaskuld veit ég ekki hvað þeir ræddu sín á milli en það fyrsta sem kemur í hugann er að Steingrímur hafi verið að plægja jarðveginn fyrir stjórnarsamstarf að kosningum loknum.

Kannski eru Vinstri grænir að fara á taugum, hafa áhyggjur af því að í kosningabaráttunni bíði þeirra ekkert annað en að tapa niður þeirri stöðu sem skoðanakannanir sýna að flokkurinn hafi haft? Því vilji Steingrímur undirbúa jarðveginn.


Þannig er það

Skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag hlýtur að boða ríkisstjórn VG, Samfylkingar og Íslandshreyfingar þar sem Steingrímur J verður forsætisráðherra og Ómar Ragnarsson ráðherra. Samt fengi hann aldrei umhverfisráðuneytið í stjórnarmyndunarviðræðum, yrði kannski menntamálaráðherra eða dómsmálaráðherra. Draumur eða martröð? Þegar stórt er spurt...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband