hux

Fleygjárn á lofti

"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna réttkjörna ríkisstjórn á heimastjórnarsvæði Palestínu og taka upp við hana eðlileg samskipti. Jafnframt beiti hún sér á alþjóðavettvangi fyrir því að önnur ríki geri slíkt hið sama." Þannig hljóðar þingsályktunartillaga sem Vinstri græn hafa lagt fram í upphafi sumarþings. Athyglisvert verður að fylgjast með viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við málinu. Hér er á ferð fyrsta almennilega tilraun stjórnarandstöðunnar til að reka fleyg í raðir nýju ríkisstjórnarinnar.

Það er röskur mánuður síðan samskipti Íslands við þjóðstjórnina í Palestínu komu til umræðu. Valgerður Sverrisdóttir, þá utanríkisráðherra, lýsti áhuga á að viðurkenna þjóðstjórnina en gaf til kynna að ágreiningur væri við Sjálfstæðisflokkinn sem væri því andvígur. Fjölmiðlum gekk erfiðlega að ná í Geir H. Haarde vegna málsins en þegar til hans náðist sagðist hann vilja fara varlega í málið. Og á landsfundi sínum um miðjan apríl samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn ályktun þess efnis að hafnað væri  "hvers kyns stuðningi við ríkisstjórnir sem hryðjuverkahópar eiga aðild að, eða sem fjármagna hryðjuverkasamtök" Var sú ályktun óskiljanleg öðru vísi en sem innlegg í umræðuna um viðurkenningu á þjóðstjórn Palestínumanna.

Ekki þarf að velkjast í vafa um hug Samfylkingarinnar og nýs utanríkisráðherra til málsins. Fyrir mánuði röskum lýsti Ingibjörg Sólrún því yfir að  full ástæðu væri til að viðurkenna þjóðstjórnina. Í þá átt hafa stofnanir Samfylkingarinnar líka ályktað árum saman. Ákvæði stjórnarsáttmálans um málefnið rímar betur við sögulegar ályktanir sjálfstæðismanna en Samfylkingar. Þar segir: "Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak og vill leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi."

En nú er ný ríkisstjórn mynduð og fyrir þinginu liggur, góðu heilli, þessi tillaga frá VG. Ekki er vafi á að stjórnarandstaðan vill einhuga styðja þá tillögu og væntanlega líka Samfylkingin og nú er það hennar að tala Sjálfstæðisflokkinn til í málinu. Fara nú í hönd athyglisverðar umræður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér má rifja upp að í ævisögu Steingríms Hermannssonar segir hann frá fundi sínum með Arafat. Sá fundur hafði fyrst komið til tals meðan Framsóknarmenn voru í stjórnarsamstarfi með íhaldinu, en Þorsteinn Pálsson hótaði stjórnarslitum vegna málsins.

Enginn skyldi vanmeta áhrif Zíonistalobbýsins í Sjálfstæðisflokknum.

Stefán (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 11:05

2 identicon

Steingrímur talaði við Arafat (blóðhönd lygari) í óþökk allra vinaríkja okkar, en eins og góðum framsóknarmanni sæmir var hann bara að hugsa um sjálfan sig. Skrítið að menn vilji styðja stjórn með Hamas, sem hefur það að markmiði að tortríma Ísrael, finnst engum það skrítið að vilja semja við svoleiðis menn. Hamas er ólýðræðislegt afl sem beitir gífurlegu ofbeldi gagnvart eigin fólki og hefur lýðræði og kvennfrelsi eki á stefnuskrá sinni. ÞEir eru leppar Írana og éður en menn fara að lepja upp þessa vitleysis hugmynd ættu menn að kynna sér hvurslags samtök þetta eru. Stjórnin sem menn ætla að styðja er líka í stöðugum vígaferlum innbyrðis og fylkingarnar algerlega á skjön við hvor aðra og er það eitthvað sem við ætlum að styðja. Skrítið að sjá Stefán kyndilbera sannleikans og réttlætis í heiminum,talsmann friðarsinna etc að lýsa yfir stuðningi sínum við hryðjuverka samtök og kúgara.

ehud (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 14:15

3 identicon

Ein spurning sem kemur málinu í raun ekkert við: Er „fleygjárn“ ekki örugglega nýyrði, Pétur?

Brynjólfur Ólason (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 21:11

4 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Fleygjárn Brynjólfur er þýðing á enska orðinu wedge og vísar þá til ákveðinnar tegundar af golfkylfu og kannski er það nýyrði, en ég er nokkuð viss um að Þorsteinn Pálsson hafi notað þetta í leiðara nýlega. Wedge er annars þekkt hugtak í pólitík og notað um málefni sem notuð eru til þess að reka fleyg inn í flokka eða bandalag og skapa sundrungu meðal flokksmanna/fylgismanna. Kannski mætti bara notað orðið fleygur um þetta, að reka fleyg inn í raðir manna, er þekkt orðanotkun en ég valdi nú að gera þetta svona, þú getur kíkt á myndir af fleygjárni, wedge, hér

Pétur Gunnarsson, 1.6.2007 kl. 22:37

5 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Ég hef heyrt stálsmiði tala um fleygjárn sem er þá fleygur úr járni og á þá nokkuð vel við það sem um er rætt.

Ragnar Bjarnason, 1.6.2007 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband