hux

Samlegð

Ég les það í Mogganum í dag að ekki fáist staðfest það sem haldið var fram í gær að Íbúðalánasjóður eigi að færast frá félagsmálaráðuneytinu undir fjármálaráðuneytið með nýrri ríkisstjórn. Það er ágætt og Samfylkingin hefur samkvæmt því enn á valdi sínu að koma í veg fyrir að Íbúðalánasjóður verði einhvers konar deild í Fjársýslu ríkisins.

Mogginn segir líka að ekki fáist staðfest undarlegasta frétt gærdagsins en samkvæmt henni átti Þróunarsamvinnustofnun að færast frá utanríkisráðuneytinu og undir viðskiptaráðuneytið. Það var vandséð hvaða tilgangi sú breyting hefði getað þjónað, öðrum en þeim að bjarga í Sighvati Björgvinssyni, forstjóra stofnunarinnar, sem lagðist í hernað gegn utanríkisráðuneytinu fyrir nokkrum vikum, eftir að skýrsla kom fram sem lagði til breytingar á skipulagi stofnunarinnar.

Eða hvar eru samlegðaráhrifin af íslenskum neytendamálum, samkeppnismálum og eftirliti á fjármálamarkaði annars vegar og þróunarsamvinnu á Malavi, í Úganda og á Sri Lanka hins vegar? Ætli það sé ekki hagstæðara fyrir þróunarsamvinnuna að halda nánum tengslum við sendiráðin fremur en að heyra undir sama ráðherra og Talsmaður neytenda og Samkeppniseftirlitið.

Þá er látið eins og yfirlýsingin um Þjórsárver sæti einhverjum tíðindum en pólitískt var Norlingaölduveita auðvitað steindauð hugmynd fyrir mörgum mánuðum, líklega frá því um áramót 2006. En Mogginn spyr réttilega vegna hvers Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki fallist á það fyrr en eftir kosningar að þyrma Þjórsárverum? Þegar stórt er spurt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband