hux

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Málefnaleg umræða frjálslyndra um útlendinga

Jón Magnússon í Silfri Egils: Eiríkur [Bergmann, dósent við Háskólann á Bifröst], hættu að sveipa um þig einhverju fræðilegu umhverfi, því þú hefur það ekki!

Í sama þætti pakkar Atli Gíslason frjálslyndum saman og bendir á að Magnús Þór Hafsteinsson hafi greitt atkvæði gegn því að aðlögunartími vegna stækkunar EES yrði lengdur, þar með hafi hann í raun greitt atkvæði með því að engar hömlur yrðu á aðgangi útlendinga að landinu.


Ekki er sopið kálið

Andrés Magnússon er Vesturbæjaríhald af gamla skólanum, sjálfstæðismaður frá blautu barnsbeini, virkur þátttakandi á landsfundum og víða á ferð í baklandi flokksins í meira en tvo áratugi.

Hann segir þetta um sigur Árna Johnsen í Suðurkjördæmi: Hvaða úræði koma til greina til þess að stöðva framboð Árna Johnsen í nafni og skjóli Sjálfstæðisflokksins? Samkvæmt skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins þarf Miðstjórn flokksins að staðfesta framboðslista, svo að hann verði boðinn fram í nafni flokksins. En er hún líkleg til stórræða? Miðstjórnin lét gott heita að stórfellt prófkjörssvindl átti sér stað í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu þingkosningar, svo menn geta varla vænst myndugleika úr þeirri átt. Ekki virðast meiri töggur vera í framkvæmdastjórn flokksins. Og hvað? Á maður að lifa í voninni um að Sjálfstæðisfélag Vestmannaeyja víki Árna úr félaginu og þar með flokknum?

Stefán Friðrik Stefánsson er líka eðalsjálfstæðismaður norður á Akureyri og öflugur bloggari. Hann segir þetta um útkomu Árna: Endurkoma Árna í stjórnmálin er umdeild. Mér líkar ekkert alltof vel þessi endurkoma, hreint út sagt. Þetta á eftir að verða umdeilt að flestu leyti. En flokksmönnum í Suðurkjördæmi gafst færið á að kjósa og ekki betur hægt að sjá en að þeir vilji Árna aftur í fremstu víglínu hjá sér.


Kjördæmi kvenna

Sjálfstæðisflokkurinn fær sterkan lista út úr prófkjöri sínu í Kraganum. Þorgerður, Bjarni og Ármann eru öflugir frambjóðendur og einnig Ragnheiður Elín í 5. sæti. Jón Gunnarsson, hvalveiðiáhugamaður og björgunarsveitarforingi fær þingsæti. Er þetta ekki hans þriðja tilraun? Í sex efstu sætum er kynjahlutfallið jafnt. Allt líkleg þingsæti. Það eru tíðindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Það stefnir í að Kraginn verði kvennakjördæmið mikla, þaðan sýnist mér að gætu komið sjö þingkonur í vor. Þorgerður Katrín, Siv hjá Framsókn og líklega Katrín Jakobsdóttir hjá VG verða þar foringjar og eiga við nýliðann Gunnar Svavarsson, oddvita Samfylkingar.


Hver vann?

Ég var úti á þekju þegar ég spáði Kristjáni Pálssyni góðu gengi í Suðurkjördæmi. Átti að vita að Sjálfstæðisflokkurinn fyrirgefur ekki hégómleg sérframboð, þótt hann fyrirgefi refsidóma. Ofmat fréttirnar sem ég hafði af því að nú ætluðu Suðurnesjamenn að láta af sér vita. Sá svo sem ekki kjörþokka Kristjáns en bið um skilning, þetta er nú einu sinni þeir kjósendur sem ætla að tefla fram Árna Johnsen. Og getur einhver útskýrt fyrir mér kjörþokka Kjartans Ólafssonar?

Árni Mathiesen er með innan við 50% atkvæða í 1. sæti, staða hans er svo sannarlega veikari en hún var, sérstaklega í ljósi þess að þarna var sjálfur fjármálaráðherrann að keppa við þá sem hann var að keppa við.

Ég er ekki frá því að Guðni Ágústsson og Björgvin Sigurðsson séu raunverulegir sigurvegarar þessa prófkjörs.


Upprisur og föll

Össur: Það má því segja að síðasta hálfa áratuginn hafi Samfylkingin bæði hafið mig til himna, féllt mig til heljar, og nú veitti hún mér upprisu í annað sinni.

Mér sýnist að Össur og Björn Ingi séu búnir að segja flest sem þarf um prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík en ég ætla að bæta örlitlu við. Ég hafði talið að Steinunn Valdís yrði sterkari. Hún nýtt vel það tækifæri sem henni gafst sem borgarstjóri. En fáir tóku þátt í þessu prófkjöri og fyrst og fremst flokkskjarninn. Í þeim hópi hefur Steinunn líklega goldið þess að hún hefur víst verið lítið sýnileg í flokksstarfinu. Það gaf henni borgarstjórastólinn á sínum tíma að samstarfsmenn hennar í Reykjavíkurlistanum töldu ólíklegt að með því væru þeir að ala upp nýjan leiðtoga fyrir Samfylkinguna eins og gert hefði verið áður með Ingibjörgu Sólrúnu. Í dag virðist það mat hafa verið réttmætt.

Ágúst Ólafur rak góða prófkjörsbaráttu, auglýsti talsvert en beitti sér af mestum þunga inn í flokkinn. Hann náði að undirstrika mikilvægi þess að varaformaðurinn fengi góða niðurstöðu og að uppskera fyrir þær áherslur sem hann hefur lagt á þessu kjörtímabili á kynferðisbrot og önnur mál. Með þessu prófkjöri er hann orðinn fullmegtugur varaformaður og þarf ekki lengur að búa við glósur vegna landsfundarins þar sem hann náði kjöri.


Ellismellur dagsins

Sverrir Hermannsson fær enn eina rammagreinina birta eftir sig í Mogganum í dag. Eins og jafnan er kallinn orðljótari en aðrir menn og eys úr sér gusunum þannig að best er að forða sér á hlaupum. Sverrir er maðurinn sem stofnaði Frjálslynda flokkinn. Það er sennilegasta einhver ótrúlegasta vending í stjórnmálasögunni að kallinum hafi tekist að skapa um sig samúðarbylgju eftir að hann var rekinn úr stóli bankastjóra Landsbanka Íslands.

Eftir á að hyggja er það kannski einhver bestheppnaða hagstjórnaraðgerð undanfarins áratugs að reka Sverri Hermannsson, Björgvin Vilmundarson og Halldór Guðbjarnarson úr Landsbankanum. Í höndum þeirra var bankinn á hvínandi kúpunni og eilífar fréttir voru um tap bankans á hinu og þessu. Svo voru þessir kallar reknir, og pólitísku kommisararnir í Búnaðarbankanum líka og bankarnir settir í hendurnar á mönnum sem kunna að reka banka. Síðan hefur allt verið hér á fleygiferð í efnahagslífinu.

Þannig að í þessu ljósi er sennilega best að vera bara þakklátur fyrir þau atvik sem urðu til þess að Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður, jafnskondin og þau voru á sinni tíð. En það er náttúrlega eins og út úr absúrdleikriti að Sverri, sem byggt hafði áratugalangan feril sinn á að útdeila almannafé til pólitískra vildarvina, skyldi ná að stofna um sig einhvers konar siðbótarflokk.


Björn dagsins

Margrét [Sverrisdóttir] lét í Kastljósi eins og upphlaup frjálsyndra réði einhverju um það, að í morgun lögðum við þrír ráðherrar fram tillögu á ríkisstjórnarfundi um nýtt skipulag á íslenskukennslu fyrir útlendinga. Ég veit manna best, hve lengi þetta mál hefur verið á döfinni og afgreiðsla þess á ekkert skylt við tal Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Orð Margrétar sýndu mér aðeins, hve langt er seilst af frjálslyndum til að skreyta sig með fjöðrum annarra.


Mannanafnanefnd verði lögð niður

Nafn manna hefur löngum verið talið einn mikilvægasti þáttur sjálfsmyndar þeirra og margir hafa litið svo á að það varðaði fremur einkahagi fólks og persónurétt þess en hagsmuni alls almennings.
Þessi orð eru rituð í greinargerð með frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn, sem Björn Ingi Hrafnsson flytur á Alþingi ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Guðjóni Ólafi Jónssyni og Sæunni Stefánsdóttur.

Í frumvarpinu er eytt út úr gildandi lögum öllum tilvísunum til mannanafnanefndar og hún lögð niður. Þannig að þeir einstaklingar sem hafa hist reglulega til funda til þess að fjalla um það hvort rita eigi nöfn manna með einu r-i eða tveimur þurfa að finna sér annað að gera verði frumvarpið að lögum.


Skallbandalagið nýja

Fyrst skrifaði Össur lof um Björn Inga. Nú þakkar Björn Ingi fyrir sig, skrifar lof um Össur og segir: Þeir Kratar sem ég talað við síðustu daga, segja flestir að útkoma Össurar Skarphéðinssonar skipti miklu máli um stuðning þeirra við Samfylkinguna í vor.


Halldóri sagt upp hjá Vísa Ísland

Mér voru að berast fréttir af því að Halldóri Guðbjarnarsyni hefði verið sagt upp störfum framkvæmdastjóra hjá Vísa Ísland. KB-banki er orðinn stærsti eigandi fyrirtækisins og hefur sett Höskuld H. Ólafsson, sem var hjá Eimskip, inn í fyrirtækið sem nýjan framkvæmdastjóra.

Halldór Guðbjarnarson var bankastjóri Landsbankans en var sagt þar upp störfum á sama tíma og Sverri Hermannssyni og Björgvin Vilmundarsyni. Áður var hann bankastjóri Útvegsbanka Íslands og var m.a. ákærður en sýknaður í Hafskipsmálinu á sínum tíma.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband