hux

Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Þannig er það

Þetta er ekkert flókið, maður linkar á þann sem á skúbbið. Og ef sá sem maður linkar á á mörg skúbb þá linkar maður oft á hann. Ég gæti meira að segja trúað að þetta væri ekki í síðasta skipti í dag sem ég linka á hann. Það eru nefnilega fleiri fréttir í vændum og ég veit engan líklegri til þess að verða fyrstur með þær en einmitt hann.

Þetta bréf hans Róberts er gott, nei ekki gott, það er eiginlega klassi yfir því, allt að því fallegt, og ef menn taka ekki sjálfa sig svolítið hátíðlega á stundum sem þessum, hvenær þá?


Tölfræði

Meðalfjöldi sjónvarpstækja á bandarísku heimili: 2,73. Meðalfjöldi íbúa á bandarísku heimili: 2,55. Sjá hér.

Þegar bensínverðið lækkar eykst álit Bandaríkjamanna á Bush. Þegar bensínverðið hækkar minnkar álit Bandaríkjamanna á Bush. Skoðið sambandið þarna á milli hér.


Getraun dagsins

Er ekki nokkuð ljóst að það eru greinar Hreins Loftssonar um Björn Bjarnason sem eru tilefni Staksteina í dag, einkum seinni greinin? Ég held það.

Þarna er líka talað um einhverja sem að baki standi og oti mönnum eins og Hreini fram, það er eins og Hreinn megi ekki bara bera ábyrgð á þessu sjálfur heldur sé hann verkfæri í höndum annarra, ekki maður heldur peð. Hvaða illvirki er það sem teflir Hreini fram. Eiga Staksteinar við Jón Ásgeir? Var mér amk ekki ætlað að skilja það þannig?

Annarri spurningu er ósvarað (ef það er rétt kenning að við Hrein sé átt): Fyrst skrif Hreins voru svona rætin og svakaleg, af hverju samþykkti ritstjóri Morgunblaðsins þá að birta þau í blaðinu sínu?


Helga Vala í prófkjör hjá Samfylkingunni í Norðvestur

Helga Vala Helgadóttir er í þann veginn að gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Hún mun setja markið á 2.-3. sætið og kemur sterk inn í baráttuna.

Helga Vala, leikarari, leikstjóri, fjölmiðlakona, laganemi, og bæjarstjórafrú er nýlega flutt til Bolungarvíkur ásamt eiginmanni sínum, Grími Atlasyni bæjarstjóra. Ekki er vafi á að hún mun hressa verulega upp á framboðslista Samfylkingarinnar í kjördæminu. Í prófkjörinu mun Helga Vala meðal annars etja kappi við Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, Sigurð Pétursson, Bryndísi Friðgeirsdóttur og Karl V. Matthíasson, að ógleymdum Guðbjarti Hannessyni, skólastjóra á Akranesi, sem spáð er sigri í baráttunni um 1. sætið.


Athyglisverður árangur

Eftir seinni grein Hreins Loftssonar í Morgunblaðinu virðist ljóst að skuldir Dagsbrúnar eru 54 milljarðar króna en ekki 73 milljarðar króna. Rétt skal vera rétt.

Með þessu hefur Hreinn - að því er virðist - færst nær því marki að sýna fram á að Björn Bjarnason hafi farið með rangt mál um fjármál Dagsbrúnar annars vegar og fjármál ríkisins hins vegar. Hreinn hefur einnig náð þeim árangri með ritdeilu sinni við Björn að framvegis munu margir hugsa til skulda ríkissjóðs þegar skuldastaða Dagsbrúnar berst í tal.


Össur

Ég er ekki frá því að maðurinn hafi nokkuð til síns máls.


Hvað er málið?

FL Group rýkur upp, Hannes Smárason kaupir og kaupir, ætli það sé rétt sem mér er sagt að hann sé búinn að finna nýjan kjölfestufjárfesti í Icelandair?

Það getur ekki verið. Ég hef ekkert vit á þessu, treysti bara á Hafliða, sem var að segja á NFS að allt gangi sinn vanagang á markaðnum.


Í skugga spámannsins

Lúðvík, Björgvin og Jón slást um að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Af heimasíðunum skuluð þið þekkja þá, sjá hér, hér og hér.

Svo er spurning hvort spádómurinn muni rætast.


Segðu mér hverju þú mótmælir...

Ungt fólk á Íslandi er aftur farið að mótmæla, það hefur skoðanir og því er ekki sama. Dag einn í sumar voru þrenn mótmæli á sama tíma. Sumir mótmæltu Kárahnjúkavirkjun, aðrir árásarstríði Ísraels gegn Líbanon. Sumir fóru niður á skattstofu og stóðu vörð um skattskrána.

Í dag er aðalfundur Heimdallar. Þar verður kosinn nýr formaður. Tvær ungar konur eru í framboði. Önnur þeirra verður í fararbroddi þegar Heimdellingar gera áhlaup á skattstofuna næsta sumar.


Nægt framboð en takmörkuð eftirspurn

Árni Þór Sigurðsson er með fleiri járn í eldinum en væntanlegt þingframboð. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga verður haldið á Akureyri í næstu viku og þar á að kjósa nýjan formann í stað Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra. Árni Þór hefur mikinn áhuga á embættinu og sækir það stíft. Fleiri eru um hituna.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, sækist líka eftir að verða fremstur meðal jafningja í hópi sveitarstjórnarmanna. Þriðji maðurinn í spilinu er Smári Geirsson, nestor Samfylkingarmanna í Fjarðarbyggð. Smári hefur lengi verið orðaður við þessa stöðu og er án efa kominn lengra í sínum undibúningi fyrir þingið en hinir tveir.

Í raun eru framboð Árna Þórs og Halldórs andsvar við hugmyndinni um Smára Geirsson en lengi sumars leit út fyrir að all góð samstaða gæti náðst um hann.

Sú von er nú úti og því stefnir - að óbreyttu - í spennandi kosningar á Akureyri í næstu viku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband