hux

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Hvað eru margir?

8324 eru nú búnir að undirrita sáttmálann á heimasíðu Framtíðarlandsins. Það er auðvitað umtalsverður fjöldi en ég held að þeir sem standa fyrir þessu hljóti samt að vera vonsviknir. Ég man ekki til að þeir hafi opinberlega lýst einhverjum ákveðnum markmiðum.

En þegar maður hefur úr tugum milljóna að spila í auglýsingar, Vigdísi Finnbogadóttur og Sigurbjörn biskup með í voða góða liðinu og fjölmiðlar mjög móttækilegir fyrir málstaðnum þá hljóta menn að setja markið hátt. Og rúm 2% þjóðarinnar uppfyllir tæplega væntingarnar. 10% þjóðarinnar mótmæltu frétt í DV á dagsparti og um 4% skrifuðu undir til að krefjast afnáms fyrningar kynferðisbrota. Og tvöföldun Suðurlandsvegar, það hafa yfir 20.000 undirritað áskorun um að tafarlaust verið farið í þær framkvæmdir. Ég giska á að á þessum lista Framtíðarlandsins mjög hátt hlutfall ungra háskólamenntaðra karla og kvenna á höfuðborgarsvæðinu en lágt hlutfall í flestum öðrum þjóðfélagshópum, nema auðvitað Vinstri græningjar, þeir skila sér vel á listann.

Ég held að tíminn til að skrá sig á listann renni út nú um helgina, til þess að umræðan nái hámarki á sama tíma og álverskosningarnar. Þannig að það er ekki eftir neinu að bíða fyrir þá sem vilja vera með.  


Róttækt kvenfrelsi

Hlynur Hallsson, varaþingmaður VG, beinir orðum að Sæunni Stefánsdóttur, þingmanni framsóknar, í umræðum um RÚV ohf. á Alþingi og segir: 

En það er ennþá sorglegra að sjá svona unga og hressa og glæsilega konu sem hv. þingmaður er, koma hér upp og reyna í nokkrum orðum að sannfæra sjálfa sig um ekki eigi að einkavæða Ríkisútvarpið. 

Róttækninni í femínismanum er ekki logið upp á þá í VG, þeir eru svo róttækir að þeir hljóma stundum eins og hvert annað gamalt karlrembusvín, ég hélt að menn væru almennt komnir út úr því að tala niður til kvenna á þennan hátt. Sæunn svaraði og sagði:

Annars þakka ég hv. þingmanni orð í minn garð en bið nú jafnréttissinnaðan mann, eins og ég veit að hann er, að gæta þess hvernig hann talar til þingmannanna.


Óli Björn bloggar

Óli Björn Kárason er mættur á Moggabloggið og ætlar að blogga um viðskipti og fleira. Góð viðbót hér, reyndasti viðskiptablaðamaður landsins og gamall félagi. Hann verður hluti af mínum daglega rúnti. Slóðin er hér og tengill til hliðar.

Zero

Egill dagsins: 

Af hverju ekki ríkisstjórn með zero Framsókn? er nýjasta kosningaslagorð ungliða í VG. Þýðir þetta að þau vilja frekar starfa með Sjálfstæðisflokknum? Hví skynjar maður þessa spennu hjá VG fyrir samstarfi við íhaldið? Ber Sjálfstæðisflokkurinn ekki ábyrgð á stóriðjustefnunni til jafns við Framsókn? Er það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur knúið áfram einkavæðinguna? Voru það ekki Sjálfstæðismenn sem breyttu Ríkisútvarpinu í ohf? Studdu innrásina í Írak?


Kanntu annan?

munadurÞessi auglýsing frá Ríkisútvarpinu birtist á bls. 31 í Morgunblaðinu í gær. "Útvarpið - eini munaður íslenskrar alþýðu." Jamm...það er ekki öll vitleysan eins, þarna er verið að auglýsa Víðsjá.

Heimilisiðnaður á háskólastigi

Á forsíðu Viðskiptablaðsins í dag er athyglisverð frétt. Háskólinn í Reykjavík ætlar, án útboðs, að semja við Fasteign, um alla uppbyggingu á hinni gríðarstóru lóð sem skólinn fékk úthlutað í  Öskjuhlíð. Fasteign er fasteignafélag í eigu Glitnis. Formaður háskólaráðs Háskólans í Reykjavík er Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis.

Allir saman nú...

Gærdagurinn virðist hafa verið góður fyrir Vestfirðinga. Sjómenn í Bolungarvík settu Íslandsmet í fiskveiðum, og það var tilkynnt um eflingu Fjölmenningasetursins á Ísafirði og þátttöku ríkisins í tilraunaverkefni í Bolungarvík um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Svo sá ég á fundargerðum að meirihlutinn í bæjarráði Bolungarvíkur samþykkti einróma tillögur minnihluta sjálfstæðismanna, sem viðbætur um nýjungar í atvinnumálum. Á fundi nýlega stóð minnihlutinn með meirihlutanum að einróma samþykkt fjárhagsáætlunar. Gott hjá þeim.

Tveir góðir

Davíð Oddsson og Ketill Larsen

Sigurður Bogi fann í fórum sínum þessa mynd af þeim félögum Davíð Oddssyni og Katli Larsen. Þeir hittust við opnun grjótsýningar Árna Johnsen á árinu 2004 en eins og fram kom hér unnu þeir saman við að fremja töfrabrögð fyrir einum 40 árum.


Myndatexti óskast

omar

Þessa mynd af Ómari Ragnarssyni og míkrófón úr áli tók Sigurður Bogi í afmæli Einars Bárðarsonar um síðustu helgi. Myndatexti óskast. 

 


12 milljarðar

Í grein í nýjasta hefti Vísbendingar, tímarits um efnahagsmál, eru birtir útreikningar þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að heildarhagur Hafnarfjarðarbæjar af stækkun álversins í Straumsvík nemi 12 milljörðum króna og "núvirt heildarhagræði" 9,4 milljörðum króna. Frá þessu er sagt á vef útgáfufyrirtækisins Heims.

ps.leiðrétt, vitaskuld stendur í greininni að heilarhagur allra landsmanna verði 12 milljarðar en ekki aðeins Hafnarfjarðarbæjar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband